Nýjar áskoranir og ný tækifæri í lýðheilsustarfi
Heilsa og líðan hafa mikil áhrif á daglegt líf og almenn lífsgæði á öllum æviskeiðum. Einstaklingar hafa ekki aðeins hag af því að búa við góða andlega, líkamlega og félagslega heilsu heldur er til mikils að vinna fyrir fjölskyldur, vinnuveitendur og samfélög. Meiri virkni og minni þörf fyrir ýmiss konar úrræði léttir m.a. á heimilum, heilbrigðiskerfinu sem og öðrum kerfum.
Þegar við skoðum heilsufar Íslendinga í samanburði við önnur lönd þá stöndum við vel á ýmsum sviðum. Hér á landi er ungbarnadauði með því lægsta sem þekkist í heiminum, meðalævilengd er há og hamingjumælingar með því hæsta sem sést í heiminum. Á síðustu áratugum hefur okkur tekist að draga verulega úr tóbaksreykingum fullorðinna og ungmenna ásamt því að draga úr áfengisneyslu unglinga. En við stöndum frammi fyrir nýjum áskorunum eins og mikilli streitu, vaxandi vanlíðan ungs fólks, of litlum svefni, óábyrgri notkun lyfja, rafsígarettunotkun ungmenna og einmanaleika.
Mikilvægt að horfa á stóru myndina
Áhrifaþættir heilsu eru margvíslegir og liggja ekki hvað síst í samfélagslegum þáttum eins og félags- og efnahagsaðstæðum, umhverfi, menntun, atvinnu og öryggi. Þeir lifnaðarhættir sem hafa hvað mest áhrif á heilsu eru hreyfing, næring, svefn, streita og neysla tóbaks, áfengis og annarra vímuefna. Til viðbótar má nefna, skjánotkun, kynheilbrigði og félagsleg tengsl. Að rækta góð tengsl við fólkið í kringum sig, s.s. maka, börn, vini og samstarfsfólk, er mikilvægur hluti af heilbrigðu lífi en félagsleg einangrun og einmanaleiki eru áhættuþættir fyrir bæði andlega og líkamlega heilsu. Það er því að mörgu að huga þegar heilsan er annars vegar og mikilvægt að heildarsýn sé ríkjandi í öllu heilsueflingarstarfi.
Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hefur lagt mikla áherslu á greiningu þeirra þátta sem hafa áhrif á helstu áhrifaþætti heilbrigðis (e. „causes of the causes“). Þannig hefur verið lögð rík áhersla á að greina félagslega áhrifaþætti heilbrigðis og nú einnig á markaðstengda áhrifaþætti heilbrigðis (e. commercial determinants of health). Til þess að ná áframhaldandi árangri í lýðheilsustarfi þá verður að horfa á stóru myndina. Skoða þarf alla þá þætti sem hafa bein eða óbein áhrif á heilbrigði og finna áhrifaríkar leiðir til að bæta heilsu og líðan.
Skapa þarf sem ákjósanlegastar aðstæður í lífi, leik og starfi sem stuðla að vellíðan. Auðvelda þarf börnum, ungmennum, fullorðnum og eldra fólki holla valið og sporna gegn því sem hefur bein eða óbein neikvæð áhrif á heilsu og líðan. Ef vel á að vera þarf allt í senn að vinna með: félags-, efnahags- og menningarlegar aðstæður, manngert og náttúrulegt umhverfi. Heildræn nálgun, sem felur í sér þverfaglega samvinnu á vettvangi ríkis og sveitarfélaga, er lykilforsenda fyrir því að skapa aðstæður sem styðja við heilsu og góð lífsgæði yfir allt æviskeiðið.
Heilsueflandi nálganir Embættis landlæknis
Í samræmi við þetta hefur Embætti landlæknis lagt ríka áherslu á uppbyggingu Heilsueflandi samfélags og Heilsueflandi leik-, grunn- og framhaldsskóla. Áhugasöm sveitarfélög og skólar fá í gegnum það starf stuðning til að vinna markvisst að því að brúa bilið á milli gagna, stefna og aðgerða með því að nota lýðheilsuvísa, gátlista og önnur gögn til að meta stöðuna og forgangsraða í samræmi við sínar þarfir. Miðlægt vefkerfi, sem er í þróun, auðveldar aðilum að halda utan um starfið, meta framvindu þess og miðla áfram. Í dag búa yfir 80% Íslendinga í sveitarfélögum sem hafa einsett sér að starfa í anda Heilsueflandi samfélaga.
Innleiðing Heilsueflandi samfélags og skóla fellur vel að innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og munu stýrihópur Heilsueflandi samfélags og samráðsvettvangur um Heilsueflandi samfélag og Heimsmarkmiðin, sem nýlega voru myndaðir, nýtast vel í að samræma frekar þá vinnu.
Það sem við mælum fær athygli
Fylgjast þarf markvisst með þeim þáttum sem hafa áhrif á heilsu og líðan og mæla þá reglulega. Mikil sóknarfæri eru hvað varðar þróun mælikvarða, söfnun og aðgengi að gögnum, greiningu og birtingu niðurstaðna. Það sem við mælum fær athygli og reynslan sýnir okkur hversu öflugur grunnur og hvati slíkar upplýsingar eru fyrir heilsueflingar- og forvarnastarf, ekki síst þegar gögnin leyfa ítarlegri greiningar. Lýðheilsuvísar Embættis landlæknis gefa mynd af stöðu ýmissa heilsufarsþátta og áhrifaþátta heilbrigðis eftir heilbrigðisumdæmum. Mælaborð lýðheilsu er nýjung í þessu starfi en þar er hægt að skoða valda lýðheilsuvísa með gagnvirkum hætti á netinu m.a. eftir heilbrigðisumdæmum og fjölmennustu sveitarfélögunum.
Samfélagið þróast hratt og því þarf stöðugt að vera með puttann á púlsinum og endurskoða starfið í samræmi við nýjar áskoranir, finna leiðir til að takast á við þær og stuðla að vellíðan fyrir alla. Síðast en ekki síst er mikilvægt að valda ekki skaða. Félagslegt réttlæti er grundvallaratriði í lýðheilsu og mikilvægt að gæta þess að aðgerðir til að bæta heilsu verði ekki til þess að auka fordóma eða jaðarstöðu viðkvæmra hópa. Huga þarf að stöðu þekkingar og nýta gagnreyndar aðferðir sem búið er að sýna fram á með vísindalegum rannsóknum að bera árangur.