Greinar / 7. júní 2012

Brauð og trefjar – óverðskuldaður hræðsluáróður

Brauðneysla Íslendinga hefur dregist saman undanfarinn áratug enda virðist hálfgerður hræðsluáróður gegn brauði hafi verið í gangi þar sem því er haldið fram að neysla á brauði sé af hinu illa. Það á alls ekki við rök að styðjast en það er aftur á móti mjög mikilvægt að hafa í huga hvers konar brauðs er neytt í stað þess að sneiða algerlega hjá því. Það er í auknum mæli farið að hvetja til aukinnar neyslu á heilkornavörum og framleiðendur hafa svarað þessari eftirspurn þar sem æ fleiri tegundir af heilkornabrauðum og öðrum heilkornavörum sjást á markaðnum. Neysla grófra trefjaríkra brauða hefur aðeins aukist, þó enn sé hún alltof lítil.

Hvað eru trefjar?

Trefjar eru kolvetni sem eru svo til eingöngu í fæðu úr jurtaríkinu og eiga það sameiginlegt að vera ómeltanlegar í þörmum manna. Þær nýtast því ekki beinlínis sem næring eða orkugjafi en á leið sinni um meltingarveginn hafa trefjarnar margs konar heilsusamleg áhrif. Þær hægja m.a. á upptöku kolvetna í meltingarvegi og hafa þannig góð áhrif á blóðsykurstjórnun, geta lækkað kólesteról í blóði, örva hreyfingu meltingarvegar auk þess sem þær eru mettandi án þess að gefa mikla orku og geta þannig hjálpað til við þyngdarstjórnun.

Ráðlögð neysla trefja er að minnsta kosti 25- 35 grömm á dag en samkvæmt landskönnun á mataræði, sem gerð var 2010-2011, var meðaltrefjaneysla Íslendinga alltof lítil, eða aðeins tæp 17 grömm á dag. Á öllum Norðurlöndunum, nema Svíþjóð, er fæðið trefjaríkara en á Íslandi enda neysla á grófum brauðum og kornmat yfirleitt meiri þar. Þessi litla trefjaneysla endurspeglar léleg gæði kolvetna í íslensku fæði. Trefjar er að finna í heilum kornvörum, ávöxtum, grænmeti, berjum og baunum og er því mikilvægt að auka hlut þessarra matvæla í fæðu okkar.

Trefjaríkt brauð

Til þess að brauð teljist trefjaríkt þarf það að innihalda að minnsta kosti 6 grömm af trefjum í hverjum 100 grömmum af brauði. Það sama gildir um aðrar kornvörur en auka þarf neyslu á öllum heilkornavörum á kostnað fínunnina vara. Dæmi um heilkornavörur eru vörur gerðar úr heilhveiti, rúgi, byggi, höfrum, maís og hirsi. Í heilkornavörum eru allir hlutar kornsins notaðir við framleiðsluna, þ.e. hýði, mjölvi og kím. Mest er af vítamínum, steinefnum og trefjum í hýði og kími, s.s. trefjar, járn, kalíum, magnesíum, fólat og E-vítamín. Í fínunnum vörum er hins vegar búið að fjarlægja þessa hluta kornsins. Vara telst ekki heilkorna ef hveitiklíði eða trefjum hefur verið blandað saman við hvítt hveiti í framleiðsluferlinu.

Eins og áður kom fram þá hefur framboð á heilkornavörum aukist mikið á undanförnum árum og gott er að hafa fjölbreytni í huga þegar heilkornavörur eru valdar. Má þar nefna ýmsar tegundir af brauði (Lífskorn, Heilkornabrauð, Heilkornakubbur), flatkökum (Heilkornaflatkökur), hrökkbrauði, heilhveitipasta, hýðishrísgrjónum, hafragrjónum, byggi og ákveðnum tegundum af múslíi og morgunkorni.

Veljum því heilkornavörur sem oftast!

Óla Kallý Magnúsdóttir

Næringarfræðingur

Nýtt á vefnum