Greinar / 30. október 2018

Leiðari - Heilsa í allar stefnur

Langvinnir, ósmitbærir sjúkdómar standa í dag fyrir 9 af hverjum 10 dauðsföllum og 88% af heildarskaða samfélagsins af völdum sjúkdóma og dauða. Þetta er ekki óhjákvæmilegt, því svo dæmi séu tekin má rekja yfir 80% af heilsufarsskaða vegna hjarta- og æðasjúkdóma og um 44% af heilsufarsskaða vegna krabbameina má rekja til áhættuþátta sem unnt er að hafa áhrif á.1

Sjúkdóma sem grafa um sig yfir langan tíma er áhrifaríkast og ódýrast að stöðva áður en þeir verða svo alvarlegir að þeir valdi varanlegum skaða. Þetta kallast forvarnir. Forvörnum verður hins vegar ekki sinnt gegnum heilbrigðiskerfið eingöngu, því langvinnir sjúkdómar greinast gjarnan ekki fyrr en eftir ár eða áratugi og koma fyrst þá til kasta heilbrigðiskerfisins.

Lykillinn að forvarnastarfi felst í að einstaklingurinn skilji hvað heilsuhegðun er – hann þarf að hafa heilsulæsi. Heilsulæsi felst í getu einstaklingsins til að nálgast, skilja, og hagnýta sér upplýsingar til að stuðla að góðri heilsu.2 Heilsulæsi nær út fyrir einstaklinginn og fjölskylduna og á jafnt við um starfsumhverfi, félagslegt umhverfi og þjóðfélagið allt. Allir efnahagslegir, félagslegir og umhverfislegir þættir eru undir, sem þýðir að ábyrgðin á heilsulæsi og heilsuhegðun er ekki aðeins einstaklingsins sjálfs heldur einnig samfélagsins. Grasrótarstarf og vitundarvakning á vegum félagasamtaka getur hér gegnt lykilhlutverki.

Hlutverk hins opinbera í forvarnastarfi kristallast í að innleiða „heilsu í allar stefnur“ (e. health in all policies). Mikilvægt er að inn í slíka vinnu rati aðilar utan hins eiginlega heilbrigðiskerfis, svo sem menntakerfið, framhaldsfræðslan, sveitarfélögin, vinnustaðir og frjáls félagasamtök. Samhliða „heilsu í allar stefnur“ er æskilegt að komið verði á formlegu ferli um lýðheilsumat sem taki bæði til aðgerða opinberra aðila og einkaaðila sem líkleg eru til að hafa áhrif á lýðheilsu. Hér má minna á mikilvægi þess að leggja gjald á heilsuspillandi vörur, til dæmis sykurgjald, líkt og þegar hefur verið gert með áfengisgjald og tóbaksgjald. Heilbrigðisráðherra hefur tilkynnt að unnið verði að því að leggja fram þingsályktunartillögu um heilbrigðisstefnu á yfirstandandi þingi.3 Vonandi verður sem flest af ofangreindu að finna í þeirri stefnu.

Dæmi um vel heppnað forvarnaverkefni er SÍBS Líf og heilsa, sem brúar bilið frá því einstaklingar byrja að þróa með sér sjúkdóm þar til sjúkdómurinn greinist. SÍBS og samstarfsaðilar fara um landið og bjóða almenningi ókeypis mælingu á blóðþrýstingi, blóðfitu, súrefnismettun og fleiri gildum, auk valfrjálsri þátttöku í könnun um lifnaðarhætti og heilsufar. Verkefnið er unnið í samvinnu við heilbrigðisstofnanir á hverjum stað og hjúkrunarfræðingar heilsugæslunnar sjá um að taka við fólki sem mælist með há gildi. Um 6500 manns hafa þegið slíka mælingu á hringferð um landið á síðustu tveimur árum og vonandi hefur náðst að hefta framgöngu sjúkdóms hjá mörgum þeirra með viðeigandi inngripi í framhaldinu. Það eru því miður blikur á lofti varðandi heilbrigði Íslendinga, enda virðist meðalævi okkar vera hætt að lengjast4 og jafnvel aðeins spurning um tíma hvenær hún fer að styttast, líkt og gerst hefur á síðustu árum hjá bæði Bretum5 og Bandaríkjamönnum.6 Við Íslendingar erum þó enn í 6. sæti meðal aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) hvað varðar lífslíkur,7 en það er hollt að hafa í huga að „við“ í þessu tilfelli merkir fólk fætt kringum 1920 og fram yfir 1930, sem togar meðaltalið upp. Það er óskrifað blað hvernig yngri kynslóðum tekst til þegar röðin kemur að þeim.

Heimildir
  1. Institute for Health Metrics and Evaluation (IHME). GBD Compare Data Visualization. Seattle, WA: IHME, University of Washington, 2018. https://vizhub.healthdata.org/gbd-compare/.
  2. Nutbeam, Don. 1998. „Health promotion glossary.“ Health Promotion International, 13 (4): 349-364. doi:10.1093/ heapro/13.4.349.
  3. https://www.althingi.is/altext/raeda/148/rad20180226T172757.html.
  4. https://hagstofa.is/utgafur/frettasafn/mannfjoldi/danir-2017/
  5. https://www.ons.gov.uk/peoplepopulationandcommunity/birthsdeathsandmarriages/lifeexpectancies/bulletins/ nationallifetablesunitedkingdom/2015to2017.
  6. Kochanek KD, Murphy SL, Xu JQ, Arias E. Mortality in the United States, 2016. NCHS Data Brief, no 293. Hyattsville, MD: National Center for Health Statistics. 2017.
  7. OECD (2017), Health at a Glance 2017: OECD Indicators, OECD Publishing, Paris. http://dx.doi.org/10.1787/health_ glance-2017-en.

SÍBS blaðið 34. árg. 3. tbl. október 2018

Guðmundur Löve

Framkvæmdastjóri SÍBS

Nýtt á vefnum