Greinar / 2. febrúar 2013

Við erum gerð til að hreyfa okkur

Það getur varla talist umdeilanlegt að hreyfing er manninum eðlislæg og hreyfingarleysið, sem einkennt hefur lífsstíl margra Vesturlandabúa undangengna áratugi, megi kalla framandi fyrir manninn. Tengsl lífsstíls Vesturlandabúa við ýmsa lýðsjúkdóma eru vel þekkt og hafa bæði lýðheilsuaðgerðir og margvísleg úrræði innan heilbrigðiskerfisins skilað umtalsverðum árangri í baráttu við þessa sjúkdóma. Dæmi um slík áhersluatriði eru hár blóðþrýstingur, reykingar, háar blóðfitur og sykursýki.

Hreyfingarleysi er hættulegt

60 árum birtust í hinu virta læknatímariti Lancet niðurstöður úr rannsóknum Morris og félaga á áhrifum hreyfingarleysis fyrir áhættuna á því að fá hjartaáföll. Þetta voru fyrstu rannsóknir sem sýndu heilsufarslega áhættu af hreyfingarleysi. Síðan hefur birst fjöldi stórra og smárra rannsókna um hreyfingarleysi sem áhættuþáttar gagnvart sjúkdómum og dauða, og einnig áhrif hreyfingar sem meðferðar við fjölmörgum sjúkdómum.

Útbreidd meðferð í Svíþjóð

Lengi hafa heilbrigðisyfirvöld hvatt almenning til reglulegrar hreyfingar í heilsuverndarskyni. Hreyfing sem meðferð hefur hins vegar ekki markvisst verið í boði innan heilbrigðiskerfisins þrátt fyrir að löngu hafi verið sýnt fram á mikilvægi þeirrar meðferðar í mörgum sjúkdómum. Hreyfingarleysi er lífsstíll og öllu fagfólki ljóst að einfaldar ráðleggingar duga skammt þegar kemur að breytingum á lífsstíl. Á undanförnum árum hefur þróast í nokkrum nágrannalöndum meðferðarform þar sem skipulagðri hreyfingu með reglulegu eftirliti og aðhaldi er ávísað af læknum, hreyfiseðill. Í Svíþjóð hefur þetta meðferðarform náð mikilli útbreiðslu á síðustu árum og munu nú 9 af hverjum 10 heilsugæslustöðvum þar í landi ávísa hreyfiseðlum.

Hreyfiseðill á Íslandi

Hugmyndir um hreyfiseðil á Íslandi eru ekki nýjar af nálinni. Fjallað var um þær á Alþingi fyrir nokkrum árum og endurtekið fluttar þings- ályktunartillögur um málið, sem hlutu þó ekki framgang. Árið 2005 vann hópur fólks sem var í námi í verkefnastjórnun í Háskóla Íslands verkefni um hreyfiseðil á Íslandi. Í kjölfarið ákváðu læknar Heilsugæslunnar í Garðabæ í samvinnu við höfunda verkefnisins að hleypa af stokkunum tilraun með hreyfiseðil. Til samstarfs komu bæjaryfirvöld og ýmsir aðilar í Garðabæ, sjúkraþjálfarar, íþróttafélagið og fleiri. Heilbrigðisráðuneytið veitti styrk til kynningar á verkefninu. Hreyfiseðilstilraunin í Garðabæ varð þó ekki langlíf og voru á því ýmsar skýringar.

Í Heilsustefnu heilbrigðisráðherra frá 2008 voru sett þau markmið að ávísun á hreyfingu yrði komið á innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fyrir árslok 2009 og á öllu landinu fyrir árslok 2010.

Um mitt ár 2011 hófst nýtt tilraunaverkefni um ávísun á hreyfingu eða hreyfiseðil með styrk frá Velferðarráðuneytinu og í samvinnu við fimm heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Reynslan af tilrauninni í Garðabæ sýndi að grundvallarforsenda fyrir verkefninu var ráðning starfsmanns í hlutastarf. Læknar stöðvanna ávísa hreyfiseðli og starfsmaður verkefnisins, sem er sjúkraþjálfari, hittir hvern einstakling einu sinni í byrjun og fylgir honum svo eftir reglulega í gegnum síma eða tölvusamskipti.

Tilraunaverkefnið hefur gengið vel og sýndu tölur eftir eitt og hálft ár að meðferðarheldnin var 60%, þ.e.a.s. þrír af hverjum fimm sem byrjuðu meðferðina stunduðu reglulega hreyfingu við lok tímabilsins.

Komið til að vera

Nú hefur hreyfiseðilsverkefnið fengið áframhaldandi og aukinn styrk frá Velferðarráðuneytinu, sem mun gera það kleift að skipuleggja hreyfiseðilsúrræði fyrir allar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. SÍBS mun hýsa verkefnið. Ávísun á hreyfingu á við sem meðferð eða hluti af meðferð við fjölmörgum sjúkdómum, t.a.m. hjarta- og æðasjúkdómum, lungnasjúkdómum, stoðkerfissjúkdómum, sykursýki, offitu, kvíða, þunglyndi og streitu. Tilkoma þessa meðferð- arúrræðis í íslensku heilbrigðiskerfi er bylting í þeim skilningi að um er að ræða nýja meðferð innan heilsugæslunnar, sem er mikilvæg sem a.m.k. hluti af meðferð margra sjúkdóma og þar sem meðferðin byggir á framlagi sjúklingsins sjálfs.

Það er von okkar sem stöndum að hreyfiseðlinum að starfsfólk og skjólstæðingar heilsugæslunnar taki þessu nýja meðferðarúrræði með opnum hug og að innan fárra ára verði ávísun á hreyfingu sjálfsagður hluti af íslensku heilbrigðiskerfi.

Jón Steinar Jónsson

Læknir Heilsugæslunni í Garðabæ

Nýtt á vefnum