Greinar / 20. júní 2024

Líklega væri ég bara ekki hér ...

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson

Viðtal: Páll Kristinn Pálsson.

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson er stjórnarmaður í Samtökum fólks um offitu (SFO). Þegar við hittumst á dögunum var hann að undirbúa sig fyrir málþing Evrópsku samtakanna um offituvandann (EASO) sem haldið var dagana 12. - 15. maí síðastliðinn í Feneyjum á Ítalíu. Þar átti hann meðal annars að fjalla um fordóma í garð fólks með offitusjúkdóminn á Íslandi sem Sveinn Hjörtur segir töluverða og miklu útbreiddari en við viljum viðurkenna. „Ég hafði sjálfur aldrei gert mér almennilega grein fyrir hversu mikil og oft á tíðum illkvittin þessi viðhorf eru, meira að segja í heilbrigðiskerfinu og ýmsum opinberum þjónustugreinum, fyrr en ég fór að starfa með SFO,“ segir hann.

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson er 53 ára gamall, fæddur í Reykjavík. Hann hefur starfað við ýmislegt um ævina, en lengst hjá Neyðarlínunni – símanúmerinu 112 - í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð í Reykjavík, þar sem margir helstu viðbragðsaðilar þjóðarinnar eiga aðsetur. Hann hefur meðal annars lært og stundað markþjálfun og starfar um þessar mundir sem aukaleikari og sérstakur bátameistari hjá Reykjavík Studios við stórt alþjóðlegt sjónvarpsverkefni sem þar er í framleiðslu og gerist á öld víkinganna.

„Ég er svona ævintýramaður,“ segir Sveinn Hjörtur með breiðu brosi og strýkur víkingaskeggið sem honum var uppálagt að safna fyrir hlutverk sitt í þáttaröðinni. „Vegna stærðar minnar hafa mér áskotnast mörg hlutverk í auglýsingum og bíómyndum. Það er mjög skemmtilegt og kannski má líta á það sem jákvæðu hliðina á því hlutskipti að vera svona stór og mikill um sig.

Screenshot 2024-06-24 144055.png

Ég var stórt barn við fæðingu, eða 22 merkur og 53 sentímetrar. Ég veit ekki hvort það sé ástæða þess að svona fór fyrir mér, hvort þetta hafi verið einhver efnaskiptasjúkdómur. Ég byrjaði eðlilega á brjósti en þurfti strax meira en móðurmjólkina og var fljótlega farinn að borða grauta og þess háttar löngu áður en ungabörn byrja yfirleitt á slíku fæði. Svo var ég bara nokkuð þéttur sem barn og unglingur, en var líka eitthvað í íþróttum, til dæmis í handbolta. Ég hef þó alltaf verið meira í hugvísindum en hitt, með áhuga á mörgum andlegum málum og ætlaði mér alltaf að verða prestur þegar ég yrði stór. Þessi áhugi kom í kjölfar erfiðrar lífsreynslu sem ég varð fyrir þegar ég var tíu ára gamall. Þá missti ég eldri bróður minn með sviplegum hætti. Hann var myrtur á mjög ljótan hátt er hann vann hjá Landhelgisgæslunni. Það breytti allri minni lífssýn að kynnast því svona snemma hvað sorg er, og hvað dauði er. Þetta var árið 1980 og á þeim tíma var ekki haldið eins vel utan um börn sem verða fyrir slíku áfalli og nú er gert. Menn áttu bara að bera harm sinn í hljóði. Mamma blessunin vann þannig aldrei úr sorg sinni og ekki heldur pabbi, sem var varðstjóri í lögreglunni. Við systkinin vorum sex. Við erum fjögur núna og þetta hefur verið djúpt sár á sálinni hjá okkur öllum.“

Rokkandi þyngd

Sveinn Hjörtur er 188 sentímetrar á hæð, en þótt hann hafi verið stór við fæðingu kveðst hann hafa verið frekar lágvaxinn sem strákur. „Upp úr fermingu byrjaði ég svo snarlega að stækka, tók allt í einu þennan svaka kipp og því fylgdu miklir vaxtarverkir. En ég var mjög líkamlega hraustur, byrjaði í kraftlyftingum og var kominn í dyravörslu á skemmtistöðum 18-19 ára gamall. Á þessum árum var ég alltaf nokkuð þéttur á velli og rokkaði heilmikið í þyngdinni framan af en finnst ég þó aldrei hafa verið beint mjög feitur þegar ég var ungur.

Ég kynntist barnsmóður minni þegar ég var 24 ára gamall og við eignuðumst okkar fyrsta barn, sem var stúlka, þegar ég var rúmlega þrítugur. Hún er núna 21 árs, nýbúin á klára stúdentsprófið og ætlar að verða læknir. Þremur árum eftir að hún kom í heiminn eignuðumst við tvíbura, stúlku og dreng. Þau eru 18 ára, bæði í framhaldsskóla og pluma sig vel í lífinu. Við barnsmóðir mín skildum nokkrum árum eftir fæðingu tvíburanna, en höfum alltaf gætt þess að hafa gott samband vegna barnanna okkar.“

Neyðarvörðurinn

Sveinn Hjörtur fór að vinna við símavörslu hjá Neyðarlínunni árið 1997 sem markaði ákveðin tímamót hjá honum hvað varðar líkamsþyngdina. „Þá byrjaði ég smám saman að bæta á mig kílóunum, þessari skelfilegu kviðfitu. Þetta var vaktavinna sem er mikil setuvinna og lífsmynstrið breytist mikið varðandi svefn og mataræði. Það er mjög þekkt erlendis, til dæmis í Ameríku, að neyðarverðir séu mjög þéttvaxnir og ekki bara það heldur eru þeir lífshættulega þéttir. Menn sitja við símann á löngum vöktum, yfirleitt eru það tólf tímar og maður veit aldrei við hverju er að búast, það er algjör rúlletta. Adrenalínið fer svo alveg á milljón þegar eitthvað gerist, til dæmis við að fylgja eftir konu á leiðinni á fæðingardeildina með heiftarlegar hríðir, mikið stress og óðagot í gangi, barnið kemur kannski í heiminn áður en á spítalann er náð og neyðarvörður þarf að virkja aðstoð á staðnum ef hægt er. En allt fer samt oftast nær vel og mikill fögnuður þegar fyrsti gráturinn berst í gegnum símtólið. Ég hef líka tekið á móti mörgum af ljótustu morðum sem hafa verið framin hér á Íslandi og komið inn á borð 112. Maður þarf að gera allt hárrétt, það má ekkert klikka og í því felst mikil þjálfun með lögreglu, sjúkraliði, slökkviliði og öðrum viðbragðsaðilum.“

Vakti það þá ekki aftur upp tilfinningar hjá þér frá morði bróður þíns?

„Nei, ekki þá þótt mál hans hafi verið að flækjast fyrir mér á seinni árum. Þarna vann ég með áfallateymi slökkviliðsins og lögreglunnar þar sem menn styðja vel hverjir aðra. Auðvitað tók maður margt inn á sig og sumir atburðir sátu lengur í manni en aðrir, en þó ekki þannig að það angraði mann og ylli vanlíðan. Þetta var vinnan manns og maður nálgaðist hana með mannlegri reisn, sem er um leið fegurðin og sorgin í þessu starfi. Það sem kom mér persónulega í koll voru þessar óheilbrigðu matarvenjur sem fylgdu álaginu í vaktavinnunni sem ég stundaði svo lengi. Á næturvöktum var maður með litla matarlyst þannig séð, hélt sér vakandi með gosdrykkjum, matartímar mjög óreglulegir, mjög oft einhver skyndibitamatur sem fljótlegt er að gleypa. Maður festist einhvern veginn í þessu fari, ætlar sér alltaf að laga það en það gerist aldrei.

Svo hætti ég hjá Neyðarlínunni. Tvíburarnir voru þá á leiðinni og ég orðinn langþreyttur á vaktavinnunni og óreglulega lífsstílnum sem henni fylgdi. Ég fór að vinna dagvinnu hjá gamla Toyota, hjá Páli heitnum Samúelssyni sem var einstakur maður og gott að vinna hjá honum. Ég náði síðar meir að létta mig með ýmsum hætti, fór alveg niður í 90 kíló og var bara grannur og fínn. Svo skildi ég árið 2009 og byrjaði aftur að þyngjast. Léttist aftur og þyngdist aftur. Ég var eins og jójó með þyngdina.“

199 kíló!

Árum saman skiptust á þessi tímabil þar sem Sveinn Hjörtur þyngdist og léttist á víxl. „En svo var ég orðinn alltof þungur. Það var fyrir sex eða sjö árum að ég steig á vigtina sem upplýsti mig um að ég væri orðinn 199 kíló! Og ég fékk algjört sjokk. Ég hafði alltaf verið hár í loftinu en núna var ég líka orðinn gríðarlega mikill um mig. Þá hafði ég sem sagt um allnokkurt skeið leikið talsvert í bíómyndum og auglýsingum. Ég var þursinn í myndunum og var til dæmis sem slíkur notaður í auglýsingu fyrir Dodge bílaframleiðandann. Það var rosalega skemmtilegt verkefni og auglýsingin sýnd í tengslum við Súperball úrslitaleikinn í Bandaríkjunum, sem hundruðir milljóna manna sáu. Ég lék líka fanga í einni af Marvel-myndunum sem frumsýnd verður næsta haust. Ég var sem sagt búinn að fá helling af slíkum aukahlutverkum með þennan stóra búk, síða úfna skeggið, stingandi bláu augun og svo framvegis. Það var út af fyrir sig mjög fínt og gaf mér ágætis aukapening. En ég var farinn að átta mig á því að ég væri allt of þungur og að það stefndi í hættulegt ástand hvað heilsu mína varðaði.

Ég var sem betur fer enn með hnén og mjaðmirnar í lagi, og ekkert bólaði á sykursýki 2 eða öðrum slíkum kvillum sem hrjáir svo marga sem kljást við ofþyngd. Ég púa vindil einstaka sinnum en reyki ekki að staðaldri. Ég hætti að drekka áfengi fyrir tólf árum síðan, ekki af því að það væri neitt vandamál, ég hætti því af því mér þótti það ekki henta mér lengur. Svo ég mátti því bara heita gott eintak af manni með offitu. En núna var svo komið að ég yrði að fara að snúa við blaðinu.“

Hjáveituaðgerð

Sveinn Hjörtur var orðinn meðvitaður um þörf á lífsstílsbreytingu - en vendipunkturinn kom þó nokkru seinna eða næst er hann mætti til að gefa blóð í blóðbankanum. „Það hafði ég gert reglulega um margra ára skeið, nema hvað í þetta skipti mældist blóðþrýstingurinn hjá mér svo hár að hjúkrunarfræðingurinn vildi ekki tappa af mér neinu blóði heldur hvatti mig til að fara beint til heimilislæknis míns og byrja að gera eitthvað í málunum. Heimilislæknirinn fór yfir stöðuna með mér - og þá var ég bara allt í einu kominn af stað í þetta hjáveituaðgerðarferli á maga. Ég tikkaði enda í öll boxin varðandi skilyrðin fyrir að fara í svona aðgerð: Líkamsþyngdarstuðullinn (BMI) var alveg uppi í rjáfri, blóðþrýstingur var hár og sykurinn líka þótt ég væri ekki kominn með sykursýki 2. Ofan á mikla þyngd og offitu var ég kominn með ættgengan sjúkdóm sem er þrenging í mænugöngum og miklir bakverkir. Það var farið að gerast hratt og ég kominn á hækjur og að hluta til í hjólastól. Átti sem sé orðið mjög erfitt með gang. Auk ástandsins á mér var saga um alvarlega sjúkdóma í fjölskyldum mínum, pabbi dó eftir hjartaáfall og mamma úr nýrnasjúkdómi. Ég var svo heppinn að heimilislæknirinn sýndi mér einstakan skilning, gott viðmót og beindi mér áfram á rétta braut í stað þess að segja mér bara að fara út og létta mig, eins og svo margir fá að heyra.

Screenshot 2024-06-24 144259.png

Ég fékk viðtal hjá Erlu Gerði Sveinsdóttur offitusérfræðingi sem þá rak Heilsuborg og Hirti Gíslasyni skurðlækni sem annast þessar hjáveituaðgerðir úti í Svíþjóð. Ég þurfti svo að undirbúa mig mjög rækilega fyrir ferðina út, létta mig og gaumgæfa mataræðið. En lykilatriðið í því öllu saman var andlegi undirbúningurinn, hugarfarið, að stilla sig inn á það sem væri í vændum. Ég fór því í eitt erfiðasta verkefnið - að markþjálfa sjálfan mig! Þar kom verulega að gagni nám mitt og störf sem markþjálfi. Ég skildi vel hversu miklu máli það skiptir að undirbúa sig andlega undir þær breytingar sem fólk á eftir að fara í gegnum við það að undirgangast hjáveituaðgerð, því um leið og maður hefur ákveðið að breyta um lífsstíl og áttað sig á hvað í því felst, þá kemur hitt í kjölfarið. Eins og pabbi heitinn sagði: Ég vil, ég skal, ég ætla ... Þegar þetta er komið inn þá gengur hitt upp. Ef fólk fer í þetta og hugsar: Já, ég ætla að klára þetta - en er ekkert viss um hvað það eigi svo að gera, þá gengur þetta ekki upp. Þá koma mistökin. Ég vann alveg ofboðslega mikið í andlega þættinum, með góðri hjálp að sjálfsögðu, talaði við fólk sem hafði farið í gegnum þetta og undirbjó mig svakalega vel, þó ég segi sjálfur frá.“

Bið vegna Covid

Sveinn Hjörtur var orðinn klár í hjáveituaðgerðina þegar kórónuveirufaraldurinn reið yfir snemma árs 2020 og flugsamgöngur til útlanda lokuðust. „Ég bjó erlendis í stuttan tíma og var í auglýsingaverkefni með erlendum aðilum þegar ég varð fastur hér. Lendi í því að bíða bara og bíða eftir að komast út í aðgerðina. Biðin var þannig eiginlega það erfiðasta í þessu ferli öllu saman.

Í september 2021 kom allt í einu gat fyrir flug til Svíþjóðar og Hjörtur hringir í mig og býður mér að koma út til sín. Ég rauk af stað í einum grænum og þetta reyndist verða hrikalega erfitt ferðalag. Ég var þarna aleinn á ferð, 170 kíló og þurfti hálfpartinn að hlaupa alla þessa ganga á flugstöðinni í Kaupmannahöfn, en þaðan er tekin lest yfir til Malmö. Ég þurfti svo koma mér í lestina og labba úr henni á hótelið. Daginn eftir fór ég labbandi, aftur aleinn, og var lengi að finna sjúkrahúsið og var alveg orðinn örmagna er ég mætti loksins þangað. Kófsveittur, hjartslátturinn alveg uppi í rjáfri, með mikla bakverki og þrenginguna í mænugöngunum og ég að fara í þessa stóru og miklu aðgerð. Það þurfti hreinlega að byrja á því að róa mig niður, sem gekk reyndar fljótt og vel því viðmótið hjá Hirti, sem tók á móti mér ásamt svæfingalækninum Magnúsi Hjaltalín Jónssyni, var einstakt og skipti öllu. Þótt ég sé stór og víkingur, þá var mjög erfitt fyrir mig að fara einn í svona stóra aðgerð á erlendri grund. Ég var hræddur. Mjög hræddur.

Það sem ég kveið meðal annars talsvert fyrir var svæfingin, því ég hafði fótbrotnað fyrir allnokkrum árum og fengið afar slæma svæfingu í þeirri aðgerð og vaknað mjög illa. Lungun féllu saman og verkirnir miklir í fætinum. Ég ræddi þetta sérstaklega við Magnús svæfingalækni og man að ég bað hann sérstaklega um að vera hjá mér þegar ég vaknaði eftir hjáveituaðgerðina. Sem hann og gerði og það létti einhvern veginn mjög á öllu fyrir mig hversu vel ég kom út úr aðgerðinni hvað þetta varðaði.

Ég var svo í tvo daga á spítalanum eftir aðgerðina og kynntist þar fólki sem fór í gegnum sömu aðgerð og ég og er enn í dag í sambandi við tvo þeirra. En þetta gerðist samt allt á svo miklum hraða, sem er hættulegt og það finnst mér ekki í lagi. Og þetta að fara einn út og einn heim. Maður vaknar ekkert bara úr aðgerðinni og búinn að missa 50 kíló. Maður var enn þá með saumana og á sterkum verkjalyfjum og í stöðunni var bara að senda mann aftur heim til Íslands tveimur dögum seinna. Það var í rauninni galið að fara einn í gegnum þetta þannig. Af hverju eru þessar aðgerðir ekki framkvæmdar á Íslandi? Af hverju getur Klíníkin ekki annast þetta? Af hverju er verið að flytja fólk til Svíþjóðar þegar við höfum skurðstofur og lækna og hjúkrunarfólk sem getur alveg klárað þetta. Hjörtur talar um það sjálfur. Hann gæti alveg komið hingað og hreinsað biðlistann upp á stuttum tíma. Af hverju er þetta bara ekki gert?“

Fordómar og skilningsleysi

Hvernig hefur lífið verið eftir hjáveituaðgerðina?

„Ég hef verið spurður hvort ég sjái ekki eftir að hafa farið í þessa aðgerð. En það geri ég aldeilis ekki og hefði helst viljað hafa farið í hana miklu fyrr. Ég tel mig hafa verið heppinn að hafa áttað mig snemma á því að ég þyrfti að gera breytingar á lífsstíl mínum. Hefði ég ekki gert það hefði ég mjög örugglega orðið að svakalegu vandamáli, bæði fyrir mig og samfélagið. Já, líklega væri ég bara ekki hér ...

Screenshot 2024-06-24 144407.png

Við skulum átta okkur á því að við erum að glíma við rosalega fordóma hér á Íslandi gagnvart offitu og fólki með þennan sjúkdóm. Eins og ég segi þá hefði ég aldrei trúað því fyrr en ég kynntist fólkinu í SFO og fór að ræða um þessi mál við þau. Nálgunin hjá svo stórum hópi fólks virðist því miður einkennast af skilningsleysi og fordómum, jafnvel hjá sumum læknum og hjúkrunarfólki inni á spítölunum. Það vantar skilning á því að hjá svo mörgum að offita er sjúkdómur. Það er ekkert hægt að fussa og sveia og segja fólki bara að borða minna og hreyfa sig meira. Fyrir þá sem eiga við offitusjúkdóm að stríða duga þessi ráð ansi skammt, líka börn. Líkt og víða erlendis er offita barna hér á landi mjög alvarlegt vandamál og það fer bara vaxandi. Við höfum þó lækna sem vinna frábæra vinnu með offitu barna, en þeir verða að fá meiri stuðning frá yfirvöldum. Það væri alveg æðislegt ef allt of feitt fólk gæti farið út að hlaupa og þá myndi allt bara lagast. Það er ekki svoleiðis. Þegar offitan er orðin sjúkdómur þá er hún orðin langvinnur sjúkdómur og þá verður að meðhöndla hann sem slíkan. Það versta við þetta er þó kannski pólitíkin hér á Íslandi sem er svo sveiflukennd og ófyrirsjáanleg þegar hugsa þarf til lengri tíma. Mál komast í kastljósið, rokið er upp til handa og fóta, öllu fögru lofað, en svo er málið sett í nefnd þar sem fólk á fínum launum hittist öðru hvoru, kallar til sín sérfræðinga og loks er skrifuð skýrsla þar sem útlistaðar eru einhverjar leiðir til úrbóta. En svo endar skýrslan bara ofan í skúffu í einhverju ráðuneytinu og ekkert gerist. Og tíminn líður. En við sem þurfum að fá þessa þjónustu höfum ekki endalausan tíma. Það er fólk að deyja úr offitu hér á landi, fólk er að fá hjartaáfall vegna offitu, fólk er að verða öryrkjar vegna offitu, börn með offitu verða fyrir ofboðslegu einelti í skólunum og þannig mætti lengi telja allan skaðann sem verður á svo mörgum stöðum á meðan ekkert gerist. Ég er hræddur um að ef yfirvöld og við öll sem samfélag förum ekki að horfast í augu við staðreyndirnar og takast af alvöru á við offitusjúkdóminn, þá munum við ekki ná neinum árangri. Við munum hjakka áfram í sama farinu ... og vandamálið mun bara verða verra og verra.“

Páll Kristinn Pálsson

Ritstjóri

Nýtt á vefnum