Greinar / 15. júlí 2019

Áföll og gigtsjúkdómar

Þegar sjúklingar með gigtsjúkdóma leggja sjálfir mat á hvað geri einkenni gigtsjúkdóms verri – eða hafi jafnvel valdið honum – nefna þeir oft streitu og sálræn áföll. Áföll á borð við makamissi, veikindi og erfiðleikar barna eru oft nefnd en einnig minni áföll og streituvaldandi þættir, sem margir lenda í, eins og mistök í starfi, erfið félagsleg samskipti eins og ágreiningur og deilur.

Margir með gigtsjúkdóma kannast vel við að „þurfa að borga fyrir“ bæði likamlegt og andlegt erfiði með auknum sjúkdómseinkennum í kjölfarið – sérstaklega verkjum og/eða þreytu. Margir sjúklingar fara að haga lífi sínu með þeim hætti að draga úr virkni sinni; þeir sleppa vinnu eða tómstundaiðkun sem útheimtir líkamlega áreynslu og draga jafnvel úr félagslegum samskiptum til að draga úr líkum á versnunarkasti sjúkdóms í kjölfarið. Hluti færniskerðingar fólks með gigtsjúkdóma er tilkomin með þessum hætti – að sjúklingar draga úr virkni sinni á tíma þegar sjúkdómseinkenni eru ekki sérlega svæsin, til að forðast aukin einkenni síðar.

Ofangreindir og mögulegir áhrifaþættir koma lítið við sögu í fræðibókum um gigtsjúkdóma og hafa fáar rannsóknir verið gerðar á þessum tengslum. Flestir læknar hafa þó fengið þessa lýsingu frá sjúklingum sínum nægilega oft til að þeir sýni hluttekningu og skilning frekar en að telja útilokað eða ólíklegt að áföll og streituvaldandi þættir hafi áhrif á uppkomu og versnun gigtsjúkdóma.

Sumir virðast þola áföll og álag og jafna sig án þess að það hafi neikvæð áhrif á heilsu og líðan en aðrir glíma við heilsubrest í kjölfar áfalla. Vísbendingar eru þannig um að þeir sem að fá svæsin viðbrögð við áföllum og þróa með sér áfallastreituöskun, séu í aukinni hættu á vefrænum sjúkdómum, þ.m.t. gigtsjúkdómum. Ekki er vitað hvernig óeðlileg viðbrögð við streitu stuðla að bólgusvari sem einkennir flesta sjálfsofnæmissjúkdóma. Auk þess hafa þær fáu rannsóknir sem gerðar hafa verið á sviðinu sýnt að einstaklingar sem hafa upplifað áföll í æsku (t.d. ofbeldi og vanrækslu), hryðjuverk og ástvinamissi séu í aukinni áhættu á að þróa með sér sjálfsofnæmissjúkdóma.

Einnig er óljóst hvernig áföll og streita hafa áhrif á versnun gigtarsjúkdóma – og þar með óljóst hvort meðferð vernsunarkasta gigtsjúkdóma sem tilkomin eru vegna áfalla og streitu eigi að vera með sama hætti og annarra versnunarkasta. Flestir læknar kannast við að sjúklingar með gigtsjúkdóma segjast fá verulega bót á einkennum við það að fara í heitara loftslag. Þeim ferðum fylgir stundum að streituvaldandi þáttur er ekki til staðar og tækifæri til hvíldar og að sækja félagslegan stuðning. Þannig er ekki víst að allur ávinningur sem sjúklingar upplifa vegna utanferða sé vegna hækkunar á hitastigi. Algengi gigtsjúkdóma virðist a.m.k ekki vera meira í köldum löndum frekar en heitum.

Þekking á sambandi áfalla og streitu við vefræna sjúkdóma eru á frumstigi. Sennilegast er þetta samband flókið og miðlað í nokkrum skrefum. Með þekkingu á einstökum skrefum er líklegt að möguleikar verði til staðar til að spá fyrir um hverjir eru í mestri hættu á sjálfsofnæmissjúkdómum eftir áföll og tækifæri rísi til að fyrirbyggja skaðleg áhrif áfalla og streitu á heilsu.

Rétt meðferð og stuðningur eftir áföll gæti þannig haft heilsufarsávinning fyrir einstaklinga en einnig ávinning fyrir samfélög með því að draga úr sjúkdómsbyrði og kostnaði vegna gigtsjúkdóma.Rétt meðferð og stuðningur eftir áföll gæti þannig haft heilsufarsávinning fyrir einstaklinga en einnig ávinning fyrir samfélög með því að draga úr sjúkdómsbyrði og kostnaði vegna gigtsjúkdóma.

Arna Hauksdóttir

Prófessor í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands

Nanna Margrét Kristinsdóttir

Lýðheilsufræðingur

Gunnar Tómasson

Gigtlæknir

Nýtt á vefnum