Vestræn samfélög standa nú á þeim tímamótum að í fyrsta sinn er raunveruleg hætta á því að næsta kynslóð lifi skemur en sú sem á undan gekk. Um er að kenna langvinnum sjúkdómum sem tengjast lífsstíl og standa nú þegar fyrir stærstum hluta ótímabærs dauða og örorku meðal Íslendinga. Talið er að að 86% dauðsfalla í Evrópu megi rekja til þeirra.
Í heilbrigðiskerfi eins og okkar er fyrst og fremst verið að bregðast við sjúkdómum og slysum, meðhöndla með ýmsum úrræðum og bæta úr eins og kostur er. Þarna hefur okkur vissulega tekist vel upp en samt er svo komið að stærstur hluti kostnaðar við heilbrigðiskerfið kemur til vegna langvinnra sjúkdóma sem við hefðum að einhverju leyti getað komið í veg fyrir.
Í ljósi þeirrar staðreyndar að langvinn veikindi sökum lífsstílstengdra sjúkdóma er raunverurlegur faraldur þá er brýn þörf á að setja fram heildstæða forvarnarstefnu. Slík stefna þarf að fela í sér forgangsröðun innan heilbrigðiskerfisins, áherslur í lýðheilsumálum og almennri heilsueflingu. Greina þarf hvaða þættir í umhverfi einstaklinganna hefur áhrif á heilsu og líðan. Skoða þarf hvar ábyrgð einstaklinganna liggur og hvaða þættir það eru sem helst hvetja til breytinga á lífsstíl þeirra. Byggja upp þverfagleg meðferðarteymi innan heilsugæslunnar. Meta þarf áhrif inngripa stjórnvalda, svo sem skattlagningu, boð og bönn. Skilgreina þarf ábyrgð ríkis og sveitarfélaga, stofnana, fyrirtækja, félaga og samfélagsins alls.
Ábyrgð hins opinbera er að leiða þessa vinnu og innleiða samræmda forvarnastefnu þvert á öll svið samfélagsins með það að markmiði að stuðla að bættri heilsu, lægri kostnaði við heilbrigðiskerfið og fjárhagslegum ávinningi fyrir þjóðarbúið.