Eins og flestir vita eru hjartasjúkdómar með algengustu heilsufarsvandamálum jarðarbúa og algengasta dánarorsök á Vesturlöndum. Þess vegna vill fólk lifa heilbrigðum lífsstíl og fylgjast vel með ákveðnum áhættuþáttum þessara sjúkdóma. Suma er auðvelt að mæla, t.d. líkamsþyngd, blóðþrýsting og ýmis atriði í blóðinu eins og blóðsykur og blóðfitu. Gleymum ekki að þó blóðfita eigi þátt í sjúkdómum gegnir hún mikilvægum hlutverkum í líkamanum. Fyrir utan það að vera orkugjafi er fitan einnig þáttur í myndun ýmissa efna, t.d. hormóna, og er eitt af byggingarefnum frumuhimnunnar.
Blóðfitan er líka sökudólgur í hjartasjúkdóminum sem flestir hræðast. Kransæðasjúkdómur er langvinnur bólgusjúkdómur í slagæðunum sem næra hjartavöðvann. Undir smásjá sjást í æðaveggjunum fita, bólgufrumur, bandvefur og stundum kalk. Þessvegna er þetta stundum kallað æðakölkun. Þetta getur leitt til alvarlegra þrenginga og jafnvel blóðtappa. Þannig verður hjartaáfall.
Áhættuþættir
Evrópusamtök hjartalækna mæla með að allir íhugi læknisskoðun um fertugt til að meta heildaráhættu á hjartasjúkdómum. „Áhætta“ er stórt orð, en er hér átt við líkurnar á að fá kransæðasjúkdóm einhverntíma á lífsleiðinni. Auðvelt er að setja mælanlegar stærðir inn í töflur og forrit, t.d. „SCORE“ kerfið eða áhættureikni hjartaverndar. Langtímaáhættan er höfð til hliðsjónar þegar gefin eru ráð um lífsstíl eða jafnvel lyfjameðferð. Helstu áhættuþættirnir eru kyn og aldur, en karlar eru í meiri hættu en konur og hættan eykst með aldri, reykingum, sykursýki, efri mörkum blóðþrýstings og heildarkólesteróli. Því er mæling heildarblóðfitu mjög gagnleg til að gefa vísbendingu um áhættu en er alltaf skoðuð með hliðsjón af öðrum þáttum í heilsufari einstaklingsins.
Í hefðbundinni blóðprufu er mælt heildarkólesteról, HDL og þríglýseríðar og þá er hægt að reikna út LDL. Áður fyrr var lögð mikil áhersla á að fólk væri fastandi en rannsóknir hafa sýnt að það hefur mjög lítil áhrif og núorðið er ekki gerð krafa um það. Heildarkólesteról er notað til að meta langtíma áhættu hjá frískum einstaklingum en LDL er notað til að setja markmið í blóðfitumeðferð. Þó heildarkólesteról hafi mikilvægt forspárgildi í áhættumati hafa HDL og LDL og sérstaklega hlutföll heildarblóðfitu og HDL ennþá sterkari þýðingu. HDL (high density lipoprotein) er prótín sem flytur fitu frá æðaveggjunum. HDL, sem stundum er kallað „góða kólesterólið“, virðist hafa verndandi áhrif og því er gott að hafa hátt HDL í blóðinu. LDL (low density lipoprotein) gerir hið gagnstæða, flytur fitu til æðaveggjanna og hefur sterka fylgni við æðasjúkdóma. Enda er LDL oft kallað „vonda kólesterólið“ og meðferð miðar aðallega að því að lækka LDL. Þríglyseríðar eru stórar fitubólur í blóðinu sem hafa þýðingu til að átta sig á heildarmyndinni og er nauðsynlegt að mæla svo hægt sé að reikna LDL.
Kólesterólmagnið
Hvað stjórnar magni kólesteróls í blóðinu? Eins og með annað sem snertir heilsuna þá er þetta sambland erfða og umhverfis og er erfitt að fullyrða hvort vegi þyngra. Blóðfitumynd hvers og eins lýtur sömu lögmálum og ytra útlit. Það sem við borðum og hversu mikið við hreyfum okkur hefur sannarlega áhrif en arfgengir eiginleikar sem við fæðumst með ráða samt kannski mestu. Ef maður grennist þá sést breyting á ytra útliti en samt aldrei það mikil að fólk hætti að þekkja hann. Sama má segja um blóðfituna, mataræði og hreyfing hafa sannarlega einhver áhrif en sennilega eru meðfæddir efnaskiptaeiginleikar það sem ræður mestu. Þetta eru líklega aðal ástæður þess að sumt fólk sem fer vel með sig á allan hátt getur samt fengið hjartaáfall.
Margir velta fyrir sér hver séu „eðlileg“ gildi kólesteróls. Rannsóknastofur gefa venjulega upp tölur á þessu róli: Heildarblóðfita 4-7.5 mmól/l, HDL 0.8-2.1 mmól/l, LDL 1.5-5 mmól/l og þríglýseríðar 0.4-2.6 mmól/l. Heildarblóðfita er mæld til að skima fyrir vandamálum en til að ráðleggja og setja markmið þarf að mæla HDL og þríglýseríða og reikna LDL og hafa til hliðsjónar aðra áhættuþætti.
Best er að skýra þetta með dæmi. Tveir fimmtugir karlmenn fara báðir í skoðun og mælast með 7 í heildarkólesteról og er þess vegna ráðlagt að tala við sína lækna. Sá fyrri er í yfirþyngd, er með sykursýki, hreyfir sig lítið, reykir, er með háþrýsting, fjölskyldusögu um kransæðasjúkdóm og HDL mælist aðeins 1.0. Hann reiknast með meira en 30% líkur á að greinast með kransæðasjúkdóm næstu 10 árin. Honum er ráðlagt að fara beint á blóðfitulækkandi lyf og gera breytingar á lífsstíl. Sá síðari er í kjörþyngd, reykir ekki, er ekki með fjölskyldusögu, er með HDL 2.0 og er að öðru leyti frískur. Hans 10 ára áhætta reiknast aðeins um 4% og engin sérstök ástæða til að meðhöndla hans kólesteról með lyfjum þó heildarblóðfitan mælist há.
Hvernig er hægt að hafa áhrif á kólesteról?
Almenna reglan er sú að lífsstílsbreytingar sem auka hreyfingu og stuðla að kjörþyngd hafi jákvæð áhrif á blóðfitumyndina. Rauði þráðurinn í allflestum ráðleggingum er að velja sem mest náttúrulegan mat í hæfilegum skömmtum, grænmeti, ávexti, kjöt, fisk, baunir og trefjar, en forðast mikið unninn mat. Einstaklingum með blóðfituröskun hefur verið ráðlagt að velja mat með ómettuðum fitusýrum frekar en mettaða fitu. Eru það opinberar ráðleggingar ýmissa lýðheilsustofnana í heiminum en satt best að segja er margt sem bendir til að hófleg neysla mettaðrar fitu úr landbúnaði og sjávarafurðum sé ekki skaðleg. Mikilvægast er að varast matvöru sem inniheldur transfitur en þar hefur náttúrulegri olíu verið breytt svo hún öðlist nýja eiginleika, sérstaklega geymsluþol. Á þetta t.d. við um geymsluþolið kex, kökur, sælgæti, sumt smjörlíki, djúpsteiktan mat, kartöfluflögur og margt fleira.
Mikið er fjallað um ofneyslu einfaldra kolvetna á Vesturlöndum og hlut þeirra í yfirþyngd. Auk þess að vera lykilorsök offitu er margt sem bendir til að mikil kolvetni hafi neikvæð áhrif á hlutföll og gæði blóðfitunnar, jafnvel þó heildarkólesteról breytist lítið. Offitu fylgja líka oft aðrir áhættuþættir, svo sem sykursýki og háþrýstingur, sem hafa mjög mikil áhrif á hjartaheilsu, jafnvel óháð blóðfitumyndinni. Þeir sem vilja draga úr neyslu einfaldra kolvetna ættu að reyna að setja á matseðilinn flókin, trefjarík kolvetni frekar en mikið magn fitu.
Hjá einstaklingum sem eru frískir og greinast með væga blóðfituröskun er viðeigandi að byrja bara með kröftuga lífsstílsbreytingu, betra mataræði og meiri hreyfingu. Fólki í háum áhættuflokkum er hins vegar strax ráðlögð lyfjameðferð auk skoðunar á lífsstíl. Þar skal fyrst nefna þá sem hafa þegar fengið einhvers konar hjarta- eða slagæðaáföll, einstaklinga með sykursýki og/eða aðra meðfædda efnaskiptasjúkdóma sem valda mjög háum blóðfitum. Of langt mál er að telja upp allar tegundir blóðfitulækkandi lyfja en langalgengust eru svokölluð statínlyf. Þar eru mest notuð Atorvastatín, Simvastatín og Rósuvastatín. Þessi lyf lækka fyrst og fremst LDL kólesteról og eru alltaf ráðlögð einstaklingum sem hafa fengið hjartaáfall. Statínlyfin eru vel rannsökuð og almennt örugg, fækka hjartaáföllum og dauðsföllum. Þau geta haft aukaverkanir sem sjaldnast eru hættulegar.
Samantekt
Blóðfita gegnir mikilvægu hlutverki í eðlilegri líkamsstarfsemi en getur líka átt þátt í hjartasjúkdómum. Blóðfitumagn og gæði ráðast af meðfæddum eiginleikum og lífsstíl en við vissar aðstæður er einnig mælt með lyfjameðferð.