Greinar / 5. febrúar 2018

Að fortíð skal hyggja þá framtíð skal byggja

Það er ætíð mikilvægt að huga að ritun sögu. Að fortíð skal hyggja er framtíð skal byggja. Með söguritun samtaka okkar er leitast við að skoða stiklur liðins tíma í máli og myndum. Horfa á samhengið á milli tímabila og tengslin út á við. Með þessu móti getum við miðlað mögulega þekkingu og fróðleik frá heimildum sem aflað hefur verið af natni og umhyggju.

SÍBS var stofnað 23. október, 1938 á Vífilstöðum. Takmarkið sem lagt var af stað með var að útrýma með öllu berklaveikinni. Berklasmitun jafngilti í flestum tilvikum dauðadómi. Og það var ekki eldra fólk sem var útsett fyrir berklum. Þvert á móti lagðist veikin hvað harðast á fólk sem var í blóma lífsins og átti ævistarfið framundan. Og fátt var til varnar. Helst það að reyna að koma sjúklingunum í sem mesta einangrun og koma í veg fyrir að þeir smituðu aðra, því berklar voru bráðsmitandi og gerðu engan greinarmun á kotkörlum og höfðingjum.

Það að halda heilsu eru lífsgæði. Sá sem heldur heilsu er þakklátur fyrir þá lífsgjöf. Aðrir eru ekki eins gæfusamir og þurfa að horfast á við þann raunveruleika að heilsan brestur skyndilega og án nokkurs fyrirvara.

Í dag eru verkefni SÍBS af öðrum toga. Berklar hopuðu og urðu ekki þessi mikla vá sem leiddu fjölmarga til ótímabærs dauða. Fjölmörg sjúklingafélög mynda samtökin í dag. Við horfum til framtíðar með það að markmiði að fræða almenning um forvarnir og koma í veg fyrir ótímbæra dauðdaga. Í hinu víðtæka starfi sem unnið er á vegum SÍBS og aðildarfélaga, Reykjalundar sem stærstu endurhæfingarmiðstöðvar landsins og þeirri skjaldborg sem til staðar er í starfssemi Múlalundar, sameinast mikill kraftur sem byggst hefur upp í 80 ár. Sá mannauður og þekking sem er til staðar innan samtakanna varð ekki til á einni nóttu. Það er hið þrotlausa starf sjálfboðaliða, starfsfólks og sjúklinga sem hefur skilað okkur á þann stað sem við erum í dag.

Mikil og stór verkefni eru framundan í starfi okkar. Við verðum að tryggja og treysta allar undirstöður. Samstarf við opinbera aðila er mikilvægt og gagnkvæmur skilningur verður að ríkja svo hægt verði að halda áfram því góða starfi sem byggt hefur verið upp í áratugi.

Áherslur samtakanna kunna að breytast með tíðarandanum og frekari verkefni kunna að bíða okkar í framtíðinni. Grundvallarbreytingar á lýðfræði Íslands bera það með sér til framtíðar að minni frjósemi og aukið langlífi munu valda öldrun þjóðarinnar. Þörf á ummönnun einstaklinga 75 ára og eldri mun aukast verulega frá og með 2020.

Stjórn SÍBS sendir öllum landsmönnum árnaðaróskir á þessum tímamótum með þakklæti fyrir samfylgdina í 80 ár. Til sigurs – fyrir lífið sjálft.

Sveinn Guðmundsson

Formaður Stjórnar SÍBS

Nýtt á vefnum