Greinar / 6. febrúar 2013

Vetrartími styttir skammdegið

Síðan 1968 hefur klukkan á Íslandi verið stillt á sumartíma allt árið. Sumartími gefur okkur bjartari kvöld á sumrin, en á veturna styttist birtutíminn á morgnana um rúmar sex vikur, vegna þess að við færum ekki klukkuna aftur yfir á vetrartíma.

Á Íslandi er óvenjumikill munur á klukkunni og raunverulegum sólartíma. Þegar sólin er í hádegisstað er klukkan orðin hálftvö í Reykjavík, og því birtir um 1½ tíma seinna hjá okkur en í löndum sem stilla klukkuna rétt miðað við sólartíma. Þetta kemur ekki að sök á sumrin, því þá er sólin snemma á lofti hvort sem er og sumartíminn gefur okkur bjartari kvöld. En á veturna horfir öðruvísi við: Skammdegið hellist yfir okkur þremur vikum of snemma og sleppir tökunum þremur vikum of seint, af því við erum á sumartíma allt árið.

Gjörvöll Norður-Ameríka og Evrópa aðgreina sumar- og vetrartíma, að undanskildu Rússlandi, Hvíta-Rússlandi og Íslandi. Í Evrópu hefst sumartími síðasta sunnudag í mars og lýkur síðasta sunnudag í október. Þótt við innleiddum vetrartíma á evrópska vísu yrði klukkan á sumrin auðvitað óbreytt frá því sem nú er: Sólarupprás í aprílbyrjun er laust fyrir kl. 7 og birting tveimur tímum fyrr, og í októberlok er fyrsta skíma kl. rúmlega 7 en sólarupprás kl. 9. Daginn sem vetrartími gengi í garð yrði birting hins vegar kl. rúmlega 6 og sólarupprás kl. 8 og þannig frestuðust hinir myrku morgnar að hausti um 3 vikur. Meðan vetrartími væri við lýði yrði birting aldrei seinna en kl. 8 í stað þess að nú kemur fyrsta skíma kl. 9 yfir dimmasta mánuðinn.

Þeir fáu klukkutímar af dagsbirtu sem við fáum á veturna nýtast illa sem stendur, þegar ekki birtir fyrr en eftir kl. 9 og aldimmt er orðið kl. 18. Börnin okkar þurfa að ganga í skólann í myrkri, og mesta morgunumferðin á sér stað löngu fyrir birtingu. Hvort aldimmt er orðið kl. 17 eða 18 þennan dimmasta mánuð skiptir flesta líklega minna máli heldur en að geta komist af stað á morgnana í sæmilega björtu eða vakna í birtu.

Líkamsklukkan er líffræðilegur dægurtaktur sem meðal annars lýsir sér í sveiflum í svefnhormóninu melatóníni, líkamshita, blóðþrýstingi og fleiri breytum. Líkamsklukkan stillir sig af eftir birtutímanum, svo það veldur togstreitu þegar staðarklukkan gengur ekki í takt við birtutímann. Þessu má líkja við þotuþreytu eftir ferðalög milli tímabelta, nema hvað þetta ástand er viðvarandi hjá okkur Íslendingum yfir vetrartímann.

Ef við slökum á þessari togstreitu milli líkamsklukkunnar og íslensku klukkunnar yfir veturinn getur það bætt líðan okkar og lagað svefnvenjur, en jafnvel einnig sparað okkur útgjöld í heilbrigðiskerfinu. Þótt ástæður þess hafi ekki verið rannsakaðar, nota Íslendingar margfalt meira af svefnlyfjum og þunglyndislyfjum en nágrannaþjóðirnar.

Með innleiðingu vetrartíma værum við alltaf 2 klst. á eftir Evrópu og klukkustund nær Ameríku yfir veturinn. Tölvur og símar kunna núorðið að stilla sig sjálfkrafa eftir tímabelti, svo lítið vandamál er að breyta klukkunni tvisvar á ári. Þá hefur tölvupóstur tekið yfir bróðurpartinn af öllum viðskiptasamskiptum við útlönd og óþarfi að hafa áhyggjur af slíkum sjónarmiðum, sem eitt sinn voru uppi.

Að öllu samanlögðu erum við að fórna meiri hagsmunum fyrir minni með sumartíma allt árið hér á landi.

Guðmundur Löve

Framkvæmdastjóri SÍBS

Nýtt á vefnum