Greinar / 15. febrúar 2022

Samfélagsbreytinga er þörf

Íslenska þjóðin, eins og íbúar í öðrum vestrænum löndum, hefur verið að þyngjast hratt síðastliðna áratugi og hefur algengi offitu aukist. Árið 2007 var talið að 19,0 % fullorðinna karla og 21.3% fullorðinna kvenna á Íslandi væru með líkamsþyngdarstuðul > 30 kg/m2 sem skv. skilgreiningu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) teljast vera með offitu. Árið 2017 var þetta hlutfall komið upp í 25.4 % karla og 27,9% kvenna (Embætti landlæknis, Heilsa og líðan Íslendinga). Þessi þróun veldur áhyggjum þar sem rannsóknir sýna að með hækkandi líkamsþyngdarstuðli eykst áhætta einstaklingsins á að fá ýmsa aðra sjúkdóma, meðal annars hjarta- og æðasjúkdóma og efnaskiptasjúkdóma. Ýmsar leiðir hafa verið reyndar til að aðstoða einstaklinga til að léttast með það markmið að koma í veg fyrir frekari sjúkdóma en árangur ekki verið mikill. Hingað til hafa breytingar á mataræði vegið þungt til að ná fram þyngdartapi. Ýmis konar matarkúrar hafa gengið í gegnum vinsældartímabil án nokkurs árangurs. Við höfum reynt að takmarka neyslu á fituríkum matvælum sem breytti ekki miklu um þyngdarþróunina og á síðustu árum hefur lágkolvetna mataræði notið meiri vinsælda. Á síðustu árum hefur meðferð við offitu einnig breyst og nýir meðferðarmöguleikar komið fram. Hér mun ekki verða fjallað nánar um slíkar meðferðir heldur farið yfir þær breytingar sem orðið hafa á lífsháttum og mataræði þjóðarinnar á síðustu áratugum og hafa valdið þyngdaraukningu.

Offita, sjúkdómur

Áður en lengra er haldið er mikilvægt að skilgreina sjúkdóminn offitu. Offita er langvinnur sjúkdómur sem einkennist af auknum fitumassa í líkamanum sem starfar óeðlilega og hefur skaðleg áhrif á aðra líkamsstarfsemi. Offita er þannig einn stærsti áhættuþáttur ýmissa annarra sjúkdóma. Offitusjúkdómur á sér margar orsakir; erfðir skipta miklu máli, andleg vanlíðan, andlegir sjúkdómar, áföll á lífsleiðinni, líkamlegir sjúkdómar og lyf sem notuð eru við öðrum sjúkdómum, einnig ýmsir lífshættir og félagslegar aðstæður s.s. streita, óheppilegar svefnvenjur, einhæft mataræði og breytingar sem hafa orðið á því á síðustu áratugum ásamt breytingum á hreyfingu í daglegu lífi með aukinni kyrrsetu. Oft koma þessir orsakavaldar saman og stuðla að því að sjúkdómurinn myndast.

Líkamsþyngdarstuðull, (þyngd í kílógrömmum deilt með líkamshæð í metrum í öðru veldi, kg/m2 ) hefur verið notaður til að flokka holdafar frá vannæringu, kjörþyngd og yfir í yfirþyngd og offitu. Þessi stuðull er ekki óbrigðull en fyrir stóra hópa s.s. heilar þjóðir getur hann gefið góða mynd af holdafari þjóðarinnar. Mælingar á líkamsþyngdarstuðli síðustu áratugi sýna að Íslendingar hafa verið að þyngjast og samkvæmt nýjustu mælingum (2017) eru tæplega 27% þjóðarinnar með offitu. Það er því nauðsynlegt að líta yfir farinn veg og reyna að átta sig á hvað veldur

Sykursætir Íslendingar

Miklar breytingar hafa orðið á lífsháttum Íslendinga síðastliðna áratugi og í raun frá byrjun tuttugustu aldarinnar. Miklar breytingar hafa orðið á búsetu með flutningum úr sveit í þéttbýli. Við höfum upplifað mikla tæknibyltingu sem einnig hefur haft í för með sér breytingar á daglegu lífi. Störfin okkar krefjast mun minni orku en áður, kyrrseta er nú ríkjandi. Á sama tíma hefur hraði og streita aukist og með því hefur svefntími breyst. Streituhormón hafa áhrif í líkamanum til að ýta undir fitusöfnun og myndun sjúkdóma s.s. sykursýki 2.

Miklar breytingar hafa orðið á mataræði okkar. Eyrún Bjarnadóttir skrifaði BA ritgerð í sagnfræði árið 2016 um sykursæta Íslendinga (Háskóli Íslands, Hugvísindasvið 2016). Tók hún saman neyslu og viðhorf til sykurs frá 1880 til 1950. Sagði hún í ágripi: „Neyslan jókst mjög og þær margþættu breytingar sem urðu á samfélaginu höfðu einnig mikil áhrif. Stærsti hluti þjóðarinnar hafði jákvætt viðhorf til sykurneyslu og taldi að sykurinn væri holl og næringarrík fæða. Þjóðin sem hafði lengst af þurft að ströggla í gegnum lífið og nýta allt sem hægt var til að fá næga næringu fékk upp í hendurnar vöru sem var ódýr og full af hitaeiningum og tók henni því fagnandi.“

Mikil aukning varð á neyslu sykurs í upphafi 20. aldarinnar. Margir bjuggu þá enn við matarskort. Auðvelt var að bæta sykri við matinn til að fá meiri orku og auk þess smakkaðist hann líka vel eins og segir í ritgerð Eyrúnar. Þegar leið á 20. öldina fór kostur batnandi og meira framboð varð af næringarríkum mat, sykurneysla hélst þó enn mikil. Lengi vel var talið að sykurneysla væri mönnum holl og góð næring.

Um miðja öldina fór að bera á aðvörunarorðum og sykurneysla tengd við auknar tannskemmdir. Á þeim tíma var umdeildara hvort sykurneysla gæti tengst myndun annarra sjúkdóma og lítið rætt um tengsl við holdafar. Til eru rannsóknir á hæð og þyngd íslenskra karlmanna frá 1920-1974. Má þar sjá að líkamshæð fór hækkandi sem má túlka sem bætt næringarástand á þessu tímaskeiði. Hins vegar þyngdust þeir hlutfallslega meira og líkamsþyngdarstuðull hækkaði (Bjarni Torfason, Hjartavernd 1977). Hvort þessi umframþyngdaraukning hafi komið til vegna aukinnar sykurneyslu skal ósagt látið. Smám saman hafa komið fram fleiri vísindaleg rök um óhollustu sykurs og nú eru óumdeild neikvæð áhrif á tannheilsu, ásamt því að mikil sykurneysla auki líkur á óhóflegri fitusöfnun í líkamanum og á sykursýki 2 (Bolli Þórsson, Læknablaðið 2021).

Nýjar leiðbeiningar

ella-olsson-KPDbRyFOTnE-unsplash.jpg

Á tuttugustu öldinni fór tíðni hjartasjúkdóma og sérstaklega kransæðasjúkdóma vaxandi á Vesturlöndum. Með framförum í tækni til rannsókna kom í ljós að orsök fyrir þrengingu í kransæð er fyrirferð eða skella sem myndast innan á æðaveggnum og inniheldur m.a. mikið magn kólesteróls. Var þá ályktað að mikil neysla á mettaðri fitu sem inniheldur mikið kólesteról ýtti undir myndun á slíkri skellu. Aðrir vísindamenn á þessum tíma vildu tengja kransæðasjúkdóma við aukna sykurneyslu en þeirra skoðanir urðu undir. Niðurstaða þessa varð sú að árið 1980 voru settar fram nýjar mataræðisleiðbeiningar í Bandaríkjunum og víðar þar sem ráðlagt var að forðast neyslu á fitu eins mikið og mögulegt væri. Afleiðingarnar urðu að oft var sykri bætt í matinn í stað fitunnar til að bragðbæta. Þessar nýju mataræðisleiðbeiningar stöðvuðu ekki þyngdaraukningu vestrænna þjóða.

Breyttar venjur

Það er því greinilegt að margt breyttist í mataræði þjóðarinnar á níunda áratugnum, sykurneysla var áfram mjög mikil og með því mesta sem þekktist í Evrópu en nú var fita komin á bannlistann. Margt annað var að breytast í lífsháttum þjóðarinnar á sama tíma, bæði í daglegum athöfnum og einnig í atvinnulífinu. Atvinnuþátttaka kvenna jókst án þess að karlar kæmu meira inn á heimilin til þátttöku í heimilisstörfum. Þetta varð til þess að minni tími gafst til innkaupa og matseldar og meiri eftirspurn varð eftir einfaldari máltíðum sem minna þurfti að hafa fyrir en áður þegar tími var til að elda frá grunni. Með auknu framboði á verksmiðjuframleiddum matvörum bættust við ýmis aukaefni til að bæta útlit og líftíma vörunnar.

Rannsóknir hafa sýnt að aukið algengi offitu og sykursýki 2 helst í hendur við aukna framleiðslu og neyslu á mikið unnum matvörum. Það er þekkt að í sumum löndum er unnin matvara orðin uppistaðan í daglegu fæði heilla þjóða og hefur vaknað grunur um tengsl við versnandi heilsufar þessara þjóða. Neysla á unninni matvöru hefur áhrif á skynjun á svengd og seddu og hefur ein þekkt rannsókn sýnt fram á að inntaka í máltíð með slíkum matvörum verður óeðlilega mikil (Hall, Cell Metabolism 2019). Einnig hafa mikið unnin matvæli neikvæð áhrif á þarmaflóruna og upphefja þau góðu áhrif sem hún getur haft til að stjórna daglegri neyslu okkar.

Með þessum breytingum á lífsháttum og matarvenjum Íslendinga á níunda áratugnum héldu þeir áfram að þyngjast. Rannsóknir Hjartaverndar sýna að meðalþyngd miðaldra Íslendinga jókst hratt eftir 1980 og rannsóknir embættis landlæknis sýna að Íslendingar hafa haldið áfram að þyngjast síðastliðna áratugi. Það er ekki ólíklegt að neysla á viðbættum sykri eigi þar þátt ásamt öðru svo sem að ofan greinir.

Viðbætti sykurinn kemur að stærstum hluta úr gos- og svaladrykkjum ásamt sælgæti, kökum og kexi. Í landskönnun á mataræði sem gerð var á tímabilinu 2010-2011 fengu fullorðnir Íslendingar að meðaltali um 9% orkunnar úr viðbættum sykri og hafði hlutfallið lækkað frá 2002 er það var 10,2% sem er jákvætt (Heimasíða embættis landlæknis). Þegar niðurstöður voru rýndar nánar kom í ljós að hlutfallið var hærra fyrir einstaklinga 18-30 ára þar sem ungir karlmenn fengu um 12 % orkunnar úr viðbættum sykri og ungar konur 11,3%. Rannsókn á mataræði 6 ára barna sýndi að það innihélt einnig of mikinn viðbættan sykur eða að meðaltali 11%.

Ný könnun á mataræði Íslendinga var gerð árin 2019-2021 og verður spennandi að sjá niðurstöður hennar. Samkvæmt manneldismarkmiðum er miðað við að neysla á viðbættum sykri sé undir 10% af heildarorku dagsins. Mikilvægt er að muna að oft er viðbætti sykurinn hluti af verksmiðjuframleiddri hitaeiningaríkri fæðu sem inniheldur einnig mörg önnur viðbætt efni.

Hvað er til ráða?

Reynt hefur verið að finna leiðir til að stemma stigu við neyslu á viðbættum sykri til að hægja á þyngdaraukningu og nýgengi tengdra sjúkdóma. Sykurneysla hefur að meðaltali dregist lítils háttar saman síðastliðin ár en betur má ef duga skal og þarf þá sérstaklega að líta til neyslu ungs fólks.

Að beiðni heilbrigðisráðherra árið 2019 skilaði embætti landlæknis aðgerðaáætlun í 14 liðum til að draga úr sykurneyslu. Lögð var áhersla á eina forgangsaðgerð sem var að leggja hærri álögur á óhollustu og lægri álögur á hollustu og talið að slík aðgerð myndi bera mestan árangur til að draga úr neyslu á viðbættum sykri. Þannig væru notaðir efnahagslegir hvatar til eflingar lýðheilsu en sterk vísindaleg rök eru fyrir slíkum aðgerðum. Talið er að 20 % viðbótarskattur á sykraða drykki geti minnkað neysluna um 20 % og jafnvel meira hjá þeim sem neyta mest af þessum drykkjum. Lækkun skatta á hollari matvöru þarf að verða á sama tíma til að auka neyslu hennar. Árið 2013 var tímabundið lagður á svokallaður sykurskattur. Eftir á var augljóst að ekki var vel staðið að þeirri aðgerð og ekki farið eftir lýðheilsusjónarmiðum. Var því í framhaldi af nýrri aðgerðaáætlun skipaður starfshópur til að innleiða áætlunina samkvæmt lýðheilsusjónarmiðum og skilaði hópurinn skýrslu til heilbrigðisráðherra í október 2020. Voru settar fram vel rökstuddar tillögur um hvernig mætti útfæra þá aðgerð að hækka verð á vörum með sykri og sætuefnum. Áhugavert verður að fylgjast með hvernig yfirvöld munu fylgja þessum tillögum eftir.

Lokaorð

Við þurfum að vinna með allar okkar venjur. Of algengt er að máltíða sé neytt fyrir framan sjónvarp eða tölvuskjá án þess að í raun sé tekið eftir hvað eða hversu mikið er borðað. Við borðum óreglulega, oft fer öll inntaka daglegrar orkuþarfar inn á kvöldin, við hlustum ekki á svengdina og missum stjórn á inntökunni loksins þegar við gefum okkur tíma til að borða. Þá getur einnig verið erfitt að velja vel heldur gripið í það sem er fljótlegast, sem oft er mikið unnin matvara sem inniheldur mikið af fitu og einföldum kolvetnum (viðbættum sykri). Þarna hefur streitan mikil áhrif en streita er því miður of ríkjandi í okkar samfélagi.

Það getur því verið ófullnægjandi að taka einn þátt í okkar venjum út fyrir sviga, grípa til sterkra aðgerða og búast við að sjá árangur af þeim aðgerðum eingöngu þegar ekki er unnið með heildina. Venjur okkar eru hluti af þeim aðstæðum sem við lifum við. Árangursríkast hlýtur að vera að vinna að því að breyta aðstæðum í samfélaginu þannig að hver og einn hafi meiri tíma til að hlúa að sjálfum sér og fjölskyldu sinni og að við kennum börnum okkar strax á unga aldri hvaða venjur eru æskilegar og stuðla að heilbrigði.

Hildur Thors

Yfirlæknir offituteymis Reykjalundar

Nýtt á vefnum