Greinar / 15. febrúar 2022

Súkkulaðihúðuð hollusta?

Þegar ég held fyrirlestra um næringu fyrir unga íþróttafólkið okkar líki ég næringarefnunum oft við íþróttalið, þar sem hvert næringarefni hefur sitt sérstaka og mikilvæga hlutverk „á vellinum“.

Þegar við temjum okkur að borða fjölbreytta fæðu, í magni sem samræmist þörfum okkar, vinna þessir afreksmenn sem næringarefnin eru saman að því að styðja sem allra best við okkur og líkamann. Við þekkjum líka öll hvaða áhrif það getur haft á frammistöðu íþróttaliðsins, og jafnvel úrslitin, að lykilleikmaður fái rauða spjaldið eða sé af einhverjum ástæðum ekki leikfær. Það er einfaldlega mjög bagalegt að missa út liðsmann. Rétt eins og þjálfari sem þarf að velja úr og stilla upp leikmönnum, viljum við næra okkur þannig að við teflum fram okkar besta liði hverju sinni.

Hér gætu einhverjir sagt að það sé hægara sagt en gert og fleira en einlægur viljinn ráði för. Það kann vissulega að vera að það sem löngunin kallar á sé ekki endilega alltaf næringarríkasti kosturinn. Með öðrum orðum að það sé freistandi að stilla upp öðru liði en því sem er líklegast til að skila bestum árangri eða úrslitum. Inn í þá mynd þurfum við að taka þætti eins og matarsmekk, bragð, aðstæður og venjur okkar sem getur jú verið áskorun að breyta.

Hugmyndin um að skipta einu út fyrir annað, í stað þess að rýna í og vinna með venjur, er í eðli sínu öllu einfaldari. Þetta gerir fólk gjarnan með því að reyna að skipta vörum með viðbættum sykri út fyrir vörur sem innihalda sætuefni. Þar með fær þörfin fyrir sæta bragðið sínu framgengt án þess að haggað sé við heilsuhegðun og venjum að einhverju marki. Sætt kallar einnig á meira sætt sem getur haft áhrif á hvaða mat og/eða drykki við pörum saman, og þar með mataræðið í heild. Til að mynda getum við eflaust flest verið sammála því að svalandi kóladrykkurinn fari betur með næringarsnauðum skyndibita en soðna fiskinum.

Viðbættur sykur eða sætuefni

Viðbættur sykur er sá sykur sem er ekki náttúrulega til staðar í matnum okkar (líkt og í heilum ávöxtum og hreinum mjólkurvörum), heldur er bætt sérstaklega í matvörur við framleiðslu. Viðbættur sykur er ekki bara hvítur sykur, heldur einnig hunang, síróp, hrásykur, púðursykur og fjöldi annarra mögulegra sykurtegunda. Líkt og kveðið er á um í almennum ráðleggingum Embættis landlæknis um mataræði er æskilegt að takmarka magn viðbætts sykurs, sama hvaða nafni hann kallast, í fæðinu. Að einhverju leyti má segja að sú almenna vitneskja endurspeglist í síauknu úrvali sætra bita, stykkja og drykkja sem innihalda sætuefni í stað viðbætts sykurs. Svo til ósjálfrátt eru þeir kostir oft stimplaðir og jafnvel markaðssettir sem einhvers konar „heilsuvörur“.

Þá stendur eftir spurningin um hvað sé á bakvið stimpilinn eða fullyrðinguna á umbúðunum. Fyrir okkur sem neytendur er gott og gagnlegt að hafa þá spurningu bakvið eyrað þegar við handleikum t.d. súkkulaðihúðaðar próteinstangir, litskrúðugar „diet“ gos- og orkudrykkjadósir, og aðrar meintar heilsuvörur. Vel að merkja eru þetta oft mjög mikið unnir kostir. Þó sætuefni innihaldi gjarnan litla sem enga orku, ólíkt viðbætta sykrinum, má spyrja sig hversu næringarrík tiltekin vara er og þar með hversu vel hún sinnir okkar þörfum. Þegar grannt er skoðað má fá út þá niðurstöðu að æskilegast sé að horfa á mataræðið í heild, og velja sem oftast kosti sem innihalda lítið magn viðbætts sykurs og sætuefna. Án þess þó að falla fyrir svarthvítri hugsun um boð og bönn.

Hugsað langt eða skammt

Þó breyttar venjur fáist ekki í skrjáfpappír í næstu búðarhillu er þess virði að teygja sig eftir þeim í stað þess að falla fyrir skyndilausnum. Rétt eins og það getur borgað sig fyrir íþróttaþjálfarann að hugsa til framtíðar, og gefa ungum leikmönnum séns og tíma. Höfum hér hugfast að allt telur, hvort sem það er að grípa í ávöxt eða lófafylli af hnetum í stað kexköku sem millibita, gera innkaupalista áður en haldið er í búðina, elda sem oftast heima, raða því næringarríkasta á matarborðinu fyrst á diskinn, eða einfaldlega gefa sér tíma til að setjast niður og njóta matarins með fulla athygli. Róm var aldeilis ekki byggð á einum degi og sama gildir um heilsuvenjur sem eiga að endast.

Loks má nefna að næring og mataræði verður ekki aðskilið frá annarri heilsuhegðun, svo sem svefni og hreyfingu. Ef við erum vel sofin erum við líklegri til að næra okkur vel, og öfugt, og reglubundin hreyfing rammar þetta svo enn betur inn. Séum við illa sofin og þreytt erum við líklegri til að grípa í sæta bitann og næringarsnauða kosti, sem aftur getur haft mikil áhrif á afkastagetu og einbeitingu.

Birna Varðardóttir

Doktorsnemi í íþrótta- og heilsufræði, BSc næringarfræði, MSc hreyfivísindi og íþróttanæringarfræði

Nýtt á vefnum