Greinar / 18. október 2021

Gleðiseðill – ávísun á gleði í endurhæfingu

elena-mozhvilo-j06gLuKK0GM-unsplash.jpg

Flestir lenda í einhverjum erfiðleikum á lífsleiðinni. Við erum hins vegar sterk þjóð, búum yfir ótrúlegri seiglu og hörkum þetta af okkur til komast heil í gegnum þessa erfiðleika.

Það er það sem við teljum okkur trú um. En raunveruleikinn er samt allt annar.

Almennt er talið að um 40% einstaklinga í Evrópu eigi að minnsta kosti við einn langvinnan sjúkdóm að stríða, tæplega tíundi hver Íslendingur á aldrinum 18-67 ára er óvinnufær vegna veikinda og ómögulegt er að halda utan um hversu margir eru í veikindaleyfi eða með tíða fjarveru frá vinnu vegna veikinda.

Hörkuduglegir Íslendingar

Vegna þess hve við Íslendingar eru vinnuglaðir með eindæmum, stærum okkur af því að vera hörkudugleg og fordæmum leti og hvers kyns aumingjaskap, þá er alls ekki auðvelt að vera veikur á Íslandi. Við dásömum duglegheitin og hörkuna í fólki sem mætir veikt eða slasað í vinnuna eða heldur áfram í kappleik þrátt fyrir beinbrot eða höfuðhögg. „Þetta eru sko sannir Íslendingar“ segjum við með stolti – með útþaninn brjóstkassann.

Það er ekki auðvelt að vera veikur, vera með verki eða ganga um með ósýnilega og jafnvel stundum óskiljanlega sjúkdóma í svona samfélagi. Það er einhvern veginn í lagi ef það sést utan á þér að þú eigir við erfiðleika að stríða. Heppnastir eru þeir sem eru með fatla eða eru í gifsi. Þeir fá umburðarlyndi og skilning. Svona allavega í smá stund.

En svo fer umburðarlyndið og skilningurinn þverrandi með tímanum.

„Ertu ekkert að ná þér?“

„Á ekkert að fara mæta í vinnu?“

„Ég man þegar ég fékk í bakið þá bara tók ég þetta á hörkunni…“

„Þú þyrftir bara að drífa þig út í göngu…

Á þessum tímapunkti hættir fólk yfirleitt að hafa gaman af því að fara út í búð. Hættir að fara í veislur, árgangsmót, saumaklúbba og heimsóknir.

Hættir að leika sér og gera skemmtilega hluti. Heldur sig bara heimavið því það er það sem veikt fólk gerir… er það ekki? Það er þarna sem vandræðin byrja fyrir alvöru. Fólk hættir að taka þátt í lífinu. Það er alveg nógu erfitt verkefni að takast á við veikindin, það verður mörgum ofviða að þurfa stanslaust að útskýra og réttlæta sig líka.

210920 - SÍBS blaðið - Gleðiseðill - mynd - Færni - lífsgleði heilsa vellíðan.png

Saga Jónu

Í veikindum minnkar færni fólks til að taka þátt í ýmsum athöfnum sem það gerði áður. Við getum tekið einfalt dæmi um hana Jónu sem lenti í slysi árið 2017. Jóna var þekkt fyrir að vera hörkudugleg einstæð móðir sem sá ein um sitt heimili. Þess utan vann hún fullan vinnudag sem kennari og var virk í kvenfélagi. Jóna föndraði mikið, prjónaði, las og hitti vinkonur sínar reglulega. Þær fóru gjarnan í sumarbústað eða gengu á fjöll. Eftir slysið minnkaði geta hennar til að sinna þessum fjölbreytta lífstíl svo mikið að segja má að hún hafi aðeins haft 60% af þeirri færni sem hún hafði áður.

En hún Jóna er ótrúlega dugleg kona og harkaði þetta svona að mestu af sér. Hún reyndi lengi vel að gera allt sem hún gerði áður, hvort sem það var að sinna vinnu, fjölskyldu, heimili eða að hafa gaman í lífinu. En það gekk einfaldlega ekki upp hjá henni – manneskja með 60% færni getur ekki gert allt sem hún gat, hvað þá að gera það upp á 100, hvernig sem hún reynir. Og Jóna reyndi… svo sannarlega reyndi hún. Afleiðingarnar af því voru meiri vanlíðan og veikindi svo hún gafst upp að lokum við að reyna að vera með í öllu (en samt ekki án þess að brjóta sig niður fyrir aumingjaskapinn).

Til að sýna öllum – einkum þó sjálfri sér - að hún væri ekki annars flokks manneskja, löt og/eða baggi á samfélaginu þá fór hún að leggja ofuráherslu á að standa sig vel í þeim verkefnum sem flokkast undir „duglegheit“. Hún mætti í vinnuna og sinnti börnunum og heimilinu óaðfinnanlega. Hún notaði svo dýrmætu „góðu“ dagana til að klára verkefnin sem höfðu safnast upp og gáfu henni stimpilinn að vera „dugleg“.

210920 - SÍBS blaðið - Gleðiseðill - mynd - Kröfur og ójafnvægi (003).png

Auðvitað langaði hana líka alveg að gera hluti sem gáfu henni ánægju og vellíðan… Auðvitað vissi hún alveg hversu mikilvæg slökun og endurnæring voru fyrir líkama og sál... En það var samt einhvern veginn alltaf sett aftast á forgangslistann. Það var einfaldlega hvorki tími eða orka afgangs í slíkan „munað“.

  • Smátt og smátt fór hún að tapa gleðinni.
  • Jafnt og þétt fóru einfaldir hlutir að verða henni ofviða.
  • Lífið varð ströggl. Þungt og erfitt ströggl.

Sjáðu til, hún Jóna fórnaði því sem við iðjuþjálfar köllum „jafnvægi í daglegu lífi“ til að geta mætt öllum kröfunum sem gerðar voru til hennar. Og auðvitað kröfunum sem hún gerði til sín sjálf. Það er fólki alveg jafn nauðsynlegt að sinna athöfnum sem gleðja og endurnæra sálina, rétt eins og að standa undir kröfum og sinna hlutverkum lífsins. Þannig hlúum við að góðu jafnvægi í daglegu lífi.

Sjálfsmyndin

Sjálfsmynd okkar byggir alveg jafn mikið á því hvað við gerum, eins og því hver við erum, það er hvað okkur finnst gaman að gera og hvernig við leikum okkur í lífinu.

Við getum einfaldlega ekki hlaupið hraðar til að mæta kröfum og fórnað gleðinni án þess að það hafi áhrif á líðan og lífsgæði. Viltu vita af hverju?

Leikur, gleði og slökun eru þátttaka í athöfnum sem kalla fram tilfinningar sem okkur finnst vera ánægjulegar, þægilegar og jákvæðar. En ef við bætum tímapressu, áhyggjum, samviskubiti og samanburði inn í jöfnuna, verður þetta fljótlega að enn einni kröfunni til að mæta í amstri dagsins. Samkvæmt rannsóknum eru þeir sem leggja rækt við gleði og slökun í daglegu lífi í mun betri málum varðandi heilsu og vellíðan:

  1. Einstaklingar sem hlúa að leik og gleði hafa sterkara ónæmiskerfi, eru ólíklegri til að verða veikir og framleiða minna af streituhormónum. Gleði er til að mynda öflugt mótefni við streitu og sjúkdómum, það hefur til dæmis verið sýnt fram á tengsl milli gleði og færri hjarta-og æðasjúkdóma.
  2. Fólk sem ræktar gleði lifir lengur óháð því hvort það sé heilbrigt fyrir eða búi við langvarandi sjúkdóma. Fólk sem sinnir gleði upplifir minni verki og býr við betri lífsgæði þrátt fyrir verki. Það að auka gleði getur meðal annars dregið úr verkjum og stífleika hjá fólki með langvinna verki og gigtarsjúkdóma.
  3. Ánægðir einstaklingar koma sér upp betri lífsstílsvenjum sem stuðla að betri almennri heilsu, eins og að borða hollari og fjölbreyttari fæðu, hafa betri svefnvenjur og hreyfa sig meira.
  4. Einstaklingar sem rækta gleði eiga í betri samskiptum við börnin sín og maka og búa við almennt betri andlega heilsu og betri lífsgæði.

Markmið endurhæfingar á Reykjalundi er að einstaklingur endurheimti fyrri getu eða bæti heilsu sína og lífsgæði. Það eru því oft miklar kröfur gerðar sem fólk þarf að standa undir til að árangur náist, svo sem í gegnum hreyfingu, fræðslu og viðtöl við fagfólk.

Pása frá kröfum og amstri dagsins

Á verkstæði iðjuþjálfunar fær fólk hins vegar smá pásu frá öllum kröfum í endurhæfingu og frá amstri dagsins. Þar geta skjólstæðingar komið tvisvar til þrisvar í viku og unnið að handverki eða öðrum skapandi verkefnum. Þar er fólk hvatt til að vera og njóta (en ekki þjóta) og fær að finna á eigin skinni hversu mikilvægt það er fyrir líkama og sál að sinna verkefnum ánægjunnar vegna. Á verkstæðinu áttar fólk sig oft loksins á því hversu mikilvægt það er fyrir heilsuna að gefa sér svigrúm til að sinna áhugamálum og endurnærandi verkefnum. Hversu mikilvægt það er að taka þátt í gleði án þess að fá samviskubit yfir öllu því sem á eftir að gera og án þess að þurfa að réttlæta það.

Í iðjuþjálfuninni á Reykjalundi leggjum við áherslu á að fólk geti sinnt hlutverkum sínum og verkefnum sem skipta þau máli. Við í iðjuþjálfun á verkjasviði ætlum að gera tilraun í vetur með að ávísa „gleðiseðli“ á fólk sem hefur tapað gleðinni sinni í lífsins ólgusjó.

Markmiðið með gleðiseðli er að fá fólk til að setja inn í daglegt líf athafnir sem þau gera ánægjunnar vegna og hafa endurnærandi áhrif á líkama, huga og sál. Líf án gleði er ekki bara innantómt, þungt og erfitt; það gerir endurhæfinguna alla mun erfiðari. Tilgangur gleðiseðils er að fólk viti og geti sagt öðrum að það má hafa gaman þó að maður sé veikur. Það hafa þau uppáskrifað frá Reykjalundi og þurfa því ekkert að réttlæta það neitt frekar – hvorki fyrir sjálfum sér né öðrum!

Markmiðið með þessum greinaskrifum er vitundarvakning út í samfélagið varðandi mikilvægi gleði og ánægjulegrar þátttöku í daglegu lífi. Þau sem eru að glíma við langvinn og oft ósýnileg veikindi, eru flest hrædd við dómhörku samfélagsins. „Hvað ætli fólk segi ef ég er bara að leika mér?“ Hjá þessum einstaklingum er gagnrýni og dómharka í eigin garð alveg nógu hörð. Þau þurfa stuðning, hvatningu og stöðuga áminningu um að þátttaka í gleði eyðileggur ekki endurhæfingu, heldur eflir hana.

Ég hef lúmskan grun um að það séu fleiri en bara skjólstæðingar Reykjalundar sem þurfa áminningu um að sinna og rækta gleðina. Staldraðu við eitt augnablik og veltu fyrir þér hvort þitt líf sé að mestu farið að snúast um að mæta kröfum – þínum eigin eða annarra. Hvaða hluti ertu að gera bara og eingöngu af því að þeir eru skemmtilegir?

Líttu á þessa grein sem þinn gleðiseðil. Gefðu þér leyfi til að rækta gleði og dragðu svo þína nánustu með þér. Gerum umhverfið okkar að ánægjulegum stað að búa á og dreifum gleðinni!

Heimildir

  1. Coyle, D. (2017). How Being Happy Makes You Healthier. Sótt af: https:// www.healthline.com/nutrition/happiness-and-health#TOC_TITLE_HDR_
  2. Florentine, E. (2016). 11 Scientific Facts About Happiness. Sótt af: https:// www.bustle.com/articles/169675-11-scientific-facts-about-happinessthat-youll-want-to-know
  3. Fredrickson, B.L., Cohn, M.A., Coffey, K.A., Pek, J. og Finkel, S.M. (2008). Open hearts build lives: Positive emotions, induced through loving-kindness meditation, build consequential personal resources. Journal of Personality and Social Psychology, 95(5):1045-1062. doi:10.1037/a0013262
  4. Karl Andersen og Vilmundur Guðnason (2012). Langvinnir sjúkdómar: heimsfaraldur 21. Aldar. Læknablaðið, 98 591-595.
  5. Kolbeinn H. Stefánsson. (2019). Fjöldaþróun örorkulífeyrisþega. Sótt af https://www.obi.is/static/files/skjol/pdf-skyrslur/2019-09-sky-rsla-fjoldathroun-o-bi-khs-utg-1.pdf
  6. Newman, K. M. (2015). Six Ways Happiness Is Good for Your Health. Sótt af: https://greatergood.berkeley.edu/article/item/six_ways_happiness_is_ good_for_your_health
  7. Proyer, R. T. (2013). The well-being of playful adults: Adult playfulness, subjective well-being, physical well-being, and the pursuit of enjoyable activities. The European Journal of Humour Research, 1(1), 84–98.

Hrefna Óskarsdóttir

Sviðstjóri iðjuþjálfunar á verkjasviði Reykjalundar

Nýtt á vefnum