Greinar / 9. júní 2021

Búsetulegur aðskilnaður

Gegnum þróunarsögu nútímamannsins höfum við lengst af lifað í samfélögum nokkurra tuga einstaklinga sem unnu saman að velferð og afkomu heildarinnar. Þarna voru til staðar einstaklingar á ólíkum aldri og með ólíka hæfileika sem saman mynduðu órofa heild sem gat uppfyllt líkamlegar, sálrænar og félagslegar þarfir einstaklinganna frá vöggu til grafar.

Þessi samfélagslega breidd er jafnframt sögusvið þróunar mannsins og við höfum smám saman þroskað með okkur getuna til að lifa og starfa í þéttofnu samfélagi sem þó samanstendur af ólíkum einstaklingum. Þetta krefst mikilla félagslegra eiginleika. Breski mannfræðingurinn Robert Dunbar hefur enda áætlað að mannskepnan geti með góðu móti viðhaldið persónulegum tengslum við allt að 150 einstaklinga „sem þér þætti ekki óviðeigandi að setjast niður með yfir drykk er þú rækist á þá á bar“ eins og hann orðar það.

Félagsfræðin á hugtök sem skilgreina hvað þarf til að okkur líði vel í samfélagi. Félagsleg samlögun nær til þátta sem auka virkni einstaklingsins innan samfélagsins til félagslegra athafna, þátttöku á vinnumarkaði, í tómstundum og til náms. Félagsleg samheldni merkir að ekki séu til staðar mikil átök eða spenna í samfélaginu og að nágrannar séu til að mynda viljugir til að grípa inn í aðstæður í þágu heildarinnar.

Í ljósi framangreinds er ástæða til að hugsa gagnrýnið um íbúðir fyrir „sextíu plús“ eða „hagkvæmt húsnæði“ sem byggt er fyrir þá sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. Að safna stórum hópi eldri borgara saman á einn stað gæti verið varhugaverð hugmynd ef of langt er gengið. Á hinum enda kvarðans hefur Húsnæðis og mannvirkjastofnun hafið að veita hagstæð hlutdeildarlán til fyrstu kaupenda í nýbyggingum sem uppfylla staðla stofnunarinnar um „hagkvæmt húsnæði“.

Búsetulegur aðskilnaður virðist vera á undanhaldi í löndunum í kringum okkur. Þekkt fordæmi er Tübingen-verkefnið í Þýskalandi sem byggt var 1996–2008 en Norska velferðarráðuneytið lét árið 2020 vinna skýrslu þar sem fleiri dæmi eru dregin fram og um hvað þarf til í skipulagsmálum og hvernig má laga byggingar sem þegar eru fyrir hendi að þörfum ólíkra hópa og ná fram markmiðum um blandaða búsetu án aðskilnaðar (sjá https://www.sintefbok.no/ book/download/1258).

Vonandi ber okkur gæfa til að staldra við áður en við göngum of langt í aðskilnaðarstefnunni.

Guðmundur Löve

Framkvæmdastjóri SÍBS

Nýtt á vefnum