Greinar / 5. nóvember 2020

Holdafar og heilsa

Holdafar og líkamsbygging er eðlilega mjög mismunandi milli einstaklinga. Samt virðist vera fyrir hendi sú krafa að allir geti verið steyptir í sama mót og að holdafar okkar sé eitthvað sem við stýrum alfarið sjálf. Samfélagsumræða sem hampar grönnum líkömum og talar niður til einstaklinga í ofþyngd eða offitu er því miður algeng. Umræða um samband offitu og heilsubrests hefur stundum tekið á sig mynd hræðsluáróðurs. Háværar raddir heyrast líka gegn umræðu um tengsl holdafars og heilsu og enn eru til einstaklingar sem telja að sjúkdómurinn offita sé ekki til. Því er ekki að undra að umræða um þyngd einstaklinga geti verið vandasöm.

Ekki er um það deilt að þjóðin hefur þyngst verulega undanfarna áratugi. Mismunandi skoðanir eru hinsvegar á því hvernig bregðast skuli við. Sumir telja að þyngd sé einkamál hvers einstaklings og á hans ábyrgð, aðrir vilja blása í lúðra lýðheilsunálgunar og enn aðrir telja að heilbrigðiskerfið sé staðurinn til að skoða málið betur. Sjónarhornin eru vissulega mörg en til að fá skynsama niðurstöðu þarf að huga að heildarmyndinni sem er margþætt og flókin.

Hvað er offita?

Hugtakið offita er gildishlaðið og víða um heim ber á fordómum gagnvart einstaklingum með offitu. Fordómar eru ríkjandi eins og nafnið ber með sér, felldur er dómur án þess að allar forsendur séu metnar. Einstaklingar með offitu finna jafnvel fyrir fordómum innan heilbrigðiskerfisins sem ætti að vera þeirra öruggasti staður og upplifa margir að ekki sé hlustað á erindi þeirra þar sem þyngdin er talin vera orsök ýmissa einkenna og kvilla sem upp koma þó í raun sé ekki tenging þar á milli. Því þó offita geti vissulega tengst vanheilsu þá er ekki öll vanheilsa henni að kenna.

priscilla-du-preez-ePTDfUW_UgA-unsplash.jpg

Líkamsþyngdarstuðullinn

Líkamsþyndarstuðull hefur undanfarna áratugi verið áberandi í umræðu um tengsl holdafars og heilsu. Þessi stuðull mælir þyngd í kílógrömmum deilt með hæð í metrum í öðru veldi (kg/m2). Hann var upphaflega settur fram til að fylgjast með þróun mála og bera saman hópa og gegnir því hlutverki með ágætum. Með þessari nálgun hefur verið sett fram að á ákveðnu bili, sem nefnt er kjörþyngd, eru minnstar líkur á dauðsföllum. Þessi tenging er sterk bæði hvað varðar auknar líkur á dauðsföllum þegar stuðullinn er of lágur og of hár miðað við kjörþyngdina en mikilvægt er að átta sig á að stuðullinn felur ekki í sér orsakatengsl, eingöngu fylgni.

Líkamsþyngdarstuðullinn er hins vegar ekki góður til að meta tengsl holdafars og heilsu hjá einstaklingum. Hann gefur góðar vísbendingar um offitu en getur þó bæði ofmetið hana og vanmetið þar sem hann gefur ekki upplýsingar um samsetningu líkamans. Sem betur fer hefur þekkingu á tengslum holdafars og heilsu miðað hratt fram undanfarin ár og þekking á túlkun líkamsþyndarstuðulsins er víðtækari en áður. Hann er áfram hluti af mati á heilsufari en túlkaður í samhengi við aðrar upplýsingar sem meta tengsl holdafars og heilsu.

Hér á landi er mælt með að heilsufarsleg áhrif og alvarleiki offitunnar verði metin samkvæmt kanadísku kerfi sem kennt er við Edmonton (e. Edmonton obesity staging system). Þar eru skoðuð líkamleg og andleg áhrif af offitusjúkdómnum sem og áhrif á virkni einstaklingsins og félagslega þætti. Í byrjun þessa árs komu út á vegum Félags fagfólks um offitu og Landlæknisembættisins klínískar leiðbeiningar um meðferð offitu fullorðinna, þannig að auðvelt er að nálgast leiðbeiningar um túlkun mælinganna og veita viðeigandi ráðgjöf. Leiðbeiningarnar má finna á vef Landlæknisembættisins.

Ójafnvægi í líkamanum

Mikil uppsöfnun fituvefs er birtingarmynd ójafnvægis í líkamanum. Margir þættir ákvarða hvort ofþyngd verður að sjúkdómi og þá hver framgangur sjúkdómsins verður. Þar koma meðal annars við sögu erfðir, umhverfi, uppeldi, lífshættir, áföll, streita, svefntruflanir, líkamlegir og andlegir sjúkdómar og meðferð vegna þeirra. Sömu þættir koma við sögu þegar skoðað er hvaða meðferð er viðeigandi við sjúkdómnum.

Offita er bæði áhættuþáttur fyrir marga sjúkdóma, svo sem hjarta- og æðasjúkdóma og sykursýki, en er einnig flókinn sjúkdómur sem slíkur. Offita getur valdið truflun á starfsemi líkamans og þar með heilsu með margvíslegum hætti. Ber þar fyrst að nefna að röskun getur komið fram í fituvefnum og fitufrumunum sjálfum sem nú er vitað að framleiða fjölmörg efni sem hafa samskipti við mörg kerfi líkamans en er ekki einföld geymsla fyrir umframorku eins og eitt sinn var talið.

Truflun á starfsemi í fituvefnum getur haft mikil áhrif á hin ýmsu líffærakerfi og valdið heilsubresti sem getur komið fram þó magn fituvefsins sé ekki verulegt. Líkamsþyngd ein og sér er hér ekki góður mælikvarði en eðli málsins samkvæmt veldur meira magn af óheilbrigðum vef meiri röskun. Fituvefur sem staðsettur er kringum líffæri, sérstaklega í kvið hefur að öllu jöfnu verri áhrif á efnaskipti líkamans en fituvefur sem staðsettur er undir húð. Þannig getur einföld mæling á mittismáli gefið vísbendingar um heilsufarsleg áhrif fituvefjarins.

fita2.JPG

Margvíslegar breytingar á boðefna- og hormónakerfi líkamans koma fram sem og truflun í efnaskiptum, bólguferlum og ónæmiskerfi líkamans. Auk breytinga sem verða í fituvefnum sjálfum getur röskun í starfsemi líffæranna sem fituvefurinn á í samskiptum við einnig raskast. Þar gegna líffæri meltingarvegarins og heilinn mikilvægu hlutverki. Samspil þessara kerfa kemur fram á marga vegu meðal annars í flókinni stjórn á svengd og seddu. Þarna geta utanaðkomandi þættir svo sem ýmis lyf, gerfiefni, þar með talin sætuefni og mataræði okkar haft veruleg áhrif auk þess sem þarmaflóran gegnir veigamiklu hlutverki í þessu samskiptakerfi.

Magn og umfang fituvefjar getur einnig truflað eðlilega starfsemi líkamans. Ef hlutfall fituvefjar í líkamanum er orðið verulegt eru áhrif af efnaskiptum sem tengjast fituvef orðin of mikil til að jafnvægi náist í samstarfi líffærakerfanna og hefur offita þannig áhrif jafnvel þó fituvefurinn sjálfur sé heilbrigður.

Þó meingerð sjúkdómsins sé flókin og margþætt þá er stór hluti andlegrar vanlíðunar sem rannsóknir hafa sýnt að geti fylgt offitu, svo sem depurð, vonleysi, sektarkennd, skömm og lágt sjálfsmat, ekki hluti af meingerð sjúkdómsins heldur afleiðing af samfélagslegum viðbrögðum við sjúkdómnum. Á hinn bóginn getur sú streita sem fylgir megrunum og neikvætt sjálfstal haft áhrif á ýmis kerfi líkamans því hið frumstæða streituviðbragð gerir ekki greinarmun á því hvaðan streitan kemur og virkjar kerfi sem stuðla að aukinni fitusöfnun. Því er sátt við líkama sinn og jákvætt sjálfstal sérstaklega mikilvægt við þyngdarstjórnun.

Úreld viðhorf

Hin einfalda skýring á orku inn og orku út er því löngu úrelt þegar kemur að offitu. Hin klassísku ráð um að borða minna og hreyfa sig meira geta átt við þyngdarstjórnun hjá heilbrigðum einstaklingi á jaðri kjörþyngdar en geta verið beinlínis skaðleg þegar kemur að meðferð offitu. Í starfi mínu undanfarinn áratug við greiningu og meðferð offitu hef ég séð að þátttaka í öfgakenndu hreyfingarátaki og megrunarkúrum af ýmsum toga getur aukið heilsufarslegan vanda, og meðal annars leitt til meina í stoðkerfi, næringarskorts og verri andlegrar líðunar, enda ætti með núverandi þekkingu að vera fyrirséð að þessar leiðir bera ekki árangur í meðfer við offitu. Samt virðist jafnvel heilbrigðisstarfsfólk mæla með þessum leiðum enn í dag.

FF2.JPG

Meðferð offitusjúkdóms

Árangur offitumeðferðar er ekki mældur í kílóum. Markmið meðferðarinnar er, eins og fram kemur í klíníniskum leiðbeiningum, að draga úr neikvæðum áhrifum offitu á heilsufar, stuðla að heilbrigðri starfsemi líkamans og góðri andlegri líðan með langtíma árangur að leiðarljósi. Jafnvel það að stöðva þyngdaraukningu og ná hlutfallslega litlu þyngdartapi getur leitt af sér mikinn heilsufarslegan ávinning ef rétt er að farið.

Greining sjúkdómsins offitu snýst um að greina alvarleika og umfang vandans, þar á meðal röskun á efnaskiptum og starfsemi fituvefjarins ásamt því að skoða hvernig aðrir sjúkdómar og meðferð þeirra getur haft áhrif á þyngdarstjórnun og hvaða leiðir henta best til að koma jafnvægi á hin ýmsu kerfi sem raskað geta líkamlegri og andlegri heilsu og líðan og dregið úr lífsgæðum.

FF.JPG

Í samvinnu fagaðila og einstaklings er síðan sett upp raunhæf meðferðaráætlun. Vinna þarf með grunnþætti heilbrigðra lífshátta, svo sem góða næringu, hæfilega reglulega hreyfingu, endurnærandi svefn og góða andlega líðan, eins og við meðferð allra annarra langvinnra sjúkdóma. Ofan á það bætist síðan sérhæfð meðferð við sjúkdómnum sjálfum og fylgisjúkdómum. Forvarnaraðgerðir til að hindra að ofþyngd þróist yfir í sjúkdóm eru þær sömu og forvarnir vegna annarra langvinnra sjúkdóma þar sem heilbrigður lífsstíll gegnir lykilhlutverki. Varast ætti að tengja við offitu þær nauðsynlegu lýðheilsuaðgerðir sem snúa að fræðslu og bættu aðgengi að hollum mat, aukinni hreyfingu, betri svefni, reykleysi, streitustjórnun og sálarró. Allt eru þetta aðgerðir sem bæta heilsu okkar allra og ætti ekki að tengjast umræðu um holdafar.

Líkt og gildir um aðra langvinna sjúkdóma verður meðferð við offitu árangursríkari því fyrr sem gripið er inn í og því ætti að vera eðlilegt að fylgjast með þróun holdafars og veita snemmtæka íhlutun í heilbrigðiskerfinu. Það ætti að vera jafn eðlilegt að gera mælingar á holdafari eins og að mæla blóðþrýsting eða leggja fyrir mælikvarða um þunglyndi og kvíða. Einstaklingar með offitu ættu að fá greiningu við sínum sjúkdómi og mæta fordómalausu viðmóti í heilbrigðiskerfinu. Eðlilegt og sjálfsagt ætti að vera að yfirfara þyngdarþróun, fjölskyldusögu, áfallasögu, fæðuvenjur, svefn- og hreyfivenjur, greina og meðhöndla sjúkdóma sem hafa áhrif á þyngdarstjórnun, kanna áhættuþætti og yfirfara hvaða meðferð einstaklingurinn hefur áður reynt til þyngdarstjórnunar.

Sérhæfð meðferð við offitu ætti að vera sjálfsögð og aðgengileg, þar á meðal lyfjameðferð og efnaskiptaskurðaðgerðir þar sem það á við. Lækning við sjúkdómnum offitu er ekki til, meðferðin og eftirlit vegna sjúkdómsins varir alla ævi. Hinsvegar er hægt að veita góða meðferð, þannig að þeir einstaklingar sem greinst hafa geta lifað góðu lífi án þess að sjúkdómurinn hindri þá í lífi og starfi.

Fyrsta skrefið

Til að komast út úr þeim óþægindum sem umræða um þyngd getur valdið þarf að gera greinarmun á umfjöllun um þyngd, sem tekur mið af samfélagsþáttum, útlitskröfum eða tengingu holdafars við persónugerð annarsvegar, og hinsvegar þyngd sem tengist heilsufari. Mikilvægt er að í huga fólks verði eðlilegt að fylgjast með þróun þyngdar og mittismáls og túlkun mælinganna verði gerð af þekkingu og vandaðar ráðleggingar veittar. Einstaklingar þurfa að geta treyst því að þeir mæti fordómalausu viðhorfi í heilbrigðiskerfinu og fái aðstoð við að finna leiðir til að endurheimta jafnvægi ef starfsemi eitthvers hinna mörgu þyngdarstjórnunarkerfa líkamans hefur raskast. Viðhorfsbreyting í samfélaginu þarf að eiga sér stað meðal annars á þann hátt að óviðeigandi umræða um holdafar fólks heyri sögunni til.

Lýðheilsunálgunin er sú sama hvað varðar forvarnir vegna offitu og forvarnir vegna annarra langvinna sjúkdóma. Til staðar þarf að verða meðferð við sjúkdómnum á öllum stigum heilbrigðiskerfisins þar sem gripið er inn í á viðeigandi hátt. Umfram allt þarf að gæta að faglegri nálgun og virðingu í samskiptum þegar kemur að samspili holdafars og heilsu því á endanum snýst málið alltaf um einstaklinginn sjálfan, ekki sjúkdóminn.

Erla Gerður Sveinsdóttir

Heimilislæknir, lýðheilsufræðingur og sérfræðilæknir við offitumeðferð

Nýtt á vefnum