Greinar / 26. október 2023

Velsæld í hagrænu ljósi

Hagfræðin hefur brugðist, sagði nóbelsverðlaunahafinn Angus Deaton nýlega, nánar tiltekið hagfræðingarnir margir hverjir — sérstaklega þeir hátt skrifuðu og mest áberandi í meginstraumnum. Ástæðan er sú að fagstéttin hefur misst sjónar á sínu mikilvægasta markmiði sem á að vera það að bæta líf fólks.

Angus.png

Angus Deaton fékk nóbelsverðlaunin í hagfræði fyrir átta árum, eða árið 2015, þó lítið hafi verið fjallað um hann og verk hans hérlendis. Nýlega kom út bók eftir hann sem nefnist: Hagfræði í Ameríku - hagfræðingur með innflytjenda bakgrunn kannar land ójöfnuðarins (Economics in America - an immigrant economist explores the land of inequality) og fjallað hefur verið um á erlendum vettvangi viðskipta og efnahagsmála sem og í helstu fjölmiðlum á þeim sviðum.

Að vera fæddur í Skotlandi, þar sem faðir hans vann í kolanámu, er mótandi en óvenjulegur bakgrunnur þessa hagfræðings sem klifið hefur hæst í metorðastiganum í Ameríku. Síðustu fimmtíu árin hefur Angus Deaton verið að klifra þangað upp með sína innflytjenda reynslu í bakpokanum. Nú orðinn 77 ára gamall gagnrýnir hann harðlega stétt sína og viðurkennir mistökin innan hennar við að leggja alltof mikla áherslu á markaði og hagkvæmni sem kostað hafi milljónir manna lífið, segir hann í bókinni.

Velferðarríkið og velsæld

Hagfræðingastéttin hefur algerlega tapað tengslum við uppruna fagsins sem hefur allt frá dögum Adam Smith snúist um velferð, skrifar Angus Deaton. Áherslan ætti að vera á að fyrirbyggja efnahagslegar þrengingar áður en þær gerast en ekki líta á þær sem óumflýjanlegar afleiðingar efnahagsþróunar. Stærstu mistökin innan hagfræðinnar eru að mæla velsæld á peningalega kvarða, heldur hann áfram.

En spurningin verður þá hvað nota skuli í stað peningalegra mælikvarða. Við vitum öll að margt af því verðmætasta í lífinu og heiminum verður ekki mælt með peningum. Hreint loft, heilbrigt líf, hamingja og ást svo nokkur dæmi séu tekin.

Hagvöxtur hefur þótt hagkvæmur mælikvarði undanfarna áratugi fyrir velsæld, jafnt í velferðarríkjum norðursins hér sem og þar í fátækari ríkjum í suðrinu, sem vilja gjarnan ná okkur í velsæld. Forsendur velferðarríkjanna og þeirrar velsældar sem mæld er á ýmsa vegu byggjast mikið til á fjármögnun sem kemur til vegna skattheimtu og stuðlar að auknum jöfnuði

Hugtakið hagsæld

Þorri þjóðarinnar telur hagsæld hennar byggjast á alþjóðasamvinnu og alþjóðaviðskiptum. Nánar tiltekið á það við um átta af hverjum tíu landsmönnum. Þetta kom fram í könnun sumarið 2022 sem gerð var á vegum stjórnarráðsins. Viðskiptin og vísindin efla alla dáð og hag okkar allra, hefur löngum verið sagt. Ljóst er að mikið af framþróun okkar hér lendis hefur komið til vegna áhrifa að utan og fólk veit það. Einangrun og innilokun er ekki líkleg leið til aukinnar hagsældar.

En hvað það raunverulega er sem við teljum þessa hagsæld vera er óljóst. Það er ekki alveg skýrt hvaða sameiginlegu merkingu við leggjum í hugtakið hagsæld og hvernig það aðgreinist frá velsæld eða farsæld. Orðið hagsæld er fallegt orð og mun hlýrra en harðari orð eins og hagvöxtur eða hagnaður. Þau eru peningalegri en ekki eins mild og orðið hagsæld.

Samnefnarinn sem draga má fram úr þessum hagorðum er samt augljósast sá að hagur okkar batnar. Sem er líklega forsenda þess að vellíðan og velsæld nái fram að ganga svo lifa megi farsælu lífi. Til að nýta peningalegu mælikvarðana til betra lífs þá verður að mæla hina ófjárhagslegu mælikvarða samhliða og vega þá síðan saman.

Þar koma til sögunnar ójafnaðar og fátæktar rannsóknirnar sem lágu til grundvallar verðlaununum sem Angus Deaton fékk fyrir átta árum síðan. Sá vendipunktur hefur síðan orðið í heimssögunni að í fyrsta sinn á komandi kynslóð ekki von á bættum lífslíkum miðað við foreldrana, í Bandaríkjunum. Auk þess er Kína komið fram úr þeim í meðalævilengd. Sem er ótrúleg framþróun á undravert stuttum tíma, en ójöfnuðurinn er enn vandi þar.

Fyrir þremur árum kom út bók eftir Angus Deaton og Anne Case um það sem kalla mætti Dauði vegna örvæntingar og framtíð kapítalismans (Deaths of Despair and the Future of Capitalism). Vonleysi millistéttarinnar og mistök hagfræðinnar leika þar stórt hlutverk sem enn skýrara verður í nýju bók hans sem vikið var að í upphafi greinarinnar.

Framþróun og framleiðni

Leiðin að aukinni hagsæld - er heitið á sex ára gömlum bæklingi frá Viðskiptaráði Íslands sem fjallar um þróun efnahagsmála og framvindu umbóta frá útgáfu Íslandsskýrslu alþjóðlegs ráðgjafarfyrirtækis sem gerð var eftir efnahags- og fjármálahrunið 2008. Aukning hagsældar var og yfirskrift aðalfundar Samtaka atvinnulífsins í október 2023.

Í raun má segja að við hérlendis höfum sloppið vel frá því hruni þó það hafi á marga mælikvarða verið einna mest fallið hér – enda hátt farið fram að því. Kaupmáttur er gjarnan sagður hafa aukist hér hvað mest í alþjóðlegum samanburði, þegar miðað er við lágpunktinn 2013. Skuldir hins opinbera eru jafnframt sagðar hafa lækkað mikið, aftur í alþjóðlegum samanburði, og er þá miðað við hápunktinn 2008-9. Þar er horft til stærðar skuldanna sem hlutfalli af landsframleiðslunni. Sjaldnar er horft á kostnaðinn af þessum skuldum, sem er einna hæstur hérlendis miðað við nágrannalöndin vegna hærri vaxta.

Velsældarvísar Hagstofunnar eru mikilvæg nýjung sem kom til í þróunarstarfi eftir fjármálahrunið úr samstarfi Hagstofunnar og forsætisráðuneytisins sem miða að miðlun mælikvarða um hagsæld og lífsgæði hérlendis. Þeir byggja á skýrslu ráðuneytisins frá 2019 um þróun íslenskra mælikvarða á hagsæld og lífsgæði. Alþjóðlega fór mikil gagnrýni af stað eftir árið 2008 um vanda hagvaxtarmælinganna en engin alþjóðlegur staðall hefur enn komið fram um það sem taka þurfi með í reikninginn umfram hina takmörkuðu mælingu hagvaxtar.

Hagsæld virðist í mörgum opinberum textum og skýrslum vera notað sem samheiti við velsæld. Skilgreiningin á hugtökunum og samanburður er flóknari. Virðast jafnvel stundum hugtökin farsæld og lífsgæði einnig vera notuð með vissri skörun eða jafnvel sem samheiti við hagsæld

Uppruni orða

Auðvelt er að leita á vefnum að því sem kemur fram í nýjustu skýrslum um hagsæld, þó liggur ekki skýrt fyrir hvað sameiginlega er meint með hugtakinu þegar það er notað. Í nútímamálsorðabókinni á vef stofnunar Árna Magnússonar er orðið hagsæld sagt vera nafnorð í kvenkyni sem þýði efnahagsleg velgengni eða velmegun. Orðið velmegun er síðan skilgreint sem mjög góð lífsafkoma. Orðið velsæld er sagt það að lifa við góðan hag og líða vel en vísað í hagsæld og vellíðan sem samheiti.

Fari leitin á vef Landsbókasafnsins og sérlega vefinn tímarit.is má finna hátt í tíuþúsund niðurstöður um birtingu orðsins. Þær elstu eru fjölmargar úr tímaritinu Skírni. Allt frá árinu 1831 og árlega eftir það í fréttapistlum um árið á undan í þessu elsta miðli á íslensku. Sú hagsæld sem þar kemur fram felur í sér veðurfar, ræktun og fleiri lífsskilyrði í löndunum í kringum okkur.

Loks má geta, þegar leitað er að uppruna hagsældar, 111 ára gamallar ræðu Hannesar Hafstein sem finna má í Alþingistíðindum og á vef Alþingis. Ræðan er frá ráðherraskiptum á 8. fundi 23. löggjafarþings þann 25. júlí 1912. Þar segir hinn endurskipaði ráðherra í lokaorðum: „Jeg treysti því, að þessi samtök komist á og nái tilgangi sínum, að tryggja framgang þess máls, sem er eitt höfuð skilyrðið fyrir því, að tryggja friðinn inn á við, sem aftur er skilyrði fyrir heilbrigðum vexti, hagsæld og sjálfstæðri menningu þessa lands.”

Heimsstyrjöldin fyrri hófst tveimur árum síðar. Ísland varð fullvalda og frjálst ríki nokkrum vikum eftir að því stríði lauk og Sambandslögin tóku gildi. En það ár var einnig drepsóttarfaraldur, frostavetur og Kötlugos sem líklega höfðu meiri áhrif á hagsæld heldur en hin fjárhagslegu málefni.

Bóklegar heimildir

bækur.png

Enn betri leit að því hvað hagsæld er leiðir að raunverulegum bókunum frekar en vafstri um vefinn. Fornbókaverslunin á horni Hverfisgötu og Klapparstígs og samnefndur vefur þeirrar búðar bókin.is gaf eftirfarandi þrjár niðurstöður, sem voru um margt betri heimildir en flest það efni sem finna mátti í skýrslum á vefnum. Þessi þrjú ritverk eru stuttlega reifuð hér.

Í fyrsta lagi var það bæklingur með stefnuskrá Sameiningarflokks alþýðu - sósíalistaflokksins fyrir Alþingiskosningarnar 1946. Yfirskrift stefnu flokksins var: Sjálfstæði, hagsæld, menning. Þetta voru fyrstu kosningarnar eftir að seinni heimsstyrjöldinni lauk og Ísland var orðið lýðveldi eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá og komið með eigin forseta í stað dansks konungs.

Í annan stað var það: Hornstein hagsældar, lítið kver gefið út 1967 vegna tuttugu ára afmælis Marshall áætlunar í Evrópu - sem Samtök um vestræna samvinnu gáfu út. Hornsteinninn að hagsældinni var sú efnahagsleg aðstoð sem segja má að hafi á vissan hátt lagt grundvöllinn að nútímavæðingu landsins, þó við höfum ekki orðið fyrir sprengjuregni. Þessi hornsteinn var svokölluð Marshall aðstoð Bandaríkjanna. Tilgangur hennar var að endurreisa efnahagslíf heimsins eftir stríðið til að leggja grundvöll að stjórnmálalegum og félagslegum aðstæðum, sem frjálsar stofnanir geta blómgast við. Líkt og kom fram í ávarpi Marshall, þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna við Harvard háskóla í júní 1947 og birt var í íslenskri þýðingu í kverinu.

Þriðja ritið um hagsæld hefur að geyma yfirgripsmestu útlistunina á því hvað hagsæld er. Bókin kom út árið 1987 í tilefni af sjötugsafmæli höfundar og hefur að geyma safn texta úr ritgerðum og ræðum Gylfa Þ. Gíslasonar fyrrverandi prófessors og ráðherra. Bókin heitir, líkt og fyrsta ritgerðin í henni: Hagsæld, tími og hamingja.

Ritgerðin var samin fyrir alþjóðlega vísindaráðstefnu í New York árið 1975 og birtist einnig í Fjármálatíðindum 1976. Í umræðum um þjóðfélagsmál, segir Gylfi þar, munu fá hugtök hafa orðið kunnari á síðari árum en hugtakið hagsældarþjóðfélag, sem er þýðing á enska heitinu Affluent Society. Hér má því einnig vísa í bók eftir John Kenneth Galbraiths með því sama heiti.

Sjálfsgagnrýnið stöðumat

Því miður er staðan sú í samfélagi okkar hér á landi að næstum fjórðungur heimila (23%) átti erfitt með að ná endum saman árið 2021 og tæpur helmingur(44%) á nú árið 2023 erfitt með að láta heimilisbókhaldið ganga upp. Hætt er við að þessi staða muni versna enn á næsta ári, meðal annars vegna verðbólgu, verði ekkert að gert. Það getur vart talist vera hagsældarþjóðfélag eða velferðarsamfélag ef að ójöfnuður er svo mikill og á svo breiðum grunni.

Auðvitað gæti Ísland vel verið eitt mesta land velsældar – enda land allsnægta. Líkt og hagtölur, meðaltöl og þjóðhagsreikningar sýna vel. Samt gengur heimilisbókhaldið hjá um helmingi heimila ekki upp. Hagsældina hér verður því augljóslega að jafna betur.

Að sjálfsögðu er gott að bæta hagstjórn með bættum mælikvörðum, líkt og velsældarvísum. Enda hagvaxtarmælikvarðinn alltof takmarkaður og jafnvel hættulegur líkt og komið var að í upphafi greinarinnar. Það þarf hins vegar einnig að verða uppljómun meðal hagfræðingastéttarinnar á því sem aflaga hefur fari til þess að bæta megi úr málunum. Lestur bóka er ein leið til þess og skilningur á heimilisbókhaldi venjulegs fólks er önnur leið.

Mikilvægt er að takmarkanir gildandi viðmiða séu viðurkennd. Þannig þarf að horfa gagnrýnið á hagvöxt af ferðamannauppsveiflu sem kallar á mikla hótelbyggingar og innflutt vinnuafl til þeirra framkvæmda og starfa innan þeirra eftir byggingu. Sú uppsveifla mælist sem mikill hagvöxtur, en þegar gamalgróni mælikvarðinn mannfjöldi er tekin með og ljóst hve hratt hann vex vegna innflutnings starfsfólks þá verður jafnframt ljóst að hagvöxtur á mann fer ekki vaxandi. Þetta er því mikill gervivöxtur og raunvöxtur nánast enginn.

Auk þess sem hagvöxturinn og aukning hans er vissulega slæm fyrir umhverfið, sé ekki haldið í við alþjóðlega þróun og dregið úr losun hraðar en vöxturinn krefst. Hérlendis eykst hún samfara vextinum. Þegar losun og mengun fara vaxandi með hagvextinum í núverandi ástandi loftslagsmála og líffræðilegs fjölbreytileika þá er verr af stað farið en heima setið.

Sveiflukenndur vöxtur er einnig mun verri en stöðugri vöxtur þó hann sé heldur minni fljótt á litið. Til lengri tíma getur stöðugri og minni vöxtur skilað meiru en hraðar uppsveiflur sem síðan hrynja með reglulegu millibili. Samt þarf auðvitað að bæta við mælaborðið velsældarvísum til að vita hvernig okkur gengur að auka hagsæld á breiðum grunni og út fyrir hagvöxt en það dugar ekki til.

Núverandi niðurstaða

Hagvöxtinn má auka á ýmsa vegu. En magn er ekki sama og gæði. Meira er ekki alltaf betra. Til dæmis eykst hagvöxtur með því að veiða allan fiskinn úr sjónum. Mestur hagvöxtur til skamms tíma fæst ef það er gert á einu ári, en þá verður hagvöxtur árið eftir mjög neikvæður og efnahagslegur grundvöllur fokinn út í hafsauga. Það er ekki sjálfbær hagvöxtur og öll sjáum við að það er ekki góður vöxtur sem skilar landinu, loftinu og sjónum eða lífkerfinu og heilsu okkar í verra ástandi til næsta árs. Náttúran er nú aðili máls og ekki er hægt að ganga á gæði hennar með ósjálfbærum hætti til að hagnast á kostnað framtíðarkynslóða.

Þessar miklu breytingar sem nú standa yfir á hinni efnahagslegu umgjörð taka þó of langan tíma að festast í sessi. Því er mikilsvert að hagfræðingar eins og Angus Deaton brýni raustina með áðurnefndum bókum og vonast verður til þess að hinir hagfræðingarnir leggi við hlustir. Það er í samræmi við reynslu sögunnar, sem stundum gleymist, þar sem lesa má um forsendurnar í áðurnefndum bókum eftir John Kenneth Galbraith og Gylfa Þ. Gíslason, til dæmis.

Hagsæld má, með sögulegri greiningu, segja að byggjast þurfi á samþættingu alþjóðlegrar samvinnu og sjálfstæðrar menningar. Hið efnahagslega og peningarnir eru í bakgrunni en ekki forgrunni, í ljósi sögunnar. Það eru stjórnmálalegar og félagslegar aðstæður sem skipta hve mestu máli fyrir stofnanauppbyggingu og framrás hagsældarinnar. Þar veita velsældarvísar vissa von. Heilbrigður vöxtur er lykilatriði, en ekki hvaða vöxtur sem er eða sem mestur vöxtur sjálf sín vegna.

Velsældin getur vel vaxið áfram. Þróun mælikvarðanna verður mikilvægt verkefni í því ljósi. Það hvernig hugarfari hagfræðinganna verður hnikað í átt til raunverulegrar sjálfbærni og betri jöfnuðar er líklega einna stærsta áskorunin til að varða veginn til velsældar og hagsældar framtíðarinnar.

Ásgeir Brynjar Torfason

Höfundur er menntaður bæði í hagfræði og heimspeki, starfar sem ritstjóri Vísbendingar - vikurits um viðskipti, efnahagsmál og nýsköpun.
Nýtt á vefnum