Greinar / 15. júlí 2019

Áföll og fíkn

Áfallahjálp er ekki gamalt hugtak hérlendis. Það er oft sett í samhengi við stórslys eða náttúruhamfarir. Í snjóflóðunum á Flateyri og í Súðavík árið 1995 voru sendir á vettvang sérfræðingar í áfallahjálp. Þá var hér orðið starfandi fólk sem hafði sérhæft sig í að aðstoða þá sem höfðu orðið fyrir miklu áfalli. Flestir geta sett sig í þau spor að við þessar aðstæður þurfi fólk hjálp til að ná áttum og vinna úr tilfinningum sem tengjast áfallinu. Áfallastreituröskun hefur verið skilgreind sem truflun á heilastarfseminni, þannig að drekinn, sem er eitt líffæranna í gamla randkerfinu í heilanum, sér ekki um að skilgreina lok áfallsviðburðar eins og hann á að gera, vegna þess að hann er í flóði af streituhormónum, heldur greinir heilinn ný áreiti sem minna á fyrra áfall eins og merki um nýtt áfall. Þannig lendir fólk stöðugt í sama áfallinu aftur og aftur. Þar að auki er hópur fólks sem lifir við stöðug áföll eða ótta við áföll, eins og er algengt á heimilum sem eru undirlögð fíkn af einhverju tagi.

Það samhengi sem fíkn er oftast sett í er sókn í vímuefni af einhverju tagi. Algengasta vímuefnið hefur verið áfengi, en nú eru mörg önnur vímuefni á boðstólum á götunni og víðar. Undanfarin ár hefur orðið æ ljósara að undir fíkn fellur fleira en sókn í vímuefni. Ýmiss konar hegðun getur fallið undir fíkn, eins og til dæmis spilafíkn, átraskanir, óhófleg sókn í skjáafþreyingu eins og tölvuleiki, sókn í ástarsambönd og/ eða kynlíf, eða reiðiköst, svo eitthvað sé talið. Fíknin lýsir sér í ákafri sókn eftir efninu eða hegðuninni sem fíknin beinist að, sama hverjar afleiðingarnar eru. Fíkillinn fer í einhvers konar vímu þegar hann fær efnið eða leyfir sér hegðunina, en eftir nokkurn tíma koma fráhvarfseinkenni með vanlíðan, sem veldur því að aftur hefst sókn í vellíðanina af vímunni.

Þeir sem hafa lengst unnið með fólki í vanda, eru farnir að sjá þræði sem liggja milli þessara tveggja póla, áfalla og fíknar. Það sem meira er, þessir þræðir tengjast áfram frá manni til manns og frá kynslóð til kynslóðar, þannig að fjölskyldur geta orðið undirlagðar af áhrifum áfalla og fíknar með tilheyrandi brenglunum í samskiptamynstri. Misjafnt er hversu sterk áhrifin af fíkninni eru á aðra í fjölskyldunni. Eðlilega eru sterk áhrif af vímuefnafíkn, spilafíkn og reiðifíkn, en kynlífsfíkn er heldur ekki beinlínis ávísun á heilbrigt fjölskyldulíf.

Þeir sem lifa í miðri hringiðu áfalla og fíknar eiga oft erfitt með að sjá heildarmyndina og þar með þörfina á að leita sér hjálpar. Þess vegna situr fólk oft fast í gildru þessarar hringiðu og hver kynslóðin eftir aðra vex upp í sömu stöðunni. Stundum þarf ekki annað en að einn fjölskyldumeðlimur brjótist út úr gildrunni og leiti sér hjálpar til að allt þetta sjúklega mynstur hrynji og aðrir í fjölskyldunni fari sömu leið til bata. Þarna er þó aldrei á vísan að róa, og fyrir kemur að þótt einum úr fjölskyldunni takist að finna leið út úr ógöngunum, sitji hinir eftir í sömu súpunni.

Heilinn er flókið líffæri. Sá hluti heilans sem síðast þróaðist er framheilinn, þar sem rökhugsunin býr. Eldri hlutar heilans tengjast grunnstarfsemi líkamans, þar á meðal randheilinn, þar sem áfallaviðbrögðin verða. Vegna þessa er ekki góð hugmynd að meðferð við áfallastreituröskun fari eingöngu fram sem samtalsmeðferð. Líkaminn geymir beinlínis ekki áföllin í framheilanum, heldur annars staðar í líkamanum. Þess vegna þarf meðferð að beinast að líkamanum, ekki síður en að samtölum. Margs konar meðferðarleiðir eru til, sem þjóna þessum tilgangi. Hugræn atferlismeðferð hefur verið talin gullinsniðið að meðferð. Hér verður ekki gert lítið úr henni, heldur lögð áhersla á að samtalsmeðferð eins og hugræn atferlismeðferð getur aldrei verið nóg til að vinna úr áföllum. Flestir meðferðaraðilar nota blöndu af hugrænni atferlismeðferð og fleiri nálgunum sem tengjast líkamanum. Hér á eftir verður gerð grein fyrir nokkrum hugsanlegum, líkamstengdum meðferðarnálgunum.

Áföll og fíkn
  • Jarðtengingartækni. Þetta eru alls konar leiðir sem hjálpa okkur til að finna til öryggis í eigin skinni, til dæmis sjálfsvarnaríþróttir, jóga, hugleiðsla, list, handavinna, dans, söngur, ritun o.fl.
  • Líkamsþerapía. Þarna er unnið með líkamanum til að sleppa áfallaorkunni sem hann geymir í sér. Þetta eru núvitundarnálganir, sem styðja bæði líkama og huga sem heild.
  • Augnhreyfingaafnæming og endurhæfing (EMDR). Þarna eru notaðar augnhreyfingar og bank á tiltekna bletti sem svara til ákveðinnar orku í líkamanum, meðfram samtali og upprifjunum minninga. Auðvelt er að nota þessa aðferð meðfram fleiri aðferðum.
  • Rökleiðsluatferlismeðferð (DBT). Þessi aðferð byggir á samblandi af einbeitingu og þerapíuaðferðum sem byggjast á núvitund, samskiptum við aðra, tilfinningastjórnun og þrautseigju í vanlíðan.
  • Taugaendurgjöf. Þetta er meðferð sem unnin er í tölvu, þannig að skjólstæðingur getur horft á heilabylgjur sínar og greint hugsanamynstrin og lært smátt og smátt að breyta þeim.
  • Orkusálfræði. Þetta nær yfir margs konar meðferðir sem nota orkukerfi líkamans og tengja þannig fornar austurlenskar iðkanir við vestræna sálfræði, til dæmis nálastungur, höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun og svæðameðferð.
  • Hugsanasviðsþerapía (TFT) og Tilfinningafrelsi EFT). Þetta eru tvær þekktustu meðferðirnar innan orkusálfræði. Þarna er unnið með orkustöðvar líkamans með banki á punkta sem vísa til stöðvanna. Mörgum finnst þetta langsótt aðferð, en nýlegar rannsóknir hafa sýnt að þessar aðferðir virka reyndar mjög vel.
  • Reynsluþerapía. Þarna er unnið með reynslu fólks, til dæmis með leiklist, þrautabrautum, listrænni tjáningu, ímyndunum með leiðsögn, svo eitthvað sé nefnt.

Margar fleiri aðferðir eru til, þessi listi nær aðeins yfir þær algengustu. Þeim sem hafa áhuga fyrir að kanna áhrif þessara aðferða er bent á rannsóknagreinar um árangur af þeim á vefslóðinni https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/, en þetta er samantekt yfir helstu rannsóknir í heilbrigðisvísindum sem birst hafa í ritrýndum tímaritum. Best er að slá inn leitarorð fyrir hverja meðferðarleið fyrir sig og skoða þær rannsóknir sem til eru um hverja þeirra. Oft er vel greint frá árangri í þessum meðferðarleiðum.

Stundum er gripið til lyfja til að laga líðan þeirra sem orðið hafa fyrir áföllum. Þau geta verið góð lausn til skamms tíma, en lyf duga reyndar ekki til að laga áfallastreituröskun. Þar er ekki hægt að stytta sér leið, það þarf því miður að vinna sig í gegnum reynsluna þar til einhver lausn fæst. Þar duga lyf ekki til.

Hvaða leiðir er þá best að fara til að ná bata eftir áföll? Í bókinni Áhrif áfalla og fíknar í fjölskyldum eftir Claudiu Black (nýlega útkomin) er lýst ferli sem hægt er að fara í gegnum. Hér verður gripið lauslega niður í þeim ábendingum sem þar er að finna. Það fyrsta sem þarf að gera ef fólk vill vinna sig út úr áföllum er að ná tökum á fíkn sinni, hver sem hún er. Enginn sem er í virkri fíkn kemst langt í að vinna sig út úr áföllum. Margs konar sjálfshjálparsamtök eru til hérlendis og sjálfsagt er að byrja þar, en leita síðan hjálpar hjá fagaðilum ef þetta dugar ekki. Eftir það er hægt að hefja vinnu við áfallastreituröskunina.

Ferlið sem Claudia Black lýsir er þannig:

  1. Undirstaða og jarðtenging. Fyrst þarf að finna innra jafnvægi, róa sig og finna til öryggis, með ýmsum aðferðum til að ná til randkerfisins og róa það.
  2. Að kanna söguna. Hvað gerðist sem særði mig? Hvers vegna líður mér illa? Þarna þarf að koma sér út úr þeirri afneitun sem er svo algeng í fíknarfjölskyldum. Fólk kemur sér upp skýringum til að geta lifað af, til dæmis því að það sem gerðist hafi verið svo lítilvægt að ekki sé ástæða til að gera sér rellu yfir því. Við gerum ekki lítið úr því sem gerðist, en könnum það.
  3. Að færast inn í tilfinningarnar. Margir óttast að finna til sárindanna af að kanna sögu sína, en þetta er þó betra en að lifa í dofanum af að afneita sárindunum sem þegar eru til staðar. Tilfinningar eru eðlilegar, þær eru til leiðsagnar, ekki til að særa okkur. Karlmönnum finnst oft sérstaklega erfitt að viðurkenna eigin tilfinningar, af því að þær eru ekki eins menningarlega viðurkenndar og tilfinningar kvenna. Þessi tegund karlmennsku er reyndar hættuleg, hún ýtir undir sálræn veikindi og vanlíðan. Það er ástæða til að koma sér yfir þetta stig í ferlinu.
  4. Að tengja fortíðina við nútíðina. Við þurfum að spyrja okkur hvernig áfall í fortíðinni hefur áhrif á okkur í nútíðinni, hvort sem við hugsum um okkur sem maka, foreldri, vin, eða bara okkur sjálf.
  5. Innri skoðanir uppgötvaðar og skoraðar á hólm. Meðan við lifum í ringulreið áfalla og fíknar, komum við okkur upp kerfi af skoðunum, sem gera okkur kleift að lifa af. Þegar við erum farin að ná áttum, getur verið að þessar skoðanir hamli okkur og trufli vellíðan okkar. Við þurfum að skoða þær skoðanir okkar sem eru skaðlegar. Dæmi um skaðlegar skoðanir eru til dæmis að þarfir okkar séu minna mikilvægar en annarra. Þá verður erfitt að tjá þessar þarfir eða biðja um hjálp. Annað dæmi er að við trúum því að það sem við gerum sé aldrei nógu gott. Þá er ekki líklegt að við reynum eitthvað nýtt eða reynum til fulls á færni okkar. Það er hluti af bataferlinu að skipta út skaðlegum skoðunum og setja nýjar, heilbrigðar og styðjandi skoðanir inn í staðinn.
  6. Að læra nýja leikni. Sumt af þeirri leikni sem við komum með út úr hildarleiknum er áreiðanlega mikilvægt og gagnlegt. Það er um að gera að halda í þetta. Hins vegar er algengt að fólk sem kemur út úr áfallasögu og fíknarumhverfi skorti ýmsa nauðsynlega lífsleikni, eins og til dæmis að biðja um hjálp, leysa vandamál, sýna frumkvæði, setja mörk og segja nei. Þessu þurfum við einfaldlega að koma okkur upp.

Flest af því sem hér hefur verið nefnt, er einfaldara að gera með góðum þerapista.

Eitt enn er það, sem hefur hjálpað mörgum, en það er tenging við æðri mátt og andlega þætti í lífinu. Ef þetta er gagnlegt, er um að gera að iðka það. Ekki treysta sér allir til þessa og mikilvægt er að halda sig alltaf við það sem bætir við andlega vellíðan, ekki það sem stíflar hana.

Einnig er mikilvægt að hafa væntingar um þetta ferli hóflegar. Það mun taka tíma og verða á stundum erfitt, og stundum getur okkur fundist að við séum ekki á ferð áfram, heldur aftur á bak. Þá er um að gera að halda ótrauð áfram, því að batinn kemur ef við höldum okkur við það sem hefur reynst virka vel. Sömuleiðis er slæm hugmynd að bera bata okkar saman við bata annarra, því að ferli tveggja persóna gegnum bataferlið er aldrei eins. Það gerir ekkert til.

Meðal þess sem getur reynst fólki erfitt þegar það er á leið til betra lífs eftir áföll, er samskiptin við fjölskylduna. Sennilegast er að fjölskyldan líti ekki sömu augum og við á atburðina sem við flokkum sem áfall, jafnvel er hugsanlegt að fólk sé í afneitun fyrir því að nokkurn tíma hafi neitt verið að. Þarna þarf að stíga varlega til jarðar og aðlaga væntingarnar að raunveruleikanum. Fólk kemur sér upp skoðunum og viðhorfum sem hjálpa því til að komast af, alltaf er hugsanlegt að þessar skoðanir og viðhorf gangi þvert á það sem við erum að reyna að gera. Ef við biðjum fólkið í fjölskyldu okkar um eitthvað sem það getur ekki eða vill ekki gera, erum við einfaldlega að búa okkur til vonbrigði. Við getum ekki vænst þess að aðrir breytist þótt við séum að reyna að breyta lífi okkar. Algengt viðhorf hjá þeim sem eru að ná sér út úr fíkn og áfallasögu er að þeir finni hvöt til að bjarga fjölskyldu sinni út úr sama ástandi. Því miður vill fólkið okkar oft ekki láta bjarga sér og það gerir ekki annað en að skapa sundrung í fjölskyldunni að reyna það. Höfum björgunarleiðangrana í lágmarki hvað aðra snertir, einbeitum okkar að okkur sjálfum fyrst. Hins vegar getum við ákveðið sjálf hvað við þolum fólki að ganga langt inn yfir okkar mörk og þetta getum við látið í ljós reiðilaust og rólega. Höfum í huga að við tókum okkur tíma til að verða tilbúin til að leita okkur hjálpar og leyfum öðrum að fá sinn tíma til þessa líka.

Eitt af því sem fólk greinir verulega á um í sambandi við áfallasögu er hvort æskilegt sé að fyrirgefa þeim sem ollu okkur áfallinu. Til þess að skoða þetta, skulum við skoða hvað fyrirgefning er og hvað hún er ekki.

Það sem fyrirgefning er ekki:

  • Ekki það sama og að gleyma
  • Ekki það sama og að samþykkja
  • Ekki aflát eða syndaaflausn
  • Ekki sjálfsafneitun
  • Ekki það að við verðum aldrei aftur reið yfir því sem gerðist
  • Ekki þannig að við getum tekið ákvörðun um hana í eitt skipti fyrir öll.

Það sem fyrirgefning er:

  • Að skilja að við þurfum ekki lengur að halda í gremjuna, hatrið eða sjálfsvorkunnina
  • Að langa ekki lengur til að refsa fólkinu sem særði þig
  • Að halda ekki lengur í sjálfsmynd sem byggðist á því sem gerðist í fortíðinni
  • Að muna eftir hlutunum og sleppa þeim.

Það tekur tíma að geta fyrirgefið öðrum, en ekki síður að fyrirgefa okkur sjálfum fyrir það sem við höfum gert til að særa aðra. Við þurfum að sýna sjálfum okkur samhygð, ekki síður en öðrum. Þetta kemur með tímanum ef við vinnum að því.

Þegar við erum búin að koma okkur í gegnum ferlið sem fylgir því að losa okkur úr álagahamnum af áfallastreituröskuninni, erum við tilbúin til að semja nýja ævisögu. Þetta er nokkuð sem er í rauninni hægt að skrifa. Þá byrjum við á því að lýsa batanum hingað til, því að við erum búin að fara í gegnum heilmikið bataferli þegar þarna er komið sögu. Síðan lýsum við því hvar við stöndum núna í batanum og því sem við ætlum að gera næst. Við sjáum fyrir okkur hvernig batinn muni þróast í framtíðinni og reynum að sjá fyrir okkur hvar við verðum stödd eftir fimm ár.

Áfallasagan er venjulega erfið og sársaukafull, en þegar vinnunni við að koma sér út úr vandanum er lokið, tekur jákvætt og gott tímabil við. Það er ástæða til að staldra við, taka sér tíma til að skoða í hverju munurinn liggur og njóta vellíðunar af að hafa unnið gott verk og vera á góðri leið í lífinu.

Þessi greinarstúfur hefur að miklu leyti verið byggður á bókinni sem áður var nefnd, Áhrif áfalla og fíknar í fjölskyldum eftir Claudiu Black. Höfundur hefur einnig reynt að forðast að gera þetta að fræðigrein, heldur spjalla fremur um efnið. Þeir sem vilja, geta síðan farið dýpra í það ef þeim sýnist. Rétt er að undirstrika, að hversu góðar sem bækur um áföll eru, gera þær lítið gagn ef ekki er farið eftir þeim. Þessi bók er eins konar sjálfshjálparbók, sem hægt er að feta sig í gegnum og halda sig við það ferli sem þar er lýst. Fyrir marga er þetta nægilegt til að ná tökum á bataferlinu ef þeir halda sig samviskusamlega við það sem þar er sett fram. Þetta er þó áreiðanlega alltaf auðveldara ef haft er samráð við góðan þerapista til að halda sér við efnið. Fyrir þá sem sitja fastir í köngulóarvef áfalla og fíknar, er þetta björgunarhringur, sem hægt er að taka í og lyfta sér upp úr vandanum.

Gangi okkur vel með það.

Sigurlína Davíðsdóttir

Ph.D

Nýtt á vefnum