Greinar / 16. febrúar 2021

Mikilvægi fyrstu áranna

Því hefur verið slegið fram að æskunni sé sóað á börn því að þau hafi ekki minnstu forsendur til að njóta hennar, sérstaklega fyrstu áranna sem enginn man. En ætli frumbernskan sé sú paradís sem margir ætla?

MB2.JPG

Utanfrá séð virðist líf ungra barna ekki vera mjög flókið. Blessunarlega fáfróð um alvöru lífsins einskorðast líf þeirra við að nærast, sofa og leika sér, sem er draumalíf margra fullorðinna. Frá öðru sjónarhorni lítur myndin þó öðruvísi út. Engin nýfædd vera er jafn fullkomlega hjálparvana og mannsbarnið. Alls ófært um að tjá sig skilur barnið ekki neitt og hefur ekki minnstu stjórn á neinu. Án umönnunar foreldra eða annarra sem koma í þeirra stað myndi barnið deyja. Þegar barn fæðist er heili þess afar frumstæður og sér fyrst og fremst um að líffærakerfið virki. Það er samt ekki nóg að bíða eftir að heili barnsins þroskist því það gerist ekki af sjálfu sér. Hvernig hann þroskast er háð aðstæðum og reynslu barnsins og hann er aldrei jafn auðmótanlegur og fyrstu mánuði ævinnar. Það á jafnt við um sjálft líffærið og hugmyndirnar sem þar verða til og eiga þátt í að móta sjálfsmynd barnsins og viðhorf þess til lífsins.

Ánægja í samskiptum

bermix-studio-0bCLKSE1GY8-unsplash (1).jpg

Svo framarlega sem ekkert amar að getur nýfætt barn tengst manneskjunni sem annast það innan fárra klukkustunda. Þetta er fyrsti sproti að félagslegri hæfni þess. Hana getur barnið augljóslega ekki þróað upp á eigin spýtur heldur veltur hún á þeim sem hugsa um það. Með því einu að njóta samvista við barn sitt býr foreldri því kjöraðstæður. Rannsóknir á börnum á munaðarleysingjahælum í Rúmeníu sem lágu í rúmum sínum allan daginn fyrstu ár ævinnar, svipt nánum tengslum við umönnunaraðila, sýndu að hluti heilans hafði ekki þroskast. Það er vegna þess að þroskinn er háður ánægjulegum tengslum við aðra manneskju. Ánægjan kemur frá lykt foreldris, snertingu þess, rödd og augnsambandi. Ákjósanlegustu þroskaskilyrði ungbarns eru þegar foreldri heldur því í fangi sér og nýtur þess. Þá finnur það til öryggis og hlýju, vöðvar slakna og öndun dýpkar, spennu er eytt með strokum og mjúkum hreyfingum, hjartsláttur barnsins lagar sig að hjartslætti foreldrisins og vellíðunarhormón örva vöxt heilans. Við hverja jákvæða upplifun verða til tengingar á milli taugafruma og því fleiri ánægjulegar upplifanir því þéttriðnara net myndast sem leiðir til betur starfandi heila. Ekkert foreldri er alltaf í góðu jafnvægi en sé það regla fremur en undantekning má búast við að barnið verði það líka. Þannig hefur það bein áhrif á vöxt heilans þegar barninu er sinnt af manneskju sem gleðst yfir tilveru þess og hefur oftast nær jafnaðargeð til að takast á við síbreytileikann sem fylgir tengslunum.

Streita barna getur verið skaðleg

Ungt barn getur ekki sjálft stjórnað líðan sinni og því verða foreldrar eða aðrir fullorðnir að grípa inn í til að hamla streitu þess. Við það eitt að barn sé huggað er streitu þess haldið innan viðráðanlegra marka og stutt er við viðkvæmt tauga og ónæmiskerfi. Á sama tíma er vöxtur örvaður í þeim hluta heilans sem hugsar um tilfinningar, hefur taumhald á hvötum og ræður færni í félagslegum samskiptum. Sé þörfum barns á hinn bóginn ekki sinnt reglulega og með fyrirsjáanlegum hætti verður röskun á líffræðilegum og sálfræðilegum viðbrögðum sem geta haft áhrif til lengri jafnt sem skemmri tíma. Viðvarandi streita ungra barna, t.d. vegna vanrækslu, hranalegrar umönnunar eða ofbeldis getur m.a. valdið offramleiðslu streituhormónsins kortísóls sem getur skaðað mótun taugabrauta og dregið úr vexti heilans. Ef reynslan kennir börnum að öðru fólki sé ekki treystandi tileinka þau sér róttækar sálrænar varnir til að verja sig fyrir kvíða og sársauka, til dæmis hugrof. Jafnframt er hætt við að þau þrói með sér bjargráð sem geta vegið að heilsu þeirra og tengslum seinna meir, s.s. að borða eða neyta hugbreytandi efna við vanlíðan eða leita í kynlíf á unglingsaldri. Börn sem fá ekki áreiðanlega og fyrirsjáanlega svörun læra síður að þekkja sjálf sig og eiga erfiðara með að bregðast við vanlíðan á viðeigandi hátt. Þau þróa síður með sér hæfileika til að setja sig í spor annarra sem hefur áhrif á virðingu þeirra fyrir reglum og mörkum samfélagsins. Það er aukin hætta á að börn í þessum hópi þrói með sér hegðunarvandkvæði og jafnvel geðraskanir.

Þýðir þetta að foreldrar þurfi að hafa vit á heilastarfsemi eða vera lærðir í vísindum? Nei, að sjálfsögðu ekki, því um er að ræða samskipti sem foreldrar eiga óafvitandi í þegar þeir láta sér annt um barn. Þegar foreldrar og aðrir sýna barni ást með nærveru, snertingu, brosi, hlustun, þegar þeir tala við það, taka eftir smáatriðum og sýna því áhuga hafa þeir áhrif á vöxt heilavefs. Með því einu að sinna barni af natni kenna foreldrar því að vinna úr tilfinningum, styrkja sjálfsmynd þess og efla færni þess í samskiptum. Flestar fjölskyldur njóta barna á þennan hátt en samband foreldris og barns er viðkvæmt og getur hæglega farið út af sporinu, ýmist vegna ytri aðstæðna, veikinda barns eða vanlíðunar foreldra. Með viðeigandi hjálp á réttum tíma er sem betur fer oftast hægt að koma því á réttan kjöl og því er svo mikilvægt að vera vakandi fyrir líðan foreldra og taka hana alvarlega.

MB1.JPG

Hlutskipti foreldra

Örar breytingar á þroska og þörfum barnsins kalla á síbreytilegt viðmót foreldra og má fullyrða að ekkert hlutverk sé jafn ábyrgðarmikið, krefjandi, margslungið og vanmetið og foreldrahlutverkið. Eina skilyrði fyrir barneignum er kynþroski og því ljóst að foreldrar eru mjög misjafnlega í stakk búnir til að takast á við umönnun barns. Langflestir foreldrar gera oftast eins vel og þeir geta en tengsl foreldra og barna eru mun margbrotnari en almennt er viðurkennt. Foreldrar eru sjálfir mótaðir af tengslum við sína foreldra. Þeir og börnin þeirra eru ólíkar manneskjur með ólíkar þarfir og væntingar. Börn og foreldrar þurfa að laga sig að hvert öðru og að flóknu samfélagi. Það er sama hversu vænt foreldrum þykir um börnin sín og hve vel upplýstir þeir eru, þeir og börn þeirra komast ekki hjá árekstrum og togstreitu sem þarf að leysa. Samskipti þeirra verða alltaf ófullkomin. Það er ekkert til sem heitir fullkomið foreldri, það besta sem hægt er að vonast eftir er að verða „nógu gott“ foreldri.

Fyrstu árunum eftir fæðingu barns fylgir mikið álag á foreldra og aldrei er jafn mikilvægt að styðja við þá, sérstaklega þá sem eru einir, glíma við vanheilsu eða bágar félagslegar aðstæður. Til að efla geðheilsu barna er nauðsynlegt að huga að geðheilsu foreldra þeirra. Sérstaklega þarf að hlúa að foreldrum sem eiga slæma reynslu úr eigin uppeldi til að sporna gegn endurtekningu á milli kynslóða. Það sem ræður mestu um hvort skaðleg uppeldismynstur flytjast frá einni kynslóð til annarrar er hvort foreldrar geta hugsað og talað um reynslu sína og fundið fyrir sársaukafullum tilfinningum þegar aðstæður hafa verið erfiðar. Með innsýn í eigin barnæsku eykst samkennd þeirra með barninu og þeir eiga betra með að greina á milli sinna þarfa og þarfa þess. Til þessa geta þeir þurft hjálp.

Allir foreldrar upplifa á köflum kvíða, reiði, vanmátt og hjálparleysi gagnvart börnum sínum. Þá skiptir sköpum að þeir geti reitt sig á aðra fullorðna manneskju sem sýnir þeim skilning og hjálpar þeim að hugsa um það sem bjátar á. Margir foreldrar fá slíka hjálp í daglegu lífi frá maka, fjölskyldu eða vinum en aðrir eru ekki svo lánsamir. Sjálfra þeirra vegna, en alveg sérstaklega barnanna vegna, er brýnt að þeim sé tryggður aðgangur að fagfólki sem gefur þeim rými til að hugsa um og melta upplifanir sínar, setja þær í samhengi og leita nýrra leiða í umönnun barnsins. Slík aðstoð þarf að vera foreldrum aðgengileg frá meðgöngu barnsins. Sérstaklega þarf að huga að foreldrum sem eiga slæma reynslu úr sínu uppeldi, skortir stuðning fjölskyldu, stríða við geðröskun eða fíkn eða búa við lélegar heimilisaðstæður eða ofbeldi. Forvarnir af þessu tagi draga ekki eingöngu úr þjáningum viðkomandi fjölskyldna og styðja börn til heilbrigðis heldur margborga þær sig fjárhagslega fyrir samfélagið til lengri jafnt sem skemmri tíma.

Geta ekki aðrir en foreldrar brugðist við barni á næman og kærleiksríkan máta? Jú, að sjálfsögðu, sérstaklega þeir sem gefa sér tíma til að kynnast barni. En ástæða þess að foreldrarnir eru að öllu jöfnu best til þess fallnir fyrstu 2–3 árin er að þeir þekkja barnið sitt betur en nokkur annar. Nánd þeirra kennir þeim að lesa í allar litlu vísbendingarnar og því hafa þeir líðan barnsins nánast í hendi sér. Auk þessa er væntumþykja sterkasta aflið sem fær eina manneskju til að bregðast við annarri. Því yngra sem barnið er, því meiri þörf hefur það fyrir manneskju sem er tengd því, sem bókstaflega finnur til með því og leggur sig fram um að tempra líðan þess jafnt og þétt. Þó svo að ung börn geti fljótt á litið virst hafa svipaðar og fremur einfaldar þarfir eru þau ólíkir einstaklingar með mismunandi þarfir á mismunandi tíma, margs konar eiginleika, ólíkt lundarfar og í ólíklegustu pælingum. Það er ekki nóg að sinna grunnþörfunum heldur þarfnast sérhvert barn fullorðinnar manneskju sem bregst við líðan þess jafnt og þétt og sér og speglar hið sérstaka í því. Þannig lærir barnið að þekkja sjálft sig. Samhliða því þróar það með sér færni í að íhuga líðan sína og bregðast við henni á viðeigandi hátt. Á þann hátt verða börnin færari um að stjórna hvötum sínum, fremur en að stjórnast af þeim, og treysta eigin dómgreind frammi fyrir þrýstingi frá öðrum.

Skoða þarf vanda barna í samhengi við reynslu þeirra

Það blasir við að börnum og unglingum sem eiga í vanda af tilfinningalegum toga hefur fjölgað mikið síðustu ár. Agavandamál í skólum og biðlistar eftir meðferð á barna- og unglingageðdeild vitna um gríðarlegan vanda og vangetu samfélagsins til að sinna vaxandi fjölda barna sem þjást vegna kvíða, þunglyndis, átraskana, eineltis, ofvirkni og athyglisbrests, að ónefndri neyslu áfengis og fíkniefna. En á sama tíma og vandinn hefur vaxið hefur þekkingin einnig aukist. Í dag vitum við betur en nokkru sinni fyrr um áhrif tengslamyndunar og áfalla á þroska, samskiptahæfni, sjálfsmynd og heilsu barna, til lengri jafnt sem skemmri tíma. Þess vegna er alltof takmarkandi að takast á við vanda barna með því að breyta efnaskiptum þeirra með lyfjum. Við vitum nú betur en nokkru sinni fyrr að reynslan og bjargráð við henni hafa bein áhrif á frumur líkamans og því þurfum við að horfa til tengsla, umhverfis og áfalla til að skilja og bregðast við vanda barna.

Þessi hafa verið viðfangsefni Miðstöðvar foreldra og barna frá árinu 2008. Miðstöðin hefur frá upphafi starfað í skjóli SÍBS, fyrst í húsnæði Reykjalundar en frá árinu 2012 í Síðumúla 6. Á síðasta ári náðist sá áfangi að starfsemin var færð til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og heitir nú Geðheilsuteymi fjölskylduvernd. Teymið verður staðsett í Bæjarlind 1-3, það er þverfaglegt og nær til allra heilbrigðisumdæma. Áfram verður þungamiðja starfseminnar sérhæfð tengslaeflandi meðferð fyrir foreldra og ungbörn sem glíma við alvarlega vanlíðan. Á þessum tímamótum vil ég fyrir hönd teymisins þakka SÍBS stuðning og samfylgd sem hefur verið einkar ánægjuleg í alla staði. Um leið hvet ég alla til að vera vakandi fyrir líðan foreldra og barna og vonast til að við sem samfélag höfum kjark og framsýni til að efla við þau stuðning.

Tilvísanir

  1. Sjá t.d. Sue Gerhardt, Why Love Matters (London: Brunner-Routledge, 2004).
  2. Sjá t.d. Allan Schore, „The human unconscious: the development og the right brain and its role in early emotional life“ í Viviane Green (ritstjóri), Emotional Development in Psychoanalysis, Attachment Theory and Neuroscience (New York: Brunner-Routledge, 2003), bls. 23-54.
  3. Sue Gerhardt, Why Love Matters.
  4. Sjá t.d. Vivien Prior og Danya Glaser, Understanding Attachment and Attachment Disorders. Theory, Evidence and Practice (London:Jessica Kingsley Publishers, 2006).
  5. D.W. Winnicott, The Maturational Processes and the Facilitating Environment, bls. 145. 6 Sjá t.d. Jeremy Holmes, John Bowlby and Attachment Theory (London: Routledge, 1993). 7 Sjá t.d. David J. Wallin, Attachment in Psychotherapy (New York: The Guilford Press, 2007).

Sæunn Kjartansdóttir

Sálgreinir, Geðheilsuteymi fjölskylduvernd

Nýtt á vefnum