Greinar / 15. febrúar 2022

Sykur og börn

Það er staðreynd að lífið væri bragðlausara án sætunnar. Við njótum þess að fá okkur góða konfektmola eftir kaffisopann, bökum kökur á hátíðisdögum og smákökur í tonnatali á jólunum, enda sætmeti og tyllidagar oftar en ekki tengd órjúfanlegum böndum. Sykurneysla er í mörgum tilfellum vani, þ.e. við erum búin að venja okkur á sætt bragð sem erfitt getur verið að venja okkur af. Eins og dæmin hér að framan sýna. En svo er hversdagurinn líka þannig að við setjum sykur í kaffið, eða sykrum morgunkornið, drekkum orkudrykki og borðum frekar sætu súrmjólkina en ósætu. Og það getur verið erfitt að venja sig af því sem við gerum oftast hugsunarlaust.

Sykur og móðurmjólkin

Móðurmjólkin eða önnur mjólk sem ætluð er nýfæddum börnum er sæt, og er fyrsta bragðið sem við upplifum á lífsleiðinni. Þau eru fá börnin sem gretta sig við að súpa móðurmjólkina enda er hún bragðgóð fyrir börnin og sérstakleg sniðin frá náttúrinnar hendi að þörfum þeirra. Í flestum tilvikum líður þó einhver tími, oftast mánuðir, þangað til börn fá annað bragð en sætu mjólkina. Sú vegferð er mjög mikilvæg í að þróa góðar matarvenjur og hefst í raun strax við fæðingu (og jafnvel fyrr) en rannsóknir sýna að fjölbreyttar fæðuvenjur móður skila sér í því að barnið samþykkir frekar sömu fæðutegundir þegar það er eldra.

Brögðin fimm

Almennt finnum við fimm brögð; sætt, salt, beiskt, súrt, og umami (1). Við þurfum lítið að reyna á okkur til að venjast sæta og salta bragðinu (það þarf t.d. ekki mikið að æfa sig í að borða snakk eða sælgæti), en beiska og súra bragðinu tekur lengri tíma að venjast og samþykkja enda er það í þróunarfræðilegu samhengi eðlilegt. Frummenn, og forfeður okkar fóru gjarnan út á örkina í leit að fæðu og þurftu þá að gera ýmsar tilraunir á því að smakka það sem tiltækt var, til dæmis ber, lauf, rætur og fleira. Það sem var beiskt á bragðið, var oftar en ekki eitrað og voru samferðarmenn væntanlega fljótir að áætla hvað bæri að forðast. Það leifir af þessum viðbrögðum í dag því enn fúlsum við frekar við beisku bragði en sætu. En það er líka þannig að sæta bragðið er markaðssett af fullum þunga, nánast í andlitið á okkur þannig að við tökum eftir því, enda auðseljanlegt, á meðan beiska bragðið liggur ekki fyrir augum okkar á sama hátt. Það vill þannig til að margt af því sem er reglulega gott fyrir okkur, ekki síst fyrir vítamínbirgðir, meltingu og þarmaflóru, er einmitt beiskt. Þar má nefna grænmeti, hnetur, fræ og heilkorn. En þar flækist málið aðeins, því ef það sem er gott fyrir okkur er stundum beiskt, hvernig getum við þá vanið börnin á að borða það sem er hollt fyrir þau en þau fúlsa frekar við?

[1] Umami er japanskt orð sem þýðir ‟pleasant savory taste“ eða „gott matarbragð“ og er bragðið sem við finnum t.d. af gerjuðum ostum, sveppum, kjötsoði, sojasósu, brjóstamjólk o.fl.

Matvendni

IMG_7729.JPG

Matvendni er í eðli sínu hræðsla við hið óþekkta, þ.e. hræðsla við að borða eitthvað sem gæti reynst okkur hættulegt. Að því leyti er gott fyrir okkur að fara varlega þegar kemur að því að prufa nýja fæðu en gerir foreldrum erfitt fyrir þegar börnin þverneita að prufa það sem lagt er á borð fyrir þau. Börn geta verið ákaflega þver þegar kemur að því að prufa eitthvað nýtt, jafnvel eitthvað sem okkur fullorðna fólkinu þykir ægilega gott (t.d. mygluostar eða ólífur). Þau geta fundið ofsasterkt bragð og brugðist ókvæða við, jafnvel það illa að þau borða aldrei aftur fæðuna sem er þeim framandi. Við þrýsting á að borða og neikvæða upplifun í tengslum við mat getur myndast mikill kvíði sem erfitt getur verið að vinda ofan af. Við þekkjum líklega öll það að vilja ekki borða eitthvað sem var pínt ofan í okkur sem börn. Börn eru almennt mest matvönd frá aldrinum 2-6 ára en bráir svo af þeim eftir þann tíma og upp úr unglingsárunum fara þau að vera líkari fullorðnum í matarvenjum. En hvað er þá til ráða? Börn þurfa fjölbreytta fæðu til að vaxa og dafna og ekki getum við pínt mat ofan í börnin, og ekki getum við fóðrað þau á sætu bragði eingöngu.

Sykurinn sem óvinur

Sykur sem slíkur er í sjálfu sér ekki óvinurinn, heldur magnið af honum sem sett er í stóran hluta af þeim mat sem við kaupum, hvort sem við áttum okkur á því eða ekki. Og oft Sykur og börn SIgrún Þorsteinsdóttir barna- og heilsusálfræðingur, Heilsuskóla Barnaspítalans Grein 1. Umami er japanskt orð sem þýðir „pleasant savory taste“ eða „gott matarbragð“ og er bragðið sem við finnum t.d. af gerjuðum ostum, sveppum, kjötsoði, sojasósu, brjóstamjólk o.fl. 11 1. tbl. 2022 vantar jafnvægi í fæðuna okkar þ.e. meira af grænmeti, ávextum og grófmeti, á kostnað sæta bragðsins. Værum við að borða samkvæmt ráðleggingum Landlæknis hvern dag væri sykur í fæðunni ekki vandamál. En það er erfiðara en sýnist að sneiða hjá viðbættum sykri í mat því oftar en ekki er hann settur í fæðu sem þarf að geymast lengi og bragðast vel, sem er einmitt akkilesarhæll margra (snakk, kex, sælgæti, mjúkir snúðar). Foreldrar hafa í örvæntingu sinni reynt ýmis ráð til að minnka sykur og sælgæti í fæðu barna sinna og enda jafnvel í samningaviðræðum, mútum, hótunum, boðum og bönnum en líka undanlátssemi. Það er nefnilega auðveldara að segja já örþreyttur úti í búð með grátandi og úrvinda börn á arminum, en að reyna að útskýra fyrir þeim gagnsemi trefjaríkrar og litríkrar fæðu.

IMG_7751.JPG

Sykur og hegðun

Margir foreldrar hafa haldið því fram að börn þeirra verði alveg snaróð af því að fara í afmæli og borða sykur. Hið rétta er að sykurinn sem slíkur hefur ekki bein áhrif á hegðun barna því þau verða jú æst í afmælum (því það er gaman að leika og ærslast) og oftar en ekki hafa þau borðað afurðir sem innihalda kakó, en í kakói má finna örvandi efni sem getur haft áhrif á hegðun barna og gert þau töluvert æst. Það er ekki þar með sagt að þau megi ekki borða súkkulaðiköku, en upplagt er að bjóða einnig upp á ávexti og grænmeti (jafnvel áður en aðrar veitingar fara á borðið) og stilla magni í hóf. Of mikill sykur er aldrei góður og venur börnin á allt of sætt bragð (samanber að borða súkkulaðiköku og drekka jafnvel gosdrykk með, sem væri tugfalt magn af þeim sykri sem væri æskilegt miðað við líkamsþyngd). Íslenskt vatn er eitt það besta í heiminum og þó svo að sykur skapi ekki óvær eða óþekk börn, þá er sennilega ekki mörgum börnum sem líður vel af of miklum sykri, sérstaklega ekki ef hann er svolgraður í formi gosdrykkja.

Eigum við að banna sykur í fæðu barnanna?

Boð og bönn virka illa, og ef þau virka þá gera þau það til skamms tíma. Það er að sjálfsögðu farsælast að hefja vegferðina að góðum heilsuvenjum og minni sykri strax í bernsku og þar erum við foreldrar og uppalendur mikilvægasta fyrirmyndin. Það er til lítils að fylla skúffur af kexi og ætlast til þess að barnið borði ávextina sem eru faldir lengst ofan í ávaxtaskúffunni.

Hvað er þá til ráða?

  • Foreldrar eru mikilvægasta fyrirmyndin, sýnum í verki hvað við viljum að börnin okkar geri.
  • Bjóðum upp á ávexti og grænmeti í kósýkvöldum.
  • Bjóðum alltaf upp á val um ávexti og grænmeti í afmælum til viðbótar við annað.
  • Bjóðum frekar upp á vatn eða sódavatn í stað gosdrykkja.
  • Verðlaunum ekki hegðun með mat og allra síst með sætu bragði því þannig tengja börn mat við tilfinningar sem ekki er æskilegt.
  • Leyfum börnunum að taka þátt í matarundirbúningi, matreiðslu og innkaupum og kynnum fyrir þeim sömu hráefnin oft, án þess að pína þau til að borða þau.

Heimildir

Appleton KM, Hemingway A, Saulais L, et al. Increasing vegetable intakes: rationale and systematic review of published interventions. European Journal of Nutrition. 2016;55:869-896.

Bragðlaukaþjálfun. Vefsíða: www.bragdlaukathjalfun.is

DeCosta, P., Moller, P., Frost, M. B. og Olsen, A. (2017). Changing children's eating behaviour - A review of experimental research. Appetite, 113, 327-357.

Hendy, H. M., Williams, K. E., Riegel, K. & Paul, C. (2010). Parent mealtime actions that mediate associations between children's fussy-eating and their weight and diet. Appetite, 54(1), 191-195.

van der Horst, K. (2012). Overcoming picky eating. Eating enjoyment as a central aspect of children’s eating behaviors. Appetite, 58(2), 567-574.

Walton, K., Kuczynski, L., Haycraft, E., Breen, A. & Haines, J. (2017). Time to re-think picky eating?: A relational approach to understanding picky eating. International Journal of Behavioral Nutrition and Physical Activity, 14(62), doi: 10.1186/s12966-017-0520-0

Williams, K. E., Field, D. G., & Seiverling, L. (2010). Food refusal in children: A review of the literature. Research in Developmental Disabilities, 31(3), 625-633.

Sigrún Þorsteinsdóttir

Heilsusálfræðingur

Nýtt á vefnum