Greinar / 27. febrúar 2019

Skjárinn og börnin

Börn í dag alast upp í umhverfi sem er hlaðið tækjum og tækninýjungum. Þróunin er hröð og því eðlilegt að foreldrar velti fyrir sér hvernig best sé að standa að góðu uppeldi í umgengni við þessi tæki. Auðvelt er að grípa í skjátæki til að fanga athygli ungra barna þegar foreldrar vilja beina athygli sinni að öðru en barninu. Huga verður að því að vísbendingar eru um að mikil skjánotkun getur haft neikvæð áhrif á þroska og líðan barna. Það er einkum málþroski, hreyfiþroski og félagsþroski sem getur orðið fyrir áhrifum af mikilli skjánotkun.

Hugaðu að stafrænum fótsporum barnsins, barnið ætti að hafa um það að segja hvaða myndir og upplýsingar eru birtar um það á netinu. Munið að foreldrar eru fyrirmyndir barna sinni, líka þegar kemur að skjánotkun.

Börn 0-18 mánaða

Lágmarkið skjánotkun barna fram að 18 mánaða aldri. Hér er þó ekki átt við samskipti um vefinn við fjarstadda ættingja og vini.

Börn 18 mánaða til 5 ára

Ráðlagt er að takmarka skjátíma, sérstaklega hjá yngstu börnunum.

 • Veldu gott efni á móðurmáli barnsins og horfðu á með barninu.
 • Kynntu þér leiki og smáforrit sem barnið notar.
 • Ræddu við barnið um það sem það sér og upplifir, m.a. til að örva málþroska.
 • Gættu þess að hafa sjónvarpið ekki stöðugt í gangi, því það grípur athygli og stöðvar eðlilega hreyfiþörf barnsins.
 • Gættu þess að nota ekki skjáinn sem einu leiðina til að róa barnið. Barnið þarf að læra að stjórna tilfinningum sínum.
 • Skipuleggðu skjálausar stundir með barninu þínu.
 • Hugaðu að þinni eigin skjánotkun sem foreldri og fyrirmynd. Börn þurfa athygli foreldra sinna.

Sjá skjáviðmið fyrir börn að 5 ára aldri til útprentunar.

Börn 6 til 12 ára

 • Stuðlaðu að fjölbreyttri skjánotkun og lærdómstækifærum.
 • Sýndu skjánotkun barnsins áhuga og ræddu við barnið um hana.
 • Virtu aldurstakmörk leikja og samfélagsmiðla.
 • Styrktu jákvæða skjánotkun með því að benda barninu á áhugavert og lærdómsríkt skjáefni og hrósaðu því fyrir fyrir uppbyggilega og hófstillta notkun skjátækja.
 • Kenndu barninu að ráðfæra sig við þig áður en það gefur upp persónuupplýsingar eins og nafn, síma, netfang, heimilisfang, lykilorð, skóla eða myndir.
 • Gættu þess að hafa sjónvarpið eða önnur tæki ekki stöðugt í gangi, það truflar góð samskipti foreldra og barna.
 • Tryggja þarf skjálausar samverustundir fjölskyldu eins og t.d. við matarborðið.
 • Tryggja þarf börnum nægan svefn en börn á skólaaldri þurfa almennt um 10 klst. svefn. Góð regla er að hafa engin skjátæki í svefnherbergjum barna.

Sjá skjáviðmið fyrir börn 6 til 12 ára til útprentunar.

Börn 13 til 18 ára

Mikilvægt er að foreldrar og unglingar/ungmenni eigi samtal um skjánotkun og komi sér saman um reglur. Hver og einn þarf að skoða hjá sjálfum sér eigin skjánotkun og finna jafnvægi. Foreldrar eru fyrimyndir barna sinna þegar kemur að skjánotkun og þurfa að setja gott fordæmi.

Hér á eftir koma umræðupunktar fyrir foreldra fyrir samtal við ungmenni um skjánotkun og til að móta reglur eftir:

 • Ef þú fengir að stjórna skjánotkun á heimilinu, hvernig væri henni háttað ?
 • Finnst þér þú, foreldrar þínir eða vinir vera of mikið í símanum, spjaldtölvunni eða horfa mikið á sjónvarp?
 • Hvað ertu að skoða í símanum eða tölvunni og hvenær ertu að skoða það? – Ertu að skoða þetta af því að þér leiðist eða ertu að leita að einhverju sérstöku?
 • Hvernig líður þér eftir að hafa verið lengi við skjáinn?
 • Ertu að skoða símann á þínum forsendum eða vegna tilkynninga eða skilaboða?
 • Tekur síminn mikinn tíma frá þér sem þú gætir notað í annað?
 • Hvernig finnst þér að hafa símann alltaf á þér?
 • Hversu mikill tími fer í að skoða efni sem gagnast þér og hversu mikill tími fer í annað?

Sjá skjáviðmið fyrir börn 13 til 18 ára til útprentunar.

Gott skjáuppeldi skólabarna

Skjátími - Hvað á hann að vera langur? spyrja foreldrar gjarnan. En skjátími er ekki allur eins. Reyndu að stuðla að fjölbreyttri skjánotkun og lærdómstækifærum. Það krefst þess að þú setjir þig vel inní skjánotkun barnsins.

 • Gott er að spyrja barnið reglulega um hvað það er að gera í sinni skjánotkun, sýndu því áhuga og ræðið. •
 • Gerðu það að reglu að virða aldurstakmörk leikja og samfélagsmiðla.
 • Styrkja má jákvæða skjáhegðun t.d. með því að hrósa barninu:
 • Þegar það velur áhugavert og lærdómsríkt skjáefni.
 • Þegar það hefur frumkvæði að því að stýra sínum skjátíma sjálft í viðunandi hóf.
 • Þegar það „hættir í leiknum“ þegar þú biður það um að hætta.
 • Kenndu barninu að spyrja þig leyfis áður en það gefur upp persónuupplýsingar eins og nafn, síma, netfang, heimilisfang, lykilorð, skóla eða myndir.
 • Þegar fjölskyldan kemur saman er gott að stuðla að skjálausum stundum, t.d. við matarborðið.
 • Slökktu á sjónvarpinu þegar enginn er að horfa. Því sjónvarp sem er stöðugt í gangi truflar góð samskipti foreldra og barna.
 • Tryggðu nægan svefn. Börn á skólaaldri þurfa um 10 klst. svefn. Því er góð regla að hafa engin skjátæki í svefnherbergjum barna.
 • Hugaðu að fyrirmyndinni, hvernig ert þú að nota skjátækin þín? Börnin fylgjast með þér og læra af þér.
Skjárinn og börnin

Áhyggjur af netnotkuninni?

Ef þú hefur áhyggjur af netnotkun barnsins þíns getur þú skoðað þennan lista. Þetta eru atriði sem þú sem foreldri getur haft áhrif á:

 • Stundar barnið námið vel?
 • Hittir barnið vini utan skóla (ekki á netinu)?
 • Er barnið virkt í íþróttum eða öðrum tómstundum?
 • Fær barnið nægan svefn, næringu og hreyfingu?
 • Er barnið sátt við að því séu settar skorður um tölvunotkun?
 • Hefur barnið í raun ánægju og gagn af notkun tækjanna eða veldur hún kvíða, depurð eða skapsveiflum?
 • Felur barnið tölvunotkunina?
 • Veist þú hvað barnið er að gera í tölvunni?

Tölvuleikjaröskun

Tölvuleikjaröskun eða tölvuleikjafíkn er annað og meira en að nota net/tölvur í miklu mæli. Til að geta flokkast undir tölvuleikjaröskun verður notkunin að hafa skaðleg áhrif á fjölbreytta virkni einstaklingsins, s.s. fjölskyldulíf, félagslíf, skóla og/eða starf. Einkennin þurfa jafnframt að hafa verið til staðar í a.m.k. 12 mánuði.

Verndandi þættir

Sterk sjálfsmynd, félagsleg færni og að líða vel í skólanum eru dæmi um verndandi þættir gegn tölvuleikjaröskun. Þá er það einnig talinn verndandi þáttur ef unglingar hafa stjórn á hegðun sinni í leiknum. Íþróttaiðkun og regluleg hreyfing eru einnig verndandi þættir.

Er ég haldin/n tölvuleikjaröskun?

Einungis lítill hluti fólks þróar með sér tölvuleikjaröskun/ tölvuleikjafíkn. Hins vegar er mikilvægt að spá í þann tíma sem maður eyðir í tölvuleiki/netnotkun og hvaða áhrif notkunin hefur á aðrar athafnir daglegs lífs.

Ef þú hefur áhyggjur af tölvunotkun þinni getur þú skoðað þessar 7 spurningar hér á eftir. Ef þú svarar þeim flestum eða öllum oft eða mjög oft skaltu leita þér aðstoðar.

tölvufikn

Heimild: heilsuvera.is, sameiginlegur vefur Embættis landlæknis og Heilsugæslunnar

Nýtt á vefnum