Greinar / 11. október 2021

Reykjalundur – Í fararbroddi endurhæfingar

Reykjalundur fagnar 76 ára afmæli á þessu ári en það var 1. febrúar 1945 sem fyrsti sjúklingurinn var innritaður á Reykjalund. Heilbrigðisstofnunin Reykjalundur er eins og kunnugt er í eigu SÍBS en saga Reykjalundar og SÍBS er auðvitað gríðarlega merkileg og samtvinnuð sögu lands og þjóðar á þessum tíma. Það er ekki ætlunin að rekja þessa áhugaverðu sögu hér heldur veita lesendum innsýn í nútímann og horfa til framtíðar. Söguna þarf þó alltaf að umgangast af virðingu og nærgætni enda verður svona mögnuð og einstök starfsemi ekki til nema vegna hóps eldhuga sem hrífa enn stærri hóp með sér og nánast sannfæra samfélagið um að hægt sé að framkvæma kraftaverk, öðrum til heilla. Áhugasömum um söguna skal bent á SÍBS bókina frá árinu 1988 og Sigur lífsins sem gefin var út 2013.

Berklaveikin

Það er þó ekki hægt að fjalla um Reykjalund nema tengjast berklaveikinni aðeins. Berklar voru landlægir á Íslandi á fyrstu áratugum 20. aldarinnar og mjög erfiður sjúkdómur við að eiga. Þörf fyrir létta vinnu og sæmilegt húsnæði fyrir berklasjúklinga var mikil. Samband íslenskra berklasjúklinga var svo stofnað á Vífilsstaðahæli (eins og staðurinn hét þá) árið 1938. Í framhaldinu var ýmsum fjáröflunum komið á laggirnar. Aðeins sjö árum síðar, eða 1945, innritaðist fyrst vistmaðurinn eins og áður segir. Fyrstu 15 árin dvöldu aðeins berklasjúklingar á Reykjalundi en um 1960, þegar berklaveikin fór að láta undan síga, varð ljóst að ekki væri lengur þörf á endurhæfingu fyrir þennan sjúklingahóp í sama mæli og áður. Á næstu árum breyttist starfsgrundvöllur Reykjalundar og áhersla í endurhæfingu varð fjölbreyttari. Reykjalundur breyttist í alhliða endurhæfingarmiðstöð. Á síðustu árum hefur endurhæfingarstarfsemin verið samkvæmt þjónustusamningum við Sjúkratryggingar Íslands fyrir hönd ríkisins sem kaupanda þjónustunnar og er fjárhagsleg velta í kringum það um tveir milljarðar króna á ári. Nýbyggingar og stærra viðhald á húsnæði Reykjalundar er hins vegar að meginhluta fjármagnað með hagnaði frá Happdrætti SÍBS.

Stærsta endurhæfingarstofnun landsins

Sund2.JPG

Reykjalundur er stærsta endurhæfingarstofnun landsins og þjónar öllu landinu. Á Reykjalundi fer fram alhliða endurhæfing sem miðar að því að bæta lífsgæði, færni og sjálfsbjargargetu þeirra sem þangað leita. Endurhæfing Reykjalundar einkennist af samvinnu fagfólks sem mynda átta sérhæfð meðferðarteymi ásamt deildinni Miðgarði sem veitir sólahringsþjónustu. Einnig eru fjöldi gistirýma í boði fyrir fólk sem vegna landfræðilegrar eða annarra ástæðna geta ekki farið heim að lokinni meðferð á daginn. Markmið endurhæfingarinnar er að sjúklingar endurheimti fyrri getu sína eða bæti heilsu sína.

Um 110-130 sjúklingar sækja þjónustu á degi hverjum. Á hverju ári fara um það bil 1.300 manns í gegnum endurhæfingarmeðferð á Reykjalundi, flestir í 4-6 vikur í senn. Auk þess kemur fjöldi fólk í viðtal á göngudeild á hverju ári.

Mannauðurinn gegnir lykilhlutverki

Starfsemi Reykjalundar stendur og fellur með því fólki sem hjá Reykjalundi starfar. Reykjalundur hefur notið þeirrar gæfu að hafa haft á að skipa úrvals fólki í gegnum tíðina. Það er því óhætt að segja að mannauðurinn gegni lykilhlutverki í velgengni Reykjalundar og sé hornsteinn að markvissum og vönduðum vinnubrögðum ásamt því að skapa þægilegt og aðlaðandi andrúmsloft fyrir starfsfólk og sjúklinga. Reykjalundur hefur verið í efstu sætum í starfsánægjukönnunum árum saman. Starfsánægja hefur mælst mikil og starfsaldur er hár á íslenskan mælikvarða.

Á Reykjalundi starfa tæplega 200 starfsmenn í um 170 stöðugildum.

Hvað er endurhæfing?

Færnisalur2.JPG

Endurhæfing skiptir sköpum þegar kemur að líkamlegri og andlegri heilsu. Eftir alvarleg veikindi, slys, áföll eða aðgerð þá er mikilvægt að fá endurhæfingu til að hjálpa til við að ná aftur fótfestu í hversdagslegu lífi.

Læknisfræðileg endurhæfing er sérhæfð meðferð sem byggir á þeirri hugmyndafræði að taka heildrænt á afleiðingum sjúkdóma og slysa. Endurhæfingin byggir á samvinnu margra fagaðila, sjúklings og hans nánustu. Beitt er sálfræðilegum, líkamlegum og félagslegum aðferðum með það að markmiði að uppræta, minnka eða bæta fyrir skerðingu í færni og virkni sem sjúkdómur eða slys hafa valdið.

Endurhæfing er teymisvinna sem er einstaklingsmiðuð fyrir hvern sjúkling. Tekið er mið af getu hans og færni sem og persónulegum þáttum eins og menntun, fjölskyldu, búsetu, kyni, vinnu og fleira allt eftir því hvað er verið að vinna með. Mikil áhersla er lögð á fræðslu og þátttöku sjúklings. Lögð er áhersla á grunnþætti heilbrigðs lífs svo sem heilsusamlegt mataræði, reykleysi, hæfilega hreyfingu og góðan svefn.

Markmið endurhæfingarinnar er að bæta líðan og lífsgæði sjúklings og getu hans til að nýta sér ýmis bjargráð sem honum eru kennd.

Vettvangur þverfaglegrar samvinnu

Í upphafi voru aðeins læknar og hjúkrunarfræðingar starfandi á Reykjalundi. En fagfólki hefur fjölgað jafnt og þétt í gegnum árin. Meðal helstu fagstétta sem koma að beinni meðferð sjúklinga á Reykjalundi eru félagsráðgjafar, heilsuþjálfarar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, iðjuþjálfar, læknar, næringarfræðingar, sálfræðingar, sjúkraþjálfarar og talmeinafræðingar. Þessi einstaka samvinna ólíkra sérfræðinga er einmitt kynnt betur í öðrum greinum hér í blaðinu.

Saman vinnum við að betri líðan

Hjartað í starfsemi Reykjalundar er teymisvinna fjölbreytts hóps sérhæfðs heilbrigðisstarfsfólks sem mynda meðferðarteymi. Í meðferðarteymunum er sett upp einstaklingsmiðað endurhæfingarprógramm fyrir hvern og einn sjúkling sem miðar að því að bæta líkamlega getu og andlega og félagslega líðan. Misjafnt er hvernig endurhæfingu hver og einn þarf á að halda og því skiptir miklu máli að heilbrigðisstarfsfólk með ólíka sérfræðiþekkingu vinni saman að bættri líðan. Markmið teymisvinnu er að veita þverfaglega, heildræna meðferð byggða á gagnreyndri þekkingu. Áhersla er lögð á samtalsmeðferð, einstaklings- og hópmeðferð, fjölbreytta hreyfingu, námskeið og fræðslu.

Afar mikilvægt er að sjúklingurinn sé virkur í sinni endurhæfingu til að hún skili sér sem best.

Aðstaðan á Reykjalundi

Á Reykjalundi er fyrsta flokks aðstaða til endurhæfingar á öllum sviðum. Markmiðið er að hafa heimilislegt, vinalegt og þægilegt umhverfi svo öllum líði sem best. Á Reykjalundi er æfingatækjasalur, fullbúinn íþróttasalur, meðferðarstofur, vinnustofur, smíðaverkstæði, rými fyrir alls kyns handmennt, æfingaeldhús, fræðsluherbergi, slökunarsalur, hvíldarherbergi, setustofur, starfsendurhæfingar vinnustaður og tvær sundlaugar svo eitthvað sé nefnt. Á Reykjalundi eru tiltæk hvers kyns hjálpartæki til að aðstoða fólk með mismunandi líkamlega færni við daglega iðju.

Hollvinasamtök Reykjalundar

Hollvinasamtök Reykjalundar voru stofnuð árið 2013. Tilgangur samtakanna er að styðja við þá endurhæfingarstarfsemi sem fram fer á Reykjalundi í samráði við stjórnendur Reykjalundar. Fyrrum sjúklingar Reykjalundar og aðrir velunnarar stóðu að stofnun samtakanna og hafa þau gefið Reykjalundi gjafir fyrir rúmar 60 milljónir.

Allir eru velkomnir í Hollvinasamtökin. Skráning fer fram á heimasíðu Reykjalundar.

Einkahlutafélag um rekstur heilbrigðisþjónustu

Árið 2020 ákvað stjórn SÍBS að stofna einkahlutafélag um rekstur heilbrigðisþjónustu á Reykjalundi, Reykjalund endurhæfingu ehf. Samþykktir fyrir einkahlutafélagið Reykjalundur endurhæfing ehf. voru samþykktar á hlutahafafundi 15. maí 2020. Eigandi og eini hluthafi einkahlutafélagsins er SÍBS. Félagið er óhagnaðardrifið. Tilgangur þess er að reka heilbrigðisstofnun, sem hefur það hlutverk að veita alhliða endurhæfingarþjónustu ásamt því að sjá um rekstur fasteigna sem því tengist og eru nauðsynlegar til rekstrar heilbrigðisstofnunar. Í þessa fyrstu stjórn Reykjalundar endurhæfingar ehf. voru skipuð Anna Stefánsdóttir, hjúkrunarfræðingur, formaður, Gunnar Ármannsson, lögmaður, meðstjórnandi, Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri, meðstjórnandi og Arna Harðardóttir, sjúkraþjálfari, varamaður.

Reykjalundur í baráttunni gegn Covid

Síðustu mánuði hefur Reykjalundur starfað í skugga Covid-faraldursins sem hefur sannarlega sett mark sitt á daglegt líf í heiminum öllum. Það er óhætt að segja að við lifum á einstökum tímum í okkar samfélagi vegna þessa. Almennt er talið að Ísland hafi staðið sig mjög vel í baráttunni. Dánartíðni er mjög lág og samfélagslegar takmarkanir voru minni en í flestum nágrannalöndum. Samstaða allra hefur skipað veigamikinn sess í því sambandi. Reykjalundur ákvað strax að axla samfélagslega ábyrgð og taka þátt í baráttunni með því að stíga fram og leggja sitt lóð á vogarskálarnar. Hefur þetta bæði verið gert með Reykjalund sem virkan þátttakanda í umræðunni en ekki síður sem beinan þátttakanda í þjónustunni.

Í upphafi faraldursins gerðu Reykjalundur og Landspítali samning um að Reykjalundur myndi sinna endurhæfingu Covid-sjúklinga af Landspítala. Það voru sjúklingar sem lagst höfðu inn á spítalann vegna Covid-sýkingar og þurftu endurhæfingu til að geta útskrifast; komast á fætur og aftur út í hið daglega líf. Í annarri bylgju faraldursins var ætlunin að Reykjalundur myndi taka þátt í að létta á öldrunarmálum Landspítala. Það samstarf varð þó skammlíft þar sem upp kom hópsýking á Landakoti sem teygði sig hingað á Reykjalund þar sem smitaðir sjúklingar komu hingað frá Landspítala.

Nú í sumar var svo gerður þriðji samningurinn þar sem sólarhringsdeild Reykjalundar, Miðgarður, verður fram í febrúar 2022 nýtt fyrir sjúklinga sem flytjast beint frá Landspítala og fyrirsjáanlegt er að þurfi innlögn í sólarhringsþjónustu í allt að 6 vikur. Markmið samningsins er að auðvelda útskrift af Landspítala í tengslum við Covid faraldurinn.

Fljótlega eftir að Covid fór að smitast hófst umræða um eftirköst þeirra sem sýkst hafa af Covid og endurhæfingu þeirra. Þetta er hópur fólks sem sýkist en fær ekki endilega mikil einkenni, a.m.k. ekki það mikil að þurfa að leggjast inn á spítala. Hins vegar hafa borist margar beiðnir á Reykjalund um endurhæfingu þessa hóps þar sem fólkið glímir við einkenni löngu eftir smit. Reykjalundur hefur gert sérstaka samninga um þjónustu við þennan hóp eins og nánar er kynnt í annarri grein hér í blaðinu. Markmiðið er að þjónusta þennan hóp með það að markmiði að koma þeim aftur út á vinnumarkaðinn og út í lífið eins og hægt er.

Framtíðin - fjölmörg tækifæri!

„Þrátt fyrir að flestir telji heilbrigðisþjónustu vera einn af hornsteinum samfélagsins, er ljóst að fjármunir í heilbrigðismál eru og munu verða takmarkaðir. Vegna þess er mjög mikilvægt að nota þessa fjármuni með eins markvissum hætti og mögulegt er, með það að leiðarljósi að hámarka þjónustu og gæði. Mín skoðun er sú að endurhæfing og forvarnir séu vannýttur þáttur í því sambandi og við getum gert töluvert betur. Með fjölgun þjóðarinnar og vaxandi meðalaldri er nauðsynlegt að skoða og tileinka sér aukna þjónustu og nýja möguleika. Það eru mörg tækifæri og möguleikar í stöðunni í framtíðarsýn Reykjalundar og ég er spenntur að fá að leggjast á árar með starfsfólki að gera þetta að veruleika með hagsmuni samfélagsins að leiðarljósi.“

Þessi orð mælti undirritaður í blaðaviðtali þegar hann hafði verið nýráðinn til starfa á Reykjalundi um mitt ár 2020. Þátttaka Reykjalundar í Covid endurhæfingu er eitt dæmið um mikilvægi þess að Reykjalundur sé í takt við tímann og nýti sér þau fjölmörgu tækifæri sem eru í boði í endurhæfingarstarfi. Það þarf þó alltaf að gæta vel að því sem fyrir er og vel er gert, en einnig þarf að hafa kraft og hugrekki til að tileinka sér nýjungar. Það eru nánast endalausir möguleikar til að styrkja starfsemi Reykjalundar með nýjum verkefnum. Þau þarf auðvitað að velja vandlega en það er þó sannarlega ánægjulegt að líta til þess að þörfin fyrir Reykjalund er síst að minnka – okkar bíða fjölmörg tækifæri til endurhæfingar.

Pétur Magnússon

Forstjóri Reykjalundar

Nýtt á vefnum