Greinar / 12. október 2023

Velsældarvísar – mælikvarðar um hagsæld og lífsgæði

Verkefni um safn velsældarvísa er unnið í samstarfi Hagstofu Íslands og forsætisráðuneytisins og hefur að meginmarkmiði að um miðla mælikvörðum um hagsæld og lífsgæði á Íslandi.

Árið 2020 samþykkti ríkisstjórn Íslands tillögu forsætisráðherra um notkun félagslegra, umhverfislegra og efnahagslegra mælikvarða sem eru lýsandi fyrir hagsæld og lífsgæði. Tillagan grundvallaðist á vinnu nefndar á vegum forsætisráðherra sem skilaði skýrslu um þróun slíkra mælikvarða á árinu 2019. Mælikvarðarnir sem eru 40 talsins, taka mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, byggja á opinberum hagtölum og eru samanburðarhæfir við önnur lönd.

Þegar meta á velsæld þjóða er ekki nóg að horfa eingöngu til efnahagslegra þátta eins og vergrar landsframleiðslu eða hagvaxtar heldur þarf einnig að taka tillit til félagslegra þátta og umhverfis. Andleg líðan, heilsa, jafnvægi vinnu og einkalífs, húsnæði, félagsleg tengsl og traust til stjórnvalda eru allt áhrifaþættir í lífum fólks. Skoða þarf hvernig gæði samfélagsins skiptast milli íbúanna og hvaða áhrif aukin lands framleiðsla hefur á umhverfið. Því mikilvægt að taka saman mælingar gefa yfirsýn yfir ofangreinda þætti og geta legið til grundvallar mati á lífsgæðum ásamt hefðbundnum hagsældarmælingum.

Notkun velsældarvísa við stefnumótun

Stjórnarráð.png

Mælikvörðunum í safni velsældarvísa er ætlað að auðvelda íslenskum stjórnvöldum að fylgjast með þróun og breytingum í samfélaginu og styðja við stefnumótun þeirra þ.e.a.s. við forgangsröðun, eftirlit og mat á árangri á ákvarðanatöku. Mælingar og gögn hafa jafnframt áhrif á opinbera umræðu og nýtast við forgangsröðun verkefna á hverjum tíma.

Með heildstæðu safni velsældarvísa gefst ráðuneytum og stofnunum færi á að horfa á heildarmyndina þegar áætlanir og stefnur eru mótaðar í stað þess að einblína á hvert málefnasvið fyrir sig eins og til dæmis vinnumarkað, menntun, húsnæði og heilsu. Með innleiðingu heildstæðari mælikvarða fæst margþættari mynd af stöðunni sem nýtist við samþættingu stefnumótunar þvert á stjórnkerfið

Ríkisstjórnin samþykkti árið 2020 að leggja sex velsældaráherslur til grundvallar við gerð fjármálaáætlunar. Ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands styðjast við áherslurnar í markmiðasetningu sinni á 30 af 35 málefnasviðum í núgildandi fjármálaáætlun sem nær til áranna 2023-2027. Velsældaráherslurnar sex hafa mismunandi skírskotun til málefnasviða stjórnvalda. Áherslurnar um andlegt heilbrigði, öryggi í húsnæðismálum og virkni í námi og starfi varða fleiri en eitt málefnasvið en þær sem fjalla um kolefnishlutlausa framtíð, grósku í nýsköpun og betri samskipti við almenning varða öll málefnasvið. Nú er í samstarfi þriggja ráðuneyta unnið að mótun tillögu í um markvissa innleiðingu áherslnanna í alla áætlanagerð og ákvarðanatöku stjórnvalda þ.m.t. gerð fjármálaáætlunar og frumvarps til fjárlaga.

Íslensk stjórnvöld eru þátttakendur í hópi nokkurra ríkja um eflingu velsældarhagkerfa (e. Wellbeing Economy Governments). Í þeim hópi taka einnig þátt Skotland, Wales, Kanada og Nýja-Sjáland. Markmiðið er að stuðla að samvinnu stjórnvalda, sem vilja dýpka skilning á hugtakinu velsæld og innleiða í stefnumótun.

Nýsjálendingar eru einna lengst komnir í innleiðingu velsældarmælikvarða og hafa sett velsældaráherslur sem ætlað er að meta langtímaáhrif af ákvörðunum stjórnvalda við fjárlagagerðina, í forgrunn fjármálaáætlana sinna. Áherslunum er ætlað að meta langtímaáhrif af ákvörðunum stjórnvalda við fjárlagagerðina á lífsgæði fólks. Þegar stofnað er til nýrra útgjalda þarf að fylgja rökstuðningur um hvaða áhrif sú aðgerð mun hafa t.d. á barnafátækt. Ráðherrum er þannig gert að rökstyðja hvernig ákvarðanir um útgjöld hafa mælanleg jákvæð áhrif á líf fólks.

Val á mælikvörðum

Engin samræmd aðferðafræði liggur að baki við val á mælikvörðum landa og alþjóðastofnana. Allur gangur er á því hversu marga mælikvarða löndin setja fram og það er ólíkt eftir löndum hvaða svið stjórnvalda stýrir verkefnum á sviði velsældarmála. Í sumum löndum er verkefnið á ábyrgð forsætisráðuneytis eða annarra ráðuneyta en í öðrum löndum er það hagstofa eða sambærileg stofnun sem hefur frumkvæði að fara með umsjón mælikvarða. Mælikvarðarnir taka þá ekki mið af þörfum stjórnvalda á sama hátt og þegar vinnunni er stýrt af ráðuneytum.

Að velja viðeigandi mælikvarða til að meta velsæld er flókið verkefni. Þó nokkuð er til af tölfræðilegum upplýsingum en gæðin þeirra eru mismunadi og miserfitt er að nálgast gögn. Ef engin gögn eru til og hefja þarf nýja gagnasöfnun þarf að meta hvort kostnaðurinn sé réttlætanlegur eða hvort hægt sé að nota önnur gögn, sem fanga sama eða svipað viðfangsefni.

Það er mikilvægt að mælikvarðar komist sem næst því að gefa mynd af stöðu velsældar eins og hún er í samtímanum og því þurfa gögn að vera tímanleg. Til að rekja þróun velsældar yfir tíma þurfa mælingar að vera reglulegar og þykja árlegar mælingar heppilegastar. Í sumum tilfellum er þó notast við mælingar sem er safnað sjaldnar.

Mælingarnar þurfa að vera áreiðanlegar, þ.e. mæla það sem þeim er ætlað að mæla. Áreiðanleg mæling endurspeglar þá þætti sem hafa áhrif á hana og ætti mælingin því að breytast ef áhrifaþáttur breytist. Þá er æskilegt að hægt sé að brjóta mælinguna niður á þjóðfélagshópa til að draga fram mismunandi stöðu þeirra, til dæmis heilsu mismunandi hópa. Vissar mælingar eru þó þess eðlis að þær endurspegla fyrst og fremst umhverfi fólks og efnahagslegar aðstæður, til dæmis hagvöxt, en slíkar mælingar er eðli málsins samkvæmt ekki hægt að brjóta niður eftir þjóðfélagshópum. Mikilvægt er að hafa í huga að þegar kemur að mælikvörðum er magn ekki það sama og gæði. Of margir vísar geta valdið því að það verður erfitt að sjá heildarmyndina.

Hvað skiptir almenning máli?

Við þróun mælikvarða um velsæld hafa lönd farið ýmsar leiðir við að leggja mat á hvaða þættir skipta mestu máli varðandi velsæld íbúanna. Mörg lönd hafa í þessu skyni látið gera kannanir og önnur hafa leitað eftir framlagi íbúa með öðrum leiðum eins og samtali á netinu eða íbúafundum. Hér á landi var farin sú leið að leita eftir áherslum almennings með viðhorfskönnun þar sem þátttakendur voru beðnir um að raða þáttum sem snúa að hagsæld og lífsgæðum í mikilvægisröð. Annars vegar voru þátttakendur beðnir um að raða þáttunum eftir mikilvægi þeirra fyrir eigin lífsgæði og hins vegar hvaða þættir skipta að þeirra mati mestu fyrir samfélagið.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar taldi almenningur á Íslandi heilsu og aðgengi að heilbrigðisþjónustu vera það sem mestu máli skiptir varðandi eigin lífsgæði. Næst komu félagsleg tengsl, þá húsnæði og eigin fjárhagur. Heilsa var einnig nefnd mikilvægust þeirra þátta sem þátttakendur töldu einkenna gott samfélag, því næst húsnæði og þar á eftir menntun og atvinna. Niðurstöðurnar eru í takt við niðurstöður annarra landa og alþjóðastofnana á borð við Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD).

Flokkun velsældarvísa

Velsældarvísar eru 40 talsins og eru þeir flokkaðir í þrjá undirþætti með eftirfarandi undirflokka:

Félagslegir: Heilsa, menntun, félagsauður, öryggi íbúa og jafnvægi milli vinnu og einkalífs.

Efnahagslegir: Hagkerfi, atvinna, húsnæði og tekjur.

Umhverfislegir: Loftgæði og loftslag, land, orka og úrgangur og endurvinnsla.

Hverjum mælikvarða er skipt í undirflokka og þeim í tiltekna vísa eða mælingar. Með því að skoða mælikvarðana er hægt að sjá hvort hagsæld og lífsgæði hafi aukist, staðið í stað eða dalað yfir tíma. Þó svo að sú þróun sem mælikvarðarnir sýna geti verið háð pólitískri túlkun á hverjum tíma eru þeir hlutlægur grundvöllur fyrir umræður um stöðu samfélagsins.

Hagstofu Íslands var falið að halda utan um mælikvarða um hagsæld og lífsgæði, velsældarvísa, enda falla þeir vel að annarri sambærilegri vinnu innan stofnunarinnar, eins og mælingum fyrir heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Vísarnir byggjast einnig að stærstum hluta á gögnum Hagstofunnar, meðal annars um efnahag, mannfjölda og menntun ásamt gögnum úr lífskjararannsókn og vinnumarkaðsrannsókn. Hagstofan annast söfnun upplýsinga, útfærir miðlun mælikvarðanna og að metur mögulega sundurliðun gagna.

Helstu niðurstöður 2018-2022

Við mat á breytingum síðustu fimm ára höfðu 21 mælikvarði þróast í jákvæða átt, átta staðið í stað og sex þróast til verri vegar. Ítarlegri niðurstöður eru í töflunni hér að neðan. Í sex tilvikum er ekki hægt að meta þróun vegna úreltra talna eða vegna þess að engar tölur hafa verið birtar. Stefnt er að því að klára að birta alla mælikvarða vísasafnsins fyrir lok ársins 2023.

Á síðu velsældarvísa á vefsvæði Hagstofunnar má finna umfjöllun um hverja og eina mælingu sem og niðurstöður aftur í tíma

Skýring.png

Picture2.png

Picture4.png

Picture3.png

Rósa Guðrún Erlingsdóttir

Sérfræðingur á skrifstofu samhæfingar og stefnumála í forsætisráðuneytinu

Þórdís Birna Borgarsdóttir

Sérfræðingur í lífskjaratölfræði á Hagstofu Íslands
Nýtt á vefnum