Heilbrigði hefur verið skilgreint sem andleg, líkamleg og félagsleg velferð og vellíðan (WHO, 1948). Mikil vakning hefur orðið meðal þjóðarinnar hvað varðar líkamlega heilsu á undanförnum áratugum og fer sífellt vaxandi á sviði andlegrar heilsu og vellíðanar. Minni áhersla hefur hins vegar verið á félagslega heilsu og vellíðan. Hvernig birtist þessi félagslegi þáttur heilsunnar og hvaða áhrif hefur félagsleg vellíðan á heilsuna í heildarsamhengi?
Bæði innlendar og erlendar rannsóknir sýna í vaxandi mæli að félagslegi þátturinn er einn sá allra mikilvægasti fyrir andlega heilsu og vellíðan. Í raun er enginn þáttur sem spáir betur fyrir um hamingju og vellíðan en góð félagsleg tengsl. En af hverju eru félagsleg tengsl svona mikilvæg? Og hvernig stendur á því að skortur á félagslegum tengslum veldur vanlíðan og jafnvel líkamlegum heilsubresti?
Skýringar í þróunarsálfræðinni
Mannfólkið er í eðli sínu félagsverur og flestir hafa ríka þörf fyrir að vera í samskiptum við aðra og tilheyra hópi. Það getur verið gott að leita skýringa í þróunarsálfræðinni. Mikið af þeim vandamálum sem við tengjum í dag við streitu og kvíða má rekja til eðlilegra viðbragða við ógn og hættu. Þegar við erum í hættu stödd er eðlilegt að hjartað slái hraðar og blóðið fari hraðar um æðarnar til að undirbúa okkur fyrir yfirvofandi átök. Þá er einnig gott að sjóndeildarhringur okkar þrengist og við verðum ofurmeðvituð um hættuna sem steðjar að, því það eykur líkurnar á því að okkur takist að bregðast við á farsælan hátt og bjarga lífi okkar. Þessi viðbrögð hafa þróast með mannkyninu í gegnum árþúsundir og eru órjúfanlegur hluti af líkamsstarfsemi okkar. Aftur á móti geta þessi eðlilegu viðbrögð einnig skapað erfiðleika, ef til dæmis streita er viðvarandi vandamál í daglegu lífi. Það er ekki gott fyrir heilsuna að líkaminn sé stöðugt undir slíku álagi.
Á sama hátt getum við reynt að skilja viðbrögð líkamans og hugans við félagslegri einangrun og skorti á tengslum við aðra. Sem dýrategund höfum við þróast á þann hátt að afkoma okkar er háð tengslum við aðra. Við veiddum saman, deildum matarbirgðum og hjálpuðumst að. Frá árdögum mannkyns hafa þeir sem tilheyra hópi verið líklegri til að lifa af en það að einangrast gat verið lífshættulegt. Sömuleiðis skiptir staða innan hóps máli, því þeir sem voru ofar í félagsstiganum gátu verið öruggir um stöðu sína innan hópsins en þeir sem voru neðar í stiganum gátu átt á hættu að einangrast eða verða jafnvel útskúfaðir. Það er því ekki að undra að þegar okkur skortir þessa tilfinningu um að tilheyra hópi þá getur það valdið mikilli vanlíðan og jafnvel heilsubresti.
Einmanaleiki
Einmanaleiki er sú tilfinning sem við finnum fyrir þegar við upplifum skort á félagslegum tengslum. En það er mikilvægt að greina á milli þess að vera einn og að vera einmana. Það má ekki endilega gera ráð fyrir að allir sem eru einir séu einmana því félagsþörf okkar er misjöfn. Sumir una sælir í eigin félagsskap án þess að finna til einmanaleika en fólk getur líka verið einmana þrátt fyrir að vera í reglulegu samneyti við aðra ef það saknar nánari og dýpri tengsla við aðra manneskju. Það sem skiptir mestu máli er hvort persónubundinni þörf okkar fyrir félagsleg samskipti og tengsl sé fullnægt. Það er einnig mikilvægt að taka fram að það er eðlilegt að finna fyrir einmanaleika öðru hverju. Við finnum öll einhvern tímann fyrir einmanaleika, en langvarandi einmanaleiki og skortur á tengslum getur haft skaðleg áhrif.
Aðstæður geta rofið félagsleg tengsl
Það getur verið mismunandi hvað veldur einmanaleika en oft eru það einhverjar ákveðnar aðstæður sem leiða til þess að félagsleg tengsl rofna. Þetta geta verið breytingar í tengslum við skóla, vinnu eða búsetu. Breytingar á samböndum, t.d. þegar vina- eða ástarsambönd taka enda, við makamissi, þegar börn fara að heiman o.s.frv. Þegar félagsleg tengsl rofna er mikilvægt að leita leiða til að byggja upp ný tengsl.
Ákveðnir hópar í meiri áhættu
Ákveðnir hópar eru í meiri áhættu en aðrir að verða einmana. Það eru þau sem hafa veikt félagsnet, þau sem eiga við félagsfælni eða skort á félagsfærni að etja og þau sem eru í veikum tengslum við fjölskyldu sína. Þetta getur átt við um einstæða foreldra sem hafa minni tíma eða lítil fjárráð til að taka þátt í félagslífi, eldra fólk sem hefur misst lykilaðila úr sínu félagsneti, s.s. vini og fjölskyldumeðlimi og börn sem verða fyrir höfnun jafnaldra sinna. Einnig geta samfélagslegir þættir á borð við fátækt, fordóma og jaðarsetningu staðið í vegi fyrir félagslegri þátttöku og virkni og þannig stuðlað að einangrun og einmanaleika.
Einmanaleiki og heilsa
Eins og nefnt var hér í upphafi þá er félagsleg heilsa og vellíðan einn af þremur meginþáttum heilbrigðis. Félagsleg sambönd, bæði magn og gæði félagstengsla, hafa áhrif á líkamlega og andlega heilsu og jafnvel lífslíkur. Það er því ekki bara sárt að vera einmana heldur vinnur það gegn góðri heilsu og lífsgæðum. Þess vegna er mikilvægt að vinna ötullega að því efla tengsl milli fólks í samfélaginu, vinna gegn félagslegri einangrun og skapa aðstæður sem ýta undir samneyti milli íbúa. Það þarf að horfa sérstaklega til viðkvæmra hópa sem eru í hættu á að einangrast, s.s. ungt fólk sem er hvorki í skóla né vinnu, fólk af erlendu bergi brotið, fólk sem býr við fátækt, fólk sem glímir við andleg og líkamleg veikindi og eldra fólk. En jafnvel þótt sumir hópar eldra fólks séu sérstaklega útsettir hvað varðar einmanaleika er það ekki svo að þessi hópur sem heild sé oftast einmana. Þvert á móti hafa rannsóknir hér á landi sýnt að sá hópur fullorðinna sem segist oftast finna fyrir einmanaleika er yngsti hópurinn, á aldrinum 18-25 ára. Augu okkar þurfa því ekki síst að beinast að aðstæðum ungs fólks.
Ráð til að draga úr einmanaleika
Mjög einstaklingsbundið er hvaða ráð duga best til að auka félagslega virkni og draga úr einmanaleika. Ólíkar ástæður geta verið fyrir því að við upplifum einmanaleika, það getur t.d. tengst skorti á tækifærum til að hitta fólk, skorti á félagslegri færni eða félagslegu óréttlæti á borð við jaðarsetningu. Í því ástandi sem ríkir í þjóðfélaginu á meðan við tökumst á við COVID-19 er ljóst að tækifæri margra til að eiga góð félagsleg tengsl eru skert. Við þurfum því að leita allra leiða til að finna nýjar leiðir til að efla félagstengsl á þessum sérstöku tímum. Það getur verið fólgið í því að eiga fleiri og lengri gæðastundir með okkar nánustu. Vera dugleg að knúsa börnin okkar og maka. Spila saman, elda saman og vera úti í náttúrunni. Einnig að halda meira og þéttara sambandi við þá sem við hittum ekki í eigin persónu í gegnum síma og samfélagsmiðla. Vinahópar hafa hist í gegnum fjarskiptaforrit og starfsfólk stórra vinnustaða verið með ýmiskonar viðburði á netinu, svo sem spurningakeppni og fleira.
Ekki hika við að leita hjálpar
Það er mikilvægt að leita sér hjálpar ef fólk finnur fyrir langvarandi einmanaleika. Ef fólk skortir sjálfstraust eða færni í samskiptum til að mynda tengsl og vantar orku eða heilsu til að fara út úr húsi og upplifir kvíða, þá þarf að byrja á því að leita lausna við þeim vanda. Hægt er að leita til heilsugæslunnar sem getur hjálpað til við að finna aðstoð við hæfi svo sem sálfræðimeðferð eða félagsráðgjöf. Einnig er alltaf hægt að hringja í hjálparsíma Rauða Krossins 1717 eða hafa samband við netspjall Heilsuveru á www.heilsuvera.is.