Greinar / 18. október 2022

Úr Mekka meltingarlækninga

Ásgeir Theodórs er fæddur 14. júlí 1945 í Reykjavík. Hann stundaði sérnám í lyflæknisfræði, meltingarlækningum, speglunum á meltingarvegi og síðan greiningu og meðferð illkynja sjúkdóma við Cleveland Clinic Foundation í Cleveland, Ohio og Memorial Sloan Kettering Cancer Center, Cornell University, New York í Bandaríkjunum frá 1975-1981. Að námi loknu starfaði Ásgeir sem yfirlæknir meltingardeildar, einnig framkvæmdastjóri lækninga og að lokum yfirlæknir St. Jósefspítala í Hafnarfirði 1982 -2011. Hann var jafnframt umsjónarlæknir speglanadeilda Borgarspítala, síðar Sjúkrahúss Reykjavíkur og Landspítala háskólasjúkrahúss til ársloka 2017. Á árunum 1993 og 1994 starfaði hann á meltingarsjúkdómadeild Cleveland Clinic Foundation.

Ásgeir lauk meistaranámi í lýðheilsu og heilbrigðisstjórnun við Háskólann í Reykjavík árið 2010. Hann hefur ritað fjölda greina, haldið fyrirlestra hér á landi og erlendis um ristilkrabbamein og skimun eftir sjúkdómnum. Ásgeir er heiðursfélagi í CCU samtökunum (2014) og heiðursfélagi í Krabbameinsfélagi Höfuðborgarsvæðisins (2019).

„Ég hafði aldrei hugsað mér að fara í læknisfræði,“ segir Ásgeir þegar við spjöllum saman eina síðdegisstund á skrifstofu hans í Meltingarklíníkinni í Ármúlanum í Reykjavík, en þar stofnaði hann nýverið, ásamt Tryggva Stefánssyni skurðlækni, sérhæfða þjónustu á sviði meltingar- og skurðlækninga. „Faðir minn var læknir, en það var aldrei rætt á heimilinu hvort ég færi í læknisfræði eða eitthvert okkar systkinanna. Við vorum fimm, 2 strákar og 3 stelpur. Tvær systur mínar fóru reyndar í lífeindafræði og sú þriðja var lyfjatæknir. Ég hafði mjög snemma í menntaskóla lagt grunninn að því að fara í arkitektúr og stundaði einnig nám í Myndlistarskólanum í Reykjavík tvö síðustu árin fyrir stúdentsprófið. Eftir það sótti ég um nám í arkitektúr víða erlendis og fékk inni í Listaháskólanum í Helsinki. Ég var mjög ánægður með að komast þar að enda mikill aðdáandi finnska arkitektsins Alvar Alto, sem teiknaði Norræna húsið í Reykjavík og er að mínu mati frábærlega velheppnuð bygging. Ég var alveg ákveðinn í að fara í þetta nám sem var bæði langt og strangt, og fyrsta árið átti maður bara að vera eins konar áheyrnarnemandi til að læra finnsku, því námið fór alfarið fram á því tungumáli. Ég var síðan kominn með flugmiðann í hendurnar þegar mér fór að hrjósa hugur við hversu langan tíma þetta tæki. Af hverju ég ætti að fara til útlanda í átta eða níu ár á meðan félagar mínir og vinir sem ætluðu í læknisfræði gætu verið hér heima næstu sex eða sjö árin? Svo ég tók þá ákvörðun að hætta við langþráðan draum minn um að verða arkitekt einungis af þessum ástæðum og skráði mig í læknisfræði við Háskóla Íslands.“

Læknisfræðin er heillandi grein

Og þar með hófst vegferð Ásgeirs sem læknis. „Ég hafði ekki verið sterkur nemandi í menntaskóla, hafði einfaldlega ekki mikinn áhuga á því námi. Ég vissi bara að ég þyrfti að ljúka þeim áfanga til að hafa síðan nokkuð frjálsan hug um starfsval í framtíðinni. Faðir minn læknirinn var reyndar ekki ánægður með þetta val mitt, bæði að ég held af því hann hafði haft mikinn metnað fyrir mig varðandi byggingalistina og svo taldi hann mig líklega ekki nógu góðan námsmann í læknisfræðina miðað við frekar slaka frammistöðu mína á stúdentsprófinu. Ég ákvað því frá fyrsta degi að taka læknisfræðina mjög föstum tökum – og það gerði ég öll mín sex ár í læknadeildinni. Ég kláraði þau með prýðisgóðum árangri, og var fullur áhuga enda er læknisfræðin mjög heillandi grein þegar maður hefur fengið innsýn í hana.“

Ásgeir útskrifaðist úr læknisfræðinni árið 1973. Þá var svokallað kandídatsár og héraðsskylda krafan til að öðlast fullt starfsleyfi sem læknir. „Ég hafði verið að leysa af á Seyðisfirði meðfram náminu og um veturinn 1973 deyr heilsugæslulæknirinn sem þar hafði starfað og ég ákvað að ráða mig þangað um vorið 1974. Ég var því héraðslæknir á Seyðisfirði þegar snjóflóðin miklu féllu á Norðfirði. Það reyndi mikið á ungan lækni sem kunni kannski ekkert rosalega mikið og hafði ekki lent í mörgu því um líku. Ég fór reyndar ekki yfir til Neskaupsstaðar enda var ástandið einnig válegt á Seyðisfirði og þar féllu nokkur snjóflóð á þessum tíma. Svo árið á Seyðisfirði var gríðarmikill reynslutími. Þennan vetur var mikið um að breskir togarar kæmu þangað af því þeir voru með eldgömul sjókort þar sem Seyðisfjörður var merktur með aðalsjúkrahúsið á Austfjörðum. Svo breskir togarar komu þangað stímandi inn með slasaða sjómenn með deleríum tremens sem höfðu verið sjanghæjaðir á kránum í Hull eða Grimsby. Ég lenti oft í því að þurfa að hjálpa þessum blessuðum mönnum, svo þarna fór því ýmislegt sem ég átti ekki að venjast í reynslubankann.“

Víetnamstríðið og dr. Sivak

Fyrir milligöngu vinar úr læknisfræðinni sem kominn var í sérnám í borginni Cleveland í Ohio í Bandaríkjunum flutti Ásgeir þangað út haustið 1975, ásamt eiginkonu sinni, Björgu Kristjánsdóttur, og tveimur sonum þeirra, Kristjáni Skúla og Theodóri sem voru þá fimm og sjö ára. „Þar byrjaði ég í almennri lyflæknisfræði, sem allir þurftu að gera í Bandaríkjunum áður en farið væri í hið eiginlega sérnám. Það tók þrjú ár og fyrsta árið var ég á hermannaspítala með sjúklingum sem komu úr í stríðinu Víetnam, allir limlestir í alveg skelfilegu ástandi. Það voru gífurleg viðbrigði fyrir mig eftir tímann á Seyðisfirði, þar sem aðallega kom til mín fólk með háan blóðþrýsting, kannski sykursýki og vöðvabólgur og eitthvað svoleiðis, og að vera svo á spítala þar sem fengist var við hin alvarlegustu vandamál, líkamleg og ekki síður andleg. Þar var mikið um unga menn sem leiðst höfðu út í ýmis konar eiturlyfja- og áfengisneyslu. Þetta voru alhliða hrikaleg vandamál manna sem voru sendir í glórulaust stríðið í Víetnam og sneru aftur heim eyðilagðir fyrir lífstíð.“

Ásgeir2.jpg

Eftir árið meðal fórnarlamba Víetnamstríðsins flutti Ásgeir sig yfir á annan spítala í Cleveland og lauk námi í lyflæknisfræðinni vorið 1978. „Þá stóð ég frammi fyrir því að velja sérnám. Ég taldi best að vera áfram í borginni, þótt mörgum þætti það skrítið því þetta var svo mikil iðnaðarborg og ekki mjög hreinleg. En þar var ýmislegt sem okkur hjónunum líkaði, við vorum búin að koma okkur ágætlega fyrir, strákarnir báðir í skóla og gekk vel, auk þess sem við höfðum eignast dóttur, Helgu Guðnýju um haustið 1976. Þarna var mjög frægur spítali, Cleveland Clinic Foundation, ég sótti þar um í lungnalækningum. Til vara sótti ég um sérnám í meltingarlækningum sem var mjög eftirsótt grein. Mér var sagt að búið væri að ráða í allar stöður í lungnalækningum og að 32 aðrir væru að sækja um melingarlækningarnar og lítill séns að ég kæmist heldur þar inn. En svo var allt í einu hringt og ég boðaður í viðtal á meltingardeildinni. Það var maraþonviðtal sem tók heilan dag, ég talaði þar við sjö eða átta sérfræðinga og endaði á því að fá stöðu.

Þetta var sem sé upphafið að mínum ferli í meltingarlækningum. Ég var svo heppinn að hitta þarna mjög duglega og merkilega lækna sem voru sérfræðingar í fremstu röð í faginu. Einn var þó öðrum fremri og víðfrægur sérfræðingur á sviði speglana í meltingarvegi, dr. Mikael V. Sivak. Ég átti eftir að vinna heilmikið með Sivak sem gerði að verkum að á öðru ári í náminu var ég valinn til að vera hans hægri hönd. Það var mikið nýjabrum á hlutunum, verið að prófa alls konar ný tæki og tól og í baksýnisspeglinum áttar maður sig á því að þarna var ég staddur í Mekka meltingarfræðanna. Á þessum tíma voru stórstígar framfarir að eiga sér stað í speglunum og ég fékk tækifæri til að taka þátt í þeim öllum.“

Mikilvægi eftirfylgdar

Eftir þrjú ár í lyflæknisfræði og tvö ár í meltingarlækningum var komið að útskrift Ásgeirs í sérfræðináminu. „Mér fannst þó ýmislegt vanta í mitt nám, eða inn á mitt þekkingarsvið, og það tengdist greiningum okkar á krabbameini í meltingarveginum því þegar við höfðum greint krabbameinin vissum við yfirleitt ekkert meira af sjúklingunum. Þá tóku aðrir við, skurðlæknar, geislalæknar og krabbameinslæknar og mér fannst okkur meltingarlæknunum vanta innsýn í þeirra starf og útkomu sjúklinganna. Ég ræddi þetta við yfirmenn spítalans sem sögðu að það væri ekkert prógramm til í þessu samhengi. Ég ræddi þá við yfirlækninn á krabbameinsdeildinni og hann varð svona líka hrifinn af þessari hugmynd, að tengja saman greiningu og meðferð sjúklinganna á mjög praktískan hátt. Svo það var opnuð sérleið fyrir mig til að vera áfram á Cleeveland Clinic í eitt ár. Ég fylgdi fólki frá greiningu á meltingardeildinni yfir á krabbameinsdeildina og vann með þeim læknum, aðallega varðandi æxli í meltingarvegi. Ég var til dæmis að gefa krabbameinslyf, fylgja fólki á geisladeildir og ræða við fólk sem var í meðferð og einnig þau sem komu í eftirmeðferð.

Svo var mér boðið að fara til Columbia University í New York sem hluta af þessu krabbameinsnámi. Þar var ég við Memorial Sloan Kettering Cancer Center og er þar í allnokkurn tíma, rokkaði dálítið fram og til baka, vegna þess að fjölskyldan var áfram staðsett í Cleveland. Memorial Sloan Kettering er mjög frægur á sviði krabbameinslækninga og þar kynntist ég mörgum frábærum læknum. Þegar tíma mínum í New York lauk og ég kominn aftur til Cleveland var meiningin að halda áfram með þessa eftirfylgd á milli meltingar- og krabbameinsdeilda við Cleveland Clinic með minni hjálp.

En það var ekki á prógramminu hjá konu minni að vera þarna áfram. Hún vildi fara heim. Hún er menntaður kennari og lauk reyndar meistaranámi í kennslufræðum með áherslu á sérþarfir á meðan við dvöldum í Cleveland. Hún starfaði síðan lengstaf eftir að við komum heim sem námsráðgjafi við Menntaskólann í Hamrahlíð. Ég vissi þó alveg þegar ég kom heim að þar væri ekkert starf fyrir mig að hafa við það sem ég var orðinn sérfræðingur í. Ég fékk einhverjar afleysingar yfir sumartímann á Borgarspítalanum gamla en um haustið var mér tjáð að þar væri ekki lengur neitt fyrir mig utan smávægilegra ráðgjafarstarfa. Svo þá var ég orðinn hálfpartinn atvinnulaus og mældi bara göturnar með fjölskyldu og þrjú börn á framfæri. Við vorum að kaupa raðhús og áttum ekkert milli handanna, en Björg fór að kenna við Laugarlækjarskólann svo við þurftum ekki alveg að svelta.“

Ásgeiri var loks boðið starf við að skoða fólk sem þurfti að komast í endurhæfingu hjá Reykjalundi. Hann tók því en fann fljótt að þar gæti hann lítið notað sérþekkingu sína, og fór því að undirbúa að snúa aftur út til starfa í Cleveland, enda dr. Sivak vinur hans sífellt að hvetja hann til þess.

St. Jósefsspítali í Hafnarfirði

„Svo gerist það rétt áður en að utanförinni kom að hringt var í mig frá Sankti Jósefsspítala í Hafnarfirði. Það var Jósep Ólafsson lyflæknir. Ég vissi ekkert um þennan spítala, bara að þar væri þekktur kvensjúkdómalæknir sem hét Jónas Bjarnason. Það var þarna skurðdeild og lyflækningadeild sem var aðallega öldrunar- og hjúkrunardeild. Ég var tilbúinn að skoða þetta, fór þangað í viðtal og hreifst mjög af staðnum. Í þessu viðtali var bara sagt við mig: Gjörðu svo vel, hérna er spítalinn fyrir þig. Við vitum að þú kannt heilmikið og þiggjum allt sem þú leggur til að verði gert hér. Það var upphafið að meltingardeild sem varð sú stærsta á því sviði í landinu á næstu árum. Þarna var markviss uppbygging, mér var alltaf rétt höndin ef ég bað um eitthvað og þetta gekk mjög vel. Ég var þarna allar götur fram til ársins 2011 að spítalinn var lagður niður sem sérstök stofnun og sameinaðist Landspítalanum.

Þegar ég kom heim vissi ég í rauninni sáralítið um stöðu meltingarlækninga á Íslandi, en ég skynjaði þó að við áttum gríðarlega langt í land með að geta boðið upp á viðlíka þjónustu og tíðkaðist í Cleveland Clinic. Ég hafði mikinn metnað fyrir greinina og sá á Jósefsspítalanum mikla möguleika á að efla þar til muna alla göngudeildar- og sjúkrahússtarfsemi. Ég settist niður við teikniborðið og rissaði upp til framtíðar hvernig hægt yrði að þróa alvöru meltingardeild. Ég lagði það fyrir mína yfirmenn sem lögðu blessun sína yfir þessi áform mín. Það var farið í að kynna þau, útvega fjármagn og ef það fékkst ekki hjá stjórnvöldum var það búið til með ýmsu móti meðal góðgerðarfélaga. Ég gerði mikið af því að koma á fundi Oddfellowfélaga, Lions, Kiwanis og Rotary og flytja fyrirlestra um meltingarlækningar, ekki síst nýjungar þær sem ég hafði kynnst og fengið að taka þátt í að þróa í Bandaríkjunum. Á tímabili myndaðist heillangur biðlisti hjá mér um fyrirlestra á fundum þessara félaga sem vildu gefa alls konar tækjabúnað. Mörgum þótti þarna opnast heill heimur, fólk sá að hjá okkur á Jósefsspítalanum var mikill metnaður og áhugi sem snerist fyrst og fremst um að bæta úr heilsuvandamálum fólks á þessu sviði. Áformin um meltingarlækningadeild í fremstu röð rættust auðvitað ekki í einni svipan. Það tók sinn tíma, skref fyrir skref með mjög markvissum hætti.“

Magasár læknað

Á næstu árum urðu framfarir á mörgum sviðum læknavísindanna í heiminum. „Það varð til dæmis algjör bylting í meðferð maga- og skeifugarnasára þegar uppgötvaðist þáttur bakteríu sem kallast Helicobacter pylori í myndun þeirra. Það kom á daginn að með því að drepa þessa bakteríu með sýklalyfjum væri hægt að lækna þessi sár. Við urðum mjög fljót hér á landi að tileinka okkur þá hugmyndafræði og meðhöndla fólk. Lækning hafði þarna fundist við langvinnum og þrálátum sjúkdómi. Þetta var á árunum í kringum 1990 og markar eina af stóru byltingunum sem orðið hafa í meltingarfræðunum. Það er ekki oft sem slík tímamót verða í læknisfræðunum almennt.“

Ásgeir var áfram í nánu sambandi við Mikael Sivak á Cleveland Clinic og starfaði þar einnig á árunum 1993 og ´94. En fjölskyldan vildi búa á Íslandi og einnig kallaði uppbyggingarstarfið á St. Jósepsspítala á hann. „Ég hafði verið að vinna úti með nýja tækni varðandi líffæraómskoðun og vildi taka hana upp hér. Þessi tækni hafði verið að ryðja sér til rúms á helstu sjúkrahúsum erlendis, og var gríðarlega gagnleg við greiningu á krabbameinum í meltingarvegi, briskrabbameini, sýnatöku úr æxlum og fleira. Það var hins vegar ekki mikill áhuga fyrir henni hjá heilbrigðisyfirvöldum, svo við þurftum að leita eftir stuðningi fyrirtækja og einkaaðila við kaup á tækjabúnaðinum. Í þessari fjáröflun kynntist ég Árna Ragnari Árnasyni alþingismanni, sem þá var nýgreindur með ristilkrabbamein. Við tókum höndum saman og áttum í kringum 70 fundi með fyrirtækjum í landinu, ræddum einnig við marga kollega hans á þingi og á endanum náðum við að safna rúmlega 20 milljónum króna fyrir þessu ómskoðunartæki og afhentum það Landspítala háskólasjúkrahúsi 15. júní árið 2000, sem var hinn sameinaði spítali Sjúkrahúss Reykjavíkur og Landspítala. Þar áður hafði ég ásamt öðrum reyndar líka safnað fyrir tæki til að skoða gallvegina og taka steina úr gallgöngum, svokallað ERCP eða gallvegaþræðingu. Meðan á þessu öllu gekk voru góðgerðarfélög mikið að styrkja meltingardeildina á St. Jósefsspítalanum. Við fengum nokkrar fyrirspurnir á hverju ári frá þeim um hvað okkur vantaði helst þar og þá af ýmis konar tækjum og búnaði.“

Ristilkrabbamein - Vitundarvakning

Ristilspeglanir og innleiðing reglubundinna skimana fyrir ristilkrabbameini hefur verið eitt helsta áhugamál Ásgeirs allt frá námsárunum í Bandaríkjunum. „Já, þar var þá svo mikið að gerast í speglunartækninni. Fyrsta alvöru ristilspeglunin var gerð 1968 og markaði upphafið að gríðarlegu framfaraskeiði í meðferð ristilkrabbameins. Þarna var komið tæki til að skoða ristilinn og nema jafnframt burt sepa úr honum, en þá voru menn búnir að átta sig á því að sepamyndun í ristli væri forstig krabbameinsins. Þegar ég byrjaði á Cleveland Clinic 1978 var eitt af aðalmálunum hjá dr. Mikael Sivak að fá tækjabúnað til að gera ristilspeglanir, fjarlægja sepa og ráðast þannig gegn þessu krabbameini sem var mjög algengt í Bandaríkjunum. Það varð síðan eitt af því fyrsta sem ég geri þegar ég kem heim frá Bandaríkjunum að banka upp á hjá Krabbameinsfélagi Íslands og benda á að það væri hægt að skima fyrir ristilkrabbameini í forvarnarskyni eins og þá var farið að tíðkast víða um lönd. Hérlendis var á þeim tíma byrjað að skima fyrir leghálskrabbameini og verið að undirbúa skipulagða leit að brjóstakrabbameini. Menn voru því orðnir vel meðvitaðir um gildi forvarna. Skipuð var nefnd árið 1982 sem í sátu læknarnir Ólafur Örn Arnarson, Tómas Árni Jónasson, auk mín og átti að kanna hvert yrði næsta krabbamein sem ætti að hefja leit að með skipulögðum hætti – og ristilkrabbameinið varð niðurstaðan. Þar með hófst vinna mín með Krabbameinsfélaginu. Lagður var grunnur að ristilsepaskrá og framkvæmd fyrsta forrannsókn að fjöldaleit að krabbameini í ristli og endaþarmi og niðurstöður kynntar 1988. Hins vegar var svo ákveðið að leggja þessa hugmynd til hliðar af því að brjóstakrabbameinsleitin var að byrja, það var búið að undirbúa hana svo lengi.

Ásgeir3.jpg

Í kringum síðustu aldamót varð mikil vakning í Evrópu á sviði meltingarlækninga. Menn voru að velta fyrir sér af hverju allar framfarirnar sem orðið höfðu undangegna áratugi hvað varðaði magaspeglun, ristilspeglun og svo framvegis hefðu ekki leitt til lækkandi dánartíðni af völdum sjúkdóma í meltingarveginum eða betri lífsgæða þeirra sem lifðu með sjúkdómunum. Það kom í ljós að vissulega væri gríðarlegur faglegur áhugi innan læknastéttarinnar, menn ræddu málin og skiptust á upplýsingum á læknaþingum úti um allan heim en að það sem vantaði í jöfnuna væri áhugi og þekking almennings á þessum sjúkdómum. Þá var ákveðið að fara í gríðarlegt fræðsluátak varðandi vélindabakflæði og ristilkrabbamein. Það var hin svokallaða Vitundarvakning, „Public Awareness Campaign“, og fór sem sagt um alla Evrópu.

En íslensk heilbrigðisyfirvöld höfðu lítinn áhuga á þessu. Svo við Árni Ragnar í samvinnu við marga aðra aðila, meðal annars Félag sérfræðinga í meltingarsjúkdómum, fórum aftur í gang og söfnuðum 25 milljónum í fræðsluátak um vélindabakflæðið frá einkafyrirtækjum, bönkum, greiðslukortafyrirtækjum, flugfélögunum, matvöruverslunum og svo framvegis. Svo hóuðum við saman fagfólki, meltingarlæknum, skurðlæknum, hjúkrunarfræðingum, heimilislæknum og settumst niður og kynntum hugmyndafræðina, bjuggum til fullt af bæklingum og plakötum. Við fengum sérstakan almannatengil til að starfa með okkur, Jón Þorvaldsson, sem bjó til mörg frábær slagorð, meðal annars nýyrðið vitundarvaking, sem var yfirskrift fræðsluátaksins. Fyrst var fjallað um um vélindabakflæði og síðan ristilkrabbamein. Átakið vakti mikla athygli í þjóðfélaginu og ég tel það hafi skilað miklum og góðum árangri til lengri og skemmri tíma.“

Ábyrgð stjórnmálamanna

Núna skrifum við annó 2022 – hvernig stendur á því að reglubundin skimun eftir ristilkrabbameini hefur ekki enn verið tekin upp hér á landi?

„Eins og þetta horfir við mér, þá hef ég talað um þetta á öllum vettvöngum í marga áratugi. Ég hef flutt ótal fyrirlestra fyrir almenning, sjálfsagt um 100 talsins. Og ekki hefur það verið í eigin hagnaðarskyni, ég hef aldrei rukkað eina krónu fyrir neinn þeirra. Ég hef kynnt þetta fyrir fagfólki, margoft á þingum. Ég hef kynnt þetta fyrir almennum stjórnmálamönnum. Ég hef kynnt þetta fyrir öllum heilbrigðisráðherrum og landlæknum síðustu fjörutíu ára. Það hafa líka verið uppi raddir í gegnum árin sem hafa talað beinlínis gegn þessari skimun, sagt að hún bæri engan árangur. Á sama tíma og við höfum verið að þrasa um þetta í fjörutíu ár hafa nær allar þjóðir í kringum okkur gert gríðarmiklar rannsóknir og hafið reglubundna leit að ristilkrabbameini. Svo ég get ekkert sagt annað en að áhugaleysið og metnaðarleysið liggi hjá stjórnmálamönnum okkar. Við fagfólkið höfum lengi verið alveg tilbúið til að setjast niður og ákveða með skynsömum hætti hvaða aðferð ætti að nota við þessa leit. Það skiptir í rauninni engu máli hvaða leitaraðferð er beitt, þær gera allar gagn. Auðvitað eru skiptar skoðanir um það meðal fagfólksins, en það er engin afsökun. Ástæðan fyrir þessu er fyrst og fremst pólitísk. Ég tel þó að núna sé einhver áhugi og skilningur að vakna fyrir þessu hjá stjórnmálafólkinu, en á sama tíma og það er þá er verið að gera umdeildar og meiriháttar breytingar á fyrirkomulagi skimana. Skimun hjá einkennalausu fólki er ábyrgðarverkefni, það þarf klárlega að vera unnið af sérfræðingum og sérhæfu aðstoðarfólki. Það þarf að vanda mjög til verka. Ef þetta er ekki vandað og það verður einhver misbrestur í skimuninni, geta afleiðingarnar verið alveg skelfilegar.

Ef við Íslendingar getum reist höfuðstöðvar fyrir Landsbankann, þjóðarsjúkrahús, byggt Borgarlínu og lagt Sundabraut fyrir hundruði milljarða króna þá getum við auðveldlega lagt forvörnum lið. Skipulögð leit að ristilkrabbamein kostar nokkur hundruð milljónir á ári og bjargar mörgum mannslífum. Sjúkdómurinn er algengur, dánartíðni er há og mun aukast á næstu áratugum ef markvissum aðgerðum er ekki beitt.“

Páll Kristinn Pálsson

Ritstjóri

Nýtt á vefnum