Greinar / 5. nóvember 2019

Heilsa og hagsmunir þjóðar

Síðan 1968 hefur klukkan á Íslandi verið klukkustund of fljót miðað við sólartíma. Á veturna þýðir þetta lengra myrkurtímabil á morgnana þar sem skammdegið hellist yfir okkur þremur vikum of snemma og sleppir tökunum þremur vikum of seint. Líffræði manneskjunnar er þannig að morgunbirta er ráðandi fyrir dægursveifluna og svefninn.

Afleiðingar of fljótrar klukku eru sérstaklega slæmar fyrir unglinga. Við getum ekki stýrt líkamsklukkunni nema að mjög takmörkuðu leyti. Til dæmis er athyglisvert að sjá að unglingar á Austurlandi sofa að jafnaði lengur en unglingar á Vesturlandi því þar er sólartími um 40 mínútum seinni.

Betri svefn dregur úr alls konar heilsuvandamálum. Ef við seinkum klukkunni um eina klukkustund myndu allir njóta betri svefns því líffræðin okkar virkar þannig. Birting yrði þá aldrei seinna en kl. 8 en nú kemur fyrsta skíma kl. 9 yfir dimmasta mánuðinn.

Erla Björnsdóttir sálfræðingur útskýrir hvers vegna við erum með of fljóta klukku á Íslandi: „Þegar ákveðið var að festa klukkuna á Íslandi á sumartíma árið 1968 var það gert vegna viðskiptalegra hagsmuna og þegar rökin gegn leiðréttingu klukkunnar eru skoðuð eru þau yfirleitt viðskiptalegs eðlis en við sem tölum fyrir leiðréttingunni erum að tala útfrá lýðheilsufræðilegu sjónarmiði og höfum engra hagsmuna að gæta annarra en að bæta líðan og svefn þjóðarinnar. Þegar þessi ákvörðun var tekin 1968 vissi fólk ekki eins mikið um mikilvægi líkamsklukkunnar og dægursveiflunnar og vitað er í dag.“ (Læknablaðið, 1. tbl. 2018).

Erla segir áfram: „Of lítill og lélegur svefn hefur alls kyns neikvæð áhrif á bæði andlega og líkamlega líðan. Pirringur og vanlíðan fylgir strax í kjölfarið en svefnleysi til lengri tíma getur valdið kvíða og þunglyndi, aukningu bólguboðefna í blóðinu og þyngdaraukningu, hækkuðum blóðþrýstingi og óreglulegum sykurbúskap í líkamanum.“ Hún bendir á að íslenskir unglingar sofi aðeins um 6 tíma á virkum dögum samkvæmt rannsókn Embættis landlæknis meðan þeir þurfi í raun 8–10 tíma svefn og verið sé að gefa miklum fjölda barna á aldrinum 10–14 ára lyfseðilsskyld svefnlyf.

Með því að seinka klukkunni getum við ekki bara bætt heilsu og líðan landsmanna heldur einnig sparað þjóðfélaginu útgjöld á sviði heilbrigðismála. Áhrif of lítils svefns segja til sín víða í heilbrigðiskerfinu vegna áhrifa svefnleysis á kvíða, þunglyndi, blóðþrýsting og blóðsykur. Íslendingar nota til dæmis miklu meira af svefnlyfjum, þunglyndislyfjum og róandi lyfjum en nágrannaþjóðirnar.

Nóbelsverðlaunin í læknisfræði 2018 voru veitt vegna rannsókna á líkamsklukkunni sem er til staðar í öllum lífverum og er ráðandi fyrir svefn. Það ætti ekki að þurfa meira en Nóbelsverðlaun svo stjórnmálamenn ákveði að leiðrétta klukkuna á Íslandi.

Guðmundur Löve

Framkvæmdastjóri SÍBS

Nýtt á vefnum