Greinar / 25. maí 2016

Fjölþætt heilsurækt - leið að farsælli öldrun

Öldun.jpg

Í flestum löndum heims ná íbúar stöðugt hærri aldri. Því er mikilvægt að rannsaka heilsu fólks á efri árum. Rannsóknir benda til þess að virkur lífsstíll og fjölbreytt þjálfun hafi margvíslegan heilsutengdan ávinning í för með sér auk þess sem þjálfunin getur dregið úr ýmsum áhættu- þáttum sem tengjast aldri. Virkur lífsstíll er meðal annars fólginn í reglubundinni hreyfingu sem felur í sér loftháða þjálfun og styrktarþjálfun. Slík þjálfun hefur sannað gildi sitt fyrir hjartað og æðakerfið og einnig fyrir lungun og stoðkerfi líkamans. Af yfirlitsrannsóknum má ráða að það sé nánast sannað að þjálfun hafi jákvæð áhrif á líkamsþrek, hagnýta hreyfigetu, athafnir daglegs lífs og heilsutengd lífsgæði. Þetta á bæði við þá sem eru heilsuhraustir en ekki síður við þá sem eru veikburða eldri einstaklingar.

Dagleg hreyfing

Gögn um daglega hreyfingu almennings gefa til kynna að rúmlega þriðjungur íbúa heims nái ekki ráðlögðu lágmarki daglegrar hreyfingar. Hér á landi vantar einnig nokkuð upp á að þessum lágmörkum sé náð en þau eru 30 mínútur á dag. Íslenskar rannsóknir sýna að um helmingur af þessum tíma, eða um 15 mínútur á dag, vantar á til að Íslendingar nái alþjóðlegum ráðleggingum helstu heilbrigðisstofnana í heimi. Þrátt fyrir mikla þekkingu á jákvæðum áhrifum af reglubundinni hreyfingu fer hún minnkandi. Árið 2009 var talið að hlutfall þeirra jarðarbúa sem væru óvirkir eða hreyfðu sig ekki sem neinu næmi væri um 17%.

Laugardalsvöllur.JPG

Hreyfingarleysi og sjúkdómar

Í rannsóknum kemur fram að 6–10% dauðsfalla tengjast sjúkdómum sem megi rekja til hreyfingarleysis. Talið er að þessi tala sé jafnvel hærri, eða um 30% þegar um er að ræða tiltekna hjarta- og æðasjúkdóma tengda blóð- þurrð. Árið 2007 var talið að koma mætti í veg fyrir um 5,5 milljónir dauðsfalla af völdum sjúkdóma, sem ekki eru smitandi. Aðferðin er ekki flókin, hún gengur út á það að fá kyrrsetufólk til að stunda hreyfingu. Hreyfingarleysi á heimsvísu hefur samt aukist þó að þekking á þjálfunaraðferðum sem leiða til bættrar heilsu hafi farið vaxandi. Þessu ástandi er líkt við heimsfaraldur því að það snertir ekki einungis heilsu fólks heldur eru afleiðingarnar einnig efnahagslegar, umhverfislegar og félagslegar.

Mikilvægar ábendingar fyrir 65+

Æfingareldrib.JPG

Í nýlegri skýrslu frá bandarískum heilbrigðisyfirvöldum eru settar fram mikilvægar ábendingar tengdar heilsu 65 ára og eldri einstaklinga. Helstu þættir sem nefndir eru og stuðla að góðri heilsu eru reglubundin hreyfing, æskileg næring og að forðast tóbaksreykingar. Helstu þættir sem aftur á móti stofna heilsu eldri aldurshópa í hættu eru minnkandi hreyfing, lítil ávaxta- og grænmetisneysla, offita og tóbaksreykingar. Rannsóknaniðurstöður frá 2011 gáfu til kynna að um 33% einstaklinga, 65 ára og eldri, hreyfðu sig ekki, 73% borðuðu færri en fimm ávaxta- og grænmetisskammta á dag, 24% þeirra væru í offituflokki og 8% reyktu. Þessar niðurstöður sýna fram á mikilvægi þess að koma á fót heilsutengdri íhlutun í samfélögum þjóða með það að markmiði að stemma stigu við áhættu- þáttum tengdum heilsuleysi og um leið að auka markvissa hreyfingu og æskilega næringarinntöku meðal eldri aldurshópa.

Íslensk doktorsrannsókn

Doktorsritgerð greinarhöfundar var að athuga hvaða áhrif sex mánaða íhlutun, sem byggð var á fjölþættri hreyfingu og ráðleggingum um næringu og heilsu, hefði á helstu útkomubreytur eins og daglega hreyfingu, hreyfigetu, styrk, þol, líkamssamsetningu og þætti tengda hjarta- og æðasjúkdómum. Markmið rannsóknarinnar var jafnframt að skoða áhrif íhlutunar til lengri tíma, eða sex og tólf mánuðum eftir að íhlutunartímabili lauk. Einnig var athugað hvort áhrif íhlutunar væru ólík meðal eldri karla og kvenna í rannsókninni og hvort hún hefði mismunandi áhrif á ólíka aldurshópa. Með alþjóðlegar ráð- leggingar og sjálfbærni að leiðarljósi var einnig reynt að meta hvort sú aðferð og íhlutun sem beitt var gæti reynst gagnleg fyrir eldri einstaklinga til að viðhalda eða bæta eigin heilsu til lengri tíma.

Þátttakendur og fjölþætt þjálfun

Þátttakendur í rannsókninni voru 117 og var þeim skipt af handahófi í tvo hópa, fyrri þjálfunarhóp (56 þátttakendur) og seinni þjálfunarhóp (61 þátttakandi). Að loknum grunnmælingum og skiptingu í þessa tvo hópa stóð þjálfunarog rannsóknartími yfir á þremur sex mánaða tímabilum. Fyrri þjálfunarhópur tók þátt í 6 mánaða fjölþættri þjálfun, auk þess sem hann fékk næringar- og heilsuráðgjöf. Seinni þjálfunarhópurinn virkaði sem viðmiðunarhópur í 6 mánuði. Eftir 6 mánaða fjölþátta þjálfun hjá fyrri þjálfunarhópi og biðtíma hjá seinni þjálfunarhópi voru grunnmælingar endurteknar. Þegar þessum mælingum var lokið lauk afskiptum af fyrri þjálfunarhópi en seinni þjálfunarhópur tók þátt í sambærilegri þjálfun og fyrri þjálfunarhópur. Eftir seinna þjálfunartímabilið voru mælingar aftur endurteknar hjá báðum hópum. Þar með lauk afskiptum rannsakenda einnig af seinni þjálfunarhópi. Sex mánuðum eftir að seinni þjálfunarhópur lauk sinni þjálfun voru mælingar endurteknar í fjórða sinn á báðum hópum. Að því loknu lauk rannsókninni formlega en hún stóð yfir í eitt og hálft ár.

Þátttakendur í þessari rannsókn voru heilbrigðir einstaklingar á aldrinum 71–90 ára. Þeir höfðu tekið þátt í Öldrunarrannsókn Hjartaverndar og staðist ákveðnar grunnmælingar sem gengið var út frá. Þessar mælingar tengdust heilsufarsstöðu þeirra og niðurstöðum í SPPB-hreyfifærniprófi. Af þeim 325 einstaklingum sem höfðu náð 70 ára aldri þáðu 96 þátttöku. Af þessum fjölda uppfylltu 92 kröfur um þátttöku, auk þess sem mökum þátttakenda var boðin þátttaka. Þáðu 25 makar boðið. Helstu ástæður þess að hafna boði voru of langur og bindandi rannsóknartími, áhugaleysi eða veikindi. Mynd 1 sýnir hluta af rannsóknarhópi á æfingum á Laugardalsvelli en þar fóru æfingar meðal annars fram.

Íhlutun rannsóknar

Íhlutun rannsóknar fólst í 6 mánaða fjölþættri þjálfun þar sem áhersla var lögð á daglega þolþjálfun og styrktarþjálfun tvisvar í viku. Þessu til stuðnings var ráðgjöf um næringu og fjórir fyrirlestrar um heilsutengda þætti. Þolþjálfun var einstaklingsmiðuð. Hún var fólgin í daglegri göngu á þjálfunartíma, að meðaltali um 30 mín- útur á dag. Styrktarþjálfun fór fram í líkams- og heilsuræktarstöð tvisvar sinnum í viku. Hún var einnig einstaklingsmiðuð og innihélt 12 æfingar fyrir helstu vöðvahópa líkamans, sjá mynd 2.

Mælingar

Helstu mælingar á öllum tímapunktum voru dagleg hreyfing mæld með sérstökum hreyfimælum og stöðluðum spurningalista. Líkams- þyngdarstuðull var mældur með því að deila hæð í öðru veldi (m2) í líkamsþyngd (kg), SPPBhreyfigetuprófið var framkvæmt og hreyfijafnvægi mælt með átta feta gönguprófi. Kraftur var mældur í sérhönnuðu kraftmælingatæki og þol mælt með sex mínútna gönguprófi. Heilsutengd lífsgæði voru mæld með stöðluðum spurningalista. Holdafar var mælt með sérstökum myndskanna, DXA-skanna, í Hjartavernd í Kópavogi auk þess sem þar fóru allar blóðmælingar fram við kjöraðstæður.

Niðurstöður rannsóknar

Mælingar í upphafi rannsóknar, bæði með hreyfimæli og spurningalista, sýndu að dagleg hreyfing meirihluta þátttakenda var lítið brot af því sem ráðlagt er eins og áður hefur komið fram. Um 60% þátttakenda hreyfðu sig að jafnaði í 15 mínútur eða minna í hvert skipti sem þeir hreyfðu sig. Þessi útkoma er nokkuð undir alþjóðlegum ráðleggingum. Um 70% þátttakenda stunduðu göngur þrjá daga eða sjaldnar í hverri viku og um 10% þátttakenda stunduðu styrktarþjálfun. Sex mánuðum eftir að 6 mánaða þjálfun lauk gengu um 35% þátttakenda í 16–30 mínútur í hvert skipti sem þeir stunduðu hreyfingu og 35% þátttakenda eða sama hlutfall gekk í lengri tíma en 30 mínútur. Göngutími hafði því batnað verulegu 6 mánuðum eftir að þjálfuninni lauk. Göngudagar í hverri viku á þessum tímapunkti voru fjórir eða fleiri hjá rúmlega 50% þátttakenda miðað við upphafsmælingu. Um 40% þátttakenda sögðust ganga tvisvar til þrisvar í viku. Styrktarþjálfunardagar hjá þátttakendum á þessum tímapunkti, eða 6 mánuðum eftir að þjálfun lauk, voru tveir eða fleiri hjá um 40% þátttakenda. Tæplega 60% stunduðu enga styrktarþjálfun á þessum tímapunkti. Einu ári eftir að 6 mánaða þjálfun lauk var staðan mjög svipuð og sex mánuðum á undan hjá fyrri þjálfunarhópi.

8fet.JPG

Niðurstöður mælinga á hreyfigetu þátttakenda, hvort sem um er að ræða hópinn í heild, eldri karla eða konur sérstaklega eða mismunandi aldurshópa, sýndu verulega bætingu á þessum útkomubreytum. Þetta á bæði við um heildarniðurstöður í SPPB-hreyfigetuprófi og í einstökum þáttum þess fyrir utan jafnvægi. Þar var getan mjög góð fyrir og því var rými til bætingar lítið. Sama á við um átta feta hreyfijafnvægisprófið (e. 8-foot up-and-go test) en þar urðu framfarir miklar. Mynd 3 sýnir framfarir hjá fyrri þjálfunarhópi að lokinni 6 mánaða þjálfun en bæting á sér ekki stað hjá seinni þjálfunarhópi á sama tímapunkti og munur verður á hópunum. Eftir 6-mánaða þjálfun hjá seinni þjálfunarhópi koma aftur á móti framfarir í ljós og hópurinn nær hinum að getu aftur. Niðurstöður héldust áfram jákvæðar í að minnsta kosti eitt ár hjá fyrri þjálfunarhópi eftir að 6 mánaða þjálfun lauk og í að minnsta kosti sex mánuði hjá seinni þjálfunarhópi (mynd 3).

Niðurstöður sex og tólf mánuðum eftir þjálfunartíma

Að lokinni 6 mánaða íhlutun kom í ljós aukning á styrk handa og fóta og einnig á 6 mínútna göngu- og þolprófi. Hinar jákvæðu breytingar héldust í gönguprófinu þegar mælingar voru endurteknar 6 og 12 mánuðum eftir að þjálfun lauk. Aftur á móti færðist styrkurinn nær niðurstöðum upphafsmælinga á þessum tímapunktum án þess þó að fara niður fyrir upphaflegu gildin.

Líkamssamsetning, þyngd, líkamsþyngdarstuðull og fitumassi, færðust til betri vegar við lok þjálfunartímabils. Þessar jákvæðu breytingar héldust ekki í öllum mælingum þegar þær voru skoðaðar 6 mánuðum eftir íhlutunartíma. Jákvæðar breytingar á vöðvamassa áttu sér einnig stað hjá fyrri þjálfunarhópi að lokinni 6 mánaða þjálfun. Styrkurinn hélst að vísu óbreyttur hjá seinni þjálfunarhópi. Við eftirfylgnimælingar voru jákvæðu áhrifin horfin.

Varðandi mælingar á áhættuþáttum hjartaog æðasjúkdóma, þá komu fram jákvæðar breytingar á ummáli á kvið, blóðþrýstingur lækkaði, hið góða kólesteróli (HDL) færðist til betri vegar og hið sama gerðist við mælingar á glúkósa og þríglýseríðum að lokinni 6 mánaða íhlutun. Þessar breytingar héldust flestar sex mánuðum eftir að íhlutunar- og þjálfunartíma lauk, auk þess sem blóðþrýstingur hélt áfram að lækka.

Ályktanir að lokinni rannsókn

Þessi íslenska rannsókn sýnir mikilvægi þess að fylgjast með stöðu eldri aldurshópa hér á landi. Hún sýnir einnig fram á ávinning af fjölþættri þjálfunaráætlun sem meðal annars innihélt daglega hreyfingu í formi þolþjálfunar og styrktarþjálfun tvisvar í viku. Niðurstöður sýna einnig greinilega að eldri aldurshópar geta haft margvíslegan ávinning af markvissri líkams- og heilsurækt ef tíðni æfinga, tímalengd þeirra og ákefð eða áreynsla er vel skipulögð.

Gera má ráð fyrir að þjálfun af þeim toga sem skipulögð var í rannsókninni sem hér um ræðir geti komið í veg fyrir ótímabæra skerðingu á hreyfigetu, unnið gegn áhættuþáttum hjartaog æðasjúkdóma og viðhaldið heilsutengdum lífsgæðum eldra fólks. Einnig má gera ráð fyrir að slík þjálfun komi í veg fyrir ótímabæra stofnanavist. Álykta má að þjálfun af þessum toga fyrir eldri aldurshópa ætti að vera þáttur í hefðbundinni heilsugæslu eldra fólks. Niðurstöður þessarar rannsóknar undirstrika jafnframt þörfina á áframhaldandi þróun íhlutunaraðgerða fyrir eldri borgara svo þeir geti sinnt athöfnum daglegs lífs eins lengi og kostur er og búið áfram í eigin húsnæði eins lengi og þeir kjósa án utanaðkomandi aðstoðar eða með lágmarks aðstoð.

Fyrir samfélagið, stjórnvöld og sveitarfélög, kalla þessar niðurstöður á sameiginlegar aðgerðir varðandi daglega hreyfingu hjá eldri aldurshópum. Setja þarf fram markvissa stefnu og aðgerðaáætlun sem styður við daglega hreyfingu og fjölbreytta heilsurækt fyrir þennan aldurshóp. Jafnframt þarf að endurskipuleggja þjónustu og fjármögnun til að forgangsraða hreyfingu, auk þess sem mynda þarf félagsskap til aðgerða með það að markmiði að gefa eldri einstaklingum tækifæri til að taka þátt í fjölbreyttri heilsurækt og ráðgjöf um næringu.

Janus Friðrik Guðlaugsson

PhD. og lektor við Háskóla Íslands

Nýtt á vefnum