Greinar / 19. júní 2023

Af hverju kvenheilsa?

Efni blaðsins er að þessu sinni tileinkað kvenheilsu. En af hverju kvenheilsa? Og hvað með karlana? Er verið að búa til enn eitt sílóið þar sem líkaminn er bútaður niður í mismunandi einingar? Er þetta tímaskekkja í aukinni umræðu um ólíka kynvitund og kynhneigð einstaklinga? Allt eru þetta spurningar sem komu fram þegar við settum á laggirnar nýtt kvenheilsuteymi innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. En sem betur fer var jákvæð og uppbyggjandi umræða meira áberandi og skilningur á nauðsyn þess að sinna þessum málaflokki vel og markvisst og viðtökurnar hafa verið frábærar.

Undanfarin ár hefur umfjöllun um kvenheilsu og ekki síst breytingaskeið kvenna fengið aukið pláss í umræðunni sem er að flestra mati löngu tímabært. Með þessari samantekt langar mig að draga fram þrjár megin ástæður þess að tímabært er að huga að kvenheilsu sérstaklega í nálgun okkar í heilbrigðiskerfinu. Í umræðunni hér er kvenheilsa miðuð út frá heilsu einstaklinga sem fæðast með XX litninga og eru skilgreind sem kvenkyns við fæðingu og umfjöllunin tekur að mestu mið af kyntvíhyggju. Og varðandi karlana, þá er gott að taka fram að með því að veita konum þjónustu vegna einkenna og sjúkdóma sem herja sérstaklega á konur er ekki verið að taka neitt frá körlum. Þjónusta til þeirra minnkar ekki. Þar eru einnig tækifæri til að draga fram sérstöðu karllíkamans og veita viðeigandi þjónustu.

Stýrikerfi líkamans

Stýrikerfi líkamans eru margskonar og taka þarf tillit til þeirra allra til að skilja hvernig líkami okkar starfar. Kynhormónin eru mjög öflugt stýrikerfi og hafa áhrif á alla líkamsstarfsemina. Stýrikerfi ólíkra kynja eru ólík og það er fyrsta ástæðan af þeim þremur sem mig langar að nefna sem ástæðu þess að vert er að horfa til kvenheilsu sérstaklega. Hormónin estrogen og prógesterón eru iðulega nefnd sem kvenhormón og testósterón sem karhormón. Til að flækja þetta aðeins þá er testósterón einnig hluti af kynhormónum kvenna og allt snýst þetta um magn, hlutföll, samspil og sveiflur. Erla Björnsdóttir sýnir í mynd í sinni grein um svefninn hvernig breytileiki kynhormóna í kvenlíkama er miklu meiri en breytileiki hormóna í líkama karla. Áhrif þessa öfluga stýrikerfis á líkamsstarfsemi, tilfinningar, svefn, mataræði og hreyfingu hefur lítill gaumur verið gefinn þar til nú. Hún setur þessar breytingar fram í samhengi við breytileika árstíðanna sem er skemmtileg nálgun. Þannig er líkami kvenna ekki bara með líkamsklukku sem hefur mismunandi hormónasveiflur innan hvers sólarhrings heldur einnig mánaðarlegar sveiflur sem breyta því hvernig líkaminn starfar.

Þessi breytileiki er líka mismunandi milli æviskeiða. Á frjósemistímabili eru hormónasveiflur með nokkuð reglulegum hætti en svo þegar breytingaskeiðið fer að segja til sín þá verða þessar sveiflur óreglulegar og ófyrirséðar. Birtingarmynd einkenna er einstaklingsbundin og hver kona reynir að lesa í sinn breytta líkama og líðan en það getur reynst erfitt þar sem breytingarnar eru víðtækar eins og fram kemur í grein þeirra Sólrúnar og Steinunnar um breytingaskeið kvenna. Hanna Lilja fjallar einnig um andleg einkenni sem fylgt geta breytingaskeiði og víkkar þannig enn sjóndeildarhring okkar og skilning. Enn má svo nefna allar þær miklu breytingar sem eiga sér stað á líkama kvenna við meðgöngu, fæðingu og brjóstagjöf. Þær konur sem fara í gegnum þá reynslu þurfa að læra endurtekið á nýjan líkama. Flókið vissulega en getur verð mjög skemmtilegt, sérstaklega ef við leggjum okkur fram um að skilja þessi ferli.

Framtíðardraumurinn er að hluti af lífsleikni í hefðbundnu námi ungmenna verði að skilja líkama sinn og líðan. Skilja hvernig mismunandi ástand í líkamanum hefur áhrif á líðan okkar, tilfinningar, orku, fæðuval, líkamlega getu, svefnþörf, efnaskipti og heilastarfsemi. Skilja líka hvernig við getum með ákvörðunum okkar í daglegu lífi svo sem fæðuvali, hreyfingu við hæfi, svefntíma, öndunaræfingum og jákvæðu sjálfstali haft áhrif til að fá líkamann í betra jafnvægi og starfa betur. Það myndi bæta líðan og heilsu margra, fyrirbyggja margt meinið og auka líkur á að leitað sé aðstoðar áður en heilsuvandi er orðinn verulegur. En það er aldrei of seint að byrja að læra á líkama sinn og líðan og vonandi verður efni þessa blaðs einhverjum hvatning til að skoða þessa þætti.

Rannsóknir á körlum heimfærðar á konur

Rannsóknir þær sem gerðar hafa verið gegnum tíðina og eru lagðar til grundvallar nútíma læknisfræði eru oft gerðar á körlum og niðurstöður síðan heimfærðar yfir á konur með tilheyrandi skekkjum. Það er önnur ástæða þess að vert er að huga sérstaklega að kvenheilsu. Um er að ræða rannsóknir sem sýna hvernig líkaminn starfar, hver eru einkenni hinna ýmsu sjúkdóma og ekki síður hvernig meðferð skuli beitt. Birna nefnir í sinni grein hvernig áherslur í líkamsþjálfun hefur miðað við líkama karla og ráðleggingar og áherslur gefnar samkvæmt því. Skiljanlegt er að birtingarmynd sjúkdóma s.s. þvagleka sé ólík milli kynja þar sem bygging líffæranna er ólík og tengin við önnur kerfi líkamans stundum með öðrum hætti eins og fram kemur í grein Hólmfríðar. En birtingarmynd sjúkdóma svo sem hjartasjúkdóma er ekki sú sama hjá konum og körlum sem lengi vel var ekki fyrirséð og enn er verið að skoða í hverju breytileikinn liggur. Þannig þykja einkenni hjartasjúkdóma kvenna oft „ódæmigerð“ og getur greining og viðeigandi meðferð tafist vegna þess. Þar er líklegasta skýringin sú að dæmigerð einkenni voru miðuð við karllíkama þegar sjúkdómurinn var skilgreindur.

Fleiri dæmi má nefna. Konur og karla safna orku á mismunandi hátt og þyngdarstjórnunarkerfin eru ólík. Þannig er sjúkdómurinn offita ekki eins hjá báðum kynjum og árangur meðferðar ekki sá sami. Auðvitað kemur fleira til og einstaklingsbreytileikinn er mikill en engu að síður þarf að taka tilllit til þessara þátta við val meðferðar. Það er svo sem skiljanlegt út frá hagkvæmnissjónarmiði að margar rannsóknir, til dæmis á virkni lyfja eru gerðar á körlum. Það eru jú miklu fleiri breytur sem taka þarf tillit til í líkama kvenna og dýrari og flóknari rannsóknir. En með nútíma þekkingu er ekki réttlætanlegt að sætta sig við slík vinnubrögð og við tökum fagnandi auknum fjölda rannsókna sem taka tillit til breytileika ólíkra kynja sem víkka sjóndeildarhring okkar og leiðir vonandi til aukinna framfara.

Sérstakir kvensjúkdómar

Þriðja ástæða þess að tímabært er beina sjónum að heilsu kvenna innan heilbrigðiskerfisins er að þessu hormónastýrikerfi og kvenlíffærum fylgja sjúkdómar sem herja sérstaklega á konur. Skort hefur á heildstæða nálgun við slíka sjúkdóma sem hafa áhrif í öllum kerfum. Sem dæmi um slíka sjúkdóma má nefna fjölblöðrueggjastokka heilkenni (e. polycystic ovarian disease, PCOS), legslímuflakk ( e. endometriosis) og fitubjúg (e. lipedema). Allir þessir sjúkdómar hafa víðtæk áhrif á heilsu kvenna sem lifa með þessum sjúkdómum. Einkenni geta verið frá mörgum líffærakerfum og komið fram með margvíslegum hætti.

Stundum er greining sjúkdóma augljós þegar á annað borð er leitað eftir þeim. En stundum eru einkenni ódæmigerð og óljós. Mismunandi hormónastaða á hverjum tíma getur verið ein ástæða þess að einkenni sveiflast til og gera greininguna óljósari. Orsökin getur líka verið vegna þess hve mörg líffærakerfi geta átt hlut að máli og geta einkenni þannig skarast við einkenni fjölda annarra sjúkdóma. Margar konur lýsa því að hafa þurft að leita oft eftir þjónustu innan heilbrigðiskerfisins til að fá rétta greiningu og viðeigandi meðferð við sjúkdómum sem herja sérstaklega á konur. Er þetta sjúkdómur sem á heima hjá kvensjúkdómalæknum, innkirtlasérfræðingum, skurðlæknum, heimilislæknum eða hvert á að leita? Eins og heilbrigðisþjónustan er byggð upp í dag eru líkamar okkar hólfaðir niður í líffærakerfi og hvert um sig annast sérfræðingur í viðkomandi kerfi. Í ljósi þeirrar miklu þekkingar sem til staðar er og þeirra hröðu framfara sem eiga sér stað í læknisfræði er ekki verið að draga úr nauðsyn þess að til staðar séu slíkir sérfræðingar, síður en svo. En um leið skapast hætta á að heildarsýnina vanti þó hver um sig sinni sinni vinnu á framúrskarandi hátt. Sérstaða heimilislækna er að horfa til allra þátta heilsunnar hjá einstaklingum allt æviskeiðið og finna heildarmyndina, þar á meðal að púsla saman áliti hinna ýmsu sérfræðinga í öðrum sérgreinum. En með óeðlilegu álagi á heilsugæslu eins og staðan er nú næst illa að sinna þessum mikilvæga hluta heimilislækninganna.

Konur leita að jafnaði meira eftir þjónustu heilbrigðiskerfisins og áleitin verður sú spurning um hvort hluta skýringarinnar sé að finna í því að einkenni þeirra eru tilkomin frá ólíkum líffærakerfum. Þess vegna getur þurft að leita til margra sérgreina með einkennin áður en þeim er púslað saman í heildarmynd. Er þarna ein leið til að minnka álag á heilbrigðiskerfið og um leið bæta heilsu? Við þessu er auðvitað ekki eitthvert eitt svar en vert að leiða hugann að því. Þannig tökum við aukinni umfjöllun um kvenheilsu fagnandi og horfum bjartsýn fram á veginn um að enn séum við að horfa fram á framfarir í heilbrigðisþjónustunni og skapa heim betri heilsu og betri lífsgæða.

Erla Gerður Sveinsdóttir

Heimilislæknir, lýðheilsufræðingur og sérfræðilæknir við offitumeðferð

Nýtt á vefnum