Greinar / 1. júní 2016

Útivist á Íslandi eru mínar ær og kýr

Jón Gauti Jónsson er hjúkrunarfræðingur að mennt en hefur lengst af starfað sem fjallaleiðsögumaður. Á milli ferða hefur hann kennt, setið við skriftir og tekið myndir. Eftir hann liggja þrjár bækur Gengið um óbyggðir (2004), Fjallabókin (2013) og Iceland - Reflections on the ring road (2015). Fyrir einu og hálfu ári ákvað Jón Gauti að gerast sjálfstæður og stofnaði sitt eigið fyrirtæki í ferðaþjónustunni, Fjallaskólann.

„Ég stofnaði fyrirtækið af því ég sá ákveðin tækifæri í því,“ segir Jón Gauti þegar við sitjum úti í garði hans í Skerjafirðinum einn af fyrstu alvöru sólardögum vorsins. „Mínar ær og kýr hafa alltaf verið að opna augu fólks fyrir náttúru Íslands, draga fólk út í náttúruna. Ég er þeirra trúar að ekki sé hægt að ætlast til þess að fólk kjósi að vernda náttúruna nema það hafi upplifað hana á eigin skinni, hvort sem það er að uppgötva mátt hennar og megin í alls konar veðri á fjöllum eða smæð hennar í fíngerðum blómum og smádýralífi á láglendinu. Þetta er svona grunnstefið í því sem mér finnst skemmtilegast að gera.“

Og núna er aðalvertíðin að hefjast …

„Já, núna er vor, núna er fallegur sumardagur, og mjög spennandi tími framundan, sem er sumarið og þó ég sé á ferðinni allt árið um kring finnst mér tíminn frá apríl til september skemmtilegasti tíminn. Þá er líka auðveldara að fá fólk út til þess að fylgja sér. Þar fyrir utan vinn ég við leiðsögn og kennslu árið um kring í fyrirtæki mínu sem nefnist Fjallaskólinn. Þar hef ég verið að bjóða upp á námskeið fyrir almenning en líka fagfólk sem vill leggja fyrir sig leiðsögn, sérstaklega fjallaleiðsögn og jöklaleiðsögn. Af ferðum eru það svo fjallaskíðaferðir sem njóta æ meiri vinsælda. Ég hef kennt með hléum í Leiðsöguskólanum frá 1999, þannig að það eru eiginlega örlög mín að hafa lent í þessu, en þetta er óhemju fjölbreytt og skemmtilegt.” segir Jón Gauti.

JónG3.JPG

JónG2.JPG

„Kjarninn í starfi Fjallaskólans er hópur sem kallast Útiverur. Útiverur eru gönguarmur Fjallaskólans, hópur fólks sem hefur útivist og ferðalög að lífsstíl og gengur til fjalla árið um kring. Við erum ekki íþróttafólk heldur njótum þess að ganga saman sem hópur, þetta eru ekki sprettgöngur og áherslan er ekki að klífa brött klettabelti eða eitthvað slíkt því öryggið er í fyrirrúmi. Ég hef gert bommertur í slíku og lært mína lexíu. Ég segi stundum að hlutverk mitt sem leiðsögumanns sé ekki að ná toppnum heldur að snúa við í tæka tíð, á réttum tíma, hvort sem það er fyrir eða eftir að markmiðinu er náð. Fólkið í hópnum, sem telur um 40-50 manns, skilur þetta viðhorf mitt vel og kann að meta það. Með þetta að markmiði get ég leyft mér að skipuleggja ferðir á staði sem ég hef ekki komið á sjálfur, ég leyfi mér það með hóp sem ég þekki vel, það þykir mér skemmtilegast. Þetta eru því á sína vísu óvissuferðir. Og ég reyni að selja fólki óvissuna, mér finnst of mikið gert af því að eyða allri óvissu, af því mér finnst hún svo ríkur þáttur í upplifun okkar af landinu. Auðvitað skiptir máli að þekkja deili á hinu og þessu og þekkja sögu svæðanna en mér finnst skemmtilegra ef ekki er búið að eyða óvissunni um hvað sé handan við næsta horn, það gefur mér mikið að ganga án þess að vita nákvæmlega hvað bíður manns handan við hornið. Það er því forvitnin, um hvað er handan við næsta hól eða beygju, sem dregur okkur áfram. Þannig má segja að blásið sé í kulnaðar glæður forvitninnar…“

Heilsubót í fjallamennsku

Hefur ekki orðið nánast bylting í þessum efnum í seinni tíð?

„Ferðamönnum hefur fjölgað gífurlega á undanförnum árum, frá 300 þúsundum fyrir tólf árum og núna er því spáð að tvær milljónir sæki okkur heim á næsta ári. Sú breyting litar mjög alla myndina. Ég veit ekki alveg með Íslendinga sjálfa. Þetta hefur ekki verið mælt, við vitum að ferðalög innanlands jukust mjög á árunum eftir Hrunið. Síðan má líka minnast þess að 1938 skrifar ferðagarpurinn Guðmundur frá Miðdal í bókinni Fjallamenn – eins og gönguhópur hans kallaðist – að útivist landans sé að aukast hröðum skrefum! Trúlega er þessi tilfinning bundin tíðarandanum.

JónG4.JPG

Ég get þó fullyrt að áhersla á hreyfingu sem heilsubót er örugglega meiri nú en áður. Fólk heldur ekki bara til fjalla til að njóta útsýnis á hæstu tindum, heldur einnig í því augnamiði að halda heilsu. Þetta er hluti aukningar sem við sjáum á öðrum sviðum, til dæmis hjólreiðum sem aukist hafa gríðarlega. Ef til vill er þetta tískubóla og kannski gildir það sama um fjallaferðir, vonandi endist þetta. Til dæmis voru bakpokaferðir mjög vinsælar hjá Íslendingum á ákveðnum tímabilum á síðustu öld, en það hefur minnkað. Mín tilfinning er sú að þetta hafi þróast úr bakpokaferðum yfir í trússferðir – og upp úr síðustu aldamótum hefur mesta fjölgunin átt sér stað í fjallgöngum og dagsferðum. Þessu hef ég hug á að breyta í Fjallaskólanum mínum, ég er að fara í fyrstu bakpokaferðina með hópinn minn núna í júnímánuði þar sem við stefnum lengra inn í óbyggðirnar, ekki bara sem nemur dagsferð fram og tilbaka, fara dýpra inn og upplifa önnur element.“

Þessi hópur er hann misstór hverju sinni eða …?

„Jájá, það skrá sig eðlilega misjafnlega margir í hverja ferð.“

Er hópurinn öllum opinn?

JónG6.JPG

„Já, svo sannarlega, en mér hefur þótt bestur vöxturinn inn á við ef svo má segja, það er að Útiverur hvetji fólk sem það þekkir og veit að hefur áhuga til að ganga til liðs við okkur, með því móti vitum við að fólk sem byrjar er frekar samstíga okkur, bæði í þreki og þoli og áhuga. En það eru svo sannarlega allir hjartanlega velkomnir og geta kynnt sér starfsemina á heimasíðu Fjallaskólans. Þátttaka byggir á áskrift í hálft eða heilt ár. Innifalið í áskrift eru vikulegar gönguferðir á þriðjudögum, en yfir dimmustu vetrarmánuðina er ég með þrekæfingar í Öskjuhlíð á þriðjudögum frá 17.30-19.00 í stað kvöldgönguferða. Þess utan er ég svo með morgunþrekæfingar á fimmtudögum kl. 06.30-07.15 frá september og út apríl. Á þrekæfingunum vinn ég með þrek og þol. Síðan eru það mánaðarlegar fjallgöngur, en fyrir þær er greitt aukalega allt eftir lengd og umfangi ferðar.“

Er þetta dýrt?

„Þegar allt er talið með svo sem útbúnaður, ferðir til og frá má ef til vill reikna það út. Ætli maður að stunda útivist árið um kring þarf að eiga góðan fatnað, jafnvel tvö pör af gönguskóm, eitt fyrir sumargöngur og annað fyrir vetrargöngur. En ég ráðlegg engum að kaupa allt frá fyrsta degi. Betra er að byrja rólega, velja sér viðfangsefni við hæfi. Byrjendur eru velkomnir en velja sér kannski þær ferðir sem henta til að byrja með og fikra sig síðan hærra og lengra eftir áhuga og getu. En ársáskriftin að Fjallaskólanum, með öllu sem hún felur í sér, er 30 þúsund krónur á ári.“

Úr fótbolta í Flugbjörgunarsveitina

Hvernig leiddist þú út í þetta starf?

„Ég er ekki alinn upp við mikla útivist. Í æsku og fram á unglingsár var ég á kafi í fótbolta. En ég held að það hafi bjargað mér hvað ég var skelfilega seinþroska, því á unglingsárunum þegar jafnaldrarnir uxu mér yfir höfuð fjaraði undan getu minni í fótboltanum og þá fór ég að horfa annað. Eitt af því sem ég gerði var að ferðast með félögum mínum, Skúla Magnússyni og Víði Péturssyni. Við byrjuðum í klettaklifri sem leiddi síðan út í meiri fjallamennsku. Þetta var 1987. Skúli stakk svo upp á því að við færum í Flugbjörgunarsveitina í Reykjavík. Ég lét á endanum tilleiðast og fór hreinlega á kaf í það starf. Svo það má segja að ég hafi slitið barnskónum í fjallamennsku hjá Flugbjörgunarsveitinni og í Alpaklúbbnum.“

Var það ekki mjög krefjandi?

„Jú, björgunarsveitirnar eru góður skóli í útivist fyrir ungt fólk. Við búum við einstaklega magnað björgunarkerfi hér á landi, sem á sér engan líkan um víða veröld. Innan raða Landsbjargar, sem eru regnhlífasamtök björgunarsveitanna, starfa hátt í 20 þúsund manns um allt land. Þetta er fólk sem hefur lært grundvallaratriði í fjallamennsku og björgunaraðgerðum. Þar tók ég mín fyrstu skref og tók þátt stofnun undanfarahóps Flugbjörgunarsveitarinnar, og ásamt öðrum undanfarasveitum lögðum við grunn að aukinni fagmennsku í brattlendisbjörgun og fjallamennsku. Ég fór svo fljótlega að kenna björgun, fjallamennsku, klifur og fleira í þeim dúr um allt land. Á sama tíma fór ég í hjúkrunarfræði í Háskólanum og útskrifaðist 1996. Það ár byrjaði ég jafnframt að leiðsegja og hef verið í því nánast öll sumur til 2007 þegar ég fer að vinna alfarið við ferðaþjónustuna.“

Fjölskyldan og fjallamennskan

Jón Gauti er kvæntur Huldu Steingrímsdóttur og þau eiga þrjú börn, Sólveigu Láru (’94), Heru (’98) og Kolbein Tuma (’00). Hvernig gengur að sameina fjallamennsku fjölskyldulífinu?

„Hulda tekur orðið meiri og meiri þátt í þessu með mér. Hún er þó einungis með mér í gönguferðunum, ekkert í fjallamennskunni eða klifrinu. Ég dró öll börnin inn í þetta á meðan þau voru ung en á unglingsárunum hafa þau öll tekið góða pásu. Þau yngri tvö eru á því stigi núna, en koma reyndar með í eina góða bakpokaferð á hverju sumri. Elsta dóttir mín er hins vegar farin að sýna þessu aftur mikinn áhuga. Hún er að læra úti í Danmörku og hefur ferðast út um allan heim, svo ferðagenið er greinilega sterkt í henni. Ég hugsa að þau yngri eigi líka eftir að taka við sér aftur – vona það alla vega.“

Hvernig er með þig og útlönd – dreymir þig um að klífa heimsfrægu fjöllin?

„Þetta er erfið spurning því að ég er ekkert undanskilinn hégómanum sem fylgir fjallamennskunni. Ég verð að viðurkenna það, þótt ég reyni að berjast á móti því. Minn hégómi felst vissulega í því öðru hvoru að reyna mig gagnvart náttúrunni, en ég hef þó ekki spriklað mikið erlendis á fjöllum. Ég hef farið í nokkrar slíkar ferðir, til dæmis núna í janúar á hæsta fjall Suður-Ameríku, Aconcagua í Argentínu. Það var góð reynsla og kveikti ákveðna bakteríu í þessum efnum. Ég hef þrisvar farið með gönguhópa í Atlasfjöllin í Marokkó, aðeins gengið í Ölpunum og dálítið í Slóveníu og tvisvar til Sardiníu.“

Hvað með pólana?

„Nei, ég hef ekki komið því við en þó er margt sem bendir til að ég eigi slíka ferð eftir. Ég hef hins vegar gaman af gönguskíðaferðum og fyrr á árum fór ég víða um hálendið og jöklana á gönguskíðum.“

Að gæta fyllsta öryggis

JónG5.JPG

Þú segist leggja mikla áherslu á öryggi í ferðum Fjallaskólans; hefurðu sjálfur einhvern tíma lent í hættu eða slysi á þínum ferli?

„Varðandi jöklaferðir þá hefur margt breyst á síðustu 15 árum. Lengi vel þvældist fólk í stórum hópum á vinsælustu jöklana svo sem Öræfajökul, Eyjafjallajökul og Snæfellsjökul óbundin og tók mikla áhættu. Nú held ég að megi fullyrða að engin ferðist á jöklum nema með öryggislínu bundna á milli manna. Ég vona að það séu engar undantekningar frá þeirri reglu. Með öryggislínu og kunnáttu er ekki svo hættulegt að ferðast á jöklum. En jú, ég hef nokkrum sinnum komist í hann krappan, bæði í slæmum veðrum og í ísklifri hefur maður oft spurt sig eftir á hvort ekki hefði verið betra að fara öðruvísi að og svo framvegis. Ég hef aldrei brotið bein en ég hef lent í ógöngum, til að mynda gerði ég í ferð árið 2009 alvarleg mistök sem leiddu næstum því til þess að kona í hópnum týndi lífi. Það varð heilmikil björgunaraðgerð úr því og sem betur fer fór allt vel að lokum. Þar lærði ég mína lexíu og reynslan hafði heilmikil áhrif á mig. Það er sérstakt áhugamál mitt varðandi þá þjónustu sem ég býð upp á sem leiðsögumaður að fyllsta öryggis sé gætt og það er klárlega afleiðing þess að ég hef sjálfur upplifað svona erfiðleika, ekki bara lesið um þá.“

Hvað er hættulegast?

„Gagnvart göngufólki þá er brattlendi viðsjárvert. Þar er það ekki bara hættan á því að hrapa heldur líka grjóthrun að ofan. Á veturna bætast svo snjóflóðin við. En stóra málið er að fara ekki fram úr sér, vanmeta ekki afleiðingar þess að detta. Það er því miður of algengt að fólk taki áhættu á þeim forsendum að það séu litlar líkur á því að detta og gleymir þá að meta afleiðingarnar sem geta verið mjög alvarlegar. Það getur snúist um að velja réttan búnað, velja rétta leið og ýmislegt fleira sem mér er í mun að fólk skilji þegar ég leiðbeini í fjallamennsku.“

Íslensk náttúra einstök

Gætirðu hugsað þér að starfa við eitthvað annað en það sem þú hefur verið að gera?

„Ekki eins og sakir standa ... en hver veit. Það má vel vera að ég snúið einhvern tíma við blaðinu þannig að útivistin verði aftur að áhugamáli mínu. Útivist – og þá sérstaklega á Íslandi – eru mínar ær og kýr. Ég tel okkur vera einstaklega lánsöm að búa í landi þar sem náttúran er við fótskör borga og bæja. En þetta er ekki sjálfsagt og mjög mikilvægt að við stöndum vörð um þessi lífsgæði sem svo víða annars staðar hafa verið hunsuð. Það er sannarlega merkilegt á heimsvísu að eiga nánast óheftan aðgang að náttúrunni. Við getum séð í blöðum eða sjónvarpi myndir frá stöðum úti um allan heim sem eru afar fallegir og einstakir en – eins og Ómar Ragnarsson benti svo ágætlega á hér um árið – þá er það sem Ísland hefur upp á að bjóða þessi gríðarlega fjölbreytni, stuttar vegalengdir á milli staða og – eins og annar merkur ferðafrömuður, Pálmi Hannesson rektor orðaði það – að Ísland er eins og opin bók hvað jarðfræðina snertir og skilning okkar á náttúrunni sem margt nútímafólk virðist vera að glata.

Íslensk náttúra gefur mér svo óendanlega mikið, bæði líkamlega og andlega. Ég hef gaman af því að reyna mig við hana, hef sérstakt dálæti á óveðri og náttúruhamförum. Það er eitthvað innra með mér sem vaknar þegar hraðfara lægð strýkst upp við landsteinana. Þetta er eitthvað sem byrjaði mjög snemma, ég mun ekki hafa verið mjög gamall þegar ég lá á stofuglugganum er snjóbylurinn geisaði fyrir utan og linnti ekki látum fyrr en pabbi var kominn út með mér og við farnir að grafa okkur í fönn. Ég fírast allur upp í vondum veðrum og þá vil ég kunna að bregðast við, kunna að útbúa mig til að lifa af. Þar fyrir utan þá er bara það að ganga rólega um í náttúrunni og skoða gróðurinn og dýralífið svo mikil upplifun – og er kannski það sem gefur mér mest.“

Páll Kristinn Pálsson

Ritstjóri

Nýtt á vefnum