Greinar / 12. október 2023

Lýðheilsa í velsældarhagkerfi

Margar þær áskoranir sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir í dag og í nánustu framtíð krefjast sameiginlegra aðgerða stjórnvalda og samfélagsins alls þar sem unnið er þvert á geira og stjórnsýslustig. Dæmi um slíkar áskoranir eru meðal annars loftslagsbreytingar, gervigreind, breytt aldurssamsetning þjóðarinnar, ýmsar ógnir við andlega líðan og ójöfnuður til heilsu. Almennt er viðurkennt að það er hægt er að bregðast við og vinna að úrlausnum þessara flóknu mála á áhrifaríkan hátt með samþættingu í opinberri stefnumótun, áætlanagerð og vinnulagi þar sem öll málefnasvið og aðrir hagaðilar hafa hlutverk í vegferðinni að sameiginlegum markmiðum.

Heilsa er allt í senn andleg, líkamleg og félagsleg vellíðan. Samanber áhrifaþætti heilbrigðis og vellíðanar (mynd 1), er algjör lykilforsenda að heilsa og líðan fólks ráðist af flóknu samspili einstaklinga við sitt nánasta umhverfi og aðstæður. Einstaklingar þurfa að búa yfir viðeigandi forsendum til að líða vel og taka sem bestar ákvarðanir fyrir sig og jörðina (hvíti og guli boginn) og á endanum snýst lýðheilsa um það í hvers konar samfélagi fólk býr. Góður samhljómur er á milli grunnstoða sjálfbærrar þróunar og áhrifaþátta heilbrigðis sem eru allt í senn félags-, efnahags- og menningarlegar aðstæður sem og byggt og náttúrulegt umhverfi (græni, rauði og appelsínuguli boginn). Auk heilbrigðisþjónustu eru þættir eins og atvinna, húsnæði, menntun, félagsþjónusta, loftgæði, tækifæri til að tilheyra og taka þátt í samfélagi og öryggi í víðasta skilningi dæmi um hornsteina heilsu sem er mikilvægt að standa vörð um sama hvaða samfélagslegu áskoranir er um að ræða.

Heilsa í allar stefnur

Í viðleitni við að ýta undir þverfaglegt samstarf og lausnir hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) skilgreint Heilsu í allar stefnur (HíAS) (Health in all policies = HiAP) sem nálgun við opinbera stefnu, þvert á geira. Áhersla er á að taka kerfis bundið tillit til áhrifa ákvarðana á heilsu í því skyni að bæta ekki aðeins heilsu sumra heldur allra íbúa (Health for all). Þrátt fyrir umtalsverða útbreiðslu HíAS í ýmsum löndum á heimsvísu, hefur innleiðing nálgunarinnar ekki verið auðveld. Að skilja og takast á við undirliggjandi áhrifaþætti heilsu er áskorun því áhrif þessara þátta er oft á tíðum óbein, margþætt og flókin. Það veldur því til tildæmis að sumir ganga enn út frá því að heilsa sé fyrst og fremst „eign“ og viðfangsefni heilbrigðisgeirans. Sem fyrr segir er heilbrigðiskerfið vissulega afar mikilvægt en aðeins hluti af heildarmyndinni þegar heilsa og líðan fólks er annars vegar, samanber regnbogann á mynd 1. Sú staða getur einnig komið upp að til dæmis lýðheilsumarkmið stangist á við markmið á öðru sviðum. Að vinna þvert á geira krefst þess meðal annars að hugsa hlutina út fyrir boxið og nálgast þá með nýjum hætti og það getur reynst þrautin þyngri í gamalgrónum kerfum sem eru vön því að vinna í sínu „sílói“. Borgaralegt samfélag getur gegnt mikilvægu hlutverki við að kalla eftir sterkari heildstæðari samvinnu stjórnvalda. Saga árangurs í lýðheilsumálum sýnir okkur að borgaralegir aðilar eru oft sterkustu talsmenn HíAS (HiAP).

Lýðheilsumat

Hvað lýðheilsumat varðar er almennt mikilvægt að meta hvaða áhrif ákvarðanir stjórnvalda hafa á samfélagið. Meta þarf möguleg jákvæð og neikvæð áhrif stefnu og aðgerða á velsæld umhverfisins og fólksins og í framhaldinu leita leiða til að hámarka jákvæð áhrif og lágmarka þau neikvæðu. Í þessu felst meðal annars að meta bein og óbein áhrif á heilsu og líðan hópa fólks almennt og einnig ýmissa undirhópa. Þegar kostnaður er metinn er því ekki fullnægjandi að meta beinan kostnað heldur þarf einnig að taka með í myndina mögulegan óbeinan kostnað fyrir þessa þætti. Við innleiðingu áhrifamata eins og lýðheilsumats hefur reynslan leitt í ljós mikilvægi þess að samræma þau og einfalda eins og hægt er til framkvæmd þeirra verði raunhæf á öllum stigum stjórnsýslu.

Velsældarhagkerfi

regnboginn.png

Hugmyndafræði velsældarhagkerfis (e. wellbeing economy) hefur verið að ryðja sér til rúms á síðustu árum og hefur fengið meðbyr víða. Eitt af því sem þessi nálgun á að leiðrétta er að aukinn hagvöxtur hefur ekki alltaf jákvæð áhrif á samfélagið þar sem hagvöxtur vex með alls konar þáttum sem hafa neikvæð áhrif á heilsu og samfélagið eins og til dæmis með aukinni sölu á áfengi og tóbaki og mengandi iðnaði. Hagfræðilegum mælikvörðum eins og vergri þjóðarframleiðslu var ekki ætlað að mæla velsæld þjóða og hagfræðingurinn sem hannaði þann mælikvarða varaði sérstaklega við því að nota mælikvarðann til þess. Hagvöxtur átti að vera leið að aukinni velsæld sem er lokamarkmið en einhvern veginn hafa hlutirnir þróast þannig að hagvaxtamælingarnar hafa víða orðið að lokamarkmiði stjórnvalda. Hugmyndafræði velsældarhagkerfis er sett fram til að leiðrétta þessa þróun.

Ríkisstjórn Íslands er ein af núverandi velsældarhagkerfisríkisstjórnum (Wellbeing Economy Governments WEGo) ásamt Nýja Sjálandi, Finnlandi, Skotlandi, Wales og Kanada. Velsældarhagkerfi er í grunninn hagkerfi þar sem lykilmælikvarðar á stöðu og árangri eru ekki aðeins hagvöxtur og þjóðarframleiðsla heldur einnig til dæmis mælikvarðar sem snúa að lífsgæðum, hamingju og heilsu íbúa, jöfnuði og jafnrétti, umhverfinu og meta almennt allar þrjár grunnstoðir sjálfbærni í samfélaginu. Í stuttu máli má segja að það sé verið að breyta áherslunni í að horfa fyrst og fremst á magn hagvaxtar yfir í að meta einnig gæði vaxtarins. Markmiðið er sporna gegn misskiptingu og dreifa auði á réttlátan hátt, skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að vellíðan allra samhliða því að vernda jörðina fyrir komandi kynslóðir.

Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hefur í samræmi við þetta bent á mikilvægi þess líta til fleiri mælikvarða en hagvaxtar við mat á framförum. Hún skilgreinir velsældarhagkerfi sem getuna til að skapa svonefndan dyggðahring þar sem vellíðan borgaranna knýr efnahagslega velmegun, stöðugleika og seiglu og öfugt. Stofnunin undirstrikar sérstaklega nauðsyn þess að fólk sé í miðju stefnunnar og hafnar þeirri nálgun að „vaxa fyrst, dreifa og hreinsa upp síðar“, fremur leggja strax í upphafi með sanngirni og sjálfbærni að leiðarljósi.

Hugmyndafræði velsældarhagkerfis leggur upp með þrjá lykilþætti: Mannlega getu; plánetumörk; og jafnræði í dreifingu auðlinda jarðarinnar fyrir bæði núverandi og komandi kynslóðir. Það byrjar á þeirri hugmynd að atvinnulífið eigi fyrst og fremst að þjóna fólki og samfélögum. Nálgun velsældarhagkerfisins getur verið gagnleg til að ramma inn núverandi áætlanir og viðfangsefni. Hún skorar ríkjandi efnahagsmódel, kerfisskipulag og stefnur á hólm og undirstrikar að það er kominn tími til að víkka sjónarhornið og setja velsæld fólks og jarðarinnar í fyrsta sæti.

Staðan á Íslandi

Í nýlegri útgáfu Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, Country deep dive on the well-being economy: Iceland, er fjallað um innleiðingu velsældarhagkerfis á Íslandi og farið yfir helstu áskoranir og tækifæri.1

Forsætisráðuneytið og Hagstofa Íslands standa að útgáfu velsældarvísa.2 Þeim er ætlað að gefa heildarmynd af hagsæld og lífsgæðum landsmanna yfir tíma. Vísarnir eru sem stendur 40 talsins og eru þeir flokkaðir í þrjá undirþætti: Félagslegir mælikvarðar, efnahagslegir mælikvarðar og umhverfislegir mælikvarðar samanber þrjár meginstoðir sjálfbærni ásamt velsældarmælikvarða.

Embætti landlæknis hefur frá árinu 2016 gefið út lýðheilsuvísa.3 Vísarnir eru safn mælikvarða sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar á hverjum tíma á landsvísu, í heilbrigðisumdæmum og eftir því sem gögn leyfa á afmarkaðri svæðum, þar með talið í sveitarfélögum. Líkt og velsældarvísarnir eru lýðheilsuvísar í sífelldri þróun og er meðal annars unnið að því að bæta inn fleiri vísum sem snúa að umhverfi og heilsu.

Heilsueflandi starf á vegum embættis landlæknis

Í tengslum við starf Heilsueflandi samfélags, skóla og vinnustaða, sem embætti landlæknis stýrir í samstarfi við ýmsa hagaðila, er lögð rík áhersla á markvisst, gangadrifið heilsueflingar- og forvarnastarf sem tekur mið af aðstæðum og þörfum hverju sinni. Auk þess að nýta lýðheilsuvísa og önnur gögn, eru til staðar gátlistar fyrir hverja nálgun sem innihalda viðmið um hvaða þáttum er mikilvægt að huga að til að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra í viðeigandi markhópum. Á lokuðu vinnusvæði, heilsueflandi.is, geta þátttakandi sveitarfélög, skólar og vinnustaðir haldið utan um sitt starf, metið stöðu þess og framvindu.

Heimildir

https://www.who.int/europe/publications/i/item/WHO-EURO-2023-7415-47181-69111

https://visar.hagstofa.is/velsaeld/

https://island.is/lydheilsuvisar

https://visar.hagstofa.is/velsaeld/

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir

Sálfræðingur og lýðheilsufræðingur, sviðsstjóri á Lýðheilsusviði hjá embætti landlæknis

Gígja Gunnarsdóttir

Verkefnastjóri heilsueflandi samfélags hjá embætti landlæknis
Nýtt á vefnum