Greinar / 18. október 2022

Meltingarvegurinn og starfsstöðvar hans

Meltingarvegur3.jpg

Þótt munnholið sé fyrsti hlutur meltingarvegarins gera langvinnir meltingarsjúkdómar sjaldan vart við sig þar með örfáum undantekningum. Í munnholinu eru vöðvar sem sjá um að tyggja fæðuna og búa hana undir flutning niður á við. Ef fólk gefur þessu hlutverki ekki nægan gaum getur fæðan fest í vélinda á leiðinni niður, einkum og sér í lagi ef um bólgur eða aðra sjúkdóma er að ræða í vélindanu.

Vélindað má telja sem fyrsta eiginlega hluta meltingarvegarins. Hlutverk þess er að flytja fæðuna niður og hefur til að bera innra og ytra vövalag sem gera það að verkum að kynging ferðast niður eftir vélindanu, hvort sem um er að ræða fasta eða fljótandi fæðu. Vélindað er ekki stíft rör heldur er um að ræða líffæri með fínstilltar hreyfingar þar sem taugar og vöðvar vinna saman við að færa „fæðubolus“ niður eftir vélindanu. Áður en kyngingin hefur náð að ferðast niður að neðra hringvöðvanum á sér stað slökun í þeim vöðva til að tryggja að flutningurinn eigi farsælan endi í maganum. Sjaldgæfur sjúkdómur getur valdið því að þessi slökun eigi sér ekki stað, eða í mjög litlum mæli, og getur það þá valdið kyngingarerfiðleikum.

Annað mikilvægt hlutverk vélindans er að koma í veg fyrir að magainnihald fari aftur upp í munnhol. Þannig er nokkurs konar ventilstarfsemi neðst í vélindanu sem undir eðlilegum kringumstæðum sleppir mjög litlu þar upp, nema einstaka ropa ef við á. Slímhúðin í vélindanu er ekki til þess fallin að þola magasýruna og ef þessi ventilstarfsemi er ekki til staðar eða veikburða á sér stað svokallað bakflæði frá maga upp í vélinda, sem getur þá valdið brjóstsviða eða nábít.

Maginn hefur fjölþætt verkefni á sinni könnu. Mismunandi hlutar magans sinna þessum verkefnum. Efsti hluti magans sinnir fyrst og fremst geymsluhlutverki. Hann nefnist „fundus“, og getur við fæðuinntöku víkkað umtalsvert út og geymir fæðuna þar til komið er að því að flytja hana niður í smáþarmana. Þetta getur komið sér vel ef fólk ætlar t.a.m. að taka til matar síns í jólahlaðborðum sem svigna undan kræsingum. Hugsanlegt er að þetta eigi þátt í tilurð offitu enda þurfa sjúklingar með offitu stundum að gangast undir magaminnkunaraðgerð. Neðan við efsta hluta magans er „corpus“ hluti magans en þar eru kirtlar sem framleiða magasýru. Magasýran hefur m.a. það hlutverk að drepa bakteríur og aðrar örverur sem berast okkur í gegnum óhreina fæðu. Einnig hefur magasýran áhrif á upptöku næringarefna, t.d. frásog á járni og B12 vítamíni neðar í meltingarveginum. Þar eru líka hormónamyndandi frumur sem eiga þátt í að stjórna hreyfingum í maga.

Á mörkum „fundus“ og „corpus“ hluta magans er gangráður magans (e. gastric pacemaker). Gangráðurinn skapar reglubundin rafboð sem eru fyrst fremst ætluð til að gera fremsta hluta magans (antrum) mögulegt að sinna tæmingu magans. Þannig er fremsti hluti magans eins konar dæla sem dælir út fæðunni í gegnum neðra magaopið (e. pylorus). Rafboðin sem eiga uppruna sinn í gangráði magans eru þrjú á mínútu, en öndvert rafboðum frá gangráði hjartans sem öll leiða til samdráttar á hjartavöðvanum, þá leiða ekki öll rafboð frá gangráði magans til vöðvasamdrátta í fremsta hluta magans.

magi2.jpg

Magatæmingunni er stýrt eftir magni, innihaldi og umhverfi magans. Mikil fita í fæðunni, „lamar“ magann og leiðir til hægari magatæmingar. Margt annað hefur áhrif á magatæminguna, t.a.m. ef fæðan er mjög sölt eða súr og ef hitastig fæðunnar er hátt eða mjög kalt. Þannig er tæmingunni stýrt til að koma í veg fyrir að skjótar breytingar verði á líkamstarfsseminni af völdum þess sem fólk tekur sér til munns. Maginn hefur þannig möguleika á að tempra flutning á óæskilegu innihaldi niður í smáþarmana. Sökum gífurlegs yfirborðs í smáþörmunum til frásogs á innihaldi fæðunnar kemst það hratt út í blóðið þegar maganum sleppir.

Í fremsta hluta magans á sér stað framleiðsla á hormóninu gastríni sem losnar úr læðingi við þenslu á fremsta hluta magans og sér m.a. um að örva sýruframleiðslu hans. Við fæðuinntöku hækkar sýrustig (pH) magans og verður meira basískt en gastrínið leiðir til aukinnar framleiðslu á magasýru til að tryggja næga framleiðslu á henni. Annað hormón sem uppgötvaðist fyrir örfáum áratugum er ghrelin sem örvar matarlyst og þéttni í blóði sem lækkar eftir máltíð en eykst eftir því sem lengra líður frá máltíð. Niðurbrot lyfja og annarra næringarefna á sér stað í lifrinni en undantekningar eru á því. Niðurbrot alkóhóls byrjar í maganum.

Skeifugörnin tekur við af maganum og myndar skeifu utan um brisið. Umhverfið og innihaldið í skeifugörninni hefur líka áhrif á magatæminguna t.a.m. ef eitthvað er „of sterkt“, og skeifugörnin getur þá beðið magann vinsamlegast um að hægja á magatæmingunni. Í skeifugörninni kemur gallið frá lifrinni í gegnum gallvegina og brissafinn frá brisinu sem eru nauðsynleg til að melta fæðuna. Mestmegnis renna þessir safar inn í skeifugörn sem svörun við fæðuinntöku og ræðst magnið af innihaldi fæðunnar. Í föstuástandi, t.d. í svefni, fer í gang hreinsiprógram sem nefnt er vinnukona þarmanna (e. house keeper of the gut eða migrating motor complex). En verkefni þessarar ágætu vinnukonu/vinnumanns samanstanda af kröftugum þarmahreyfingum sem stundum byrja í fremsta hluta magans en stundum í skeifugörn og ferðast hægt og bítandi gegnum smáþarmana og flytja með sér matarleifar, dauðar frumur og bakteríur. Áður en þetta hreinsiprógram fer í gang, kemur flæði af galli og brissafa sem berast fyrir framan þessar kröftugu þarmahreyfingar sem nokkurs konar sápa sem hjálpar til við garnahreinsunina.

Meltingarvegurinn.jpg

Lifrin hefur margþætt hlutverk. Eitt er að framleiða gall sem er nauðsynlegt við meltingu á fæðunni og til hjálpar við frásog á fituleysanlegum vítamínum. Lifrina má kalla stærsta líffæri líkamans að undanskyldri húðinni. Lifrin tekur mikilvægan þátt í efnaskiptum næringarefna, s.s. að geyma næringarefni og tekur þátt í umbroti kolvetna, fitu og próteina. Lifrin er forðabúr fyrir orku, sér líka um geymslu á lífsnauðsynlegum vítamínum eins og B12 vítamíni. Lifrin sér að auki um að hreinsa blóðið af eiturefnum, t.d. eru sértæk hvít blóðkorn sem eru nokkurs konar hermenn sem varna því að hættuleg efni einsog bakteríur og niðurbrotsefni þeirra komist í gegnum lifrina og áfram inn í almennu blóðrásina.

Lifur.jpg

Í raun berst allt sem maður innbyrðir til lifrarinnar í gegnum innyflablóðrásina (e. portal/splanchnic circulation). Lifrin sér einnig um niðurbrot lyfja og eiturefna sem berast inn í líkamann gegnum meltingarveginn. Einnig sér lifrin um útskilnað á niðurbrotsefni rauðra blóðkorna sem heitir bílirúbín. Í heilbrigðum einstaklingum á sér stað stöðug framleiðsla á rauðum blóðkornum. Rauðu blóðkornin lifa bara í u.þ.b. þrjá mánuði og lifrin sér um útskilnað á niðurbrotsefnum þeirra, m.a. bílirúbíni en ef lifrarstarfsemin bilar á sér stað uppsöfnun á bílírúbíni sem veldur gulu.

Lifrin sér líka um framleiðslu á mikilvægum eggjahvítuefnum sem eru lífsnauðsynleg fyrir heilbrigt líf. Þar má nefna storkuþætti sem eru nauðsynlegir fyrir storknun á blóðinu og albúmín sem er burðarefni fyrir mörg lyf í líkamanum og sjá til þess að halda vökva innan blóðrásarinnar og koma í veg fyrir bjúgmyndun.

Bris2.jpg

Brisið sér eins og áður segir um að framleiða s.k. brissafa sem innihalda meltingarhvata sem eru þýðingarmiklir við meltingu og frásog á fitu eins og gallið og hefur auk þess mikilvægt hlutverki við frásog á kolvetnum. Að auki eru til staðar til annars konar frumur en kirtilfrumur sem framleiða meltingarhvata. Þær framleiða hormón t.a.m. insúlín sem er lífsnauðsynlegt hormón í efnaskiptum líkamans og sér m.a. um að sykur í blóðinu komist til skila á réttan stað í líkamanum.

Smáþarmarnir eru mikilvægasti hluti meltingarvegarins fyrir utan lifrina. Maður getur lifað án vélinda, maga og ristils en maður getur ekki lifað án smáþarmanna sem sjá um frásog af næringarefnum. Stundum þurfa sjúklingar á að halda skurðaðgerð þar sem hluti smáþarmanna er fjarlægður en ekki er hægt að fjarlægja of stóran hluta þeirra því að annars á einstaklingurinn ekki möguleika á heilbrigðu lífi.

Ristill.jpg

Smáþarmarnir eru mikilvægir í vökvajafnvægi líkamans. Í gegnum smáþarmana sem eru u.þ.b. 5 metra langir fara u.þ.b. 9-10 lítrar af vökva á dag. Þessi vökvi samanstendur af fæðu/vökva sem maður innbyrðir, gall- og brissafa og vökva sem kemur frá frumum í smáþörmunun. Smáþarmarnir frásoga langmest af þessum vökva og þegar innihaldið berst frá smáþörmunum niður í ristilinn eru hjá heilbrigðu fólki einungis 1-2 lítrar til staðar sem koma frá neðsta hluta smáþarmanna niður í fyrsta hluta ristilsins.

Ristillinn sér ekki aðeins um að flytja úrgangsefni sem eftir verða úr fæðunni eftir að frásog á næringarefnum hefur átt sér stað. Ristillinn hefur einnig mikilvægu hlutverki að gegna við frásog á vökva, einkum í fyrsta eða hægri hluta ristils. Þannig verða einungis 100-200 ml. af vökva eftir í hægðum hjá heilbrigðu fólki miðað við 1-2 lítra sem koma niður í ristilinn á hverjum degi. Í ristlinum er mikilvæg bakteríuflóra sem hefur þýðingarmikið hlutverk í ónæmiskerfinu sem er að mestu leyti óþekkt.

Helstu sjúkdómar í meltingarveginum

Vélinda. Algengasti sjúkdómur í vélindanu er bakflæði (e. gastro-esophageal reflux disease). Magasýran fer upp í vélindað í óeðlilega miklum mæli. Ekki er að fullu ljóst hvers vegna sumir sjúklingar verða fyrir árás sýru úr maganum. Áhættuþættir eru m.a. þindarslit (e. hital hernia), þ.e. að neðri hringvöðvinn í vélindanu nær ekki að koma í veg fyrir að óeðlilegt magn af magasýru leiti upp í vélinda. Þannig eru maga-vélindamörkin í brjóstholinu en ekki á mörkum kviðarhols og brjósthols. Einnig eykur offita áhættu á bakflæði.

Brjóstsviði.jpg

Brjóstsviði er aðaleinkenni við bakflæði en við alvarlegri sjúkdóm geta sjúklingar fengið magainnihald upp í munnhol og kallast það einkenni nábýtur í daglegu tali. Samkvæmt spurningalistakönnunum upplifir stór hluti almennings brjóstsviða a.m.k. einu sinni í mánuði. Hins vegar er ekki hægt að segja að fólk sé með bakflæðissjúkdóm nema einkenni séu til staðar oft í viku og að þessi einkenni valdi án meðferðar verulegri versnun á lífsgæðum.

Flestir sjúklingar svara mjög vel meðferð með lyfjum sem minnka framleiðslu af magasýru. Mjög misjafnt er hversu löng meðferðin þarf að vera með þessum lyfjum. Ef vélindabólga er tll staðar er mikilvægt að meðhöndla í fleiri vikur. Ef einkenni hverfa á þessari meðferð má reyna að stoppa hana. Ef einkenni koma tilbaka þarf sjúklingurinn yfirleitt að byrja aftur á henni og sumir þurfa lífslanga meðferð.

Hjá sjúklingum sem hafa haft langvarandi sýruárás í neðri hluta vélinda geta myndast eyjar af frumum sem eru af tegund þekju sem er í maganum og þolir sýruna mun betur. Þetta nefnist Barretts slímhúð og hjá sumum geta myndast frumubreytingar sem geta leitt til krabbameins í vélinda. Vélindakrabbamein sem tengist magasýruárásum af þessu tagi og hefur m.a. tengsl við Barretts slímhúð er kirtilmyndandi krabbamein. Að auki getur myndast flöguþekjukrabbamein sem þróast út frá frumum sem þekja vélindað og þaðan getur s.k. flöguþekjukrabbamein myndast. Algengasta einkenni bæði kirtilmyndandi- og flöguþekjukrabbameins eru kyngingarerfiðleikar. Slík einkenni eiga að leiða til magaspeglunar.

Magi. Algengasti sjúkdómur í maganum er magasár. Þau geta tengst langvinnri sýkingu með s.k. magasársbakteríu (e. helicobacter pylori). Önnur magasár tengjast notkun á bólguminnkandi gigtarlyfjum eða hjartamagnyl. Báðar þessar lyfjategundir geta skaðað slímhúð magans og geta valdið fleiðri (e. erosion) sem er skaði sem einskorðast við slímhúðina og sár sem ná dýpra, eða niður í lagið undir slímhúðinni. Blæðingar frá sárum geta verið alvarlegar og leitt til sjúkrahúsinnlagnar og blóðgjafa. Ýmis konar speglunartækni getur þurft að beita til að stöðva blæðingar, t.d. með heftibyssu þar sem sárum er lokað með hefti. Einnig er sprautað með adrenalíni í námunda við sárið og beitt brennslumeðferð þar sem hitameðferð er beitt með teflon-húðuðum legg sem þræddur er í gegnum speglunartækið og má líkja við innvortis straujárn sem hægt er að stöðva með blæðingar. Einnig má stöðva blæðingu með s.k. argon plasma sem er úðað yfir sárið og má líkja við einskonar „logsuðu“tæki.

Magasar.jpg

Mjög algengt er að fólk hafi verki eða óþægindi í ofanverðum kvið, með eðlilegar blóðprufur og magaspeglun sýnir eðlilegt ástand. Í raun finnst ekki skýring á einkennum og sjúklingar nefna það ekki ósjaldan að þeir hafi greinst með „magabólgur“. Það er hugsanlegt að einhver þessara sjúklinga hafi greinst með magasársbakteríuna en yfirleitt er þetta ekki rétt, því að í læknisfræðilegum skilningi þarf að taka sýni úr maga til að greina magabólgur sem valda mjög sjaldan einkennum.

Fólki með langvinna sýkingu vegna magasársbakteríu hefur fækkað verulega síðustu áratugina, en um aldamótin 1900 má gera ráð fyrir að 90% hafi smitast af henni sem tengdist fátækt, lélegu hreinlæti og þröngbýli. Börn sem alast upp á Íslandi nú til dags eru nánast alveg laus við að smitast af þessari bakteríu og virðist hún vera að hverfa úr samfélaginu, en lifir enn meðal eldra fólks. Magakrabbamein var mun algengara áður fyrr á Íslandi en hefur fækkað í takt við fækkun á tilvist magasársbakteríunnar á þessum tíma. Magakrabbamein er fyrst og fremst greint meðal eldra fólks um og yfir 70 ára. Einkenni eru stundum ósértæk með kviðverkjum, ógleði og stundum megrun. Uppköst geta verið fyrsta einkenni ef hið íllkynja æxli er staðsett í neðsta hluta magans og kemur í veg fyrir tæmingu hans.

Smáþarmar. Skeifugarnarsár er algengasti sjúkdómurinn í smáþörmunum. Sár í skeifugörn eru í flestum tilfell tengd tilvist magasársbakteríunnar og/eða notkunar á bólguminnkandi gigtarlyfjum eða hjartamagnyl. Algengustu einkenni eru verkir í efri hluta kviðarhols en í mörgum tilfellum leita sjúklingar á bráðamóttöku vegna blóðugra uppkasta og/eða hafa tjörusvartar hægðir vegna blæðandi skeifugarnarsárs. Meðferð skeifugarnarsára er mjög svipuð og þeirri sem lýst er fyrir magasár hér að ofan.

Annar mikilvægur sjúkdómur í smáþörmunum er glútenofnæmi. Það hefur margar og fjölbreyttar birtingarmyndir. Áður fyrr greindust margir sjúklinganna með niðurgang og mikla vannæringu, en síðustu ár greinast fleiri mun fyrr sem hafa t.a.m. járn- og vítamínskort þar sem læknar nútildags eru meira vakandi fyrir sjúkdómnum. Greiningin byggist fyrst og fremst á að taka sýni úr skeifugarnarslímhúð sem sýnir fram á að þarmatoturnar hafa minnkað að umfangi og í alvarlegum tilfellum eru þær varla sýnilegar í smásjárskoðun. Meðferðin byggist á mataræði sem ekki inniheldur glúten. Eftir að hafa fylgt því mataræði vaxa þarmatoturnar upp í eðlilegt horf og þarmaslímhúðin getur þá framfylgt sínu hlutverki á viðunandi hátt með því að stuðla að frásogi næringarefna.

Bólgusjúkdómar geta átt sér stað í smáþörmun og er s.k. Crohns sjúkdómur algengastur. Sjúkdómurinn er lúmskur og oft eru til staðar ósértæk einkenni s.s. þreyta, óþægindi í kviðarholi, ógleði og krampakenndir verkir eftir máltíð. Rannsóknir hafa sýnt að oft tekur það langan tíma fyrir sjúklinga að leita læknis eftir að þeir fá fyrst einkenni sem leiða síðar til greiningar á sjúkdómnum. Það getur líka vafist líka lengi fyrir læknum að greina sjúkdóminn þar sem sjúkdómurinn er lúmskur og oft er í fyrstu talið að um sé að ræða s.k. starfræn einkenni frá meltingarvegi.

Margfalt algengari en Crohns sjúkdómur er iðraólga (e. irritable bowel syndrome, IBS), stundum einnig kallað „ristilkrampar“ (sjá nánar að neðan). Æxli, bæði góðkynja og íllkynja eru sjaldgæf í smáþörmum. Þó geta komið fyrir í sjaldgæfum tilfellum kirtilfrumuæxli, tauga/hormónafrumuæxli og eitilfrumukrabbamein, t.d. tengt ómeðhöndlaðu glútenofnæmi.

Ristill. Áðurnefnt IBS er lang algengasta sjúkdómsástand sem leggst á meltingarfærin. IBS sem er svo nefndur meðal lækna virðist ekki vera jafn vel þekktur meðal almennings. Flest fólk þekkir til „MS“ ( e. multiple sclerosis) sem er mun sjaldgæfari sjúkdómur en IBS. IBS heilkennið er ekki einskorðað við ristilinn enda stendur B-ið í skammstöfunni fyrir „bowel“ en ekki „colon“ heilkenni, sem þýðir í raun að heilkennið nær yfir eða getur náð yfir allan meltingarveginn frá vélinda og niður í endaþarm. Um er að ræða starfræna truflun sem er af óþekktri orsök, þar sem hreyfingar og/eða skynjun í görninni eru talin afbrigðileg. Heilkennið er greint hjá þeim sem hafa haft langvarandi meltingareinkenni, sem hafa staðið yfir í marga mánuði og yfirleitt árum saman.

IBS.jpg

IBS einkennist af verkjum og/eða óþægindum í kvið með hægðabreytingum, niðurgangi og/eða hægðatregðu. Verkirnir versna þegar sjúklingurinn er í fasa með meiri niðurgangi eða hægðatregðu. Einnig versna verkir og uppþemba eftir máltíð en batna þegar sjúklingurinn tæmir ristilinn. Samkvæmt skilgreiningu eru blóðprufur og speglunarrannsóknir eðlilegar.

Hægðatregða án verkjavandamála í kviðarholi er líka mjög alengt vandamál. Í flestum tilfellum er um að ræða s.k. „latan“ ristil og talið orsakast af fábreytilegum og slökum þarmaþreyfingum.

Bólgusjúkdómar í ristli eru aðallega fjórir: sáraristilbólga, Crohns sjúkdómur, smásæ ristilbólga (e. microscopic/ collagenous colitis) og ristilpokabólga (diverticulitis). Sáraristilbólga einkennist af bólgu í slímhúð ristilsins sem er mjög mismunandi svæsin og nær til mismunandi hluta ristilsins. Í versta falli er um að ræða svæsna bólgu í ristilinum frá endaþarmi og upp allan ristilinn fram að lokunni milli ristils og efsta hluta ristilsins. Dæmi um mildara form er væg bólga sem nær bara til nokkurra sentrimetra í endaþarmi. Oft er bólgan við Crohns sjúkdóm staðsett á mörkum neðsta hluta smáþarmanna og efsta hluta ristilsins.

Hvimleiður kvilli er s.k. smásæ ristilbólga (e. microscopic colitis) sem lýsir sér með langvinnum vatnskenndum niðurgangi sem getur leitt til mikillar skerðingar á lífsgæðum. Greiningin byggist á því að taka sýni úr ristilslímhúðinni sem lítur eðlileg út en í smásjá kemur fram bólga. Þessi bólgusjúkdómur svarar hjá flestum vel meðferð með steragjöf en sterarnir verka staðbundið í ristlinum.

Ristilpokabólga, líka nefnd sarpabólga er nokkuð algengur sjúkdómur í ristlinum. Pokar sem eru nokkurs konar útbunganir fyrst og fremst í vinstri hluta ristils byrja að myndast yfirleitt upp úr fertugu. Það getur myndast sýking í þeim sem lýsir sér með verkjum og eymslum í vinstri neðri hluta kviðar, hita og hækkuðum bólgumerkjum í blóði. Stundum er nóg að fasta í nokkra daga en þörf getur verið á sýklalyfjum í stuttan tíma. Ristilpokar eru til staðar hjá a.m.k. 70-80% einstaklinga 60 ára og eldri en ekki er vitað hvers vegna einungis örfá % þeirra virðast geta þróað með sér bólgu. Einnig geta átt sér stað blæðingar frá þessum ristilpokum sem oftast leiðir til umtalsverðrar blæðingar á fersku blóði um endaþarm. Þetta er algengasta orsök blæðingar frá neðri hluta endaþarms sem leiðir til sjúkrahúsinnlagnar. Langflestir hafa góðar horfur og hætta að blæða af sjálfu sér en þurfa oft á föstu að halda og vökvagjöf í æð.

Ristilkrabbamein er með algengustu krabbameinum á Íslandi, með u.þ.b. 150 ný tilfelli á ári. Einkenni eru að mestu leyti tengd blæðingum frá meltingarvegi, annað hvort sýnileg fersk blæðing frá vinstri hluta ristils eða dulin blæðing sem ekki sést með berum augum en veldur járnskorti.

Lifur og gallvegir. Sjúkdómar í lifur geta ýmist verið langvinnir eða bráðir. Algengasti sjúkdómurinn sem sækir á lifrina er s.k. fitulifrarkvilli sem ekki tengist óhóflegri áfengisneyslu. Fita safnast í lifrina mest megnis sökum offitu og efnskiptavillu. Yfirleitt eru sjúklingar einkennalausir og aukið magn fitu sést á myndgreiningarrannsóknum og/eða að sjúklingarnir eru með hækkuð lifrarpróf sem merki um að lifrin sé undir álagi. Hjá flestu fólki veldur fitulifur ekki einkennum eða afleiðingum. Hins vegar þróar hluti fólks bólgu í lifrarfitunni og hjá þeim getur myndast örvefur og í versta falli skorpulifur. Orsakir fyrir skorpulifur eru í 30-40% tilfella af völdum áfengis en u.þ.b. 25% vegna fitulifrarkvilla sem ekki tengist ofnotkun áfengis.

Lifur.jpg

Fjölmargir aðrir langvinnir lifrarsjúkdómar geta valdið skaða á lifrinni s.s. sjálfsofnæmislifrarbólga og langvinnir sjúkdómar sem valda bólgu í litlum og stórum gallvegum. Annars vegar er um að ræða PBC (e. primary biliary cholangitis) og hins vegar PSC (e. primary sclerosing cholangitis). Sjúkdómar sem tengjast ofhleðslu af járni og kopar geta líka valdið skaða á lifrinni. Langvinn lifrarbólga B og C geta valdið skorpulifur og eykst áhættan ef einstaklingur með þessa langvinnu lifrarbólgusjúkdóma drekkur of mikið áfengi. Varðandi áfengi og lifur, eykur stöðug drykkja þegar áfengisdrykkjunni er dreift á fleiri daga áhættu á skorpulifur.

Bráðir lifrarsjúkdómar geta líka orsakast af veirum, t.d. lifrarbólga A sem smitast með saurmenguðu vatni eða matvælum, lifrarbólga B sem smitast með blóði eða við kynmök og lifrarbólga C sem smitast fyrst og fremst með blóði, t.d. óhreinum sprautunálum. Flestir sem fá í sig lifrarbólguveirurnar B og C fá langvinna lifrarbólgu en hjá hluta sjúklinga geta þær valdið bráðri lifrarbólgu.

Önnur tegund af bráðum lifrarskaða er af völdum lyfja. Oftast er um sjaldgæfa aukaverkun að ræða sem getur orsakast af mörgum mismunandi lyfjum. Flest lyf sem orsaka lifrarskaða valda ófyrirsjáanlegum skaða en bein eitrunaráhrif tengjast of háum skömmtum af parasetamóli. Algengasti lyfjaflokkurinn sem valda lifraskaða eru sýklalyf. Algengustu einkennin eru gula og kláði. Oftast lagast lifrarstarfsemin ef töku lyfsins er hætt en í mjög sjaldgæfum tilfellum getur sjúklingurinn þróað með sér bráða lifrarbilun. Við bráða lifrarbilun getur þurft að framkvæma lifrarígræðslu en flestir sem þurfa lifrarígræðslu eru sjúklingar með skorpulifur. Fjöldi Íslendinga sem þurfa á lifrarígræðslu að halda hefur aukist á undanförnum árum og áratugum en síðustu ár hafa u.þ.b. 3-5 Íslendingar undirgengist lifrarígræðslu á ári. Krabbamein í lifur eru fyrst og fremst meinvörp frá öðrum krabbameinum t.d. í ristli, maga, brisi, lungum og brjóstum. Lifrarfrumukrabbamein sem eiga uppruna sinn í lifrarfrumunum eru sjaldgæf en skorpulifur er algengasta undirliggjandi orsök þeirra.

Bris. Bráð brisbólga er algeng ástæða innlagna á sjúkrahús sem lýsir sér með sárum verkjum í efri hluta kviðar. Algengasta orsökin eru gallsteinar sem festast neðarlega í gallrás og á mörkum hringvöðva sem opnar fyrir gallflæðið neðst í gallrásinni og brisganginum sem flytur brissafa í skeifugörnina. Þannig getur gallsteinninn stíflað brisganginn og afleiðingin er bráð brisbólga. Í sumum tilfellum geta steinarnir færst niður í skeifugörnina af sjálfu sér en oft verður að fjarlægja þá með speglunartækni sem nefnist ERCP (e. endoscopic retrograde cholangiopancreatography).

Bris.jpg

Næstalgengasta orsök bráðrar brisbólgu er áfengisofnotkun. Ekki er vitað af hverju sumir einstaklingar eru viðkvæmir í brisinu fyrir áfengi. Hætta er á langvinnri brisbólgu ef sjúklingar fá endurtekin köst af brisbólgu. Langvinn brisbólga getur leitt til vannæringar vegna lélegs frásogs á fitu, niðurgangi vegna fituskitu og skorti á fituleysanlegum vítamínum.

Briskrabbamein lýsir sér oft með gulu sem gerist vegna þess að hið illkynja æxli stíflar gallganginn og gallið, m.a. niðurbrotsefni rauðra blóðkorna sem nefnist bílirúbín safnast fyrir í líkamanum og valda gulu. Briskrabbamein getur líka valdið kviðverkjum sem oft leiða aftur í bak, enda liggur briskirtillinn aftast í kviðarholi. Því miður greinist briskrabbamein oftast á stigi 4, og er þá búið að dreifa sér út fyrir brisið við greiningu. Það gefur því auga leið að horfur flestra sjúklinga sem greinast með briskrabbamein eru slæmar. Eina læknandi meðferðin er skurðagerð en a.m.k. 80-90% af öllum þeim sem greinast með briskrabbamein eru ekki skurðtækir.

Einar Stefán Björnsson

Yfirlæknir á Landspítala, prófessor við Læknadeild HÍ, forstöðumaður fræðasviðs Lyflækninga

Nýtt á vefnum