Greinar / 25. febrúar 2015

Virkjum hæfileikana - alla hæfileikana

Vinnumálastofnun (VMST) starfar samkvæmt lögum nr. 55/2006 um vinnumarkaðsaðgerðir og lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, ásamt því að fara með framkvæmd fjölmargra annarra laga. Markmið laganna um vinnumarkaðsaðgerðir er að veita einstaklingum viðeigandi aðstoð til að verða virkir þátttakendur á vinnumarkaði, auk þess sem lögunum er ætlað að stuðla að jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar eftir vinnuafli í landinu.

Vinnumálastofnun rekur níu þjónustuskrifstofur í kringum landið, þar sem veitt er öll almenn þjónusta við atvinnuleitendur, skráning, mat á færni, ráðgjöf og úrræði og vinnumiðlun auk samvinnu við aðra þjónustuaðila um úrræði og vinnumarkaðsaðgerðir.

Virkja hæfileika.jpg

Hlutverk vinnunnar

Vinnan gegnir mikilvægu hlutverki í lífi allflestra og hefur einnig mikil áhrif á sjálfsmynd einstaklinga. Við skilgreinum okkar gjarnan út frá því starfi sem við gegnum og þegar við erum án atvinnu hefur það mikil áhrif ekki bara á afkomu okkar heldur tilvist okkar alla. Rannsóknir benda til að atvinnuleysi hafi neikvæð áhrif á líf og heilsu fólks og að líðan atvinnulausra sé verri borin saman við líðan fólks í vinnu. Það tengist ekki einungis fjárhagsáhyggjum sem þjakar menn, því oft eru einkenni um depurð og kvíða mest áberandi að viðbættum tilfinningum um tilgangsleysi og áhrifaleysi. Þegar fólk fær síðan vinnu lagast slík vanlíðan oft að miklu leyti.

Í rannsókn sem Sigurður Thorlacius og Stefán Ólafsson (2008) gerðu til að kanna og skýra áhrif atvinnuleysis á fjölda öryrkja á Íslandi á tímabilinu 1992 – 2006 kemur fram að tengsl eru á milli örorku og atvinnuleysis. Þar kemur fram að í könnun sem gerð var á högum öryrkja 1997 reyndust 45% þátttakenda hafa einhvern tíma verið atvinnulausir. Í rannsókn þeirra kemur einnig fram að atvinnuleysi stuðlar að óhollum lífsháttum sem geta leitt til heilsubrests. Atvinnuleysi getur haft áhrif á fjárhagsstöðu og skaðað félagslegt net fólks og stuðlað að félagslegri einangrun sem aftur getur leitt af sér þunglyndi og kvíða. Fram kemur að atvinnuleysi stuðlar að félagslegum ójöfnuði og margt bendir til að heilsuleysi og aukin dánartíðni fylgi auknum ójöfnuði (Sigurður Thorlacius og Stefán Ólafsson, 2008).

Í ljósi þessa hefur mikil áhersla verið lögð á öfluga ráðgjöf og þátttöku atvinnuleitenda í virkniúrræðum samhliða atvinnuleitinni. Atvinnuleitendum stendur til boða til viðbótar við vinnumiðlun, ráðgjafarþjónusta, þátttaka í námskeiðum og námi, endurhæfingarúrræði og starfstengd vinnumarkaðsúrræði, s.s. starfs- þjálfun á vinnustað og þátttaka í sjálfboðaliðastarfi. Markmið slíkra aðgerða er að styrkja stöðu einstaklings á vinnumarkaði en ekki síður að viðhalda virkni og áhugahvöt sem er besta forvörn gegn alvarlegum afleiðingum langtímaatvinnuleysis.

Aðgerðir í kjölfar efnahagsþrenginga

Haustið 2008 leiddu efnahagsþrengingar til meira atvinnuleysis en verið hafði um langt skeið á Íslandi. Samkvæmt tölulegum upplýsingum frá Vinnumálastofnun fór atvinnuleysi á einu ári úr rétt um 1% haustið 2008 í um 8% árið 2009 og á árinu 2010 þegar atvinnuleysið varð mest fór það í rúm 9%.

Í upphafi var öll áhersla á að tryggja framfærslu þeirra sem misstu vinnu. En frá hausti 2009 hefur stofnunin á hverju ári sett á fót átaksverkefni í samstarfi við stjórnvöld, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélögin, þar sem mið er tekið af aðstæðum í samfélaginu á hverjum tíma. Mikið hefur verið lagt upp úr því að horfa til nágrannalanda okkar með það að markmiði að nýta reynslu þeirra og rannsóknir á atvinnuleysi og aðgerðum gegn því á síðasta atvinnuleysisskeiði á 10. áratug síðustu aldar.

Sérstök áhersla hefur verið lögð á starfstengd vinnumarkaðsúrræði og voru sérstök átaksverkefni um starfsþjálfun á vinnustað sett í gang á árunum 2012 og 2013 í samstarfi við atvinnulífið og sveitarfélögin sem fengu heitin Vinnandi vegur og Liðsstyrkur.

Einnig var ráðist í sérstakt námsátak haustið 2011 sem fékk heitið Nám er vinnandi vegur, þar sem tæplega 1000 atvinnuleitendur fóru í nám á grundvelli átaksins.

Á mynd 1 hér að neðan má sjá hvernig fjöldi þeirra sem verið hefur atvinnulaus um lengri tíma hefur breyst frá hruni. Fækkunin skýrist m.a. af árangri aðgerða sem gripið var til og áður eru nefnt s.s. Nám er vinnandi vegur (sjá hring sem merktur 1 á mynd 1) og svo Vinnandi vegur (sjá hring 2 á mynd 1). Um áramótin 2012/2013 var bótatímabil stytt úr 4 árum í 3, en bótatímabilið hafði verið lengt í 4 ár í kjölfar hrunsins. Við þessa breytingu fóru um 500 manns af skrá (sjá hring 3 á mynd 1).

Mat á árangri úrræða

Í lok árs 2013 var gerð könnun meðal einstaklinga sem ekki voru lengur skráðir atvinnuleitendur en höfðu verið skráðir sem slíkir í sex mánuði eða lengur á tímabilinu 2009–2013. Tilgangur könnunarinnar var að sjá hvar þessir einstaklingar væru staddir. Meginniðurstaðan er að stærstur hluti þeirra sem ekki eru lengur skráðir atvinnuleitendur eru nú í vinnu, eða um 60%, 5% eru í vinnu samhliða námi og 10% eru í námi. Samtals eru því um 75% þessara einstaklinga samkvæmt könnuninni í vinnu og/ eða námi. Af þeim sem eftir standa eru 6% farin af vinnumarkaði sökum aldurs, örorku eða lengri veikinda og rúm 2% eru í fæðingarorlofi. Eftir standa um 17% sem svara því til að þeir séu í atvinnuleit, heimavinnandi eða hvorki í námi né vinnu án þess að skilgreina það nánar.

grafvmst.jpg

Könnunin leiddi í ljós að fyrrverandi atvinnuleitendur eru almennt ánægðir með þau úrræði og verkefni sem þeir tóku þátt í þótt einhvers mismunar gæti eftir verkefnum og var ánægjan mest meðal þátttakenda í Nám er vinnandi vegur. Meirihluti þátttakenda telur að vinnumarkaðsúrræðin, eða önnur verkefni sem þeir tóku þátt í, hafi hjálpað þeim við atvinnuleit og þá einkum sá hópur sem tók þátt í starfs- þjálfunarverkefnum á borð við Vinnandi veg árið 2012.

Meginmarkmið allra þessara átaksverkefna var að bregðast við vaxandi langtímaatvinnuleysi með áherslu á að koma í veg fyrir að fólk festist í vítahring þess með þeim alvarlegu afleiðingum sem það getur haft. Rúmlega 10.000 einstaklingar hafa nýtt sér úrræði á hverju ári í kjölfar efnhagshrunsins haustið 2008.

Þjónusta VMST við fólk með skerta starfshæfni

Vinnumálastofnun hefur um langan tíma veitt atvinnuleitendum með skerta starfsgetu þjónustu og ráðgjöf vegna atvinnuleitar og hafa 3-400 einstaklingar notið þessarar sérþjónustu árlega. Frá árinu 2010 hefur þjónusta „Atvinnu með stuðningi“ síðan bæst við þessa þjónustu Vinnumálastofnunar.

Á höfuðborgarsvæðinu var þessi þjónusta lengst af veitt undir merkjum Atvinnudeildar fatlaðra sem nú er orðinn partur af almennri ráðgjafarog vinnumiðlunarþjónustu VMST. Innan þeirrar þjónustu starfa ráðgjafar sem sérhæfa sig í þjónustu við þann hóp sem býr við skerta starfshæfni. Ávallt hefur verið lögð áhersla á öflugt og faglegt samstarf við endurhæfingaraðila og aðra þá þjónustuaðila sem vinna að því að auka möguleika og aðgengi fólks með skerta starfshæfni að vinnumarkaði. Í því sambandi má m.a nefna Reykjalund, Hringsjá og Starfsendurhæfingarmiðstöðvar víða um land. Samstarfið hefur byggst á góðri samvinnu og gagnkvæmu trausti þar sem skjólstæðingar fara frá VMST í starfsendurhæfingu og koma til baka til Vinnumálastofnunar þegar og ef vinnufærni er náð á nýjan leik.

Þá hafa ráðgjafar VMST séð um umsóknir á vernduðu vinnustaðina Múlalund og Örtækni í áratugi og átt farsælt samstarf við þau mikilvægu fyrirtæki. Til viðbótar má nefna að Vinnumálastofnun og Múlalundur vinnustofa SÍBS gerðu þann 23. september síðastliðinn með sér tímabundið samkomulag um kaup á starfsprófunarrýmum á Múlalundi fyrir atvinnuleitendur með skerta starfsgetu og/eða langtímaatvinnuleitendur. Verkefnið felst í því að fá raunhæfa starfsprófun fyrir atvinnuleitendur til að auka möguleika þeirra til atvinnuþátttöku á almennum vinnumarkaði. Frammistaða er metin samkvæmt stöðluðu mati í lok matstímans. Mat á árangri verkefnisins lofar góðu og hefur ákvörðun um frekara samstarf verið tekin.

Árið 2006 fær Vinnumálastofnun aukið hlutverk á sviði atvinnutengdrar endurhæfingar með breytingu á lögum um vinnumarkaðsaðgerðir sem heimilar VMST að gera samning um atvinnutengda endurhæfingu við atvinnuleitendur í allt að 6 mánuði. Ráðgjafar Vinnumálastofnunar fá með þessum breytingum það lögbundna hlutverk að leggja mat á vinnufærni og gera samninga um atvinnutengda endurhæfingu við þá sem þess þurfa í samstarfi við endurhæfingaraðila. Þessi breyting á lögum um vinnumarkaðsaðgerðir var í anda þeirrar hugmyndafræði sem rutt hafði sér til rúms þar sem vaxandi áhersla var á réttinn til vinnu fremur en réttinn til örorku, með snemmbæru inngripi og áherslu á samhæfingu þjónustunnar með þverfaglegri teymisvinnu sérfræðinga sem kæmu að endurhæfingu. Í kjölfar þessarar breytingar á lögum um vinnumarkaðsaðgerðir hafa ráðgjafar Vinnumálastofnunar gert u.þ.b. 400 samninga um atvinnutengda endurhæfingu við atvinnuleitendur.

Frá því þessi breyting var gerð á lögunum um vinnumarkaðsaðgerðir hefur verið að safnast upp afar dýrmæt þekking hjá ráðgjöfum VMST varðandi mat og stuðning við þann hóp sem veikast stendur og hefur þörf fyrir sértæka þjónustu, sem mun nýtast vel í þeim verkefnum sem framundan eru.

Áherslur í þjónustu Vinnumálastofnunar 2015

Á árinu 2014 og í áherslum stofnunarinnar fyrir árið 2015 hefur verið lögð sérstök áhersla á að efla þjónustu með einstaklingsmiðaðri nálgun við þann hóp sem er langt kominn með bótarétt sinn innan Atvinnuleysistryggingasjóðs og þann hóp sem þegar hefur lokið bótarétti sínum. Sömuleiðis er aukin áhersla á að efla þjónustu við atvinnuleitendur með skerta starfshæfni með einstaklingsmiðaðri þjónustu og áherslu á árangursríkar leiðir til að sem flestir geti aftur orðið virkir á vinnumarkaði. Markmiðið er ekki síst að koma í veg fyrir að atvinnuleysi leiði til óvinnufærni sem gæti endað í ótímabærri örorku.

Áhersla er lögð víðtækan stuðning við þá sem hafa skerta vinnugetu vegna andlegrar og / eða líkamlegrar fötlunar, aðstoð við að finna rétta starfið og að veita stuðning á nýjum vinnustað ef þörf er á. Atvinna með stuðningi (AMS) er þar árangursrík leið í atvinnumálum fyrir þá sem þurfa aðstoð við að fá vinnu á almennum vinnumarkaði og er hún hluti af ráðgjafarþjónustu stofnunarinnar eins og áður er nefnt.

Í ljósi þessarar áherslu tekur Vinnumálastofnun þátt í samstarfsverkefni með Öryrkjabandalagi Íslands og Landssamtökunum Þroskahjálp undir heitinu „Virkjum hæfileikana – alla hæfileikana“. Markmið verkefnisins er að stuðla að fjölgun starfstækifæra fyrir atvinnuleitendur með skerta starfsgetu. Verkefnið fór af stað í október sl. og var í byrjun leitað til opinberra stofnana bæði hjá ríki og sveitarfélögum með kynningu á verkefninu og þeim möguleikum sem það felur í sér. Vinnumálastofnun opnaði sérstakt vefsvæði undir heiti verkefnisins þar sem atvinnurekendur geta skráð inn störf sem hentað gætu markhópnum. Átakinu verður fylgt eftir með frekari kynningu og aðgerðum á árinu 2015.

Á árinu 2014 fékk Vinnumálastofnun aukið hlutverk á svið starfsendurhæfingar þegar stofnuninni var falið af velferðarráðuneytinu að efla samstarf við endurhæfingaraðila og hafa umsjón með fjármagni til starfsendurhæfingar.

Fjármagninu verður varið í gerð þjónustusamninga við aðila á sviði endurhæfingar og má þar nefna sem dæmi Hringsjá, Hlutverkasetur, klúbbinn Geysi, klúbbinn Strók og endurhæfingarhúsið Hver. Að auki verður fjármagninu varið í úrræði fyrir þátttakendur sem ekki eru tryggðir innan Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Hrafnhildur Tómasdóttir

Sviðsstjóri ráðgjafar- og vinnumiðlunarsviðs VMST

Nýtt á vefnum