Greinar / 18. febrúar 2022

Ekki eins skynsöm og við vildum vera

Guðmundur Freyr Jóhannsson lyf- og bráðalæknir er 42ja ára gamall. Hann er mikill áhugamaður um heilbrigðan lífsstíl, ekki síst eftir að hafa sjálfur upplifað tímabil þar sem hann glímdi við ofþyngd og kulnun vegna langvarandi streitu. Sú barátta leiddi hann meðal annars til ítarlegrar könnunar á áhrifum sykurs á heilsuna.

„Eins og svo margir hef ég alltaf haft vissan áhuga á þessum hlutum og stundað reglulega hreyfingu af einhverju tagi“ segir Guðmundur Freyr er við hittumst einn snjóþungan febrúardag á heimili hans í Reykjavík. „Það var þó ekki fyrr en árið 2007 þegar ég flutti út til Lundar í Svíþjóð og byrjaði í sérnámi í lyfog bráðalækningum að ég fór að velta þessum hlutum fyrir mér af einhverri alvöru.

Sérnámstíminn var auðvitað mjög spennandi og lærdómsríkur en var að sama skapi mjög krefjandi fyrir mig og fjölskyldu mína. Það fylgir þessu mikil aðlögun að nýju samfélagi og tungumáli ásamt því að kröfurnar í starfinu aukast. Bráðalækningar eru auk þess vaktavinnustarf svo svefninn var oft óreglulegur í ofanálag. Svo bættist við að fjármálahrunið átti sér stað á þessum tíma og óvissan í kringum það var ekki beint til að bæta stöðuna.

Í svona ástandi er auðvelt að gleyma því að hugsa almennilega um sjálfan sig, svo sem að borða reglulega og huga að því hvað maður setur ofan í sig. Máltíðirnar urðu því iðulega óreglulegar og það var oft sem ég leitaði í skyndibita og ruslfæði sem ég greip með á hlaupum. Eftir um það bil ársveru úti þá vaknaði ég upp við að ég hafði þyngst um sirka 15 kíló, var í raun komin yfir offitumörk og kominn með ýmis líkamleg og andleg einkenni mikillar streitu.“

Erfitt að létta sig

Guðmundur Freyr rak sig fljótt á að það er hreint ekki svo auðvelt að létta sig.

„Ég komst að því að þó að læknisfræðin hefði kennt mér ýmsar aðferðir um greiningu og meðhöndlun sjúkdóma, þá virtist ég hafa misst af tímunum þar sem farið var yfir praktísk ráð sem einstaklingar gætu notað til að halda andlegu og líkamlegu heilbrigði. Ég reyndi því að byrja á því sem mér fannst vera heilbrigð skynsemi - að reyna bara að borða aðeins minna og hreyfa mig meira.

Mér fór að líða betur andlega og líkamlega en það gekk mun erfiðar með þyngdina. Ég léttist um nokkur kíló en svo féll ég aftur í sama farið, iðulega í kjölfarið á næturvaktatörn og streitutímabilum. Eftir nokkra svona hringi fór að læðast inn ákveðið vonleysi, það sem ég hugsa að sálfræðin kalli lært hjálparleysi, þar sem það virtist ekkert virka sama hvað ég reyndi.

Á sama tíma voru hins vegar málaferli í gangi þar sem sænskur heimilislæknir, Annika Dahlqvist, hafði verið kærð af tveimur næringarfræðingum til heilbrigðisyfirvalda fyrir að ráðleggja sjúklingum sínum lágkolvetnafæði eftir að hafa haft góða reynslu af því sjálf til að léttast og bæta andlega og líkamlega heilsu. Annika vann málið og í kjölfarið fór lágkolvetnafæði að hljóta meiri opinbera viðurkenningu þar í landi við meðferð sykursýki og offitu.

Ég fylgdist aðeins með þessu máli sem kveikti áhuga minn á lágkolvetnamataræði og eftir að hafa lesið mér betur til ákvað ég að prófa þetta sjálfur. Þá var eins og líkaminn færi loksins að taka við sér og ég fann að ég átti mun auðveldara með að léttast. Smátt og smátt yfir næstu eitt til tvö ár náði ég þessum 15 kílóum af mér og gott betur og hef haldið sömu þyngd meira og minna síðan.“

IMG-3852 (1).jpg

Offita er flókið vandamál

Telurðu þá lágkolvetnamataræði besta mataræðið til að hjálpa einstaklingum sem vilja léttast?

„Fyrst langar mig til að taka fram að offita er yfirleitt flókið samspil margra þátta sem geta verið ólíkir frá einum einstaklingi til annars og líkamsfita ein af mörgum breytum sem hafa áhrif á heilbrigði. Mataræðið sjálft er svo aftur einungis hluti af stóru púsli sem ákvarðar líkamsþyngd einstaklings.

Miðað við þær rannsóknir sem ég þekki til og mína reynslu, bæði persónulega og í starfi mínu með sjúklingum, er að það virðist ekki vera ein ríkisleið sem hentar öllum þegar kemur að þyngdartapi. Margar breytur spila þarna inn í, bæði líffræðilegar – svo sem erfðir, kyn, aldur, hversu mikla hreyfingu viðkomandi stundar, undirliggjandi sjúkdómar og lyf - og svo aðrar huglægari breytur, svo sem matarsmekkur, umhverfi og menningarlegur bakgrunnur sem og lífsskoðanir.

Rannsóknir sýna að ýmis konar mataræði getur hjálpað fólki við að léttast til skamms tíma og lágkolvetnafæði kemur oft hagstætt út í samanburðarrannsóknum. Á móti sýna lengri rannsóknir sem spanna eitt til tvö ár að munurinn minnkar eða hverfur og það virðist haldast í hendur við að meðferðarheldni þátttakendanna hefur tilhneigingu til að minnka með tíma. Það mataræði sem virkar því til langs tíma er það sem einstaklingur er ánægður með að fylgja ævina út og heldur honum heilbrigðum.

Það sem rannsóknir virðast ennfremur sýna sífellt betur er að mataræði sem inniheldur sem allra minnst af mikið unnum matvælum er líklegast til að uppfylla þessar kröfur. Þannig sýna stórar faraldsfræðilegar rannsóknir samhengi milli neyslu þessara matvæla og þróun langvinnra lífsstílssjúkdóma á borð við sykursýki, hjarta-og æðasjúkdóma, offitu, krabbamein, þunglyndiseinkenna, meltingareinkenna og jafnvel dauða.

Enn fremur sýnir nýleg mjög vel útfærð samanburðarrannsókn, að einstaklingar innbyrða sjálfkrafa fleiri hitaeiningar af mat sem er mikið unninn samanborið við mat sem er minna unninn en er að öðru leyti alveg eins hvað varðar orkuog næringarinnihald. Í þessari rannsókn innbyrtu einstaklingarnir til dæmis um 500 hitaeiningum meira á dag, borðuðu hraðar og þyngdust á matnum sem var mikið unninn á meðan þeir léttust á matnum sem var minna unninn.“

Sykursýki og insúlínviðnám

Í þessu sambandi er iðulega talað um insúlínviðnám og sykursýki – hvað felst í því?

„Þegar læknar tala um sykursýki þá þýðir það einfaldlega að blóðsykur sjúklingsins hefur náð ákveðnum skilgreindum gildum sem þarf að bregðast við. Það eru til nokkrar tegundir af sykursýki, það er nokkrir mismunandi sjúkdómsferlar sem leiða á endanum til að blóðsykur einstaklings hækkar, en þær sem almennt er talað um er sykursýki af tegund 1 og tegund 2. Insúlín er svo aftur hormón sem er framleitt af svokölluðum betafrumum í brisinu og hefur hvað mest áhrif á að halda blóðsykurmagni innan hæfilegra marka.

Sykursýki 1 er mun sjaldgæfari og orsakast af sjálfsónæmi þar sem ónæmisfrumur líkamans ráðast á insúlínframleiðandi frumur í brisinu og eyða þeim. Blóðsykurhækkunin er þar af leiðandi tilkomin vegna þess að ekkert insúlín er til staðar til að halda blóðsykrinum í skefjum.

Langflestir einstaklingar í dag eru hins vegar með sykursýki af tegund 2. Þegar einstaklingur greinist með sykursýki 2 er hann í raun einfaldlega kominn á ákveðinn punkt í ferli sem hefur verið að þróast um lengri tíma, ár eða áratugi.

Ef kafað er dýpra í sjúkdómsferlið í sykursýki 2 eins og það kemur oftast fyrir þá er í kjarna þess ástand sem kallast insúlínviðnám, sem einkennist af því að næmi frumna líkamans fyrir áhrifum insúlíns er minnkað. Sem mótvægi við því eru insúlínframleiðandi frumur í brisinu á sama tíma að framleiða of mikið insúlín, meðal annars til að halda blóðsykri í skefjum. Ef þetta ferli heldur áfram nógu lengi hefur það tilhneigingu til að versna og leiðir það smátt og smátt til þess að virkni insúlinframleiðandi frumna byrjar að tapast og þær deyja með þeim afleiðingum að blóðsykur byrjar að hækka. Rannsóknir benda til að þegar einstaklingur greinist með sykursýki 2 hafi hann þegar tapað um helmingi af frumunum sem framleiða insúlín.“

Fjölþætt áhrif insúlíns

Guðmundur Freyr segir hormónið insúlín hafa mun fjölþættara hlutverk í líkamanum en blóðsykurstjórnun.

„Sem dæmi hefur það áhrif á stjórn amínósýruefnaskipta í vöðvum og fituefnaskiptum í fituvef og hefur fyrst og fremst þau áhrif að stöðva niðurbrot. Insúlín hefur einnig áhrif á vöxt og skiptingu frumna, fituefnaskipti í lifur, starfsemi æðaþels, heilastarfsemi, nýrnastarfsemi og salt- og vökvajafnvægi sem og heilbrigði beina ásamt fjölmargra annarra þátta sem yrði of langt mál að telja upp hér. Þetta endurspeglast svo aftur til dæmis í því að insúlínviðnám er undirliggjandi þáttur í fyrirbæri sem kallast efnaskiptaheilkenni sem er samsafn af klínískum þáttum og blóðrannsóknarniðurstöðum sem eru tengd við aukna áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum, það er hækkaður blóðþrýstingur, aukin kviðfitusöfnun, hækkaðar fitusýrur og lækkað HDL („góða kólesterólið“) í blóði sem og hækkun á blóðsykri.

Það kemur því ekki á óvart að insúlínviðnám og of mikið insúlínmagn í blóði hefur verið tengt við fjölmarga aðra langvinna sjúkdóma á borð við háþrýsting og hjarta- og æðasjúkdóma, fitulifur, heilabilun, geðsjúkdóma, krabbamein, beinþynningu og slitgigt svo fáein dæmi séu tekin. Það mætti því orða það þannig að insúlínviðnám sé tengt við almennt hrörnunarástand.“

En hvað veldur auknu insúlínviðnámi?

„Eins og alltaf er þetta samspil erfða og umhverfis, lífsstílsþátta. Við breytum genunum okkar kannski ekki svo glatt en það eru fjölmargir þættir í okkar daglega lífi sem geta haft mikil áhrif á ferlið. Þeir stærstu eru auðvitað það sem oft eru kallaðar fjórar grunnstoðir heilsunnar: mataræði, hreyfing, svefn og andleg líðan. Fjölmargir aðrir þættir geta einnig haft áhrif sem margir eiga það sammerkt að ýta undir bólgumyndun í líkamanum. Það passar vel við það að rannsóknir sýna að lífsstílssjúkdómar eru jafnan einnig krónískir bólgusjúkdómar.

Þetta samspil ónæmiskerfisins og efnaskiptakerfis líkamans er og er í raun orðin að sjálfstæðri fræðigrein. Við sjáum til dæmis oft að sykursýki hefur tilhneigingu til að versna í bólguástandi, svo sem þegar við fáum sýkingar eða versnun á gigtarsjúkdómum svo dæmi séu tekin. Á hinn bóginn sjáum við að verri blóðsykurstjórn hefur neikvæð áhrif á ónæmiskerfið og eykur hættu á sýkingum.“

Sykurinn í matnum

Er óhófleg sykurneysla okkar helsti óvinur eins og sumir vilja halda fram?

„Mataræðið er líklegast sá þáttur í dag sem er algengast að hafi áhrif á insúlínviðnám fólks. Ef við innbyrðum til dæmis daglega meiri orku en líkaminn hefur þörf fyrir, þá eykst insúlínviðnámið og þær breytingar eru í raun mælanlegar eftir nokkra daga. Eftir því sem fitusöfnun eykst, er aukin hætta á bólgumyndun í fituvefnum sem aftur getur leitt til að bólgumiðlar og fitusýrur fara að leka út í blóðrásina og setjast í önnur líffæri sem aftur eykur á insúlínviðnám líkamans.

Hversu mikla fitusöfnun einstaklingur þolir án þess að það fari að hafa áhrif á efnaskiptin er mjög einstaklingsbundið og því getum við séð einstaklinga í kjörþyngd með sykursýki af tegund 2 og svo aftur einstaklinga með mikla offitu en hafa eðlileg sykurefnaskipti og insúlínnæmi. Þó er það þannig í hóparannsóknum að fylgni er á milli hækkandi þyngdar og hættunnar á sykursýki 2.

Ef það er svo skoðað nánar hvaða einstöku þættir það eru í mataræðinu sem virðast hafa verri áhrif umfram aðra á insúlínviðnám og þar með þróun sykursýki, þá hafa böndin sífellt borist meira að unnum kolvetnum, og þá sérstaklega sykri. Það sem við í daglegu tali köllum sykur er í raun tvísykran súkrósi sem samanstendur af einni glúkósasameind og einni frúktósasameind sem eru bundnar saman. Glúkósi er í raun sama sameindin og blóðsykur en frúktósi er einnig kallaður ávaxtasykur.

Þegar við borðum sykurinn fer glúkósasameindin út í blóðrásina og nýtist öllum frumum líkamans á meðan frúktósinn er fyrst og fremst brotinn niður í lifrinni. Rannsóknir sýna að of mikil neysla á ávaxtasykri leiðir til aukinnar fitusöfnunar og insúlínviðnáms í lifrinni en lifrin gegnir aftur mjög veigamiklu hlutverki í blóðsykurstjórn líkamans.

Að því sögðu þá virðist form sykursins ekki síður en magn skipta hér töluverðu máli. Þannig benda flestar rannsóknir til að samband sé milli neyslu sykraðra drykkja og ávaxtasafa og sykursýki á meðan neysla heilla ávaxta hefur það ekki. Þannig virðast áhrif sykursins vera mest þegar hann er innbyrtur á fríu formi, til dæmis í sykruðum drykkjum. Séu einstaklingar hins vegar þegar komnir með aukið insúlínviðnám eða sykursýki, þá sýna rannsóknir ennfremur að almenn takmörkun allra kolvetnategunda hefur jákvæð áhrif á efnaskipti þessara einstaklinga, það er bætir insúlínnæmi og blóðsykurstjórn, jafnvel óháð þyngdartapi.

Þannig eru einkum tvær leiðir sem góðar rannsóknir eru á bakvið og sýna að hægt sé að beita mataræðisbreytingum til að „snúa við“ insúlínviðnámi og sykursýki 2. Annars vegar verulega hitaeiningaskert fæði og hins vegar lágkolvetnamataræði eða ketó. Báðar leiðir hafa sína kosti og galla en í raun sé ég það þannig að þær leiða að svipuðu marki. Hitaeiningaskert mataræði leggur áherslu á fitutap sem meginatriði en kolvetnaskerðing verður einnig óhjákvæmileg hliðarverkun. Lágkolvetnamataræði leggur áherslu á takmörkun kolvetna en hliðarverkunin verður iðulega fitutap þar sem einstaklingar finna oft fyrir aukinni seddu og minnka sjálfkrafa hitaeiningainntökuna.

Báðar þessar leiðir eru þess eðlis að þær ættu að jafnaði að vera undir leiðsögn sérfróðra, ekki síst ef viðkomandi einstaklingur er með undirliggjandi sjúkdóma og tekur lyf. Hins vegar geta allir byrjað á því sjálfir að draga úr óþarfanum og leggja sem mesta áherslu ferskan, lítið unnin, næringarríkan og fjölbreyttan mat.“

Hver eru áhrif hreyfingar í þessu samhengi?

„Eins og ég komst að sjálfur á sérnámsárunum í Svíþjóð þá hefur regluleg hreyfing ein og sér afskaplega takmörkuð áhrif á fitutap. Þrátt fyrir það hefur hún ómæld önnur jákvæð heilsufarsleg áhrif, meðal annars að bæta insúlínnæmi. Sem dæmi þá eykur hreyfingin sjálf upptöku blóðsykurs í vöðvana óháð insúlíni auk þess sem vöðvarnir losa boðefni, svokölluð myokine, sem virðast hafa bólguhamlandi verkun og bæta insúlínnæmi. Á móti hefur mikil kyrrseta neikvæð á þessa ferla og eykur insúlínviðnám. Allir ættu því að gefa sér sem oftast tíma til að stunda hreyfingu sem þeir hafa ánægju af.

Reglulegur og góður svefn skiptir einnig miklu máli. Þannig sýna rannsóknir að ef svefn er stuttur eða óreglulegur eykst bólgumyndun og insúlínviðnám í líkamanum og er það mælanlegt jafnvel eftir aðeins eina erfiða nótt.“

Vera-svarthvitt(31af31) (1).JPG

Streita og andleg líðan

Guðmundur Freyr hefur í starfi sínu með einstaklingum sem þurfa aðstoð til að léttast og meðhöndla sykursýki með lífsstíl, fengið meiri og meiri áhuga á þætti heilans í þessu ferli.

„Mannsheilinn er gríðarlega flókið líffæri og flestir af þeim ferlum sem fara þar fram eru okkur ómeðvitaðir og eru að miklu leyti mótaðir af umhverfi okkar og fyrri reynslu. Þeir hlutar heilans sem hafa með viljastyrk og skynsemi að gera eru tiltölulega veikir samanborið við sum önnur frumstæðari kerfi sem gegna því hlutverki að halda okkur á lífi og fjölga okkur eins og tilfinningastöðvar og verðlaunakerfi heilans. Við erum því ekki alltaf eins rökréttar og skynsamar verur og við myndum gjarnan vilja vera.

Þegar við erum undir álagi eða streitu þá eykst ójafnvægið ennþá frekar og við erum líklegri til að stjórnast af frumhvötum í stað þess að láta skynsemina ráða. Þetta er til dæmis vel þekkt í flugbransanum þar sem allir verkferlar miða að því að draga úr mannlegum mistökum sem geta orðið þar sem mannsheilinn er svo ófullkominn, einkum undir álagi. Eftir því sem álagið er meira eða varir lengur, verða áhrifin á heilann meiri og varanlegri. Í kjölfar áfalla getur heilinn farið í krónískt streituástand sem aftur leiðir til fjölmargra andlegra og líkamlegra einkenna auk hegðunarbreytinga sem með tímanum getur leitt til þróunar á margvíslegum kvillum og sjúkdómum.

Þetta samband hefur verið þekkt nokkuð lengi en áhuginn á málefninu hefur aukist gríðarlega síðastliðna áratugi. Það er ekki síst fyrir tilstuðlan offitulæknisins Vincent Felliti sem á 9. áratug síðustu aldar gerði þá uppgötvun að meira en helmingur einstaklinganna sem leituðu til stofnunar hans til meðferðar vegna offitu höfðu orðið fyrir kynferðisofbeldi í æsku. Í kjölfarið fóru hann og samstarfsmenn hans að rannsaka sambandið milli erfiðrar lífsreynslu og áfalla í æsku við margvíslega sjúkdóma á fullorðinsárum. Þessar rannsóknir og aðrar sem fylgdu í kjölfarið hafa sýnt mjög greinilega að því fleiri og alvarlegri áföll sem einstaklingar upplifa snemma á lífsleiðinni, þeim mun líklegra er að þeir glími við alvarleg heilsufarsvandamál á fullorðinsárum eins og hjarta- og æðasjúkdóma, lungnateppu, sykursýki, offitu, geðræna sjúkdóma og fíkn.

Á síðustu árum og áratugum hafa komið fram sífellt fleiri rannsóknir sem skýra betur hvernig langvinn streita og andleg vanlíðan hefur áhrif á líkamsstarfsemi og hegðun í sambandi við mat.

Þannig dregur of mikil streita m.a. úr virkni svæða í heilanum sem hafa með sjálfsstjórn og skipulagningu að gera sem og hæfileikann till að hafa stjórn á tilfinningum. Streitan dregur einnig úr vilja okkar til að hreyfa okkur og raskar svefninum. Kortisól í blóði hækkar sem dregur úr virkni sedduhormóna á heilann, örvar verðlaunabrautir í heilanum og stuðlar að aukinni kviðfitusöfnun.

Samantekið benda rannsóknir til að afleiðingin verði sú að streita og andleg vanlíðan veldur því að einstaklingar leita frekar í mjög unninn, kolvetna-, fitu- og hitaeiningaríkan mat sem hefur sterk áhrif á verðlaunastöðvar heilans og hafa rannsakendur séð ákveðin líkindi með neyslu þessara matvæla og ávana- og fíkniefna. Þar að auki eru vísbendingar um að streitan sjálf auki svo enn frekar á fitusöfnun þegar þessara matvæla er neytt. Þetta gæti skýrt að nokkru eða miklu leyti þá þróun sem við sjáum nú með samhliða vaxandi tíðni offitu og geðrænna vandamála í kjölfar kórónaveirufaraldursins, ekki síst hjá þeim einstaklingum sem stóðu höllum fæti fyrir og voru þegar undir miklu álagi.

Á móti sýna aðrar rannsóknir að orsakasamhengið geti líka gengið í hina áttina, þ.e. að neysla mikið unnina og næringarsnauðra matvæla hafi neikvæð á andlega líðan og hafa þær jafnvel bent til að bætt og næringarríkara mataræði geti verið öflugt tól til viðbótar við hefðbundnar meðferð á geðrænum vandamálum á borð við þunglyndi.

Í þessu samhengi er að lokum rétt að minnast á fitusmánun en mjög þörf og góð umræða hefur komið fram á síðustu árum um áhrif hennar á líðan og heilsufar einstaklinga sem lifa með offitu. Einn af þeim streituvöldum sem við manneskjur erum talin sýna hvað sterkust viðbrögð við er þegar við upplifum okkur dæmd af samborgurum okkar, ekki síst ef það er fólk sem stendur okkur nærri. Þannig sýna rannsóknir ítrekað að þegar einstaklingar upplifa fordóma og smánun vegna þyngdarinnar eykur það á streitu þeirra ásamt því að auka líkur þeirra á að þyngjast og þróa með sér offitu. Þannig geta fordómar og neikvæð orðræða í samfélaginu aukið enn frekar á offituvanda einstaklinga sem þurfa þvert á móti hvatningu, umhyggju og stuðning. Það á bæði við í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum en ekki síst inni á heimilum þar sem orð okkar nánustu vega þyngst.“

Að gefa sér tíma

Hafa skoðanir þínar og lífsstíll breyst mikið frá því þú áttaðir þig á því í Svíþjóð á sínum tíma að þú – læknirinn sjálfur – varst kominn í óefni með líferni þitt?

„Þegar ég lít tilbaka yfir síðustu ár get ég séð hvernig viðhorf mín til heilbrigðs lífernis og í raun lífsins almennt, hafa stöðugt verið að breytast og þróast. Í hvert sinn sem ég hef haldið að ég sé nokkurn veginn búinn að átta mig á hlutunum, þá kemur eitthvað í ljós sem fær mig til að endurskoða afstöðu mína.

Kannski er helsti lærdómurinn í þessum pælingum öllum sá að við erum aldrei búin að höndla hinn endanlega sannleik á neinu viðfangsefni. En ef við erum heppin og höfum hugann opinn getum við kannski lært eitthvað nýtt á hverjum degi og þannig haft aðeins minna rangt fyrir okkur.

Annað sem ég hef lært er að breytingar taka tíma. Það er eitt að vita og annað að gera. Eins og barn sem er að læra að labba, þá má búast við því að hrasa ótal sinnum áður en þetta fer að koma og jafnvel þá kemur öðru hvoru fyrir að maður steypist á andlitið. Þá er bara að standa upp aftur, klappa sjálfum sér á bakið, reyna að læra af þessu og hafa svo gaman af hverjum smásigri sem þú nærð í ferlinu. Það eru litlu skrefin sem telja þegar upp er staðið og það er endalaust hægt að bæta við, það er bara spurning hvað þig langar að ná langt.

Þegar ég útskrifaðist úr menntaskóla gaf föðurafi minn mér innrammað blað með texta þar sem megininntakið var að maður ætti að gefa sér tíma fyrir allt það sem raunverulega skiptir máli. Þetta ráð hefur sennilega aldrei átt betur við en í dag. Hraðinn, streitan og samkeppnin um athygli okkar stelur frá okkur tímanum sem við hefðum annars notað til að hlúa að okkur sjálfum og okkar nánustu. Þarfir okkar eru í raun einfaldar, við höfum bara öll tilhneigingu til að vanrækja þær í amstri dagsins. Kannski þurfum við fyrst af öllu að hægja á, slökkva á áreitinu og gefa okkur tíma fyrir okkur sjálf og hvert annað.“

Páll Kristinn Pálsson

Ritstjóri

Nýtt á vefnum