Greinar / 30. október 2018

Líf og heilsa

SÍBS Líf og heilsa er forvarnaverkefni um heilbrigði og lifnaðarhætti þar sem unnið er út frá áhættuþáttum langvinnra, ósmitbærra sjúkdóma. Það er ótvírætt að Líf og heilsa er langstærsta verkefni SÍBS utan heilbrigðisþjónustu, enda hafa yfir 6500 einstaklingar þegið ókeypis mælingu á blóðþrýstingi, blóðfitu, blóðsykri, súrefnismettun og fleiri þáttum, auk skimunar fyrir áhættuþáttum frá því verkefnið hóf göngu sína í október árið 2016.

Saga heilsufarsmælinga SÍBS byrjar þó ekki þar, heldur hófst hún árið 2000 þegar SÍBS slóst í för með Hjartaheillum í ýmsum ferðum þeirra um landið þar sem kringum 10 þúsund manns þáðu ókeypis mælingu á blóðþrýstingi, blóðfitu, súrefnismettun og púlsi. SÍBS Líf og heilsa byggir því á langri sögu þótt verkefnið hafi þróast hratt undanfarin tvö ár. Hjartaheill er enn lykilsamstarfsaðili SÍBS í verkefninu, en auk þeirra hafa bæst við Samtök lungnasjúklinga og Samtök sykursjúkra.

Í október árið 2017 urðu þau vatnaskil í sögu Líf og heilsa að SÍBS1 hóf að bjóða einstaklingum sem þáðu mælingu að skrá niðurstöður sínar í Heilsugátt SÍBS að veittu upplýstu samþykki, og var vinnslan tilkynnt til Persónuverndar. Frá sama tíma var byrjað að bjóða einstaklingum að taka þátt í könnun um heilsufar og lifnaðarhætti í beinu framhaldi af heilsufarsmælingunni. Með könnuninni bættist við mælingarnar mat á ýmsum líkamlegum, andlegum og félagslegum þáttum sem máli skipta þegar heilsan er metin, en þannig fæst fyllri mynd af heilsufari heldur en með mælingunum einum.

Með innskráningu gegnum auðkennisþjónustu Þjóðskrár Íslands, island.is, getur hver sá sem tekið hefur þátt í SÍBS Líf og heilsa skoðað niðurstöður sínar í nafnlausum samanburði við aðra sem farið hafa í heilsufarsmælingu hjá SÍBS. Þannig gefst einstaklingnum verðmætt tækifæri til að sjá hvar helst megi bæta úr. Næstu skref í þróun Heilsugáttarinnar eru að tengja niðurstöðurnar við markvissar leiðbeiningar í öðrum gagnabönkum, svo sem á vef Embættis landlæknis og Heilsgæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, heilsuvera.is.

Nýjasti vaxtarbroddurinn innan SÍBS Líf og heilsa er svo ný námskrá og námsefni fyrir lífsstílsþjálfun á breiðum grunni, sem ætluð er þeim sem vilja bæta lifnaðarhætti sína. Námskráin hefur hlotið vottun Menntamálastofnunar sem viðurkennt efni í framhaldsfræðslu, auk þess sem SÍBS býður þjálfaranámskeið og vottun fyrir aðila sem vilja bjóða almenningi námskeið og þjálfun á sviði heilbrigðis og lífsstíls. Með slíkri vottun geta þessir aðilar farið með námsefni Líf og heilsa lífsstílsþjálfunar og boðið einstaklingum slíka þjálfun, jafnvel samtvinnað við aðra heilsutengda starfsemi eða námskeið. Tengil á námskrána og námsefni má finna á vef verkefnisins sibs.is/lifogheilsa.

Heilsufarsmælingar SÍBS Líf og heilsa eru oftast framkvæmdar í einum landshluta í senn, þar sem teymi á vegum SÍBS og samstarfsaðila fer um viðkomandi svæði og heimsækir alla þéttbýliskjarna. Mælingaferðirnar eru skipulagðar í þéttu samstarfi við heilsugæsluna og sveitarfélögin, en góð samvinna við þessa aðila er einkar mikilvægt til að verkefnið takist vel. Heilbrigðisstofnanir allra heilbrigðisumdæma hafa nú þegar átt í samstarfi við SÍBS Líf og heilsa og í flestum tilfellum hafa þær lagt verkefninu til húsnæði í heilsugæslustöðvum eða heilsugæsluseljum, auk þess að leggja verkefninu til hjúkrunarfræðing sem er til staðar meðan á mælingunum stendur og getur tekið við fólki sem mælist með há gildi til frekari skoðunar.

Gott samstarf við heilsugæsluna er verkefninu einkar mikilvægt, því SÍBS Líf og heilsa er ekki heilbrigðisþjónusta heldur jafningjafræðsla og grasrótarstarf, sem reiðir sig alfarið á þétta samvinnu við opinbera heilbrigðiskerfið. Þá er ótalinn þáttur sveitarfélaganna sem stutt hafa verkefnið með framlögum til Máttarstólpa SÍBS, stuðningshóps fræðslu- og forvarnastarfs hjá SÍBS. Síðast en ekki síst er mikilvægt að eiga gott samstarf við fjölmiðla og aðra fréttamiðla á hverjum stað því jákvætt umtal skapar hópefli og eykur áhuga fólks á að mæta og þiggja ókeypis heilsufarsmælingu og vonandi sinna heilsunni enn betur í framhaldinu.

Fjárhagslegur grundvöllur SÍBS Líf og heilsa felst í aðkomu fjölmargra aðila, og er þá fyrst að telja Máttarstólpa SÍBS sem stutt hafa verkefnið frá upphafi. Þátttaka almennings og fyrirtækja í Máttarstólpum er því lykilatriði við fjármögnun verkefnisins. Þá hefur Lýðheilsusjóður stutt verkefnið frá árinu 2016, en sjóðurinn er fjármagnaður á fjárlögum og rekinn af Embætti landlæknis. Stuðningur Lýðheilsusjóðs er einnig mikilvæg viðurkenning á gildi verkefnisins fyrir land og þjóð.

Framtíðarþróun SÍBS Líf og heilsa felst í að styrkja og efla núverandi lykilstoðir verkefnisins – heilsufarsmælingarnar, könnun um heilsufar og lifnaðarhætti, og tengingar við úrræði. Efst á óskalistanum er samningur við ríkið um framkvæmd mælinganna þannig að til komi greiðsla fyrir hvern mældan einstakling, en samningar um skimun og greiningu hafa þegar verið gerðir við aðra aðila.

Hvað rafrænan hluta SÍBS Líf og heilsa varðar – könnun um heilsufar og lifnaðarhætti, úrvinnslu og úrræðaleit – þá felast gríðarleg tækifæri í aðferðum rafrænnar heilbrigðisþjónustu, ekki síst á sviði forvarna. Langvinnir og lífsstílstengdir sjúkdómar fyrirhitta stóran hluta þjóðarinnar á lífsleiðinni, og rafræn þjónusta er hagkvæm leið til að ná til fjöldans. Markviss líftímaþjónusta á sviði forvarna byggir á sífelldri hringrás athugunar, inngrips og endurgjafar. Efling Heilsugáttar SÍBS er lykilatriði í að tapa ekki sambandi við einstakling sem einu sinni hefur komið í mælingu, heldur halda utan um hann og endurmeta þarfir hans með reglulegu millibili.

SÍBS Líf og heilsa er hannað til að ná utan um sem flest heilsutengd málefni sem varða einstaklinginn, utan hins formlega heilbrigðiskerfis. Núverandi þjónustuframboð Líf og heilsa er aðeins byrjunin, en SÍBS þarf aukinn stuðning til að hrinda þessari sýn í framkvæmd. Þar er lykilatriði að til komi myndarlegur stuðningur frá hinu opinbera, því hver króna sem varið er til lýðheilsumála skilar sér áttfalt til baka til samfélagsins samkvæmt stórri yfirlitsrannsókn frá 2017 um áhrif lýðheilsuinngripa í þróuðum ríkjum með almennar sjúkratryggingar.2

Kristján.JPG

Mannár og milljarðar

Langvinnir, ósmitbærir sjúkdómar standa í dag fyrir 9 af hverjum 10 dauðsföllum og 88% af heildarskaða samfélagsins af völdum sjúkdóma og dauða, mælt í „glötuðum góðum æviárum“. Yfir 80% af heilsufarsskaða vegna hjarta- og æðasjúkdóma og um 44% af heilsufarsskaða vegna krabbameina má rekja til áhættuþátta sem unnt er að hafa áhrif á. Það sama á við um stoðkerfisraskanir og geðraskanir, þar sem rekja má 11% og 13% heilsufarsskaðans til þekktra áhættuþátta.3

Mælikvarðinn glötuð góð æviár er skilgreindur af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) sem samtala árafjölda sem tapast vegna ótímabærs dauða og ára sem varið er við sjúkdóm eða skerðingu, vigtað eftir alvarleika.4 Sá árafjöldi sem þannig tapast Íslendingum vegna heilsuleysis og ótímabærs dauða nam 71.519 mannárum árið 2016, sem margfaldað með kr. 7461 þús. vergri landsframleiðslu á mann sama ár,5 sýnir að árlega glati samfélagið 534 milljörðum króna vegna heilsufarsskaða. Þetta samsvarar rúmlega 21% af landsframleiðslunni í heild árið 2016 – að ótöldum þeim mannlega harmleik sem þarna liggur að baki.

Þótt auðvitað verði seint hægt að útrýma sjúkdómum og koma í veg fyrir ótímabæran dauða er engu að síður af svo miklu að taka, að jafnvel þótt aðeins tækist að minnka heilsufarsskaðann um 1% samsvarar það yfir 5 milljörðum króna mælt í vergri landsframleiðslu. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2019 nema bein framlög ríkisins til forvarna á sviði lýðheilsu utan heilsugæslu hins vegar aðeins 326 milljónum króna til Krabbameinsfélags Íslands og 253 milljónum til Lýðheilsusjóðs, auk þess sem telja má velferðarstyrki á sviði heilbrigðismála með sínar 79 milljónir að nokkru leyti til forvarna á sviði lýðheilsu utan heilsugæslu. Á sama tíma er yfir 230 milljörðum varið í rekstur heilbrigðiskerfisins í heild6 – næstum alfarið í viðbrögð þegar skaðinn er skeður.

Loks ber að nefna að Íslendingar verja lægra hlutfalli landsframleiðslu í heilbrigðisþjónustu en meðaltal ríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), eða 8,6% árið 2016. Af Vestur-Evrópuþjóðum verja einungis Grikkir og Írar minna til heilbrigðisþjónustu en Íslendingar, og aðrar Norðurlandaþjóðir nota á bilinu 8–28% hærra hlutfall landsframleiðslu sinni í þennan málaflokk en við.7

Við þetta verður ekki unað til lengdar, enda virðist meðalævi Íslendinga vera hætt að lengjast8 og jafnvel aðeins spurning um tíma hvenær hún fer að styttast, líkt og gerst hefur á síðustu árum hjá bæði Bretum9 og Bandaríkjamönnum.10 Við Íslendingar erum þó enn í 6. sæti hvað varðar lífslíkur11 , en það er hollt að hafa það í huga að „við“ í þessu tilfelli er fólk fætt kringum 1920 og fram yfir 1930, sem togar meðaltalið upp. Það er óskrifað blað hvernig yngri kynslóðum tekst til þegar röðin kemur að þeim.

Nánar um SÍBS Líf og heilsa

Ferlið við framkvæmd SÍBS Líf og heilsa felst í fjórum meginþáttum:

 1. Vitundarvakning
 2. Skimun
 3. Inngrip
 4. Endurgjöf

Fyrsti þátturinn fær númerið núll vegna þess að vitundarvakning um heilsuhegðun og hvers vegna hún skiptir máli þarf sífellt að vera í gangi, hvort sem unnið er við aðra þætti eða ekki þá stundina. Þættir 1, 2 og 3 fara síðan í hringi, þannig að hægt sé að fylgja einstaklingnum eftir gegnum ævina og ýta honum hægt og rólega í átt til betri heilsu.

GLötuðgóð.JPG

Vitundarvakning

Til að vitundarvakning um heilsuhegðun hafi áhrif, þarf einstaklingurinn að skilja um hvað málið snýst. Hann þarf að hafa „heilsulæsi“. Heilsulæsi felst í grófum dráttum í getu einstaklingsins til að nálgast, skilja, og hagnýta sér upplýsingar til að stuðla að góðri heilsu.12 Í hugtakinu felst meira en að geta lesið bækling, bókað tíma hjá heilbrigðisstarfsmanni, skilja innihaldslýsingar eða fara eftir leiðbeiningum: Heilsulæsi nær út fyrir einstaklinginn og fjölskylduna og á jafnt við um starfsumhverfi, félagslegt umhverfi og þjóðfélagið allt. Allir efnahagslegir, félagslegir og umhverfislegir þættir eru undir, sem þýðir að ábyrgðin á heilsulæsi og heilsuhegðun er ekki aðeins einstaklingsins sjálfs heldur einnig samfélagsins.

SÍBS vinnur að almennri vitundarvakningu um heilbrigði með öllum tiltækum ráðum. Stöðug vinna á sér stað gegnum fjölmiðla og samfélagsmiðla þar sem heilsutengdum upplýsingum er komið á framfæri – og ekki síður upplýsingum um hvað heilsuhegðun er og hvers vegna heilsutengdar upplýsingar skipta máli.

Ábyrgð einstaklingsins felst í að skilja og vera meðvitaður um hvað hefur góð áhrif á líkamlega, andlega og félagslega heilsu. Sá sem er læs á eigið heilbrigði veit hvað hefur góð áhrif á heilsuna og getur lesið í ýmislegt sem á vegi hans verður og greint á milli þess sem er hollt og hins sem raskar ró hans líkamlega eða andlega. Heilsulæsi byggist þannig á því að skilja, ráða við og sjá tilganginn með hlutunum og hvernig þeir tengjast vellíðan. Með því að horfa á atburði hversdagslífsins með gleraugum heilbrigðisins höfum við skarpari sýn á leiðirnar til heilbrigðis.13

Ábyrgð fyrirtækja og félagasamtaka felst ekki síst í að styðja undir heilsuhegðun einstaklinga með ýmsu móti, sama hvort það er að hafa læsta hjólageymslu á vinnustaðnum, setja yfirbyggð kerruskýli við leikskólana, leggja göngustíga, fjarlægja sælgætissjálfsala úr íþróttamiðstöðvum og hætta að nefna íþróttamót eftir gosi og skyndibitum. Þarna er mikið verk óunnið og erfitt fyrir einn aðila utan stjórnkerfisins að ætla sér að hafa áhrif á þetta allt heldur þarf pólitíska stefnumótun til.

Ábyrgð stjórnvalda kristallast í að efla stöðu forvarna innan sem utan heilbrigðiskerfisins. Ákjósanleg leið hlýtur að vera að gera lýðheilsu að föstum hluta stjórnsýslunnar almennt. Góð aðferð til þess er að koma á formlegu ferli um lýðheilsumat, sem er í raun þegar skilgreint í lögum um mat á umhverfisáhrifum14 þar sem hugtakið umhverfi innifelur samfélag, heilbrigði og atvinnu engu síður en landslag og lífríki.

Í Lýðheilsustefnu velferðarráðuneytisins frá 2016 kemur fram að Embætti landlæknis muni þróa og staðfæra lýðheilsumat fyrir Ísland um ferli til að leggja mat á bein og óbein áhrif stjórnsýsluákvarðana og lagasetningar á lýðheilsu.15 Reyndar er brýnt að slík kvöð um lýðheilsumat nái út fyrir stjórnsýsluna og löggjafann, og taki einnig til meiri háttar aðgerða lögaðila og einstaklinga sem líkleg eru til að hafa áhrif á lýðheilsu – rétt eins og umhverfismat sem nú er orðið hefðbundið og flestir taka sem sjálfsögðum hlut. Lýðheilsumat má jafnvel fella undir og gera hluta af umhverfismati og samnýta þannig þau ferli og stofnanir sem fyrir eru.

Loks felst mikilvægur hluti vitundarvakningar SÍBS í að gera heilbrigðisyfirvöldum og stjórnvöldum ljóst hver áhrif verkefnisins Líf og heilsa eru. Þetta má gera gegnum hefðbundna skýrslugjöf og fundi, en hluti af framtíðarþróun Heilsugáttar SÍBS felst í þróun á lifandi gagnagátt sem mun geta gefið lifandi sýn á undirliggjandi, ópersónugreinanlegar upplýsingar. Þannig mun verða hægt að skoða stöðu þjóðar svart á hvítu og draga ályktanir og velja heilsueflingarverkefni í framhaldi af því. Núverandi samstarf við heilbrigðisstofnanir og sveitarfélög, sem þegar hefur verið lýst, er byrjunin á þessu ferli.

Skimun

Heilsufarsmæling SÍBS Líf og heilsa felst í að almenningi er boðin ókeypis mæling á blóðþrýstingi, púlsi, blóðfitu (heildarkólesteróli), blóðsykri (glúkósa), súrefnismettun (SpO2), mittismáli og gripstyrk, auk þess sem spurt er um aldur og kyn, hæð og þyngd, lyfjanotkun og fleiri þætti. Einnig er í boði mæling á hámarksfráblæstri (PEF) fyrir þá sem ástæða þykir til.

Frá október 2017 hefur verið valfrjálst og háð undirrituðu, upplýstu samþykki, að láta skrá niðurstöður mælinganna rafrænt undir kennitölu í Heilsugátt SÍBS, og hefur þessi vinnsla verið tilkynnt til Persónuverndar. Einnig er í boði að skrá upplýsingarnar rafrænt á ópersónugreinanlegan hátt, og að sjálfsögðu er einnig í boði að skrá engar upplýsingar rafrænt heldur einungis á blað sem viðkomandi tekur með sér.

LH.JPG

Með innskráningu gegnum auðkennisþjónustu Þjóðskrár Íslands, island.is, getur hver sá sem látið hefur skrá upplýsingar sínar í Heilsugátt SÍBS skoðað niðurstöðurnar í nafnlausum samanburði við aðra sem farið hafa í heilsufarsmælingu SÍBS Líf og heilsa og sjá hvar helst má bæta úr. Líkt og áður segir eru næstu skref í þróun Heilsugáttarinnar að tengja niðurstöðurnar við markvissar leiðbeiningar í öðrum gagnabönkum, svo sem á vef Embætti landlæknis og Heilsgæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, heilsuvera.is.

Eðli málsins samkvæmt er hentugast að framkvæma heilsufarsmælingar Líf og heilsa á einu landsvæði í einu, og heimsækja þá eins marga þéttbýlisstaði og unnt er í hverri ferð. Slíkar heimsóknir eru undirbúnar vandlega og kynntar í fjölmiðlum á staðnum, fréttasíðum sveitarfélaga, samfélagsmiðlum og með dreifibréfi sem fer í hvert hús. Árangurinn lætur heldur ekki á sér standa, og í smærri byggðarlögum mætir um helmingur fullorðinna íbúa í mælingu en í meðalstórum byggðarlögum kringum tíundi hluti.

Góð samvinna við heilsugæsluna og sveitarfélögin er einkar mikilvæg, og hafa heilbrigðisstofnanir allra heilbrigðisumdæma átt í samstarfi við SÍBS Líf og heilsa. Í flestum tilfellum hafa þær lagt verkefninu til húsnæði í heilsugæslustöðvum eða heilsugæsluseljum, auk þess að leggja verkefninu til hjúkrunarfræðing sem er til staðar meðan á mælingunum stendur og getur tekið við fólki sem mælist með há gildi til frekari skoðunar.

Stór hluti þeirra sem mæta í mælingu eru hvorki undir eftirliti læknis né þekkja gildin sín, en lýsandi tölfræði um niðurstöður er ekki hluti af þessari grein og verður því ekki tíunduð frekar. Dæmigerð útkoma er þó að einn af hverjum fimm sem skimaðir eru þurfi frekari skoðunar við, og því miður reynast áhyggjurnar oftast á rökum reistar þegar einstaklingar hafa síðan verið endurmetnir af heilbrigðisstarfsmönnum.

Auk framangreindra mælinga á blóðgildum og fleiri þáttum, býðst þátttakendum í skimuninni að svara könnun um heilsufar og lifnaðarhætti. Niðurstöðurnar úr könnuninni má sjá ásamt niðurstöðum mælinganna í Heilsugátt SÍBS, í nafnlausum samanburði við alla aðra sem komið hefur í mælingu til SÍBS, sem og við eigin aldurshóp og kyn. Notast er við spurningalistann HAL-100 sem var settur saman árin 2016–2018 af Guðmundi Löve undir höfundarrétti þar sem það á við.16 HAL-100 byggir á stigveldisskipulagi (e. hierarchical structure) þar sem auk mælinganna er spurt um heilsutengda þætti, líkamlega, andlega og félagslega þætti, bakgrunn, starfstengda og samfélagslega þætti.

Helstu fyrirmyndir að framsetningu, flokkaskiptingum og spurningum HAL-100 eru eftirfarandi: International Classification of Functioning, Disability and Health (ICF),17 World Health Organisation; International Classification of Diseases (ICD),18 World Health Organisation; National Health and Nutrition Examination Survey (NHANES),19 Centers for Disease Control and Prevention; European Social Survey (ESS),20 ESS-ERIChttp://www.who.int/classifications/icf/en/ (European Research Infrastructure Consortium); General Social Survey (GSS),21 National Opinion Research Center (NORC), University of Chicago; Medical Outcomes Study (MOS),22 RAND Health, RAND Corporation; NHS OneYou, How Are You Quiz,23 Public Health England; Nordic Monitoring System,24 Nordic Council of Ministers, Nordic Council of Ministers Secretariat; European Health Interview Survey (EHIS),25 Eurostat; Heilsa og líðan Íslendinga,26 Embætti landlæknis.

Stuðst er við staðlaða kvarða til skimunar fyrir áfengisvanda (AUDIT-C27), kvíða (GAD-7) og þunglyndi (PHQ-928), streitu (PSS-1029), lífsánægju (SWLS-530) og einmanaleika (ULS-831). Spurt er um starfstengda þætti í samræmi við QPS Nordic 34+32 að hluta eða í heild, auk þess sem bakgrunnsbreytur fylgja að mestu spurningum úr rannsókninni Heilsa og líðan Íslendinga frá Embætti landlæknis. Spurningar um upplifaða heilsu, greiningar, einkenni, verki, fjölskyldusögu, lyfjanotkun og almenna virkni fylgja einnig að svo miklu leyti sem verða má fyrirmynd Heilsa og líðan. Þá fylgja spurningar um hreyfingu, mataræði, hreinlæti, tóbaksnotkun og svefn Heilsa og líðan að nokkru leyti, þótt þessar spurningar hafi þar tekið nokkrum breytingum milli útgáfa.

Inngrip

SÍBS Líf og heilsa er samsafn lýðheilsuaðgerða og því er mikilvægt að sinna þátttakendum áfram þegar vitundarvakningu, skimun og niðurstöðum sleppir. Heilsugátt SÍBS er kjörið tæki til þess að fylgja þessum hópum eftir inn í framtíðina með aðferðum rafrænnar heibrigðisþjónustu.

Heilsugátt SÍBS birtir nú þegar samantekið skor á mörgum sviðum sem gerir einstaklingnum kleift að meta stöðu sína, allt frá andlegum þáttum yfir í mataræði og hreyfingu. Sumir þessir þættir eru mældir samkvæmt alþjóðlegum kvörðum, svo sem áfengisnotkun, kvíði, þunglyndi, streita, lífsánægja og einmanaleiki sem greint er frá hér að framan. Notkun slíkra kvarða gerir niðurstöður SÍBS Líf og heilsa einnig samanburðarhæfar við rannsóknir sem notast hafa við þessa kvarða.

Til viðbótar við hina stöðluðu kvarða hafa verið útbúnir breytilegir, einvíðir kvarðar fyrir hreyfingu og mataræði sem byggja á þáttagreiningu ópersónugreinanlegra svara við undirliggjandi spurningum. Öfugt við stöðluðu kvarðana eru slíkir kvarðar breytingum háðir eftir því sem frekari gögn safnast, spurningarnar breytast eða aðferðir þáttagreiningarinnar breytast. Þessir breytilegu kvarðar hafa þann kost að gefa sjálfkrafa innbyrðis samanburðarhæft viðmið af matar- eða hreyfivenjum einstaklingins miðað við þann hóp sem svarað hefur undirliggjandi spurningum. Þannig getur Heilsugáttin staðsett einstaklinginn í þessum viðmiðunarhópi og gefið honum a.m.k. hlutfallslega mynd af stöðu sinni miðað við hópinn. Seinna má svo þróa staðlaða kvarða upp úr þessum gögnum.

Næstu skref í framþróun Heilsugáttarinnar eru að tengja einstaklingsbundnar niðurstöður við markvissar leiðbeiningar fengnar úr öðrum gagnabönkum, svo sem heilsuvera.is. Þannig má sjá fyrir sér að einstaklingurinn geti til dæmis fengið út úr Heilsugáttinni helstu þrjú atriðin sem hann eða hún þyrfti að fást við til að bæta heilsuna, og fá jafnframt leiðbeiningar um hvað hægt sé að gera með gögnum frá heilsuvera.is. Margir fleiri möguleikar eru í boði en þetta er næsta skref í framþróun gáttarinnar eins og stendur.

Annað mikilvægt inngrip er SÍBS Líf og heilsa lífsstílsþjálfun, sem tæpt var á í inngangi greinarinnar. Lífsstílsþjálfunin byggir á hinu bandaríska National Diabetes Prevention Program (NDPP)33 sem stýrt er af Smitsjúkdóma- og forvarnarstofnun Bandaríkjanna (CDC).34 Námsefni og kennsluleiðbeiningar hafa verið þýddar og aðlagaðar að ráðleggingum Embættis landlæknis um mataræði og hreyfingu. Við aðlögun var einnig horft til annarra langvinnra sjúkdóma svo sem hjarta- og æðasjúkdóma auk þess sem þjálfunin getur dregið úr einkennum kvíða- og þunglyndis.

Lífsstílsþjálfunin er hópþjálfun sem byggir á vikri þátttöku samhliða fræðslu. Lífsstílsþjálfun nær yfir 12 mánuði, grunnþjálfunin er 16 skipti í hópþjálfun og eftirfylgni er 10 skipti. Gert er ráð fyrir vikulegri þjálfun til að byrja með og á 2–4 vikna fresti í kjölfarið.

Námskráin „Líf og heilsa lífsstílsþjálfun“ var vottuð sem námssskrá í framhaldsfræðslu af Menntamálastofnun í maí 2018.35 Námsskráin var unnin í samstarfi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Austurbrú. Aðilar sem vilja bjóða hópþjálfun byggða á SÍBS Líf og heilsa lífsstílsþjálfun þurfa að hafa lokið leiðbeinendaþjálfun hjá SÍBS. Tengil á námskrána má finna á vef verkefnisins sibs.is/lifogheilsa.

SÍBS Líf og heilsa fékk nýverið veglegan styrk frá Erasmus+ til að yfirfæra og framkvæma aðferðir verkefnisins og lífsstílsþjálfunarinnar í Noregi og á Ítalíu.36 Ef vel tekst til verða því fyrstu skrefin í innleiðingu aðferðafræði SÍBS Líf og heilsa utan landsteinanna stigin árin 2019 og 2020.

Endurgjöf

SÍBS Líf og heilsa í núverandi mynd er rétt að slíta barnsskónum og fyrstu einstaklingarnir sem þegið hafa heilsufarsmælingu og tekið þátt í spurningakönnun um heilbrigði og lifnaðarhætti fara senn að koma í mælingu á ný þegar verkefnateymið verður aftur á ferðinni í viðkomandi byggðarlagi.

Heilsugátt SÍBS styður nú þegar langsniðssamanburð (samanburð yfir tíma), svo einstaklingar geta séð niðurstöður sínar breytast milli ára ef þeir koma aftur í mælingu síðar. Einnig breytist auðvitað hlutfallsleg staðsetning einstaklinga í samanburði við heildina eða viðmiðunarhópa eftir því sem fleiri taka þátt og samsetning hópanna breytist. Heilsugátt SÍBS býður einnig þann möguleika að haft sé samband við einstaklinga sem veitt hafa til þess heimild, og gera þeim viðvart um að heilsufarsmæling sé á ný í boði þar sem viðkomandi býr, eða til að hvetja einstaklinginn til að fara á ný inn í könnunarhlutann og svara sjálf/ur öðrum þáttum en mælingunum. Hvort tveggja á eftir að skoða betur eftir því sem fram vindur. Einnig má hugsa sér aðrar tegundir af endurgjöf frá Heilsugáttinni, til dæmis að láta þátttakendur vita þegar tölfræði undirliggjandi þýðis þeirra sem tekið hafa þátt í SÍBS Líf og heilsa breytist, sem aftur hefur áhrif á samanburðarniðurstöður einstaklingsins.

Loks gæti verið að það kynni að gagnast innan heilbrigðiskerfisins að einstaklingar hefðu kost á að heimila að gögn þeirra úr Heilsugátt SÍBS yrðu afrituð inn í rafræna sjúkraskrá, Saga-kerfið,37 sem notað er af flestum heilbrigðisstofnunum og heilsugæslustöðvum landsins. Einnig mætti skoða að tengja innskráningu í Heilsugátt SÍBS við vefinn heilsuvera.is, þannig að annað hvort opnist Heilsugáttin sjálf inni í Heilsuveru og/eða að upplýsingar úr Heilsugáttinni birtist þar.

Lokaorð

Framtíð SÍBS og verkefnisins Líf og heilsa er björt af þeirri einföldu ástæðu að fátt annað skiptir okkur máli en það sem heilsan leyfir okkur að njóta. Til lengri framtíðar má jafnvel færa að því rök að það eina sem hægt sé að fjárfesta nánast endalaust í almenningi til góðs, sé einmitt heilbrigði.

Við þurfum að hætta að hugsa um heilbrigðisþjónustu sem eins konar viðbragð eða viðgerð þegar eitthvað hefur bilað, heldur sem samhangandi ferli frá heilbrigði til sjúkdóms og til baka aftur. Þess vegna þarf heilsa einnig að koma til kasta annarra stofnana samfélagsins en aðeins heilbrigðisgeirans.

Jákvæð skref hafa verið stigin í verkefnum á borð við heilsueflandi leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla og heilsueflandi samfélag, en þörf er á miklu meiri krafti í að ná til þess stóra hóps sem er kominn út úr skólakerfinu en er ekki kominn í markvisst starf sem beinist að öldruðum. Þarna er sannarlega þögli meirihlutinn á ferð, sá hinn sami og er árum og áratugum saman að þróa með sér langvinna sjúkdóma sem draga smám saman úr lífsgæðum og geta valdið ótímabærum dauða.

Heilsuhegðun er menningarlegt fyrirbæri. Hvernig við hegðum okkur gagnvart eigin heilsu þarf að verða jafn ígrundað og hvernig við hegðum okkur út á við í siðuðu samfélagi. Ábyrgðin á eigin heilsu liggur fyrst og fremst hjá okkur sjálfum.

Heimildir

 1. https://www.sibs.is/heilsugatt.
 2. Masters R, Anwar E, Collins B, et al. Return on investment of public health interventions: a systematic review. J Epidemiol Community Health. 2017;71:827-834. http://dx.doi.org/10.1136/jech-2016-208141.
 3. Institute for Health Metrics and Evaluation (IHME). GBD Compare Data Visualization. Seattle, WA: IHME, University of Washington, 2018. https:// vizhub.healthdata.org/gbd-compare/.
 4. World Health Organization (WHO). Metrics: Disability-Adjusted Life Year (DALY). World Health Organization (WHO), 2018. http://www.who.int/ healthinfo/global_burden_disease/metrics_daly/en/.
 5. Hagstofa Íslands. Landsframleiðslan á mann 1980-2017. Hagstofa Íslands, 2018. https://hagstofa.is/talnaefni/efnahagur/thjodhagsreikningar/ landsframleidsla/.
 6. Alþingi. Frumvarp til fjárlaga 2019. Alþingi 2019. https://www.althingi.is/ altext/pdf/149/s/0001.pdf.
 7. OECD. Health at a Glance 2017: OECD Indicators. OECD Publishing, Paris, 2017. http://dx.doi.org/10.1787/health_glance-2017-en.
 8. https://hagstofa.is/utgafur/frettasafn/mannfjoldi/danir-2017/.
 9. https://www.ons.gov.uk/peoplepopulationandcommunity/birthsdeathsandmarriages/lifeexpectancies/bulletins/nationallifetablesunitedkingdom/2015to2017.
 10. Kochanek KD, Murphy SL, Xu JQ, Arias E. Mortality in the United States, 2016. NCHS Data Brief, no 293. Hyattsville, MD: National Center for Health Statistics. 2017.
 11. OECD (2017), Health at a Glance 2017: OECD Indicators, OECD Publishing, Paris. http://dx.doi.org/10.1787/health_glance-2017-en.
 12. 1Nutbeam, Don. 1998. „Health promotion glossary.“ Health Promotion International, 13 (4): 349-364. doi:10.1093/heapro/13.4.349.
 13. Sigrún Gunnarsdóttir. 2002. „Að lesa í eigin heilbrigði – heilsulæsi“. Morgunblaðið, 23. nóvember 2002.
 14. https://www.althingi.is/lagas/nuna/2000106.html.
 15. Velferðarráðuneytið. 2016. Lýðheilsustefna og aðgerðaráætlun sem stuðlar að heilsueflandi samfélagi. Velferðarráðuneytið.
 16. http://www.hal-si.org/.
 17. http://www.who.int/classifications/icf/en/.
 18. http://www.who.int/classifications/icd/en/.
 19. https://www.cdc.gov/nchs/nhanes/index.htm.
 20. https://www.europeansocialsurvey.org.
 21. http://gss.norc.org/.
 22. https://www.rand.org/health/surveys_tools/mos.html.
 23. https://www.nhs.uk/oneyou/hay.
 24. http://norden.diva-portal.org/smash/record.jsf?pid=diva2%3A1066553&dswid=5832.
 25. https://ec.europa.eu/eurostat/web/microdata/european-health-interview-survey.
 26. https://www.landlaeknir.is/tolfraedi-og-rannsoknir/rannsoknir/heilsa-og- -lidan-islendinga/.
 27. Bohn, MJ; Babor, TF; Kranzler, HR (July 1995). „The Alcohol Use Disorders Identification Test (AUDIT): validation of a screening instrument for use in medical settings“. Journal of studies on alcohol. 56 (4): 423–32. doi:10.15288/jsa.1995.56.423. PMID 7674678.
 28. https://www.phqscreeners.com.
 29. http://www.psy.cmu.edu/~scohen/PSS.html.
 30. http://labs.psychology.illinois.edu/~ediener/SWLS.html.
 31. Hays, Ronald & Robin DiMatteo, M. (1987). A Short-Form Measure of Loneliness. Journal of personality assessment. 51. 69-81. 10.1207/ s15327752jpa5101_6.
 32. https://www.qps-nordic.org.
 33. https://www.cdc.gov/diabetes/prevention/lifestyle-program/curriculum. html.
 34. https://www.cdc.gov/.
 35. http://frae.is/wp-content/uploads/2018/06/L%C3%ADf-og-heilsa- -n%C3%A1mskr%C3%A1-%C3%BAtlit-%C3%BAtg.1-2018-1.pdf.
 36. https://www.erasmusplus.is/um/frettir/uthlutun-styrkja-i-flokki-fjolthjodlegra-samstarfsverkefna-erasmus-arid-2018.
 37. https://www.erasmusplus.is/um/frettir/uthlutun-styrkja-i-flokki-fjolthjodlegra-samstarfsverkefna-erasmus-arid-2018.

Guðmundur Löve

Framkvæmdastjóri SÍBS

Nýtt á vefnum