Greinar / 6. mars 2023

Heilsa í manngerðu umhverfi

Gæði hins manngerða umhverfis hefur bein og óbein áhrif á líðan þeirra sem þar búa. Vitað er að gott inniloft skiptir máli fyrir heilbrigð öndunarfæri og góð hljóðeinangrun bætir svefn og heilsu. Við áttum okkur kannski síður á hlutverki dagsbirtunnar sem þó gegnir lykilhlutverki í að stilla af fjölmarga ferla í líkamanum sem hafa áhrif á heilsu. Samt finnum við líklega flest fyrir því hvað dagsbirtan gerir okkur gott og hvað okkur líður vel í notalegu rými með nægri lofthæð.

Búsetugæði felast þó ekki aðeins í sjálfu íbúðarhúsnæðinu heldur líka gæðum umhverfisins. Nálægð við fjölbreytilega þjónustu og afþreyingu, náttúra og mannlíf, skjólmyndun og skuggavarp, eru allt dæmi um umhverfisþætti sem hafa áhrif á líðan. Nátengt umhverfinu er það svo félagslegi þátturinn. Félagsleg tengsl varna einmanaleika og hjálpa okkur að finna hlutverk og tilgang með lífinu sem er sterkur áhrifaþáttur hamingju.

Í þessu samhengi öllu er það umhugsunarefni að hlutdeildarlán Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til ungra og efnalítilla skuli einskorðast við nýbyggt fjölbýli sem uppfyllir kröfur um ákveðið hámarks verð og lágmarks stærð. Þessar kröfur um lágt verð en mikla stærð eru til þess fallnar að draga úr gæðum íbúðanna og umhverfis þeirra. Í stað þess að geta byggt góða 75 fermetra 3 herbergja íbúð með nægri dagsbirtu, loftun, hljóðgæðum, góðu efnisvali, aukinni lofthæð og góðum sameiginlegum rýmum, þarf verktakinn að hafa slíka íbúð að lágmarki 90 fermetra að stærð fyrir sama verð samkvæmt reglum HMS. Augljóslega þarf að fjármagna aukafermetrana með því að draga úr áðurnefndum gæðum. Og þá er enn ósagt um neikvæð samfélagsleg áhrif þeirrar einsleitni sem verður þegar hagkvæmu íbúðunum er steypt saman í heilu byggingarnar.

Samfélagslegri þátturinn er ekki síður uppi á teningnum varðandi íbúðir fyrir aldraða. Ríkjandi hugmyndir um að safna eldra fólki saman í blokkarhverfi er ekki eina leiðin. Kynslóðabyggð (e. intergenerational living) er stefna þar sem blandað er saman íbúðum sem henta mismunandi hópum: fyrstu kaupendum, kjarnafjölskyldum, eldri borgurum, þeim efnaminni og þeim efnameiri. Þekkt dæmi er Tübingen-verkefnið í Þýskalandi 1996–2008. Norska velferðarráðuneytið lét árið 2020 vinna skýrsluna Bo hele livet þar sem dæmi eru tekin um hvað þarf til í skipulagsmálum til að ná markmiðum um búsetu án aðskilnaðar (https://www.sintefbok.no/book/index/1258).

Ekki verður hjá því komist að minnast á að til að hámarka arð af því að byggja fyrir hinn almenna íbúðamarkað höfum við endað með íbúðir þar sem um eða yfir tuttugu metrar eru milli útveggja og stór hluti rýmisins fær litla dagsbirtu. Af sömu ástæður getum við líka endað með of háreista eða þétta byggð þar sem sólin nær sjaldan eða aldrei niður í neðstu íbúðirnar.

Loks ber að vekja athygli á að í nýútkominni Grænbók um húsnæðis- og mannvirkjamál er hvorki að finna viðmið né markmiðasetningu um íbúðargæði eða umhverfisgæði. Þessu þarf að bæta úr.

Það er full ástæða til að huga að heildargæðum hins manngerða umhverfis. Heilsa og vellíðan okkar allra er í húfi.

Guðmundur Löve

Framkvæmdastjóri SÍBS

Nýtt á vefnum