Gos- og orkudrykkir flokkast undir svokölluð gjörunnin matvæli en sá flokkur matvæla hefur fengið mikla athygli að undanförnu vegna óhollustu sinnar. Framboð á gjörunnum matvælum hefur aukist hratt undanfarna áratugi og ljóst að þörf er á átaki til að sporna við þessari þróun. Gos- og orkudrykkir innihalda engin nauðsynleg næringarefni fyrir líkamann og eiga það sameiginlegt að innihalda viðbættan sykur og/eða sætuefni, auk koffíns í mismiklu magni (á þó ekki við um alla gosdrykki).
Áhrif gosdrykkja á heilsuna
Við vitum flest að við ættum ekki að nota þessar vörur en við gerum það samt. Rannsóknir sýna að neysla á gosdrykkjum ýtir undir þyngdaraukningu og tannskemmdir, og að notkun sykurlausra gosdrykkja er ekki betri kostur ef huga á að þyngdarstjórnun. Nýleg evrópsk rannsókn með 266.666 þátttakendum frá sjö löndum sýndi að því meiri neysla á gjörunnum matvælum því meiri var hættan á að vera með tvo eða fleiri langvinna sjúkdóma eins og hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki 2 og krabbamein. Áhættan var mest af neyslu á gjörunnum matvælum úr dýraríkinu og í formi gosdrykkja, hvort sem er með viðbættum sykri eða sætuefnum.
Gosdrykkir
Samkvæmt upplýsingum úr Ískrá þá drukku 50% nemenda í 4. bekk í grunnskóla gosdrykki 1-2 sinnum í viku árið 2022. Einn af hverjum fimm nemendum í 5-7. bekk drakk gosdrykki daglega sama ár samkvæmt gögnum frá Rannsóknum og greiningu.
Á Íslandi eru gosdrykkir almennt ódýrari en gengur og gerist í nágrannaríkjum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) mælir með því við ríki heimsins að tryggja hátt verð á gosdrykkjum til að minnka neyslu á þessum vörum en slík aðgerð myndi draga úr líkum á mörgum langvinnum sjúkdómum síðar á ævinni og hefur sýnt sig að virka vel til að draga úr reykingum og notkun áfengis.
Áhrif koffíns á heilsuna
Koffín í miklu magni (hvaðan sem það kemur) getur haft ýmis óæskileg áhrif á líðan og heilsu fólks. Það getur t.d. valdið hjartsláttartruflunum, hækkuðum blóðþrýstingi, höfuðverk, svima, ógleði, kvíða og haft neikvæð áhrif á svefn. Börn og ungmenni eru almennt viðkvæmari fyrir koffíni en fullorðnir og er neysla koffíns því sérstaklega óæskileg fyrir þann hóp.
Vegna þessara óæskilegu og stundum hættulegu áhrifa koffíns eiga allir orkudrykkir að vera með varúðarmerkingu á umbúðunum samkvæmt reglugerð frá Evrópusambandinu sem segir að varan sé ekki æskileg fyrir börn, barnshafandi konur og konur með barn á brjósti.
Drykkir sem innihalda meira en 32 mg af koffíni í 100 ml má ekki selja til einstaklinga undir 18 ára aldri. Flestir orkudrykkir á markaði innihalda 31,8 mg koffín í 100/ml og eru því nálægt því að vera bannaðir börnum.
Orkudrykkir
Orkudrykkjaneysla meðal ungmenna hefur aukist undanfarin ár þrátt fyrir að upplýsingum um skaðleg áhrif hafi verið miðlað til dæmis á Heilsuveru og í tengslum við Forvarnardaginn sem haldinn er árlega. Í skýrslu Áhættumatsnefndar á sviði matvæla, fóðurs, áburðar og sáðvöru sem kom út árið 2020, segir að neysla íslenskra ungmenna á orkudrykkjum sé með því mesta sem þekkist í Evrópu og að 30% ungmenna í 8.-10. bekk væru yfir þeim öryggismörkum sem Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) hefur sett fyrir koffínmagn sem talið er valda neikvæðum áhrifum á svefn. Minni svefn hjá ungmennum getur haft neikvæð áhrif á vöxt þeirra og aukið líkur á kvíða og þunglyndi.
Talsverð aukning hefur orðið í neyslu orkudrykkja meðal nemenda í 10. bekk en árið 2018 var einn af hverjum fjórum nemenda (25%) sem drukku orkudrykki einu sinni í viku eða oftar. Árið 2022 var hlutfallið komið upp í rúmlega einn af hverjum þremur (36%) meðal nemenda í 10. bekk.
Markaðssetning gos- og orkudrykkja
Oft er bætt vítamínum og/eða amínósýrum í drykki til að láta vöruna líta út fyrir að vera „heilsusamleg“. Eitt dæmi um hættulega íblöndun vítamína er drykkur sem fæst hér á landi og inniheldur tvöfalt magn af A-vítamíni í einni flösku miðað við ráðlagðan dagskammt fyrir börn. A-vítamín, sem er fituleysanlegt vítamín, finnst bæði í dýra- og jurtaríkinu og getur verið skaðlegt í of miklu magni. A-vítamíneitrun getur valdið höfuðverk, útbrotum og einkennum frá meltingarvegi, s.s. verkjum, ógleði, uppköstum og lystarleysi. Háir skammtar á meðgöngu geta einnig valdið fósturskaða. Ef um er að ræða viðvarandi mikla neyslu á A-vítamíni þá getur það valdið lifrarskemmdum.
Það er ljóst að börn og unglingar eru markaðshópur sem margir matvælaframleiðendur líta til og í áðurnefndri skýrslu Áhættumatsnefndar frá árinu 2020 þá greindu nemendur í 10. bekk frá því að algengt væri að þau fengju orkudrykki gefins í tengslum við íþróttir eða hópastarf, eða 58% drengja og 73% stúlkna. Nemendur í 8. og 9. bekk greindu einnig frá því að fá orkudrykki gefins í tengslum við íþróttir eða hópastarf (hlutfall á bilinu 39-56% eftir bekk og kyni).
Lokaorð
Í dag er mikið aðgengi að ýmsum drykkjum, hvort sem er í matvöruverslun, bensínsjoppum, sumum framhaldsskólum, á íþróttaviðburðum og í íþróttamannvirkjum. Mikilvægt er að við sem samfélag verndum börnin okkar og tryggjum að gos- og orkudrykkir séu ekki vara sem þykir eðlilegt að þau drekki, því þessir drykkir geta skaðað heilsuna. Í staðinn er mælt með því að drekka vatn við þorsta. Kolsýrt vatn án sítrónusýru (E330) getur einnig verið góður kostur í stað gos-og orkudrykkja. Fyrir fullorðna getur te og kaffi einnig verið hluti af heilsusamlegu mataræði en viðmið fyrir háa koffínneyslu fullorðinna er 400mg af koffíni á dag sem samsvarar um fjórum kaffibollum á dag.