Greinar / 18. júní 2020

Hagvöxtur og hamingja

„[Hagvöxturinn] mælir loftmengun og tóbaksauglýsingar og útköll sjúkrabíla vegna umferðarslysa. Hann telur öryggislásana á hurðunum okkar og fangelsin utan um fólkið sem brýtur þá. Hann mælir eyðingu skóga og óspilltrar náttúru sem lögð er undir úthverfaflæmi. Hann telur eldvörpur og kjarnaodda og brynvarða bíla fyrir lögregluna til að kveða niður uppþot í borgunum okkar. Hann telur [morðvopn] og sjónvarpsþætti sem hefja ofbeldi á stall til að selja börnunum okkar leikföng. [Hagvöxturinn] mælir hins vegar ekki heilsu barnanna okkar, gæði menntunar þeirra eða leikgleði. Hann mælir ekki fegurð ljóða okkar eða styrk hjónabanda okkar, innihald þjóðfélagsumræðu eða heilindi kjörinna fulltrúa. Hann mælir hvorki skopskyn okkar né hugrekki, hvorki visku okkar né lærdóm, hvorki samkennd okkar né hollustu við land og þjóð, í stuttu máli mælir [hagvöxturinn] allt annað en það sem gerir lífið þess virði að lifa því.“

Svona fórust Robert F. Kennedy orð í þrumuræðu sem hann hélt blaðlaust í University of Kansas þann 18. mars 1968 sem öldungardeildarþingmaður og forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum. Robert F. Kennedy lést þann 6. júní 1968 eftir að hafa verið skotinn með byssu sem taldist til hagvaxtar þegar hún var seld.

Þótt orð Kennedys um hagvöxt séu með nokkurri einföldun þá mælir hagvöxtur aðeins breytingu milli tímabila á heildarsölu vöru og þjónustu til endanotenda. Þótt hagvöxtur geti vissulega verið hreyfiafl góðra hluta getur hann ekki mælt upplifun okkar til góðs eða ills: aukin neysla stendur ekki endilega í sambandi við aukna vellíðan. Komið hefur í ljós í rannsóknum að efnahagslægðir geta jafnvel skilað sér í bættri heilsu og vellíðan frekar en hinu gagnstæða. Það má velta því fyrir sér hvort þessi jákvæðu áhrif tengist því að fólk hafi þá meiri tíma fyrir sjálft sig og samvistir við sína nánustu og hvort félagslegur samanburður og efnahagslegir mælikvarðar á velgengni verða um leið léttvægari.

Skýrsla þverpólitískrar nefndar ríkisstjórnarinnar Mælikvarðar um hagsæld og lífsgæði frá september 2019 skilgreinir ýmsa mögulega mælikvarða sem tengjast vellíðan. Þessa mælikvarða, ásamt kerfisbundnum beinum mælingum á vellíðan, mætti þróa áfram og nota til að meta áhrif opinberrar stefnumótunar og ákvarðanatöku. Lagaskylda er að gera kostnaðarmat á stjórnarfrumvörpum og frumvörpum, stefnumótun eða ákvörðunum sem líkleg eru til þess að hafa áhrif á fjárhag sveitarfélaga. Í tuttugu ár hafa gilt lög um mat á umhverfisáhrifum. Það er kominn tími til að innleiða með formlegum hætti mat á heilsufarsáhrifum lagasetninga og stjórnvaldsákvarðana á fólkið í landinu.

Guðmundur Löve

Framkvæmdastjóri SÍBS

Nýtt á vefnum