Greinar / 22. febrúar 2017

Hvar eru forvarnirnar?

„Follow the money“ er aðferðafræði sem hentar í fleiru en glæparannsóknum eða bíómyndum. Að fylgja peningaslóðinni getur gagnast vel í heilbrigðismálum þegar að því kemur að greina hvar best er að verja fjármunum. Því seinna sem gripið er inn í sjúkdómsferli því dýrari verður íhlutunin, en samt er hægt að íhluta of snemma og á of stóra hópa til að sparnaðurinn svari kostnaði.

Þegar við skoðum hagtölur kemur í ljós að hver Íslendingur stendur fyrir rúmlega sjö milljóna króna vergri landsframleiðslu á ári. Hvert mannár sem glatast vegna ótímabærs dauða, örorku eða skerðingar af völdum lífsstílstengdra sjúkdóma kostar því samfélagið þessa sömu fjárhæð: sjö milljónir króna. En hverju mætti áorka fyrir þessa fjárhæð?

Það væri til dæmis hægt að kosta skimun og heilsufarsmælingu á allt að fimm þúsund manns í verkefninu SÍBS Líf og heilsa, þar sem SÍBS fer um landið og býður almenningi ókeypis mælingu á blóðþrýstingi, blóðfitu, blóðsykri og súrefnismettun. Sett fram á annan hátt má segja að ef við forðum einum einstaklingi frá 20 ára heilsuleysi eða ótímabærum dauða með slíkri skimun, gætum við mælt allt að 100 þúsund einstaklinga fyrir þá peninga sem samfélaginu sparast.

Heilsufarsskaði Íslendinga nemur 420 milljörðum á ári sé miðað við verga landsframleiðslu á mann og „glötuð góð æviár“ eins og þau eru mæld af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni. Heilsufarsskaðinn samsvarar því 19% af vergri landsframleiðslu Íslendinga. Fyrir hvert prósentustig sem tækist að minnka heilsufarsskaðann um áynnust þannig 4,2 milljarðar króna.

Nú blasir við að spyrja hvað væri hægt að gera fyrir 4,2 milljarða króna, sem mögulega gæti skilað 1% árangri í baráttunni við sjúkdómsbyrði þjóðarinnar?

Það mætti til dæmis niðurgreiða 16 vikna ítarlegt námskeið um heilsufar og lífsstíl fyrir 100 þúsund Íslendinga á ári. Það mætti verja einni milljón króna í sérsniðna íhlutun fyrir hvern Íslending sem t.d. yrði fertugur á árinu. Það væri hægt að sextíufalda framlög velferðarráðuneytisins til frjálsra félagasamtaka á sviði heilbrigðismála. Tölurnar eru yfirgengilegar.

Vissulega þarf að rannsaka betur virkni íhlutunar á borð við þá sem að ofan er lýst áður en ákvarðanir eru teknar. Það blasir þó við að meðan útgjöld til beinna forvarna eru aðeins um 1% af heildarútgjöldum til heilbrigðismála er einhvers staðar pottur brotinn. Það er verkefni SÍBS og annarra sem starfa að forvörnum að finna leiðir til að bæta þar úr.

Guðmundur Löve

Framkvæmdastjóri SÍBS

Nýtt á vefnum