Greinar / 1. nóvember 2018

Grasrótin drifkraftur í heilbrigðismálum

Hvatinn að vilja „breyta heiminum“ býr í okkur öllum sérstaklega þegar við upplifum sterka þörf fyrir aðgerðir í þágu mannréttinda, lífs barna okkar, hlýnun jarðar, næg eru verkefnin.

Um þessar mundir er mikið rætt um úrræðaleysi er kemur að fíkn og geðröskunum ungs fólks, samanber ný skýrsla landlæknis um sjálfsvígshugsanir og -tilraunir ungs fólks1 og stofnun samtaka um meðferðarsetur fyrir ungt fólk. Samtökin voru stofnuð að frumkvæði Sigurþóru Bergsdóttur og Sigrúnar Sigurðardóttur á afmælisdegi Bergs Snæs sonar Sigurþóru sem framdi sjálfsvíg aðeins 19 ára gamall2. Eldri dæmi um frumkvæði grasrótarinnar eru stofnun SÁÁ á borgarfundi 1977, en í viðtali við móður ungrar konu með geðröskun kom fram að hún hefði ekki fengið nauðsynlega aðstoð fyrr en í meðferð á Vogi, eftir að hafa prófað úrræði hjá opinbera heilbrigðiskerfinu3.

Grasrótin stuðlar að nýsköpun í velferðarþjónustu

Segja má að stofnun SÍBS fyrir 80 árum hafi mátt rekja til svipaðra aðstæðna þar sem hópur berklasjúklinga kom á fót vinnustofu sem síðar þróaðist yfir í endurhæfingarmiðstöðina Reykjalund og vinnustaðinn Múlalund. Þannig gat samtal í grasrótinnni af sér nýsköpun og þróun sem nú er orðin órjúfanlegur hluti af heilbrigðis- og velferðarkerfinu.

Mikilvægt er að gera greinarmun á hlutverki grasrótarinnar og fagfólks. Frumkvöðlarnir rótast í jarðveginum, selja hugmyndina, safna fjármagni og sækja stuðning stjórnvalda. Þegar jarðvegurinn er klár og grunnurinn reistur er fagfólk ráðið til starfa og þá tekur við fagleg þróun og þekkingaruppbygging innan heilbrigðisþjónustu á meðan hægist á þróuninni í félögunum sem áfram eru vettvangur grasrótarinnar. Þannig hafa breytendur orðið neytendur þeirra þjónustu sem nú er komin á þeim til hagsbóta.

Þessa þróun má á margan hátt heimfæra á kenningar um nýsköpun. Þar er talað um að nýir markaðir og atvinnugreinar einkennist af fjölda frumkvöðla, mörgum litlum fyrirtækjum á meðan þroskaðri atvinnugreinar telja færri og stærri fyrirtæki og aukna sérhæfingu. Í litlum fyrirtækjum er oft ekki fjárhagslegt svigrúm til að kaupa sér þekkingu, frumkvöðlar ganga í öll verkin og læra af reynslunni. Því hefur stundum verið fleygt fram að virkni og eldmóður grasrótarinnar verði til þess að stjórnvöld og velferðarkerfið sinni hlutverkum sínum, það sé þeirra að taka á vandanum og í það eiga skattpeningar okkar að fara.

Á hinn bóginn má færa rök fyrir því að þeir sem þekkja þörfina, hafa upplifað úrræðaleysi séu einmitt þeir sem eru best er til þess fallnir að koma með leiðir og lausnir og svara spurningunni: „Hvað hefði eða mun hjálpa mér, barni mínu eða aðstandanda?“

Virkt samstarf í grasrótinni

studningsnetmynd.jpg

Hópar og félög innan grasrótarinnar hafa oft unnið saman að því að koma á mikilvægri þjónustu og stuðningi. Dæmi um slíkt samstarf er Stuðningsnet sjúklingafélaganna. Það var stofnað í janúar 2018. Að því standa 15 sjúklingafélög en markmið þess er að styðja við fólk með hlustun og skilningi sem einungis getur komið frá þeim sem staðið hafa í sömu sporum. Nú þegar hafa um 40 sjálfboðaliðar fengið þjálfun til að veita jafningjastuðning og hægt er að óska eftir stuðningi á www.studningsnet.is. Stuðningsnetið byggir á aðferðafræði sem þróuð var af Krafti, samtökum ungs fólks með krabbamein og aðstandendum þeirra, og er annað dæmi um frumkvæði grasrótarinnar. Opið er fyrir önnur félög að bætast í hópinn.

Grasrótin, fræðsla og forvarnir

Hjarta- og æðasjúkdómar tróna efst á lista WHO yfir dánarorsakir vegna ósmitbærra sjúkdóma eða um 44% dauðsfalla4. Sykursýki af tegund 2 verður stöðugt algengari og hefur aukist um 30% frá 2005 en talið er að í Evrópu séu um 9-10% fullorðinna með sykursýki, þar af 90-95% með sykursýki af tegund 25. Þegar litið er til sjúkdómsbyrði vegna örorku vega geðraskanir og stoðkerfissjúkdómar þyngst. Það sem flestir þessara sjúkdóma eiga sameiginlegt er að því fyrr sem gripið er til aðgerða því minni líkur eru á ótímabærum dauðsföllum og að fólk þrói með sér langvinna sjúkdóma.

Áherslur SÍBS í dag endurspegla þennan vanda þar sem unnið er markvisst að fræðslu og forvörnum gegn langvinnum sjúkdómum. Verkefnið SÍBS Líf og heilsa er samstarfsverkefni SÍBS, Hjartaheilla, Samtaka sykursjúkra og Samtaka lungnasjúklinga. Verkefnið er unnið í samráði við heilbrigðisstofnanir og sveitarfélög. Það er framkvæmt á þann hátt að almenningi er boðið í ókeypis heilsufarsmælingu sem framkvæmd er af þjálfuðum fulltrúum samstarfsaðila og fagfólk frá heilsugæslunni sér um ráðgjöf og eftirfylgd. Markmiðið með mælingunum er að skima fyrir áhættuþáttum þannig að hægt sé að grípa inn í ferlið bæði innan heilbrigðiskerfisins og með heilsueflandi starfi.

Auk mælingaverkefnis hefur SÍBS unnið í samstarfi við SidekickHealth, Heilsuborg, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Austurbrú að þróun náms og námskránni Líf og heilsa, lífsstílsþjálfun, sem byggir á bandarísku forvarnarverkefni gegn sykursýki og hefur verið aðlagað að almennri heilsueflingu. Lýðheilsusjóður og Virk hafa styrkt þróun verkefnisins auk þess sem SÍBS og Austurbrú fengu styrk frá Erasmus+ þar sem hugmyndin er að þróa lífsstílsþjálfunina frekar sem lið í heilsueflingu fullorðinna á Íslandi, Ítalíu og í Noregi. Fyrsti fundur samstarfsaðila var haldinn 25. september.

Nú hefur verið boðið upp á ókeypis heilsufarsmælingar á landsbyggðinni og skipulagðar verða mælingar í heilsueflandi sveitarfélögum og hverfum á höfuðborgarsvæðinu í vetur.

Okkur hefur alls staðar verið vel tekið og allt að helmingur íbúa hefur mætt í mælingu. Áhrifin af slíkum viðburðum felast ekki síst í almennri vitundarvakningu um heilsueflingu í samfélaginu. Það er von okkar að með tilkomu námskrár, leiðbeinendaþjálfun og opnu náms- og þróunarumhverfi fyrir lífsstílsþjálfun fullorðinna skapist tækifæri til frekari eftirfylgni og stuðning við þá sem vilja bæta heilsuna með breyttum lífsstíl.

LH2.JPG

Heimildir

  1. Ingibjörg Eva Þórisdóttir, Sigrún Daníelsdóttir og Salbjörg Bjarnadóttir. Sept. 2018. Sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir meðal íslenskra ungmenna. Landlæknir. https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/ frett/item35373/Ny-skyrsla-um-sjalfsvigshugsanir-og-sjalfsvigstilraunirungs-folks-a-Islandi.
  2. Guðrún Hálfdánardóttir. Sept. 2018. Stofnuð á afmælisdegi Bergs Snæs. Morgunblaðið. https://www.mbl.is/frettir/burdargrein/2018/09/17/ stofnud_a_afmaelisdegi_bergs_snaes/.
  3. Sunna Valgerðardóttir. Sept. 2018. “Heppin” að greinast með fíkn. RÚV. http://www.ruv.is/frett/heppin-ad-greinast-med-fikn.
  4. World Health Organiization. 2018. World health statistics 2018, monitoring health for the sustainable developmetn goals (SDGs). http://apps. who.int/iris/bitstream/handle/10665/272596/9789241565585-eng. pdf?ua=1.
  5. Velferðarráðuneytið. Apríl 2018. Skrá um sykursýki og skimum fyrir sykursýki, tegund 2. https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile. aspx?itemid=ee9ae82d-447a-11e8-9428-005056bc4d74.

Stefanía G. Kristinsdóttir

Verkefnastjóri hjá SÍBS

Nýtt á vefnum