Greinar / 7. júní 2016

Offita sem lýðheilsuvandamál

Offita og ofþyngd hefur fylgt mannkyninu gegnum tíðina, en var áður fyrr mjög sjaldgæf og nánast algjörlega bundin þeim sem betur máttu sín, höfðingjum og fyrirmönnum. Það er ekki fyrr en á allra síðustu áratugum, eftir seinni heimsstyrjöld, sem offita fer að verða útbreidd í samfélaginu og verður „almenningseign“.

Feitari en frændur okkar

Offita hefur færst stöðugt meira í vöxt, sérstaklega síðustu þrjá áratugina og er orðin það mikil að farið er að tala um hana sem alheimsfaraldur. Ísland hefur ekki farið varhluta af þessari þróun og er ástand hér á landi talsvert verra en á hinum Norðurlöndunum. Við fylgjum fast á hæla Bandaríkjamönnum í þróuninni og er sennilegt að holdafar Íslendinga sé svipað og hvítra Bandaríkjamanna.

Samkvæmt rannsókn Lýðheilsustöðvar/Landlæknis frá 2007, sem byggir á eigin upplýsingum þátttakenda um hæð og þyngd (sennilega er um vanmat að ræða) eru um 20% fullorðinna of feitir og 40% til viðbótar of þungir. Árið 1990 voru 8,5% of feitir samkvæmt svipaðri rannsókn.

Ofþyngd og offita barna óx mjög hratt á síðustu áratugum 20. aldar, offita fjórfaldaðist frá 1980-2000. Þessi þróun virðist, góðu heilli, hafa stöðvast á síðustu árum, en viðsnúningur er ekki sjáanlegur ennþá. Í dag eru um 21% grunnskólabarna of þung og um fjórðungur þeirra of feit eða rúm 5% barna á þeim aldri.

Þannig má ætla að um 160.000 Íslendingar séu yfir æskilegri þyngd og af þeim séu 50-55.000 of feitir. Þessar tölur segja ekki allt því offita ungs fólks hefur aukist enn meira en tölurnar segja til um og sama gildir um alvarleg stig offitu.

Lakari heilsa og lífsgæði

Offita er áhyggjuefni vegna þess hve slæm áhrif hún hefur á heilsu fólks og lífsgæði. Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) talar um offitu sem sjúkdóm (BMI>30) og telur offitusjúkdóminn vera meðal allra alvarlegustu heilsufarsvandamála nútímans.

Heilsufarslegar afleiðingar offitu eru mjög margþættar. Þær eru ekki aðeins afleiðing offitunnar einnar, heldur tengjast eflaust einnig þeim slæmu lifnaðarháttum sem leiða til þess að fólk fitnar. Þannig hafa léleg næring og næringarefnaskortur, hreyfingarleysi og margt annað áhrif. Þá veldur sjálfsóánægja og lágt sjálfsmat og depurð sem oft fylgir offitunni mikilli skerðingu á lífsgæðum.

Listi yfir þá sjúkdóma og heilsubrest sem offita stuðlar að er of langur fyrir umfjöllun hér. Afleiðingar hennar leiða til aukinnar dánartíðni og skemmri ævi sem afleiðing sjúkdóma eins og sykursýki, hjarta- og æðasjúkdóma, kæfisvefns og krabbameina. Hún skerðir einnig lífsgæði vegna verkjavandamála, andlegrar vanlíðunar, mæði og þreytu. Þá leiðir hún til verulegra félagslegra vandamála vegna skertrar getu og möguleika til þátttöku í daglegu lífi og lystisemdum lífsins.

Loks er verulegt áhyggjuefni slæm áhrif offitu mæðra á meðgöngu og fæðingar, sem auk áhættu fyrir móðurina getur einnig skaðað barnið til skemmri og lengri tíma.

Þegar allt þetta er skoðað er ljóst að þörf er mjög markvissra og víðfeðmra aðgerða til að snúa málum til betri vegar. Forvarnir eru nauðsynlegar til að reyna að stemma stigu við þessarri þróun. Þær þurfa að byggja á margþættum samfélagslegum aðgerðum og ekki minnst hugarfarsbreytingum.

Samhliða forvörnum er einnig nauðsynlegt að styðja þá sem þegar eru orðnir of feitir til að ná tökum á ofþyngd sinni og slæmum lífsháttum. Reykjalundur hefur verið í fararbroddi í offitumeðferð á Íslandi og verður fjallað um þá starfsemi í þessu blaði.

Ludvig Guðmundsson

Læknir

Nýtt á vefnum