Greinar / 22. febrúar 2017

Forvarnir og fullorðinsfræðsla

Eftir að hafa fylgst með þróun fullorðinsfræðslu um árabil og starfa nú að forvörnum og fræðslu hjá SÍBS sé ég ákveðna samsvörun, enda forvarnir í eðli sínu fræðsla sem miðar að ábyrgð, valdeflingu, menntun og breyttu atferli.

Íslendingar eru sú Evrópuþjóð sem borðar mestan sykur og óhollan mat á sama tíma og við verjum að jafnaði helmingi minna til forvarna en aðrar Evrópuþjóðir. Í aðdraganda kosninga var umræða um slæma fjárhagsstöðu heilbrigðiskerfisins áberandi, þröng staða Landspítala, aukin verkefni heilsugæslu og viðvarandi niðurskurður. Allt bendir til þess að álag á heilbrigðiskerfið muni aukast á næstu árum en um 80% af sjúkdómsbyrðinni er tilkomin vegna lífsstílstengdra sjúkdóma. Besta leiðin til að sporna við þeirri þróun eru forvarnir.(1)

Heilbrigðiskerfið, lýðheilsa og forvarnir

Í dag eru aðeins 2,6% af þeim 140 milljörðum sem lagðir eru í íslenska heilbrigðiskerfið sett í forvarnir og þá aðallega í gegnum heilsugæsluna.(2) Fjárfestingu í forvörnum þarf að fylgja skýr stefnumótun varðandi umgjörð, gæðaviðmið og framkvæmd forvarnarstarfs. Helstu hagsmunaðilar forvarna eru auk stjórnvalda, stofnanir ríkis, Tryggingastofnun, Sjúkratryggingar, Heilsugæslan og Embætti landlæknis. Þá hafa sjúkrahús og endurhæfingarmiðstöðvar að einhverju leyti sinnt forvörnum með endurhæfingu og móttökudeildum fyrir ákveðna sjúklinga- og áhættuhópa.

Velta má fyrir sér hlutverki Tryggingastofnunar er kemur að forvörnum. Stofnunin er fyrst og fremst greiðslustofnun sem framfylgir lögum um almannatryggingar og félagslega aðstoð með því að halda utan um greiðslur vegna örorku-, endurhæfingar- og ellilífeyris.(3) Sama má segja um Sjúkratryggingar Íslands sem greiða niður heilbrigðisþjónustu með það markmið að jafna aðgang að þjónustunni óháð efnahag.(4)

Lýðheilsustöð og Embætti landlæknis sameinuðust í maí 2011 en þá hafði Lýðheilsustöð gegnt miðstýringarhlutverki á sviði forvarna og lýðheilsu frá 2004. Með sameiningunni fluttust ýmis verkefni yfir til Landlæknis, s.s. heilsuefling á ólíkum skólastigum, heilsueflandi samfélög og vinnustaðir. Fræðsluefni um næringu, hreyfingu og geðrækt eru aðgengileg á heimasíðu embættisins auk upplýsinga um lýðheilsuvísa og niðurstöður „Heilsu og líðan“ könnunarinnar. Öll þessi verkefni eiga það sammerkt að þeir sem taka þátt í þeim greiða kostnað af rekstrinum sjálfir en fá ráðgjöf frá og stuðning frá Landlækni.(5)

Hlutverk heilsugæslustöðvanna og sveitarfélaganna í forvörnum felst m.a. í mæðra- og ungbarnaeftirliti, skólahjúkrunarfræðingum, félagsráðgjöfum og sálfræðingum á þjónustumiðstöðum og bæjarskrifstofum. Hreyfistjórar heilsugæslunnar eru nýtt úrræði sem að mörgu leyti svipar til hlutverks námsráðgjafa, en þeir aðstoða fólk í að vinna að lífsstílsbreytingu með fræðslu og að veita upplýsingar um úrræði. Stuðningur stéttarfélaga og atvinnurekenda við forvarnir byggist á sjúkrasjóðum sem greiða sjúkradagpeninga og styrkja sjúkraþjálfun og sálfræðiþjónustu.

Stuðningur til forvarnarstarfs á borð við líkamsrækt og lífsstílsþjálfun hefur farið í gegnum fræðslu- og styrktarsjóði félaganna. Athygli vekur að fulltrúar atvinnulífsins eiga öllu jöfnu ekki sæti í fagráðum Landlæknis eða koma að stefnumótun tengdri forvörnum og heilsueflingu þrátt fyrir að aukinn kostnaður vegna lífsstílstengdra sjúkdóma bitni ekki eingöngu á ríkinu heldur einnig á atvinnulífinu, s.s. í skertri starfsorku og fjarveru starfsmanna.

Atvinnulífið leiðir þróun framhaldsfræðslunnar

Samtök atvinnulífs og launþega hafa leitt þróun framhaldsfræðslunnar frá upphafi, samanber stofnun Fræðslumið- stöðvar atvinnulífsins og Fræðslusjóðs og með framlögum til fræðslusjóða stéttarfélaganna. Markmið framhaldsfræðslunnar er að hækka menntunarstig í landinu en um 30% landsmanna hefur ekki lokið formlegu námi eftir grunnskóla.(6)

Grunnhugmyndin er að vinna að viðhorfsbreytingu og valdeflingu, að fólk finni fyrir áhuga og fái sjálfstraust til að stunda og ljúka námi, auk þess að fá reynslu sína af vinnumarkaði metna til styttingar á námi. Markmið forvarna er ekki ósvipað, eða viðhorfsbreyting og valdefling, að auka heilsulæsi og sjálfstraust þeirra sem vilja breyta um lífsstíl.

Fyrstu lög um fullorðinsfræðslu voru sett 1992 en þar var áhersla á jafnrétti til náms, lögin féllu úr gildi 1994 og var málaflokkurinn felldur undir lög um framhaldsskóla. Í kjölfar uppbyggingar á símenntunarmiðstöðvum um allt land og aukins fjármagns stjórnvalda til málaflokksins voru sett lög um framhaldsfræðslu árið 2010, áherslan í þeim lögum er að auka jafnrétti til náms og að byggja upp stuðningsumhverfi fyrir fullorðna einstaklinga sem ekki hafa lokið formlegu námi á framhaldsskólastigi.(7)

Með tilkomu Fræðslumiðstöðvar og Fræðslusjóðs var mótuð umgjörð sem studdi við þróun og vottun fræðslu, náms- og starfsráðgjöf og raunfærnimat. Framlög ríkisins til málaflokksins jukust jafnt og þétt en árleg framlög nema tæplega 14 milljörðum sem renna til vottaðra fræðsluaðila og til verkefna í gegnum Fræðslusjóð. Framlag til sjóðsins 2015 var tæpar 800 milljónir.(8) Til samanburðar þá var framlag í Lýðheilsusjóð 85 milljónir 2016.(9)

Menntakerfið fjármagnar forvarnarstarf

Framhaldsfræðslan hefur verið nefnd 5. stoð menntakerfisins auk leikskóla (1), grunnskóla (2), framhaldsskóla (3) og háskóla (4). Eldri skilgreiningar á fullorðinsfræðslu voru víðtækari og fólu almennt í sér allt nám fyrir fullorðna, tómstundanám og starfstengt nám.(10) Líklega hefðu forvarnir fallið undir þá skilgreiningu.

Full2.JPG

Ef litið er til forvarnarverkefna Landlæknis þá fléttast þau inn í skólakerfið, samanber heilsueflandi leikskólar og grunnskólar, auk þess að njóta stuðnings og samstarfs við velferðarkerfi sveitarfélaga, íþróttafélög og heilsugæsluna. Í stefnumótun heilsueflandi sveitarfélaga má sjá að formleg umgjörð skólanna passar vel við áherslur og markmið verkefnanna. Heilsuefling getur orðið hluti af námsskrá með einingabæru námi samanber HAM námskeið fyrir ungt fólk í grunn- og framhaldsskólum í Breiðholti, núvitund og lífsstílsþjálfun sem nú er víða boðið upp á. Með þessari nálgun hafa forvarnir verið fjármagnaðar í gegnum skólakerfið.

Sú stoð sem enn hefur ekki verið nýtt til að styðja við heilsueflandi verkefni er framhaldsfræðslan. Það má líklega rekja til þess að markhópur hennar er enn afmarkaður við þá sem ekki hafa lokið framhaldsskólaprófi þótt námsframboð, kennsluaðferðir og þjónusta séu sniðin að þörfum fullorðins fólks almennt.

Forvarnir og fullorðinsfræðsla

SÍBS hefur boðið upp á fjölbreytt námskeið, tengd heilsu og lífsstíl, með áherslu á að nýta færustu sérfræðiþekkingu, samanber Reykjalundarnámskeið SÍBS þar sem almenningi er boðið upp á aðlöguð námskeið sem notuð eru í endurhæfingu á Reykjalundi. Hugræn atferlismeðferð (HAM) er meðal þeirra námskeiða. Þá er SÍBS í samstarfi við SidekickHealth, Ferðafélag Íslands og Heilsuborg um að þróa námsefni, námsskrá og gæðaviðmið fyrir lífsstílsþjálfun sem ætlað er að vera hvort tveggja í senn forvarnarverkefni og endurhæfing vegna lífsstílstengdra sjúkdóma. Þjálfunin byggir á fyrirmynd frá Smitsjúkdóma- og forvarnarstofnun Bandaríkjanna (CDC) fyrir fólk með byrjandi sykursýki. Markmiðið er að þeir sem nú þegar bjóða upp á lífsstílsþjálfun geti nýtt sér afurðir verkefnisins í framtíðinni svo lengi sem þeir uppfylla ákveðin gæðaviðmið.

Forvarnarstarf SÍBS tekur einnig til útgáfustarfs og almennra lýðheilsuverkefna. Má þar nefna gönguverkefni í samstarfi við gönguklúbbinn Vesen og vergang og Ferðafélag Íslands, lýðheilsuverkefnið „Líf og heilsa“ þar sem almenningi hefur verið boðið upp á ókeypis heilsufarsmælingar og að taka þátt í lýðheilsukönnun. „Líf og heilsa“ verkefnið er unnið í samstarfi við Hjartaheill auk þess sem heilsugæslur og sveitarfélög hafa tekið þátt. Í nóvember tókum við þátt í „Heilsueflandi Breiðholti“ með því að bjóða upp á heilsufarsmælingar í heilsugæslunni í Mjódd. Verkefnið var kærkomið innlegg, enda erfiðara að ná til almennings með heilsueflingu.(12)

Fræðslustarf SÍBS hefur ekki notið beins stuðnings frá ríkinu þannig að námskeiðsgjald hefur þurft að standa undir kostnaði. Á meðan fá aðilar framhaldsfræðslunnar, auk rekstrarstuðnings, allt að 75% styrk til að greiða niður vottaðar námsbrautir og til að kosta viðtöl náms- og starfsráðgjafa og raunfærnimat.(9) Á síðasta ári vann SÍBS í samstarfi við Framvegis og Þjónustumiðstöð Breiðholts umsókn til Fræðslusjóðs um þróun námsskrár fyrir hugræna atferlismeðferð. Verkefnið sem Framvegis stýrir fékk stuðning úr sjóðnum og áætlað er að vottuð námsskrá verði í boði á næsta ári. Markmiðið er að skapa þannig grundvöll fyrir fleiri til að nýta sér úrræðið með niðurgreiðslum framhaldsfræðslunnar.

Samþætting menntakerfisins og forvarna kemur skýrt fram í heilsueflandi verkefnum landlæknis en þar hefur vantað upp á tengingu við fullorðið fólk á vinnumarkaði sem er lík - lega sá hópur sem mikilvægast er að ná til. Heilsugæslan er vissulega snertiflötur almennings við heilbrigðiskerfið, þegar þangað er komið er oft orðið of seint að grípa til forvarna. Öll þurfum við að fara með bílinn í skoðun einu sinni á ári og sömuleiðis förum við flest til tannlæknis reglulega þrátt fyrir að við finnum ekki fyrir tannpínu. Fæst förum við í árlega ástands- eða læknisskoðun á heilsugæsluna enda ekki lögbundið.

Forvarnir þurfa að fela í sér bæði þekkingu heilbrigðisstarfsfólks og aðferðafræði í námi fyrir ólíka aldurhópa. Þess vegna er mikilvægt þegar unnið er að þróun á umhverfi og ferlum forvarna að ólíkir hagsmunaaðilar taki þátt, s.s. fulltrúar atvinnulífsins, menntakerfisins auk fagaðila á heilbrigðis- og velferðarsviði.

Heimildir
 1. Tryggvi Þorgeirsson og Axel Sigurðsson. (2017, janúar 22.). Íslendingar eyða helmingi minna í forvarnir en aðrar Evrópuþjóðir. (Fréttir Stöðvar 2, Gunnar Atli Gunnarsson).
 2. Guðmundur Löve. (Febrúar 2015). Stóra myndin í heilbrigðismálum. SÍBS blaðið, bls. 7.
 3. Tryggingastofnun. www.tr.is.
 4. Sjúkrasjóður. www.sjukra.is.
 5. Landlæknir. www.landlaeknir.is.
 6. Hreyfitorg. www.hreyfitorg.is.
 7. Capacent. (2014). Úttekt á framhaldsfræðslukerfinu 2009-2013. Reykjavík: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
 8. Lög um framhaldsfræðslu, nr. 27 (Lagasafn mars 31., 2010).
 9. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. www.frae.is.
 10. Landlæknir. www.landlaeknir.is.
 11. Mennta- og menningarmálaráðuneytið. (2015). Skýrsla verkefnahóps um fullorðins- og framhaldsfræðslu. Reykjavík: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
 12. Þórdís Lilja Gísladóttir & Óskar Dýrmundur Ólafsson. (Nóvember 2015). Forvarnarstefna Reykjavíkur 2014-2019. Aðgerðaáætlun Breiðholts - Heilsueflandi Breiðholt.

Stefanía G. Kristinsdóttir

Verkefnastjóri hjá SÍBS

Nýtt á vefnum