Greinar / 18. júní 2020

Vellíðan og hamingja á umbrotatímum

Heimsfaraldurinn sem herjar nú á heimsbyggðina hefur haft mikil áhrif á daglegt líf. Samkvæmt nýlegum Þjóðarpúlsi Gallup hafa Íslendingar miklar áhyggjur af heilsufarslegum áhrifum kórónuveirunnar og enn meiri áhyggjur af efnahagslegum afleiðingum hennar. Kvíði og áhyggjur eru eðlileg og sammannleg viðbrögð við þeim fáheyrðu aðstæðum sem við erum að upplifa í dag. En hvernig getum við stuðlað að vellíðan og hamingju á þessum umbrotatímum? Hér fyrir neðan eru lesendum færð góð ráð og nokkrar gagnlegar æfingar.

Takmörkum fréttainntökuna

Bruni.JPG

Þó að gott sé að vera upplýstur um stöðu mála horfa margir á alla fréttatíma og fylgjast grannt með umræðunni á samfélagsmiðlum, en þar er mikið fjallað um kórónuveiruna og neikvæðar afleiðingar hennar. Auk þess virðast falsfréttir vera að dreifast næstum því jafn hratt um heimsbyggðina og veiran sjálf. Sumir hafa í þessu samhengi rætt um staðleysufaraldur. Fjölmiðlanefnd Noregs komst sem dæmi að því að 45% allra falsfrétta þar í landi varða Covid-19. Þessi stanslausu áreiti geta skapað kvíða. Heilinn okkar er þannig forritaður að hann einblínir frekar á hættur og neikvæðar fullyrðingar en jákvæða hluti. Það eru því slæmu fréttirnar og dómsdagsspárnar sem fá mestu athyglina. Sálfræðingar hafa kallað þetta neikvæðniskekkjuna (e. negativity bias). Það eru nokkur atriði sem við getum gert við ofgnótt neikvæðra frétta. Í fyrsta lagi getum við kúplað okkur frá niðurdrepandi fréttalestri og -áhorfi eða dregið alla vega stórlega úr því þótt ekki væri nema tímabundið.

Í öðru lagi getum við breytt viðhorfi okkar með því að sækja meira í jákvæðar fréttir og sneiða fram hjá þeim neikvæðu. Það hafa verið margar jákvæðar fréttir sem hafa sýnt samstöðu Íslendinga. Í upphafi faraldursins gáfu góðhjartaðir einstaklingar Landspítalanum öndunarvélar, jörðin hefur fengið kærkomna hvíld vegna þess að dregið hefur úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda, í samkomubanninu héldu íslenskir listamenn tónleika í beinni útsendingu viku eftir viku. Svo má ekki gleyma því að ferðaþjónustuaðilar um allt land eru þessa dagana með frábær tilboð til að hvetja okkur að sækja Ísland heim. Stofnað var vefsvæðið alltgott.is sem birtir bara jákvæðar fréttir. Auk þess eru margar fésbókarsíður þar sem eru eingöngu birtar jákvæðar fréttir, eins og Björtu hliðarnar, Látum góðverkin ganga og Hrós dagsins, til að nefna bara nokkrar. Reynum að hleypa því góða inn.

Í þriðja lagi getum við sett okkur markmið um að deila aðeins jákvæðum fréttum, t.d. á samfélagsmiðlum. Rannsóknir hafa sýnt að það að lesa jákvæðar færslur annarra eykur hamingju hjá 64% lesenda.

Í fjórða lagi er líka mikilvægt að láta faraldurinn ekki yfirtaka öll samtöl. Starfsmaður Hrafnistu tók í þeim tilgangi upp á því að lesa upp úr árbókum Ferðafélags Íslands og hefur gert upptökur af lestrinum aðgengilegar. Með því vonar hann að umfjöllunin verði grundvöllur að símtali til eldra fólks um eitthvað annað en faraldurinn.

Skiljum og viðurkennum tilfinningar okkar

Augnablik.JPG

Það er gagnlegt að gefa sér tíma til leiða hugann að eigin líðan, til dæmis með því að halda dagbók, tala við aðra, gera eitthvað skapandi eða iðka hugleiðslu. Með því að viðurkenna og nefna tilfinningar sínar verður auðveldara að samþykkja það sem við getum ekki stjórnað og einbeita okkur að því sem við getum stjórnað. Um leið og við skiljum hvað við erum að upplifa getum við reynt að finna leiðir til að bregðast við tilfinningunum.

Ef áhyggjurnar verða yfirþyrmandi er góð hugmynd að taka frá daglegan „áhyggjuhálftíma“. Aðferðin, eins mótsagnarkennd og hún hljómar, virkar raunverulega samkvæmt rannsóknum í hugrænni atferlismeðferð. Á áhyggjuhálftímanum er gott að skrifa niður allt sem maður hefur áhyggjur af og spyrja sig síðan spurninga eins og: „Eru þessar hugsanir gagnlegar eða gagnslausar?,“„Hvað get ég gert til að takast á við þær?,“ og „Hverjar eru líkurnar á að það sem ég hef áhyggjur af gerist?“ Að beina áhyggjunum inn á þennan hálftíma hjálpar okkur við að vera meira í núinu hinar klukkustundir sólarhringsins.

Samþykkjum það sem við höfum ekki stjórn á

Að samþykkja það sem maður getur ekki stjórnað er viðhorf sem dregur verulega úr áhyggjum. Það er svo margt sem við getum ekki stjórnað. Við getum sem dæmi ekki stjórnað því fullkomlega hvort við fáum kórónuveiruna, hversu lengi faraldurinn muni geisa eða hvort hann muni blossa upp aftur. Við stjórnum því heldur ekki hvernig aðrir hegða sér og hvort allir fari eftir tilmælum Almannavarna hverju sinni. Að hafa áhyggjur breytir engu auk þess sem margar áhyggjur reynast óþarfar og óraunhæfar. Staðreyndin er að stærsti hlutinn af því sem við höfum áhyggjur af gerist ekki. Gott er að spyrja sig spurninga eins og:

  • Hvað get ég haft áhrif á?
  • Hvaða aðferðir hafa nýst mér við að takast á við krefjandi aðstæður eða óvissutíma áður?
  • Er eitthvað gagnlegt eða jákvætt sem ég get gert núna?

Við getum t.d. gert ráðstafanir til að draga úr áhættu á að við smitumst, með því að þvo hendurnar oft með sápu, nota handspritt, forðast að snerta andlitið og virða nálægðartakmörk. Að einblína á það sem hægt er að stjórna dregur úr áhyggjum. Að verja ekki óþarfa orku í hugsanir um framtíðina bætir andlega líðan.

Veljum athafnir okkar og fókus

Njota.JPG

Ofurkrafturinn sem við búum yfir er að á hverju augnabliki getum við valið það sem við gerum og kjósum að veita athygli. Eins og lífsráðgjafinn Guðni Gunnarsson segir: „Allt sem við veitum athygli vex og dafnar.“ Allt sem við nærum, veitum athygli og leggjum metnað og vinnu í, vex og dafnar, hvort sem það er það sem við viljum eða viljum ekki. Ef við hugsum t.d. mikið um það sem við viljum ekki, stækkar það í huganum.

Í stað þess að beina athyglinni að áhyggjum, áskorunum og vandamálum er gott að vera virkur, gera jákvæða hluti og einbeita sér að uppbyggilegum hlutum í lífinu, eins og t.d. samveru með fjölskyldunni, áhugamálum, hreyfingu úti í náttúrunni, uppbyggilegum lestri eða góðri tónlist. Gerum eitthvað sem veitir okkur orku og ánægju, hvort sem það er handverk, að prófa nýja uppskrift eða púsluspil. Byrjum fund með vinnufélögunum á því að deila einhverju jákvæðu. Þegar við veitum góðum hlutum athygli, fáum við meira af þeim.

Breytum þeim sögum sem við segjum

Að breyta þeim sögum sem við segjum er aðferð sem hægt er að nota til að breyta viðhorfi okkar gagnvart aðstæðunum sem við erum í með því að breyta merkingu þeirra. Í stað þess að hugsa „þetta eru ógnvekjandi tímar“, gætum við hugsað „þessir krefjandi tímar eru bara tímabundnir og ég mun komast í gegnum þá“. Í stað þess að hugsa „ég verð föst á þessu skeri í sumar“ reynum þá frekar að hugsa „ég hlakka til að vera túristi í eigin landi“.

Þegar við forðumst að dæma aðstæður komumst við hjá því að merkja það sem við upplifum sem „gott“ eða „slæmt“. Hlutirnir einfaldlega eru og við göngumst við þeim nákvæmlega eins og þeir eru. Án dóma erum við færari um að velja hugsanir okkar, tilfinningar og athafnir. Ástandið í dag er frábært tækifæri til að æfa sig í að halda aftur af dómum.

Hluti þess að breyta sögunum er að velta fyrir sér hverjar séu jákvæðar afleiðingar faraldursins. Að verja meiri tíma með fjölskyldunni og skapa góðar minningar? Að kunna að meta heilsuna í stað þess að taka henni sem sjálfsögðum hlut? Að einbeita sér meira að hreyfingu og hollu mataræði? Að fá tækifæri til að hægja á sér og endurmeta líf sitt?

Setjum hlutina í samhengi

Það er gott er að átta sig á því að við erum ekki ein á báti. Margir standa frammi fyrir stærri áskorunum en við sjálf og eru sem dæmi í áhættuhópi fyrir veirunni eða hafa misst ástvini vegna hennar. Sumir hafa misst vinnuna eða fyrirtækin sín. Svo ekki sé minnst á fólkið í flóttamannabúðunum þar sem nándin er mikil og takmarkaðir möguleikar á að þvo sér um hendurnar og nota handspritt. Á meðan höfum við sjálf kannski aðeins þurft að breyta ferðaáætlunum eða flytja vinnustöðina heim tímabundið. Rannsóknir hafa sýnt að það að bera sig saman við fólk sem hefur það verr eykur jákvæðar tilfinningar, dregur úr neikvæðum tilfinningar og eykur bjartsýni gagnvart framtíðinni.

Það er hollt að reyna að setja sig í spor annarra og skilja hvað aðrir eru að upplifa. Þrátt fyrir þessa tímabundna erfiðleika sem við erum að ganga í gegnum megum við ekki gleyma því hversu lánsöm við erum að búa á Íslandi þar sem er þrátt fyrir allt gott heilbrigðiskerfi og framvarðasveit sem stjórnar málum af festu. Við höfum líka alla burði til að vinna okkur út úr þessari kreppu. Lítum í kringum okkur, setjum hlutina í samhengi og áttum okkur á því hversu heppin við erum.

Ræktum félagsleg tengsl

Rannsóknir í jákvæðri sálfræði hafa sýnt að góð og gefandi tengsl við aðra gefa lífinu gleði og innihald og hafa sterk jákvæð tengsl við hamingju og vellíðan. Nýlega hafa margir þurft að flytja vinnustöðina heim. Helsta áskorun slíkrar fjarvinnu snýr að félagslega þættinum. Fyrir marga er mikilvægur þáttur vinnunnar að hafa samskipti við kollegana. Á vinnustaðnum er félagsþörfum okkar uppfyllt, þar fáum við tilfinningalega næringu. Við eigum í stuttu spjall við vinnufélaga á ganginum eða við kaffivélina og hittumst síðan í hádeginu yfir matnum. Fólk sem situr í opnu rými er vant því að hugmyndir flæði, upplýsingaflæðið sé greitt og nóg um félagslegan stuðning.

Öll þessi samskipti gefa flestum heilmikið en þetta breytist þegar við vinnum heima. Það getur verið ögn einmanalegt að vinna heima. Þegar þekktur leikari var spurður um heimaveruna í viðtali um daginn brotnaði hann niður og sagðist sakna vinnufélaganna, að hitta fólk, aðra leikara, að hitta vini sína. „Þetta er fólkið sem er að fara mæta í jarðarförina mína.“

Hlúum vel að okkur sjálfum

Á þessum síðustu og verstu er áríðandi að hlúa vel að sjálfum sér og falla ekki í óheilsusamlegt mynstur. Mikilvægt er að borða heilsusamlegan mat og borða minna en venjulega. Þegar við vinnum heima þurfum við minni mat en þegar við erum meira á ferðinni.

Reglubundin hreyfingin er einnig mikilvæg fyrir andlega líðan. Þegar við hreyfum okkur framleiðum við endorfín, serótónín og dópamín, sem eru taugaboðefni sem auka vellíðan og vinna gegn kvíða og þunglyndi. Útivera og hreyfing er góð blanda. Njótum náttúrunnar, náum okkur í ferskt loft og smá sólarljós, sem er nauðsynlegt svo að líkaminn framleiði D-vítamín.

Svefn er okkur lífsnauðsynlegur en oft vanmetinn í nútímasamfélagi. Við spáum oft ekki nógu mikið í það hversu mikilvægt er að fá nægan, reglulegan gæðasvefn til að halda bæði andlegri og líkamlegri heilsu. Góður svefn hefur áhrif á skapið, einbeitinguna og afköstin. Gott er að slaka á áður en maður fer að sofa og forðast stórar máltíðir, koffín og áfengi fyrir svefninn. Þá er einnig mikilvægt að vera ekki í símanum eða tölvunni í a.m.k. klukkutíma fyrir háttinn, það gefur heilanum tækifæri til að fara í svefnstillingu.

Komum ró á hugann

Til að koma ró á hugann er gott að iðka núvitund, sem eykur hjá okkur vellíðan og kyrrð. Með því að koma auga á hugsanir sínar og færa athyglina markvisst að því sem er að gerast hér og nú, náum við að draga úr áhyggjum og „hvað ef“ hugsunum. Sannleikurinn er sá að við höfum aðeins þetta augna blik. Lífið gerist í núinu. Hægjum aðeins á okkur. Leyfum okkur að vera í stað þess að gera. Lærum að njóta í stað þess að þjóta. Uppvaskið er til dæmis frábær leið til að vekja skynfærin til vitundar. Taktu eftir hljóði vatsins þegar þú skrúfar frá krananum. Leyfðu höndunum að hreyfast í heita vatninu, taktu inn lyktina af uppþvottaleginum og handfjatlaðu hvern bolla og disk fyrir sig. Taktu eftir áferð og þyngd hlutanna og gefðu þér tíma til að hreinsa hvern hlut í fullri vitund.

Svo má líka nefna hugleiðsluæfingar til að koma ró á hugann en þær er m.a. að finna á síðu Núvitundarsetursins og í Happ appinu.

Notum styrkleika okkar

Eitt af því sem fræðimenn hafa beint sjónum sínum að síðustu ár eru styrkleikar fólks. Hvernig við getum komið auga á þá, skerpt sýn okkar á þá og nýtt þá til að auka vellíðan og verða hamingjusamari. Það er sérlega mikilvægt á þessum krefjandi tímum að nota styrkleika okkar í eigin þágu og annarra. Mismunandi styrkleikar geta komið fram við mismunandi aðstæður. Chris Peterson og Martin Seligman, sem þróuðu VIA-styrkleikaprófið sem mælir 24 styrkleika, komust sem dæmi að því að styrkleikar eins og þakklæti, von, kærleikur, leiðtogahæfni, ást, andleg viðleitni og hópavinna voru meira áberandi eftir hryðjuverkaárásina í New York árið 2001. Ætli það sama sé upp á teningnum núna á tímum kórónuveirunnar?

Með því að hlúa að styrkleikum okkar beinum við sjónum að því góða og fallega í okkar fari. Hér eru eru nokkrar hugmyndir að hagnýtum leiðum til að nota styrkleikana (styrkleikinn er skáletraður innan sviga):

  • Komdu nágrönnunum á óvart með köku sem þú bakaðir (kærleikur)
  • Sendu vinafólki eða kunningjum brandara eða myndband sem fær þá til að hlæja (húmor)
  • Horfðu á fólk dansa á Youtube eða TikTok og taktu þátt í stofunni (lífsorka)
  • Hlustaðu á fallega tónlist á meðan þú sinnir heimilisstörfum (að meta fegurð)
  • Gefðu þér 20-30 mínútur á dag til að lesa bók eða grein sem víkkar sjóndeildarhringinn (lærdómsfýsi)
  • Stígðu fram og taktu af skarið, t.d. með því að hefja söfnun fyrir góðu málefni (leiðtogahæfni)
  • Vertu vakandi fyrir líðan annarra, hlustaðu af athygli og bjóddu fram aðstoð (góðvild, félagsgreind)
  • Eldaðu nýja uppskrift í hverri viku eða notaðu hráefni sem þú hefur ekki notað áður (forvitni, sköpunargáfa)

Gerum góðverk

Lítið góðverk getur komið af stað keðjuverkun og hvatt aðra til að láta gott af sér leiða. Þeir sem þiggja góðmennsku hafa nefnilega tilhneigingu til að vilja bera hana áfram. Rannsóknir fræðimanna við Emory háskólann hafa leitt í ljós að þegar við sýnum annarri manneskju gæsku og kærleik örvast vellíðunar- og umbunarstöð heilans og gefur frá sér dópamín, sem er taugaboðefni sem framkallar ánægju og yljar hjartarótunum. Sálfræðingar hafa kallað þetta fyrirbæri „vímu gefandans“. Vellíðunartilfinningin er einnig afleiðing endorfína. Auk þess losar um oxýtósín, sem er hormón sem m.a. styrkir hjartað og eflir tilfinningabönd.

Hluti þess að upplifa vellíðan þegar við gefum af okkur er að við vitum að við lyftum upp anda einhvers. Að þiggja gjöf, fá aðstoð eða mæta hvetjandi brosi virkjar vellíðunar- og umbunarstöð heilans og það eru þessar jákvæðu tilfinningar sem halda keðjuverkuninni gangandi. Rannsókn við Harvard háskólann sem framkvæmd var 2007 leiddi í ljós að manneskja sem er nýbúin að upplifa góðmennsku er sæl og þakklát, sem gerir hana líklegri til að gefa af sér og sýna öðrum kærleik.

Áhrif góðmennsku geta verið það mikil að við þurfum ekki einu sinni að vera beintengd góðverkinu til að verða fyrir áhrifum af því. Það að verða vitni að góðverki framkallar tilfinningahæð og getur veitt okkur innblástur til að gefa af okkur. Góðmennska getur þannig ýtt undir fleiri góðverk.

Undanfarnar vikur höfum við orðið vitni að óteljandi góðverkum úti um allan heim, sem eru kærkomin á þessum krefjandi tímum. Látum þessa góðmennsku veita okkur innblástur og sýnum náungakærleik, velvild og vináttu, okkur sjálfum og samfélaginu til heilla. Góðverkið þarf ekki að vera stórt því það er hugurinn sem skiptir mestu máli. Það þarf oft lítið til að skapa ómælda gleði.


Örfáar hugmyndir að góðverkum

Blom.JPG
  • Haltu hurðinni opinni fyrir fólk sem heldur á pokum eða börnum.
  • Bjóddu þeim fyrir aftan þig í röðinni með fáa hluti í innkaupakerrunni að vera á undan.
  • Bjóddu börnum vina í bíó eða lautarferð svo að foreldrarnir geti slakað á.
  • Lærðu skyndihjálp. Þú veist aldrei hvenær þú þarft á því að halda.
  • Færðu nýbökuðum foreldrum kvöldmat.
  • Gefðu blóð – með því gætirðu verið að bjarga lífi.
  • Farðu í heimsókn á elliheimili til að spjalla við íbúa eða syngja fyrir þá.
  • Aðstoðaðu fólk í hjólastól eða með barnavagn upp eða niður tröppur.
  • Hrósaðu fyrir það sem vel er gert.

Höldum í húmorinn

„Dagur án hláturs er dagur sem fór til spillis“, sagði Charlie Chaplin. Læknisfræðilegar rannsóknir sýna að hlátur á sinn þátt í því að styrkja ónæmiskerfið og draga úr streitu þar sem hann minnkar losun stresshormóna. Þegar við hlæjum framleiðir líkaninn efni eins og dópamín sem hefur róandi áhrif og minnkar kvíða. Hlátur getur lengt lífið þar sem hann hefur góð áhrif á hjarta- og æðakerfið og örvar blóðflæðið í líkamanum. Hann bætir einnig minnið.

Húmor og hlátur virka sem nokkurs konar ventill eða bjargráð sem losar um spennu og veitir útrás fyrir bældum tilfinningum. Húmorinn hjálpar okkur við að takast á við erfiðleika með því að skapa ákveðna fjarlægð. Hann gefur okkur færi á að tjá tilfinningar okkar án þess að andrúmsloftið verði of spennuþrungið. Hlátur gerir það líka að verkum að við finnum fyrir betri tengslum við aðra.

Humor.JPG

Þrjú jákvæð inngrip

Út frá rannsóknum jákvæðrar sálfræði hafa verið þróuð ýmis inngrip eða æfingar sem hafa það að markmiði að stuðla að jákvæðum tilfinningum, jákvæðri hegðun og jákvæðum hugsunum. Dæmi um inngrip sem hafa gefið góða raun eru þakklætisæfingar, þrír góðir hlutir og þrír fyndnir hlutir

Þakklætisæfing

Þakklæti felur í sér að koma auga á og þakka fyrir hið sjálfsagða, það sem við höfum tilhneigingu til að taka sem gefnu. Þakklætisæfingin fer þannig fram að í lok dagsins skrifar maður niður þrennt sem maður er þakklátur fyrir og hver hafi verið þáttur manns í því.

Það eru margar góðar ástæður fyrir því að gott er að temja sér þakklátt lífsviðhorf. Reglulegar og meðvitaðar þakklætishugsanir auka jákvæðni, gleði, bjartsýni og vellíðan. Þakklæti stuðlar að því að við dveljum við og njótum jákvæðra upplifana og aðstæðna. Þakklætisæfingar gera okkur kleift að takast betur á við mótlæti auk þess sem þær styrkja samskiptin. Þakklæti fer þar að auki illa saman við neikvæðar tilfinningar eins og öfund, reiði og græðgi. Það að taka frá tíma til að þakka fyrir það sem maður er ánægður með og þakklátur fyrir eykur almenna ánægju með lífið.

Þrír góðir hlutir

Þessi æfing fer þannig fram að maður skrifar niður daglega og í eina viku þrjá góða hluti sem áttu sér stað yfir daginn og hver var þáttur manns í þeim.

Þessi æfing breytir hugsunum okkar þannig að í stað þess að einblína á það sem fór úrskeiðis einblínum við á það sem gekk vel en sem við tökum jafnvel ekki eftir. Ástæðan fyrir því að mikilvægt er að skrifa niður þátt manns í því sem gekk vel er að þetta beinir sjónum að því hvernig við getum haft áhrif á daglegar jákvæðar upplifanir. Við erum erum ekki sérlega minnug um góða hluti, jafnvel þó að við getum talið þá upp. Það að hugleiða þátt okkar í góðu hlutunum leiðir til dýpri hugsana.

Sýnt hefur verið fram á það með vísindalegum rannsóknum að þessi æfing eykur bæði vellíðan og dregur úr einkennum þunglyndis í sex mánuði á eftir. Margir þeirra sem prófa hana halda henni áfram. Þetta er frábær æfing til að gera við matarborðið á kvöldin.

Þrír fyndnir hlutir

Þessi æfing gengur þannig fyrir sig að maður skrifar niður daglega í eina viku þrjá fyndna hluti sem áttu sér stað yfir daginn og hver var þáttur manns í þeim. Rannsóknir hafa staðfest sterk tengsl milli húmors og lífsánægju. Húmor kalli fram gleði, sem er mikilvægur þáttur í jákvæðum tilfinningum og getur jafnframt veitt vörn gegn neikvæðum tilfinningum og upplifunum. Þessi æfing tengist tafarlausri og dýpri upplifun á jákvæðum tilfinningum, hlátri, brosi og aukinni glaðværð.

Hver er sinnar gæfu smiður

Geðlæknirinn Viktor E. Frankl, sem lifði af útrýmingarbúðir nasista, benti á það í bók sinni Leitinni að tilgangi lífsins að allt væri hægt að taka frá okkur nema eitt: frelsið til að velja viðhorf okkar í hvaða aðstæðum sem er. Við getum stjórnað því hvernig við kjósum að lifa frá degi til dags. Við berum sjálf ábyrgð á eigin vellíðan og hamingju. Hver er sinnar gæfusmiður.


Jákvæð sálfræði

Hund.JPG

Jákvæð sálfræði er vísindaleg nálgun sem sameinar á einn vettvang það sem rannsóknir hafa leitt í ljós á jákvæðum og heilbrigðum einstaklingum. Hún beinir sjónum sínum að jákvæðum þáttum mannlegrar tilveru eins og styrkleikum, vellíðan, velgengni, þakklæti, seiglu, dyggðum, von, jákvæðum tilfinningum, tilgangi, flæði, bjartsýni og hamingju. Hún veltir fyrir sér hvað einkennir vel starfhæfa einstaklinga sem ná á farsælan hátt að þroskast og aðlagast ólíkum aðstæðum í lífinu. Jákvæð sálfræði færir okkur hagnýtar og gagnreyndar aðferðir til að auka vellíðan. Hún skoðar einnig hvernig samfélagið og stofnanir þess geta aukið vellíðan þegna sinna.


Ingrid Kuhlman

Ráðgjafi og leiðbeinandi hjá Þekkingarmiðlun og með meistaragráðu í hagnýtri jákvæðri sálfræði frá Buckinghamshire New University

Nýtt á vefnum