Greinar / 5. nóvember 2020

Áhrif sykurs á heilsuna

Einn af hverjum þremur fullorðnum er með skert sykurþol og of hátt hlutfall þeirra vita ekki af því. Hér verður stiklað á stóru er kemur að blóðsykri. Hvað er blóðsykur og hvernig er honum stýrt, hver eru einkenni þess að vera með of háan blóðsykur og hvað er hægt að gera í því?

Blóðsykur

Það að vera með hækkaðan blóðsykur og skert sykurþol þýðir að það er of hár styrkur sykurs í blóðinu og líkaminn hefur misst getu sína til að lækka sykurinn í blóðinu. Líkaminn þarf að viðhalda réttum styrk af blóðsykri til að virka sem skyldi. Ef blóðsykur lækkar of mikið getur fólk fallið í yfirlið og ef blóðsykur er of hár í langan tíma þá hefur það alvarlegar afleiðingar fyrir heilsuna. Frumur líkamans þurfa á orku að halda og einn aðal orkugjafinn er sykur (eða kolvetni), annar orkugjafi er fita, síðan eru prótein að mestu leyti notuð sem byggingarefni.

Styrkur sykurs í blóði stýrist af því sem þú borðar og kolvetnarík máltíð hækkar blóðsykur, annars sér lifrin um að viðhalda blóðsykri nægilega háum þegar að inntaka kolvetna er af skornum skammti. Í þeim tilvikum sem að blóðsykur helst of hár í langan tíma ná frumur líkamans ekki að taka upp sykur úr blóðinu. Þetta getur verið vegna þess að frumur líkamans skynja ekki merkin sem eru gefin til þess að taka upp sykurinn eða að merkin séu ekki til staðar.

Sykur3.JPG

Þegar blóðsykur hækkar í heilbrigðri manneskju þá sprauta beta-frumur sem staðsettar eru í brisinu hormóninu insúlíni inn í blóðið. Insúlín segir svo frumum líkamans að taka upp sykur úr blóðinu. Þegar blóðsykur lækkar of mikið sprauta alfa-frumur í brisinu hormóninu glúkagoni í blóðið sem skipar lifur að framleiða sykur fyrir blóðið til að viðhalda lífvænlegum og heilbrigðum blóðsykurstyrk.

Skert sykurþol

Þeir sem eru með sykursýki týpu 1 framleiða ekki insúlín því að ónæmiskerfið hefur ráðist á frumurnar sem framleiða insúlín. Frumur einstaklingsins geta þá ekki tekið upp sykur og þar af leiðandi er blóðsykur hár nema einstaklingurinn sprauti sig með insúlíni. Þeir sem eru með sykursýki týpu 2 eru aftur á móti ónæmir fyrir insúlíni. Með öðrum orðum skynja frumurnar ekki merkjasendinguna um að taka upp sykurinn og þar af leiðandi er blóðsykur hár. Þessir einstaklingar eru með hátt insúlínviðnám. Til að byrja með er insúlínframleiðslan aukin til að styrkja merkjasendinguna en á endanum verða frumurnar sem framleiða insúlín þreyttar og deyja. Þeir sem hafa verið með sykursýki týpu 2 í langan tíma eiga á hættu að missa getuna til að framleiða insúlín og þá þurfa þeir að sprauta sig með insúlíni svipað og þeir sem eru með sykursýki týpu 1.

Þú getur látið mæla blóðsykurinn þinn hjá heimilislækninum þínum. Annars er líka hægt að láta mæla Hba1c sem er mæligildi í blóði sem gefur til kynna styrk blóðsykurs yfir 2-3 mánuði. Einkenni sem gefa til kynna háan blóðsykur eru m.a. aukinn þorsti, tíð þvaglát, þreyta, sjóntruflanir, sár sem gróa hægt, aukin tíðni sýkinga og hausverkir. Ef þú finnur fyrir þessum einkennum er ráðlagt að panta tíma hjá heimilislækni.

Sykursýki týpa 2 er stórt vandamál og eru nú um 25-30% þeirra sem eru yfir 45 ára með sjúkdóminn. Þetta eru sláandi háar tölur miðað við hvað áður var. Sykursýki týpa 2 var áður fyrr eingöngu vandamál hjá fullorðnum en í dag er því miður hlutfall barna með sykursýki týpu 2 að hækka hratt.

Helstu orsakir sykursýki týpu 2

Það að vera of þungur setur einstakling í aukna áhættu á sykursýki týpu 2. Þeir sem eru í kjörþyngd geta samt sem áður þróað með sér skert sykurþol og sykursýki. Þeir sem að geyma fitu að mestum hluta á magasvæði og þá sérstaklega í kviðarholi undir magavöðvum eru í áhættuhópi, sama hvort sem þeir séu í kjörþyngd eða yfirþyngd, en rannsóknir benda til þess að minni áhætta fylgi því að geyma fituforða á mjöðmum og lærum. Lítil hreyfing eykur líka áhættu á slæmri stjórn á blóðsykri en líkamsrækt eykur getu líkamans til að taka upp blóðsykur. Annars spila erfðir líka hlutverk og ef náinn fjölskyldumeðlimur hefur greinst með sykursýki aukast líkur þínar á að greinast með sykursýki. Aldur spilar líka þátt en tíðni eykst með hækkandi aldri.

Hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir og/eða meðhöndla sykursýki týpu 2?

Það er engin fullkomin lækning við sykursýki en með því að breyta um lífstíl og/eða fara á sykursýkislyf er hægt að snúa sjúkdóminum við og ná stjórn á blóðsykrinum. Þeir sem eru ekki komnir með greinda sykursýki en eru með forstig sjúkdómsins eiga mestar líkur á að ná fullum bata og koma í veg fyrir afleiðingar sykursýki. Best er að forðast einföld kolvetni s.s. sætabrauð og nammi sem innihalda mikinn sykur en velja frekar mat sem er með lágan kolvetnisstuðul s.s. hafrar, grænmeti og sumir ávextir. Annars er líka hægt að fara alla leið og sleppa kolvetnum og fara á svokallað ketó-mataræði en þar eru kolvetni höfð í algjöru lágmarki og mataræðið nánast eingöngu byggt á fitu og próteinum. Langtíma ketó mataræði getur samt skert getu líkamans til að meðhöndla sykur og kolvetni úr fæðunni en þetta mataræði hefur samt reynst mjög vel til þess að ná stjórn á of háum blóðsykri. Hreyfing og líkamlegar æfingar hjálpa líka við að stjórna blóðsykri en þegar við hreyfum okkur taka vöðvar upp blóðsykur. Best er að ná góðri líkamlegri æfingu þar sem hjartað nær að slá aðeins hraðar í 30–60 mín á dag, þessum mínútum má dreifa yfir daginn en þá má líka hafa í huga að tíminn sem þarf til að ná árangri styttist eftir því sem hreyfingin eða æfingin er erfiðari.

Hverjar eru mögulegar afleiðingar þess að vera með slæm stjórn á blóðsykri?

Slæm blóðsykurstjórn og sykursýki er oft einkennalítil til að byrja með og auðvelt að hrista af sér sem almennur slappleiki. Sykursýki getur samt með tímanum verið stórhættuleg enda getur þessi sjúkdómur haft áhrif á flest líffæri líkamans, þ.á.m. taugar, augu, hjarta, æðar og nýru. Með því að ná stjórn á blóðsykrinum minnka líkur á alvarlegum fylgikvillum. Algengir fylgikvillar sykursýki týpu 2 eru hjarta og æðasjúkdómar, sjónmissir, taugaskemmdir og ógróandi sár sem leiða af sér aflimanir, heyrnaskerðingu og kæfisvefn. Einnig aukast líkur á krabbameinum og Alzheimer. Það er því til mikils að vinna fyrir heilsuna að ná góðri stjórn á blóðsykrinum.

Lilja Kjalarsdóttir

Doktor í líflæknisvísindum

Nýtt á vefnum