Greinar / 1. júní 2014

Að viðhalda góðum árangri

Segjum að ég hafi áhuga á að breyta um lífsstíl. Hvað geri ég næst? Hvað vil ég gera? Af hverju vil ég breyta um lífsstíl? Þú hefur svarið. Hugarfarið stjórnar ferðinni. Þar ert þú við stjórnvölinn. Ef þú tekur þá ákvörðun að standa með þér, skoðar þínar aðstæður og leitar lausna, færð aðstoð til að komast af stað, þá er ekkert sem kemur í veg fyrir að þú náir árangri. Nú er komið að því að skoða stöðuna, setja markmið og hefjast handa.

Markmiðssetning er lykill að árangri

miroslav-Blu06wJQ4Cs-unsplash.jpg

Ef þú veist ekki hvert þú vilt fara gætir þú jafnvel endað einhvers staðar annars staðar er gjarnan haft á orði. Þú hefur þinn töfrasprota, pennann. Það er ótrúlega öflugt að skrifa niður það sem þú ætlar að gera, jafnvel þótt þú vitir þetta allt saman. Ef orðalagið er eitthvað að vefjast fyrir þér þá skrifar þú bara stikkorð til að byrja með.

Það er enginn sem endist í að gera eitthvað sem hann skilur ekki af hverju hann er að gera. Hverjar eru þínar ástæður til lífsstílsbreytinga? Skrifaðu þær niður. Þegar tíminn líður og það fer að dofna yfir þínum góðu áformum er mjög gott að draga fram blaðið þar sem þú skrifaðir niður af hverju þú ert að leggja þetta á þig.

Markmiðin þurfa að vera raunhæf

Fátt er eins niðurbrjótandi og að ná ekki settum markmiðum á sama hátt og það er hvetjandi að ná settum markmiðum. Setjum frekar hógværari markmið og upplifum sigurinn við að ná þeim. Það má alltaf bæta við. Þegar þú setur markmið verður þú að vera viss um að þau feli í sér breytingar hjá þér en ekki einhverjum öðrum. Þú þarft að hafa stjórn á því sem þú ert að gera.

Hægt er að setja almenn markmið eins og að öðlast betri heilsu. Síðan þarf að setja undirmarkmið sem taka til þess sem þú þarft að gera til að ná þínu markmiði, svo sem auka hreyfingu og borða meira grænmeti. Enn þarf að vanda markmiðssetninguna því þau þurfa að vera nákvæmari. Góð markmið eru SMART: Sértæk, Mælanleg, Aðgengileg, Raunhæf og Tímasett.

Þannig gæti markmiðið um aukna hreyfingu verið að ganga í 30 mínútur í senn þrisvar í viku, mánudaga, miðvikudaga og föstudaga strax eftir vinnu. Markmið um að borða meira grænmeti gæti verið framkvæmt með því að borða alltaf salat á undan hádegismatnum í mötuneytinu.

Hvað gæti hindrað þig í að gera það sem þú vilt gera? Hvernig getur þú minnkað þessar hindranir? Aftur er það penninn, skrifaðu niður hvernig þú getur komist í gegnum þínar hindranir. Stundum líður manni ekki vel þegar komið er að hindruninni og engar hugmyndir að lausnum eru til staðar. Þá er gott að draga fram blaðið með mögulegum lausnum sem maður getur gengið beint að. Þannig getum við forðast að falla í sama farið og við vorum í áður en við fórum af stað í breytingarferlið.

Markmið þurfa sífellt að vera í endurskoðun

Gefðu þér tíma til að ná fram þessum breytingum. Það er mjög algengt að sjá óraunhæfan tímaramma breytinga. Sýndu þér umburðarlyndi. Þetta tekst ekki allt í fyrsta skipti. Gott er að temja sér að setja alltaf markmið um jákvæða hegðun en ekki neikvæða eða „ekki setja ekki markmið“. Markmiðið hefjist frekar á: „Ég ætla að byrja að gera þetta,“ í stað þess að það sé: „Ég ætla að hætta þessu.“ Yfirleitt gengur betur að ná markmiði eins og að auka grænmeti í mat í stað þess að banna sér að borða sælgæti. Því meira gott sem kemur inn, því minna pláss er fyrir óhollustuna. Slæmu siðirnir fjara út án þess að vera nokkurn tíma bannvara og breytingaferlið verður bæði léttara og ánægjulegra.

Erla Gerður Sveinsdóttir

Heimilislæknir og lýðheilsufræðingur

Nýtt á vefnum