Greinar / 15. júlí 2019

Áfallastreituröskun og sjálfsofnæmissjúkdómar

Um langa hríð hafa verið uppi sterkar samfélagslegar hugmyndir um það að áföll og/eða langvarandi streita sé óhagstæð heilsu okkar en á síðustu áratugum hafa vísindarannsóknir rennt nokkrum stoðum undir þessa tilgátu. Dýrarannsóknir og rannsóknir á mönnum sýna til að mynda að mikil eða langvarandi streita getur haft neikvæð áhrif á ónæmiskerfi okkar og þar með minnkað viðnám okkar við hinum ýmsu sjúkdómum, þar á meðal við sjálfsofnæmissjúkdómum. Hinsvegar hefur verið skortur á stórum og aðferðafræðilega vönduðum rannsóknum á tengslum áfalla og áfallastreituröskunar við síðari tíma áhættu á sjálfsofnæmissjúkómum.

Fyrir rúmu ári síðan birti rannsóknarhópur okkar við Læknadeild Háskóla Íslands í samvinnu við vísindamenn við Karolinska Institutet í Stokkhólmi niðurstöður nýrrar rannsóknar sem sýnir að fólk sem glímt hefur við áfallastreituröskun er í aukinni áhættu á að greinast síðar með sjálfsofnæmissjúkdóma. Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í hinu virta vísindatímariti ameríska læknafélagsins, Journal of the American Medical Association (JAMA) í júní 2018.

Rannsóknin byggði á sænskum heilsufarsgagnagrunnum en á rannsóknartímabilinu, sem spannaði yfir 30 ár, voru yfir 100 þúsund einstaklingar greindir með áfallastreituröskun eða aðrar raskanir tengdum áföllum eða þungbærri lífsreynslu. Áhætta þessara einstaklinga á að greinast síðar með sjálfsofnæmissjúkdóma var borin saman við alsystkini þeirra og óskylda einstaklinga af sama aldri og kyni.

Niðurstöðurnar leiddu í ljós að einstaklingar með áfallastreitu- eða aðrar tengdar raskanir voru að meðaltali 30-40% líklegri til þess að greinast síðar með einhvern af þeim 41 sjálfsónæmissjúkdómum sem rannsakaðir voru, þar á meðal sykursýki af tegund 1, lúpus, MS-, Addisson- og Crohns-sjúkdóm. Að auki kom í ljós að áhættan á sjálfsónæmissjúkdómum virtist meiri því yngri sem einstaklingarnir voru við greiningu á áfallatengdum röskunum.

Þetta er fyrsta rannsóknin sem sýnir fram á tengsl áfallastreitu- og tengdra raskana við áhættuna á sjálfsofnæmissjúkdómum í stóru almennu þýði fólks. Fyrri rannsóknir á þessu sviði byggja flestar á athugunum á bandarískum hermönnum, s.s. aðallega karlmönnum með ákveðnar tegundir áfalla að baki. Niðurstöður rannsóknarinnar marka því mikilvægan áfanga í þekkingarsköpun á þessu sviði en brýnt er að heilbrigðisstarfsfólk sé meðvitað um þessi tengsl áfallastreitu við sjálfsofnæmissjúkdóma og að einstaklingar sem þjást af sálrænum einkennum í kjölfar áfalla hafi aðgengi að gagnreyndum meðferðarúrræðum.

Áfallastreita.JPG

Nánar má lesa um niðurstöður rannsóknarinnar á heimasíðu JAMA: Huan Song, Fang Fang, Gunnar Tomasson, Filip K. Arnberg, David Mataix-Cols, Lorena Fernández de la Cruz, Catarina Almqvist, Katja Fall, Unnur A. Valdimarsdóttir. Stress-Related Disorders and Autoimmune Disease-Reply. JAMA. 2018 Nov 6;320(17):1817–1818. doi: 10.1001/ jama.2018.12402. Tengill á rannsóknina

Unnur Anna Valdimarsdóttir

Prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands

Nýtt á vefnum