Greinar / 19. júní 2023

Þvagleki - Tengsl við stoðkerfið

Screenshot 2023-06-22 134909.jpg

Þvagleki er vandamál sem er sérstaklega algengt hjá konum sem komnar eru yfir miðjan aldur, en einskorðast þó engan veginn við þann hóp fólks. Líkurnar á þessum vanda aukast með vaxandi aldri, á og fyrst eftir meðgöngu og fæðingu, eftir legnám og einnig samhliða ýmsum sjúkdómum.

Ólíkar orsakir

Þvagleka hefur verið skipt í nokkra undirflokka, þeir algengustu eru 1) bráðaþvagleki og 2) áreynsluþvagleki. Einkenni hins fyrrnefnda eru tilfinning um að þurfa skyndilega að pissa (oft við ákveðnar aðstæður) og að geta ekki haldið í sér, en einkenni hins síðarnefnda eru að missa þvag við aukið álag á grindarbotnsvöðvana eins og við að hósta, hnerra, hlæja, hlaupa og hoppa. Sumir fá þvagleka tímabundið og þurfa enga aðstoð við að losna við hann, á meðan aðrir glíma við hann lengi, sérstaklega ef þeir fá enga meðferð við vandanum. Vandinn getur tengst grindarbotnsvöðvunum eingöngu (sérstaklega áreynsluþvagleki) eða flóknari þáttum sem tengjast stjórnun á þvagi, sem hefur þá með taugakerfið að gera á einn eða annan hátt.

Truflun í þeim hluta taugakerfisins sem hefur með blöðrustjórn að gera getur átt sér stað í eða í kringum sjálfa þvagblöðruna, eða lengra í burtu. Þessu má líkja við bakvandamál eins og brjósklos; það getur valdið staðbundnum verk, en getur líka valdið leiðniverk eða kraftleysi á fjarlægari svæðum, til dæmis í fæti. Þegar ástæðan er lengra frá upptökum vandans, getur verið erfiðara að finna hana. Í þessari grein langar mig meðal annars að fara yfir nokkra möguleika í því samhengi.

Innri truflun

Flestir hafa eflaust heyrt að gott sé að þjálfa grindarbotnsvöðvana vegna þvagleka, sérstaklega áreynsluþvagleka. Grindarbotnsvöðvar geta haft of litla getu til að spennast, annað hvort nógu hratt eða nógu mikið, til að koma í veg fyrir þvagleka, en einnig getur verið til staðar vandamál við að slaka á sumum grindarbotnsvöðvum. Gott er að fá greiningu á þessu hjá sjúkraþjálfara sem hefur sérhæft sig í greiningu og meðferð grindarbotnsvandamála.

Þegar vandinn tengist öðrum þáttum kemur ýmislegt til greina. Eins og fyrr segir getur vandamálið tengst taugakerfistruflun. Truflunin getur verið í taugum sem tilheyra sjálfráða taugakerfinu sem stjórnar grindarbotnsvöðvum. Sú truflun gæti til dæmis verið vegna bólgu eða spennu við taugarætur þessara tauga í spjaldhryggnum. En truflun getur einnig orðið í taugum í ósjálfráða taugakerfinu, sem stjórna blöðrulosuninni, en þær taugar eiga meðal annars upptök sín neðst í brjóstbaki og í mjóbaki. Einkenni þess geta verið óeðlilegur fjöldi þvagláta (of oft eða of sjaldan) með eða án þvagleka. Skyntaugar í blöðrunni nema það hve full blaðran er orðin og eru mikilvægur hlekkur í þessu ferli. Bæði innri þrýstingur (full blaðra) og utanaðkomandi þrýstingur geta haft áhrif á skyntaugar þvagblöðrunnar, sem er ein af skýringum þess að óléttar konur þurfa gjarnan oftar að losa þvag á seinasta hluta meðgöngu (þá er fóstrið farið að þrýsta á blöðruna). Þetta kerfi getur „bilað“ eins og annað í líkamanum og orðið til ástand þar sem fólk finnur ekki hvenær blaðran er orðin full og getur hún þá tæmst ósjálfrátt þegar hún hefur náð ákveðinni fyllingu. Streita getur haft áhrif á þetta kerfi og verður tíðni þvagláta þá meiri en góðu hófi gegnir. Þvagfærasýkingar geta einnig valdið þörf fyrir tíðari þvaglát, sem tengist líka skyntaugum blöðrunnar.

Ytri truflun

Sem fyrr segir getur aukinn utanaðkomandi þrýstingur á þvagblöðruna komið af stað þörf fyrir að tæma blöðruna, rétt eins og aukinn þrýstingur innan í blöðrunni vegna aukins magns af þvagi. Einkenni þess fyrrnefnda eru að fólki finnst það þurfa að losa þvag ört, en það kemur lítið magn í einu. Stundum er augljóst hvaðan þessi utanaðkomandi þrýstingur kemur, en stundum ekki. Sjúkraþjálfarar eru oft að leita eftir spenntum svæðum, sem geta valdið auknum þrýstingi eða togi staðbundið eða á svæði lengra frá spennta svæðinu. Oftar en ekki tengist þessi vinna leitinni að orsök mismunandi vandamála í stoðkerfinu. En kraftar færast ekki eingöngu á milli svæða í stoðkerfinu, heldur geta þeir einnig valdið togi eða þrýstingi inn í líffærin okkar. Stoðkerfið og líffærin tengjast til dæmis með liðböndum og himnum (fascium), auk þess sem vöðvar getað breytt umhverfi líffæranna, til dæmis með því að toga beinagrindina í skakka stöðu. Ósjaldan hef ég í mínu starfi séð slíkt tog eða þrýsting hafa áhrif á þvagblöðruna og við að meðhöndla þessa togkrafta í stoðkerfinu, þá kemst á eðlilegra ástand á umhverfi og stjórnun þvagblöðrunnar. Í sumum tilfellum batnar tæmingageta þvagblöðrunnar við slíka meðferð, sem aftur minnkar líkur á blöðrubólgu.

Ekki eins fyrir alla

Lausnin á vandamálum sem tengjast þvagblöðrustjórnun, þar með talið þvagleka, er því ekki sú sama fyrir alla. Fyrst þarf að finna út orsakaþættina og vinna þannig að lausn vandans. Það sem ég hef talið upp hér að framan sem mögulegar orsakir fyrir slíkum vanda eru: 1) Kraftlitlir grindarbotnsvöðvar, 2) of hæg spenna í grindarbotnsvöðvum, 3) of mikil spenna í sumum grindarbotnsvöðvum, 4) truflun á hreyfitaugar sem stjórna grindarbotnsvöðvum, 5) truflun á skyntaugar þvagblöðrunnar, 6) togkraftar frá stoðkerfinu sem valda þrýstingi, togi eða skekkjur í umhverfi þvagblöðrunnar. Skekkja í umhverfi þvagblöðru (gjarnan skekkja í mjaðmagrind) getur valdið því að blaðran er skökk í grindarholinu, sem getur valdið því að hún nær ekki að tæmast alveg við þvaglát. Slíkt ástand eykur líkur á blöðrubólgu.

Af ofangreindu má sjá að þvagleki og fleiri vandamál tengd þvagblöðru, geta orsakast af stoðkerfisvandamálum og þarf því að finna lausn á þeim út frá stoðkerfinu. Það er þó alls ekki eina ástæða þvagvandamála, en ef til vill orsök sem mætti skoða betur og á fjölbreyttari hátt en nú er almennt gert, við meðhöndlun þessara vandamála.

Heimildir
  • Evidence-based Practice Center Systematic Review Protocol , “Nonsurgical Treatments for Urinary Incontinence in Adult Women: A Systematic Review Update”. Source: www.effectivehealthcare.ahrq.gov, Published online: June 6, 2017.
  • Patrycja A. Piętak, Tomasz Rechberger, “Overactive bladder as a dysfunction of the autonomic nervous system – A narrative review”, European Journal of Obstetrics & Gynecology and Reproductive Biology, Volume 271, April 2022, Pages 102-107.

Hólmfríður B. Þorsteinsdóttir

MT-sjúkraþjálfari og sérfræðingur í greiningu og meðferð stoðkerfis

Nýtt á vefnum