Greinar / 6. mars 2024

Að næra sig í samlyndi við umhverfið

Gjörunnin matvæli hafa verið mikið í umræðunni hérlendis síðustu mánuði og tengsl þeirra við verri heilsu við mikla neyslu. Þetta eru iðnaðarframleiddar vörur sem hafa farið í gegnum ótalmarga ferla við framleiðslu og innihalda oft lítið sem ekkert af ferskum eða lítið unnum matvælum sem eru auðug af næringarefnum frá náttúrunnar hendi.

Matvælin eru oft tilbúin til neyslu eða til upphitunar, geta innihaldið aukaefni og innihalda jafnan mikið af mettaðri fitu, salti og/eða sykri. Hér má nefna vörur eins og pylsur, kex, sælgæti, ís og gos. Framboð og aðgengi að gjörunnum matvælum er jafnan gott í kringum okkur og þessar vörur eru seldar víða, jafnvel víðar en ferskvörur, þó þær séu ekki nauðsynlegur hluti af næringarríku mataræði. Margir njóta þess þó að borða þau enda framleidd með bragðlauka okkar og bragðskyn í huga.

En hver eru umhverfisáhrif af neyslu gjörunninna matvæla sem sjást oft í vel pökkuðum umbúðum í hillum allra verslana, oft búin að ferðast langa vegalengd og hvernig eru þessi áhrif metin? Hvernig væri ákjósanlegast að næra sig í samlyndi við umhverfið?

Mat á umhverfisáhrifum

mynd1_Ragnhildur.jpg

Almennt er talið að framleiðsla gjörunninna matvæla hafi neikvæð umhverfisáhrif sem meðal annars einkennist af svokölluðum einræktunarbúskap (e. Monoculture farming), þar sem ein tegund er ræktuð á ákveðnu landssvæði og oft á fremur stóru svæði þar sem skógum hefur jafnvel verið rutt í burtu til að rýma fyrir framleiðslunni. Hér væri hægt að taka dæmi um pálmaolíu og sojabauna ræktun sem eru oft notuð í framleiðslu á gjörunnum matvælum.

Önnur hráefni notuð í framleiðslu á gjörunnum matvælum (m.a. sælgæti, snakki og drykkjum) eins og til dæmis kakóbaunir og jurtaolíur eru talin geta haft neikvæð áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika, vegna aukinnar hættu á útrýmingu sumra tegunda lífvera (e. high per kilogram species extinction rate).

Neysluvatn er takmörkuð náttúruauðlind sem er notuð í matvælaframleiðslu og engin undantekning þegar kemur að framleiðslu gjörunninna matvæla. Ofnotkun á þessari náttúruauðlind hefur neikvæð áhrif á umhverfið eins og til að mynda vatnsskort. Einnig er notast við mikla orku við vinnslu þessara matvæla og til að setja það í samhengi krefst hún meiri orku en lítið eða minna unnin matvæli vegna fleiri vinnsluferla. Þá eru flutningakeðjur frá framleiðenda til neytanda oft fremur langar, jafnvel í gegnum marga mismunandi framleiðendur (sykur framleiddur á einum stað og jurtaolían á öðrum o.s.frv.), sem felur í sér losun gróðurhúsalofttegunda. Þar að auki er notkun umbúða oft veruleg sem leiðir til sóunar og neikvæðra umhverfisáhrifa sem hægt hefði verið að komast hjá.

Þegar umhverfisáhrif matvæla eru metin er oft notast við lífsferilsgreiningar. Það felur í sér að meta umhverfisáhrifin sem myndast yfir líftíma vörunnar, til dæmis frá landbúnaði til endanlegrar förgunar matvæla. Loftlagsbreytingar, loftmengun, tap á líffræðilegum fjölbreytileika, orkunotkun, vatnsnotkun, og matarsóun eru þær umhverfisbreytur sem eru notaðar þegar sjálfbærni gjörunninna matvæla eru metin. Niðurstöður lífsferilsgreininga gefa til kynna hversu umfangsmikil umhverfisáhrifin eru og ef til vill hvar í aðfangakeðjunni sé þörf á breytingum með sjálfbærni að leiðarljósi.

Þessar niðurstöður geta til dæmis verið kolefnisspor sem metur losun gróðurhúsalofttegunda sem hafa áhrif á hlýnun jarðar eða vatnsspor þar sem öll viðeigandi umhverfisáhrif sem tengjast vatni eru metin, m.a. notkun og skortur á vatni. Lífsferilsgreiningar benda til þess að gjörunnin matvæli þar sem kjöt er undirstaðan hafi meiri umhverfisáhrif en gjörunnin matvæli unnin úr plönturíkinu, m.a. þegar litið er til landnotkunar. Þetta svipar til niðurstaðna úr lífsferilsgreiningum þegar minna unnin kjöt og plönturík matvæli eru skoðuð, þar sem neikvæð umhverfisáhrif kjöts vega hærra.

Lífsferilsgreiningar benda til þess að neysla gjörunninna matvæla valdi stærsta framlaginu þegar vatnsskortur (e. Water scarcity footprint) er skoðaður í samanburði við aðra fæðuhópa, en ávextir fylgja þar á eftir. Á hinn bóginn hafa gjörunnin matvæli þó oft lengra geymsluþol og hafa því minni tilhneigingu til að skemmast samanborið við minna unnin og fersk matvæli. Þessi eiginleiki þeirra getur því dregið úr matarsóun, bæði í aðfangakeðjunni og á heimili neytandans.

Rannsóknir á gjörunnum matvælum og umhverfisáhrifum eru þó takmarkaðar enn sem komið er og mikil þörf á auknum skilningi til að undirbyggja upplýstar matvælastefnur og mataræðisráðleggingar

Neysla og umhverfisáhrif

mynd2_Ragnhildur.jpg

Orkan sem við fáum kemur úr matnum okkar, úr kolvetnum, fitu, próteinum og hjá sumum einnig alkóhóli. Orkuþörf einstaklinga snýst um jafnvægi, sá sem borðar minna af til dæmis gjörunnum mat borðar að öllum líkindum meira af einhverju öðru.

Rannsóknir benda til að þeir hópar sem borða meira af unnum matvælum borði minna af kjöti og kjötafurðum. Fæðuumhverfi okkar getur verið mismunandi og fer meðal annars eftir því hvar við búum á landinu. Fæðuval einstaklinga einkennist að miklu leyti af fæðuumhverfinu, en veltur líka á ýmsum öðrum þáttum. Þessir þættir geta verið líffræðilegir eins og bragð, hungur- og sedduferlar líkamans og erfðir, en einnig einstaklingsmiðaðir þættir eins og viðhorf og þekking okkar á mat.

Aðrir ytri umhverfisþættir sem hafa áhrif á fæðuumhverfið eru meðal annars aðgengi, verð og tími og hvort við veljum þá frekar eitthvað sem er auðvelt, fljótlegt og þægilegt. Aðgengi að ferskum og minna unnum matvælum er víða minna en framboð á gjörunnum matvælum og val okkar er eftir því. Aðgengi og verði á matvælum er stýrt meðal annars af stefnum og aðgerðum stjórnvalda. Á landsbyggðinni þurfa sumir að ferðast lengri vegalengdir í næstu matvöruverslun og innkaup fara eftir því.

Það sem við borðum hefur ekki bara áhrif á heilsufar okkar heldur einnig á umhverfið. Gjörunnin matvæli teljast ekki til nauðsynlegra matvæla eins og áður hefur verið nefnt og stuðla mögulega að ofneyslu séu þau stór hluti af daglegri neyslu. Þegar litið er til notkunar á náttúruauðlindum þá eru þetta umhverfisáhrif sem mögulega væri hægt að forðast. Líkaminn þarf næringarefni og orku úr mat, og best er að fullnægja orkuþörf með plönturíku mataræði í stað gjörunninna matvæla.

Ýmis gjörunnin matvæli, svo sem sykurlausir drykkir, gefa okkur þar að auki litla sem enga orku og auka því einungis álag á umhverfið. Framleiðsla þeirra krefst meðal annars notkunar vatns og orku, pökkunar og umbúðamerkinga matvæla. Síðan tekur við flutningur frá framleiðanda til neytandans og sóun vegna pakkninga.

Það er mikilvægt að hafa í huga að heildarumhverfisáhrif gjörunninna matvæla geta verið mismunandi og hægt að sjá bæði ókosti og kosti við framleiðslu sumra þessara matvæla. Þegar næring er sett í samhengi við sjálfbærni þá gæti talist ákjósanlegt, ætli maður að huga að heilsunni með því að draga úr neyslu á gjörunnum matvælum án þess að auka umhverfisáhrifin, að sækja sér orku úr ferskum eða minna unnum matvælum úr jurtaríkinu, svo sem grænmeti, ávöxtum, berjum, baunum, linsum, heilkornavörum, hnetum og fræjum. Að lokum liggur lykillinn í því að finna okkar jafnvægi sem uppfyllir næringarefnaþörf með möguleikanum á því að lágmarka umhverfisáhrif.

Hvert stefnum við?

Síðastliðið sumar voru birtar endurskoðaðar norrænar ráðleggingar um mataræði og næringu þar sem lögð var heildaráhersla á sjálfbærni í fyrsta sinn. Þær eru sameiginlegur vísindalegur grunnur að ráðleggingum fyrir hvert land fyrir sig. Embætti landlæknis ásamt vísindafólki innan Háskóla Íslands vinna saman að því að uppfæra ráðleggingar um heilsusamlegt mataræði á Íslandi þar sem sjálfbærni og umhverfisáhrif verða einnig skoðuð. Þetta mun gera neytendum kleift að taka upplýstar ákvarðanir byggðar á gagnreyndri þekkingu þegar kemur að fæðuvali, ekki bara fyrir heilsuna heldur einnig í samlyndi við umhverfið.

Heimildir

  • Anastasiou, K., Baker, P., Hadjikakou, M., Hendrie, G. A., & Lawrence, M. (2022). A conceptual framework for understanding the environmental impacts of ultra-processed foods and implications for sustainable food systems. Journal of Cleaner Production, 368, 133155. https://doi.org/https://doi.org/10.1016/j.jclepro.2022.133155
  • García, S., Pastor, R., Monserrat-Mesquida, M., Álvarez-Álvarez, L., Rubín-García, M., Martínez-González, M. Á., Salas-Salvadó, J., Corella, D., Fitó, M., Martínez, J. A., Tojal-Sierra, L., Wärnberg, J., Vioque, J., Romaguera, D., López-Miranda, J., Estruch, R., Tinahones, F. J., Santos-Lozano, J. M., Serra-Majem, L., . . . Bouzas, C. (2023). Ultra-processed foods consumption as a promoting factor of greenhouse gas emissions, water, energy, and land use: A longitudinal assessment. Science of The Total Environment, 891, 164417. https://doi.org/https://doi.org/10.1016/j.scitotenv.2023.164417
  • Martini, D., Godos, J., Bonaccio, M., Vitaglione, P., & Grosso, G. (2021). Ultra-Processed Foods and Nutritional Dietary Profile: A Meta-Analysis of Nationally Representative Samples. Nutrients, 13(10), 3390. https://www.mdpi.com/2072-6643/13/10/3390

Ragnhildur Guðmannsdóttir

Næringarfræðingur, doktorsnemi í næringarfræði
Nýtt á vefnum