Greinar / 20. júní 2024

Hvenær er offita sjúkdómur?

Sú kenning að líkamsþyngd sé stýrt á þann einfalda máta að mismunur hitaeininga inn og út ráði för hefur verið ansi lífseig. Enn má jafnvel heyra heilbrigðisstarfsfólk ráðleggja einstaklingum að borða minna og hreyfa sig meira án þess að kanna nánar stöðu mála. Slík ofureinföldun er mjög langt frá sannleika málsins. Ráðleggingin getur snúist upp í andhverfu sína og valdið einstaklingum með offitu sem reyna að fylgja þessum leiðbeiningum hreinlega skaða. Vissulega er hreyfing af hinu góða fyrir alla og ekki er skynsamlegt að borða mikið umfram þörf líkamans hverju sinni en þyngdarstjórnunarkerfi líkamans bregðast við breytingum á flókinn hátt.

Stýrikerfi líkamsþyngdar

Það er eðlilegt fyrir líkama okkar að safna orku til geymslu í fitufrumum í fituvef. Kerfi sem hvetur til slíkar orkusöfnunar og stýrir líkamsþyngd er eitt af grunnkerfum líkamans og hefur verið þróað í milljónir ára til að bjarga okkur úr hungursneyð. Þannig er auðvelt að safna orku en erfitt að eyða henni því kerfið verndar sínar birgðir. Við þekkjum í dag marga þætti þessa kerfis en eigum enn eftir að fá mörg púsl til að skilja heildarmyndina. Til þess að halda líkamsþyngd stöðugri eða til að léttast þurfum við að vinna að jafnvægi í þyngdarstjórnunarkerfinu og vinna með kerfinu en ekki streitast á móti því.

Hjá einstaklingum sem eru með heilbrigð stýrikerfi líkamsþyngdar og heilbrigða samsetningu líkamans verða sveiflur í líkamsþyngd ekki miklar. Hægt er að safna nokkrum kílóum af aukabirgðum í fituvefinn ef breyting verður á lífsháttum svo sem um jól, í sumarfríi eða við aðrar tímabundnar breytingar. Þegar farið er til baka í fyrri lífshætti og hreyfing verður aftur regluleg og dregið er úr orkuinntöku gefur líkaminn leyfi til að ganga á orkubirgðirnar. Þannig getur ráðleggingin að borða minna og hreyfa sig meira hjálpað ef sveiflur eru litlar og viðkomandi er ekki með röskun í stýrikerfum líkamsþyngdar fyrir.

Stýrikerfi líkamsþyngdar er staðsett í elsta hluta heilans og safnar upplýsingum frá hinum ýmsu líffærakerfum. Það fær upplýsingar um stöðu næringarefna og orku, virkni okkar og starfsemi í öllum okkar líkamskerfum og líffærum svo sem vöðvum, fituvef og meltingarvegi. Kerfið fær einnig upplýsingar frá öðrum stöðvum heilans svo sem um hversu vel hvíld við erum, hve mikið álag og áreiti er í kringum okkur og hvernig við erum vön að bregðast við aðstæðum sem við erum í. Þannig er stöðugt verið að safna ógrynni upplýsinga til að meta hvort skynsamlegt sé að eyða orku eða varðveita. Hvernig þessar upplýsingar sem til stýrikerfisins berast eru síðan túlkaðar er mismunandi milli einstaklinga. Túlkunin er tengd erfðum okkar, hvernig genin okkar eru tjáð, hvernig umhverfi okkar er alveg frá því að við vorum í móðurkviði og jafnvel fyrr, hvað hendir okkur á lífsleiðinni svo sem áföll og álag og svo ótal margt annað. Þannig bregðast einstaklingar mjög mismunandi við breytingu á mataræði og hreyfingu. Til að gera þetta aðeins flóknara þá er túlkun upplýsinganna einnig mismunandi á ólíkum tímum sólarhringsins hjá sama einstaklingi og mismunandi eftir því á hvaða aldri við erum. Einnig hafa kynhormón heilmikil áhrif á þyngdarstjórnunarkerfin þar sem breytingar á hormónum kvenna gera að verkum að líkaminn stýrir þyngd á ólíkan hátt eftir tímabilum innan hvers tíðahrings og á ólíkum æviskeiðum.

Þyngdarstjórnunarkerfið hefur ákveðið þyngdarviðmið (e. set point) sem það reynir að verja. Hvert þetta viðmið er hjá mismunandi einstaklingum getur verið ólíkt. Sumir eru með mjög stöðugt þyngdarviðmið og geta „borðað hvað sem er, hvenær sem er“ án þess að þyngjast. Líkaminn bregst þá við og jafnar út sveiflur sem upp koma. Aðrir upplifa að þyngdin þeirra hækki við mjög litla breytingu á mataræði en gefi lítið til baka þó minna sé borðað eða hreyfingin aukist. Líkaminn reynir að vernda sína hæstu þyngd og þyngdarviðmið er auðvelt að hækka en erfitt að lækka. Þannig eru miklar sveiflur í líkamsþyngd ekki góðar fyrir okkar kerfi og hætta er á að viðbrögð kerfisins verði harkalegri við hverja sveifluna. Starfsemi þyngdarstjórnunarkerfisins getur raskast eins og öll önnur kerfi líkamans og farið að safna orkubirgðum á óeðlilegan hátt eða hindra notkun orkuforðans sem aftur skilar sér í óeðlilega mikilli fitusöfnun líkamans. Ef skilaboðin um að borða minna og hreyfa sig meira eru send inn í þyngdarstjórnunarkerfi sem er raskað fyrir, virkar það sem olía á eld viðvörunarkerfisins sem eflist og ýtir undir versnandi ástand.

Skoðum það aðeins nánar. Þegar einstaklingur borðar minna og hreyfir sig meira en áður, reynir á að fá orku úr birgðum líkamans. Það er auðsótt mál í byrjun. Einstaklingur léttist enda er kerfið gert til að bregðast við slíku ástandi. Þannig er auðvelt að léttast í upphafi á hverjum nýjum megrunarkúr. En um leið og misræmið byrjar er send viðvörun um hættu því ekki má þetta ástand vara lengi. Þyngdarstjórnunarkerfið bregst þá við með því að breyta ýmsum þáttum til að gera okkur kleyft að lifa af langvinnt ástand. Ýmis hormón breytast svo sem svengdarhormónin sem aukast, líkaminn reynir að brenna minna af orku og fer að vernda sínar fitubirgðir. Til sögunnar kemur ástand sem stundum er nefnt gríðarhungur því svengdarhormónin eru mjög öflug. Ef ástandið varir áfram fer líkaminn að ganga á vöðvana sína því þeir eru dýrari í rekstri til langframa og verndar fituvefinn sem endist lengur. Næringarskortur og veikbyggðari líkami er niðurstaðan á þessu ferli ef því er haldið til streitu. Ef matur er á annað borð í umhverfinu okkar munum við halda áfram að borða. Þá bregst líkaminn við með því að beina orkunni inn í fituvefinn til geymslu, brennslan er áfram í lágmarki og einstaklingur fitnar hratt, jafnvel þó hann borði minna en áður en megrunarkúrinn hófst. Þannig er staðan oft útskýrð með því að einstaklingurinn hafi ekki haft næga viljastjórn eða hafi nú klúðrað þessum kúr á meðan þetta er lífeðlisfræði í sinni frumstæðu mynd til að bjarga lífi okkar. Þannig hafa megrunarkúrar takmarkaðan líftíma, líkaminn er breyttur, brennir minna og er búinn að stilla sig á fitusöfnun. Svengdarhormónin eru komin í hæstu hæðir og kalla á auðunna orku. Þyngdarviðmiðið er stillt á okkar mestu þyngd og við stöndum verr að vígi en áður. Líkaminn okkar man síðan eftir þessari hættu og er fljótari að bregðast við næst þegar einstaklingur fer að borða minna og hreyfa sig meira. Endurteknir megrunarkúrar skapa þannig mikið álag og hættuástand í líkamanum sem vindur upp á sig. Offitumeðferð snýst um að finna hvað raskar jafnvægi þessa kerfis og aðstoða líkamann við að koma eðlilegri starfsemi á aftur.

Röskun á þyngdarstjórnun

Röskunin sem verður á þyngdarstjórnunarkerfum getur átt uppruna sinn á mörgum stöðum. Til einföldunar má skipta þessum truflunum í þrjá meginflokka. Stundum er það truflun á starfsemi í fituvefnum, stundum verður truflun á stýrikerfinu í heilanum og stundum er truflun á starfsemi annarra kerfa svo sem í efnaskiptakerfinu þar sem insúlín skipar stóran sess eða truflun í meltingarvegi og þarmaflóru. Allar þessar raskanir geta verið vegna innri þátta í líkamanum sjálfum til dæmis á grunni erfða eða vegna utanaðkomandi áhrifa svo sem vegna álags, áfalla, vannæringar eða svefnröskunar. Það sem gerir þetta líka flókið er að sjaldnast er einn þáttur sem veldur trufluninni heldur samverkun margra þátta og því oft erfitt að átta sig á því hvað er hvað. Þannig svarar þyndarstjórnunarkerfi okkar breytingum á lífsháttum á ólíka vegu en líkaminn okkar svarar líka sérhæfðum inngripum svo sem lyfjum og efnaskiptaaðgerðum á ólíkan hátt. Mig langar að nefna hér örfá dæmi um þætti sem geta raskað starfsemi þyngdarstjórnunarkerfa okkar og vona að um leið gefi það innsýn í hversu víðtækt og flókið þetta kerfi er.

ErlaMynd2.jpg

Fituvefurinn sjálfur er merkilegt líffæri og hefur mikla efnaskiptavirkni. Starfsemi fituvefjar, efnaframleiðsla fitufrumanna, bólguvirkni, insúlínónæmi og margt fleira getur skapað sjúkdómsástand í fituvefnum sem aftur hefur margvísleg áhrif á líkamsstarfsemina í heild. Rannsóknir síðustu ára hafa sýnt að tegundir fitufruma eru mun fleiri en áður var haldið og að fitufrumur geta framleitt mörg ólík efni. Í dag eru þekkt yfir 600 efni sem fitufruma getur framleitt. Enn er margt óljóst um af hverju þær senda frá sér svo mismunandi skilaboð og hvaða kerfi eiga að fá þessi skilaboð en við erum enn að læra. Eitt er víst að það hefur ekkert með persónuleika einstaklingsins að gera. Þegar umframorka berst í líkamann og upp kemur ósk um að geyma orkuna í formi fitusýra í fitufrumum bregst heilbrigður fituvefur við með því að fjölga fitufrumum þegar búið er að fylla það pláss sem til er. Þá eru til staðar svokallaðar forstigsfitufrumur sem þroskast yfir í fitufrumur. Þetta eru heilbrigðar frumur með heilbrigð efnaskipti, þær ná að fanga þær fitusýrur sem til þeirra berast og eru tilbúnar að láta þær frá sér aftur þegar þörf er á að ganga á birgðirnar. Óheilbrigður fituvefur bregst hins vegar við með því að stækka fitufrumurnar í stað þess að fjölga þeim. Þyngdin er sú sama en starfsemin allt önnur. Þegar fitufrumurnar stækka óeðlilega mikið breytist starfsemi þeirra, þær fara að framleiða óæskileg efni svo sem bólguþætti sem hafa truflandi áhrif bæði inni í fituvefnum og utan hans. Þær missa af fitusýrum sem þeim er ætla að geyma og fitusýrur fara að safnast upp í líffærum utan fituvefs svo sem í lifur og hjarta og trufla starfsemi þeirra. Súrefnisskortur, minnkað insúlínnæmi, bandvefsmyndun og bólguástand myndast í fituvefnum. Hér er kominn sjúkdómur í fituvefinn óháð stærð hans og er ein birtingarmynd sjúkdómsins offitu.

Ef við lítum til heilans þá getur svokallaður undirstúkuheiladinguls-nýrnahettu öxull raskast. Ef hann örvast leiðir það til ýmissa breytinga í efnaskiptakerfinu okkar. Meðal þess sem gerist er að streituhormónið kortisól hækkar, insúlínviðnám eykst, svengdarhormónið ghrelin hækkar og sedduhormónið leptin lækkar. Þannig stillir líkaminn sig á fitusöfnun á meðan þetta ástand varir. Það sem getur valdið örvun á þessum öxli er til dæmis streita, langvinnt álag, áföll og langvinn svefntruflun. Þannig er mikilvægt að vinna að bættum svefni og fá aðstoð til að draga úr streitu og afleiðingum áfalla ef ætlunin er að léttast. Annað kerfi heilans sem getur raskast er svokallað verðlaunakerfi sem er ætlað til að hvetja okkur til að borða og halda þannig lífi. Þetta kerfi er auðtruflað í nútíma matvælaumhverfi þar sem samsetning á gjörunnum mat er sérstaklega til þess gerð að ræsa þetta kerfi og hvetja okkur til að borða meira.

Starfsemi í meltingarvegi getur einnig raskast. Sumir eru með óeðlilega hraða magatæmingu þannig að skilaboð um svengd eru miklu örari en eðlilegt er. Fjölmörg hormón eru framleidd í meltingarvegi og hafa víðtæk áhrif meðal annars á svengd og seddu. Efnaskiptaaðgerðir vegna offitu svo sem magaermi og magahjáveita breyta samtali þessara hormóna meltingarvegarins og stýrikerfis þyngdar í heila. Það gera einnig sum lyf sem nú eru notuð til offitumeðferðar. Þessum sérhæfðu meðferðum er ætlað að koma jafnvægi á þetta samtal á ný eftir að það hefur raskast. Bakteríurnar í þarmaflórunni okkar eru mjög valdamiklar þegar kemur að heilsufari okkar og líðan og tengsl þeirra við stjórnun líkamsþyngdar er engin undantekning. Rannsóknir hafa sýnt að þarmaflóra einstaklinga með offitu og þeirra sem hafa grannan vöxt er ólík. Enn vitum við ekki allt um áhrif þarmaflórunnar en þó getum við gengið út frá því að ef hún er einsleit þá er það ekki gott fyrir okkar heilsu. Þannig er alltaf hagur að því að efla fjölbreytta þarmaflóru sem við gerum með því að borða vel af trefjum og þá mismunandi trefjum því ekki hafa bakteríurnar allar sama matarsmekk. Við getum einnig stutt við fjölbreytta þarmaflóru með því að borða reglulega gerjaða matvöru svo sem sýrt grænmeti eða hreinar sýrðar mjólkurvörur. Það sem truflar þarmaflóruna er meðal annars svefnleysi, hreyfingarleysi, streita og trefjaskortur en einnig gjörunnin matur og sætuefni. Með því að iðka heilbrigðan lífsstíl fáum við góða þarmaflóru í bónus og heilsufarslegur ávinningur margfaldast.

Hormónið insúlín er mikilvægur þátttakandi í þyngdarstjórnun líkamans. Þetta hormón er okkur lífsnauðsynlegt því annars geta frumur okkar ekki fengið orku til daglegrar starfsemi. Á sama tíma viljum við ekki láta þetta hormón valsa óheft um líkama okkar því það getur líka truflað ýmiskonar starfsemi líkamans og þar á meðal þyngdarstjórnunarkerfið okkar. Til dæmis geta fitufrumur ekki losað orku úr birgðum sínum ef insúlín í blóði er hátt og ef krafa kemur um aukna orku verður líkaminn að sækja hana annað til dæmis inn í vöðvana okkar sem við flest höfum töluvert fyrir að halda. Þannig skiptir miklu máli í þyngdarstjórnun að halda blóðsykursveiflum í eins miklum skefjum og unnt er og þar með jöfnum og hæfilegum styrk á insúlíni í blóði. Þetta eru einungis örfá dæmi um hvað líkaminn okkar er að fást við þegar hann er að stýra líkamsþyngd.

Sjúkdómurinn offita

Skilgreining offitu hefur lengi verið tengd líkamsþyngdarstuðli sem reiknaður er með því að deila líkamsþyngd með hæð í öðru veldi (kg/m2 ). Þessi stuðull er góður til að fylgjast með þróun og til að bera saman stóra hópa. Hann er hins vegar ekki góður til að segja til um heilsu einstaklings. Vegna notkunar hans í rannsóknum er hann enn notaður sem viðmið fyrir ýmiskonar inngrip svo sem við lyfjameðferð eða skurðaðgerðir en skyldi ávallt túlkaður sem ein af mörgum breytum þegar heilsufar einstaklings er metið. Undanfarin ár hefur verið mælt með greiningu sem byggir á stigun sjúkdóms eftir alvarleika hans, svokallað Edmondon Obesity Staging System (EOSS) sem er kanadísk að uppruna og tekur tillit til efnaskiptastöðu, færni og líðan einstaklings og áhrifanna sem aukin líkamsþyngd hefur á andlega, líkamlega og félagslega heilsu. Í klínískum leiðbeiningum um meðferð offitu hjá fullorðnum og finna má á vef embættis landlæknis er mælt með að nota þessa stigun.

Sjúkdómurinn offita er þannig til staðar ef fituvefur starfar ekki eðlilega eða ef mikið magn fituvefjar veldur truflun á starfsemi líkamans eða líðan einstaklings. Staðsetning fituvefjarins skiptir máli bæði vegna þess að þyngd hans og umfang getur valdið truflun á líkamsstarfseminni, svo sem stuðlað að kæfisvefni, vélindabakflæði, þvagleka og stoðkerfisverkjum. Hér getur fituvefur truflað líkamsstarfsemi þó hann sé í eðli sínu heilbrigður. Ef starfsemi fituvefjar er hins vegar röskuð getur hann truflað efnaskipti líkamans hvort sem mikið eða lítið er af honum. Ef saman fer mikið af fituvef og röskun á starfsemi hans er alltaf um að ræða alvarlegan sjúkdóm. Þannig getur einstaklingur verið heilbrigður þó hann hafi líkamsþyngdarstuðul sem flokkast sem yfirþyngd eða offita. Á sama hátt getur einstaklingur sem flokkast í kjörþyngd eða yfirþyngd samkvæmt líkamsþyngdarstuðli verið með sjúkdóminn offitu ef starfsemi fituvefjar eða efnaskipti líkamans eru röskuð. Á meðan hugtakið offita er notað bæði í tengslum við líkamsþyngdarstuðul og sjúkdóminn offitu mun reynast mörgum erfitt að gera greinarmun þarna á milli en við höldum áfram að vanda okkur eins vel og okkur er unnt án þess að falla í gildrur staðalímynda og fordóma.

Offitumeðferð felst í því að koma jafnvægi á þyngdarstjórnunarkerfi líkamans, finna hvað truflar starfsemi kerfisins og styðja líkamann til að leiðrétta skekkju sem myndast hefur. Slíkar breytingar er hægt að fá fram án þess að líkamsþyngd breytist en samsetning líkamans og starfsemi hans kemst í betra horf. Offitumeðferð er ætlað að bæta heilsu og líðan og leiða til langtímaárangurs.

Heilbrigður lífsstíll fellur aldrei úr gildi

ErlaMynd3.png

Mikilvægt er að átta sig á að við stjórnum ekki hvernig líkaminn okkar vinnur og hvernig hann stýrir líkamsþyngd sinni. Við höfum hins vegar mikil áhrif á þær forsendur sem líkaminn okkar fær til að vinna eftir. Lífshættir okkar gefa mikilvæg skilaboð. Þyngdarstjórnunarkerfið okkar þekkir ekki fjölda þeirra áreita sem til þess berast. Viðbrögðin eru frumstæð og stuðla að fitusöfnun til að vernda okkur. Til að halda líkama okkar heilbrigðum og til að draga úr áhrifum allra langvinnra sjúkdóma er okkur öllum mikilvægt að næra líkamann reglulega með fjölbreyttum mat sem er sem mest beint frá náttúrunnar hendi. Við þurfum öll að finna hreyfingu við hæfi, iðka hana reglulega og dvelja sem mest í náttúrunni. Við þurfum öll endurnærandi svefn og að haga lífi okkar þannig að líkaminn geti hvílst. Jafnvægi í andlegri líðan er mikilvægt, um leið og við fögnum því að streitukerfið okkar getur brugðist kröftuglega við ef á þarf að halda þá viljum við gefa kerfinu svigrúm til að fá hvíld reglulega og vinna vel úr áföllum og álagi sem upp getur komið. Jákvætt sjálfstal, virðing fyrir sjálfum okkur og öðrum hefur líka áhrif á stýrikerfi líkamsþyngdar. Þannig er óhjákvæmilegt fyrir hvert okkar að læra á líkama okkar og finna hvað hentar best á hvaða tímabili lífssins og vinna að okkar bestu heilsu og líðan á hverjum tíma, með eða án breytinga á líkamsþyngd.

Hvað er til ráða?

 • Berum virðingu fyrir líkama okkar, lærum á hann og vinnum með honum.
 • Nærumst reglulega yfir daginn og sköpum öryggi og stöðugleika fyrir þyngdarstjórnunarkerfin.
 • Gefum meltingunni hvíld hluta sólarhringsins í samræmi við dægursveiflu.
 • Borðum mat sem er sem næst náttúrulegum uppruna sínum.
 • Tyggjum matinn, höfum hann fjölbreyttan og trefjaríkan.
 • Ræktum upp góða þarmaflóru. • Forðumst gerviefni og gjörunninn mat.
 • Drekkum vel af vatni. • Höldum reglu á svefni og tryggjum nægan svefn.
 • Tryggjum reglulega hreyfingu í daglegum athöfnum og hæfilega áreynslu á líkamann reglulega.
 • Finnum leiðir til að ná fram ró í streitukerfið okkar sem oftast.
 • Dveljum sem mest úti í náttúrunni.
 • Iðkum jákvæðar hugsanir og stundum jákvætt sjálfstal.

Heimildir sem gagnlegt er að skoða

 • Erla Gerður Sveinsdóttir, Helga Sævarsdóttir, and H. Thors, Klínískar leiðbeiningar um meðferð fullorðinna einstaklinga með offitu. 2020. https://island.is/frett/Kliniskar-leidbeiningar-um-medferd-fullordinna-einstaklinga-med-offitu-komnar-ut
 • Wharton, S., et al., Obesity in adults: a clinical practice guideline. CMAJ, 2020. Slóð á Kanadískar klíniskar leiðbeiningar um offiu. https://obesitycanada.ca/donate/gad_source=1&gclid=Cj0KCQjw9vqyBhCKARIsAIIcLME0I_VqDXWXi g7sBtEsMXyJIpIbQ9CMS1K1b3MO60rVIGNytAuxCH8aAu8REALw_wcB
 • Slóð á upplýsingar um Edmonton obesity staging system. https://www.ottawahospital.on.ca/fr/documents/2017/05/edmonton-obesity-staging-system- staging-tool.pdf/
 • Sólveig Dóra Magnúsdóttir og Erla Gerður Sveinsdóttir. Má bæta árangur af meðferð hjarta- og æðasjúkdóma með aukinni áherslu á svefngæði? Lækablaðið 2020. https://www.laeknabladid.is/tolublod/2020/11/nr/7522

Erla Gerður Sveinsdóttir

Heimilislæknir, lýðheilsufræðingur og sérfræðilæknir við offitumeðferð

Nýtt á vefnum