Greinar / 16. febrúar 2021

Að leysa úr læðingi

Í þessari grein verða tvær áskoranir skoðaðar sem varða félagstengsl og samskipti og hvernig þetta tvennt getur hjálpað til við að leysa úr læðingi þann kraft sem býr í öllum börnum og ungu fólki á tímum fjölmenningar og fjölbreytni.Tengist þetta markmiðum sem falla að samfélagsþróun og því sem kallað hefur verið heilsueflandi samfélag.

Þegar litið er til þróunar síðasta áratugar þá hefur íbúasamsetning breyst mikið þegar litið er til uppruna, máls og menningar. Skýrast birtist þetta í leik- og grunnskólum þar sem við sjáum fjölmenningarsamfélagið blómstra. Þó að þetta birtist skýrt á vissum svæðum borgarinnar og í mörgum bæjum í kringum landið þá er þetta veruleiki sem við eigum eftir að sjá birtast í ríkari mæli í öðrum hverfum og fleiri bæjum. Þessi þróun kallar á að íslenskt samfélag í heild sinni þróist í takti við nýjan veruleika sem byggir á fjölbreytni.

Félagsauður, félagstengsl

Brei3.JPG

Góð félagstengsl byggja upp traust og virkt samfélag og skapa hverjum og einum aukin lífsgæði og tækifæri, tengsl sem geta haft forspárgildi fyrir velgengni fólks. Almennt hefur þessi virkni verið skoðuð í tengslum við félagsauð hvers samfélags. Hluti af því sem einkennir félagsauð eru brúandi, bindandi og tengjandi tengsl. Við tengjumst bindandi fjölskyldu og vinaböndum þar sem hlutverk stórfjölskyldunnar verður mikilvægt. Við byggjum upp brúandi tengsl í gegnum félagslíf, nám og vinnu sem geta gagnast okkur í starfsleit og annað mikilvægt í lífi okkar. Svo tengjast margir í gegnum sameiginlegar hugmyndir og margvíslega starfsemi með tengjandi tengslum, oft tengt hagsmunum og málefnum. Til að geta skapað félagstengsl þarf að eiga samskipti sem fara fram bæði á formlegum vettvangi innan stofnanna samfélagsins og svo hins vegar á óformlegum vettvangi. Hér gegnir t.d. tungumál lykilhlutverki. Að vera læs á leiðbeiningar og upplýsingar um sameiginleg gæði sem okkur öllum bjóðast eru oftast háð skilningi á opinberu tungumáli viðkomandi samfélags sem og þátttöku í margvíslegu skipulögðu félagsstarfi. Ríkjandi tungumál hefur líka mikil áhrif á óformlega tengslamyndun svo sem að eignast vini og vera með í margvíslegum félagslegum athöfnum.

Þegar fólk flytur inní nýtt samfélag fjarri upprunalegum heimkynnum þá vantar oft uppá ofangreinda þætti. Stórfjölskyldan og æskufélagar eru líklega ekki til staðar og nýtt tungumál er áskorun þegar skapa á ný tengsl. Þetta hefur svo bein áhrif á þann félagsauð sem býr í samfélagi okkar og er ekki einangrað við einstaka hópa og einstaklinga heldur hefur staða hans sem slíks, áhrif á okkur öll og er því hagsmunamál samfélagsins alls. Ekki verður farið hér í nánari umfjöllun um tengda áhrifaþætti en við vitum að félagsauður hefur líka áhrif á heilsufar, efnahag og umhverfi okkar. Eru þetta þættir sem skapa grunn fyrir heilbrigt og heilsueflandi samfélag og endurspegla hversu háð við erum hvort öðru.

Ef við horfum til sögunnar þá er það vera í tengslum, rækta fjölskyldubönd og láta sig aðra varða í raun gamalkunnugt stef. Þegar fólk flutti úr sveitinni til borgarinnar á síðustu öld þá spruttu upp átthagafélög eins og til dæmis Húnvetningafélagið og Þingeyingafélagið og rækt var lögð við gildi sem höfðu verið í hávegum í sjávarþorpum og til sveita. Þeir sem höfðu flutt á undan buðu sveitunga sína velkomna á mölina og til urðu ný tengsl, ný samfélög og hjálpuðu þeim að upplifa gæði borgarsamfélagsins. Munurinn hér er þó sá að í dag flytur fólk ekki bara alls staðar af landinu til borgarinnar heldur alls staðar að úr heiminum með enn fjölbreyttari bakgrunn í menningu og siðum. Birtist þetta í fjölbreyttri tungumálakunnáttu, ýmsum trúarbrögðum og listiðkun sem bætir miklu við það samfélag sem fyrir var.

Heilsueflandi Breiðholt

Hvernig börn og ungmenni ná að tengjast hvort öðru, fjölskyldu sinni, vinum og öðrum í þeirra veruleika gefur sterka vísbendingu um það hvernig þeim mun farnast. Verður nú sagt frá því hvernig Reykjavíkurborg styður slíka tengslamyndun og hvernig má efla íslenskunám barna og fjölskyldna þeirra í nokkrum verkefnum sem hafa verið starfrækt í Breiðholti.

Brei2.JPG

Í Breiðholti er nú unnið að því að virkja betur börn og ungmenni í frístundastarfi þar sem iðkun býður uppá samskipti og tengsl sem eru ekki einungis háð tungumáli og uppruna heldur getur einmitt hjálpað til við að læra tungumálið og byggt upp ný tengsl. Markmiðin í verkefninu eru að stuðla að aukinni þátttöku barna og ungmenna í íþróttum og frístundum. Býður þessi vettvangur uppá bæði formleg og óformleg tengsl. Með þessu er stefnt að því að auðvelda samfélagslega þátttöku, íslenskunám og félagslega aðlögun barna með mismunandi bakgrunn að íslensku samfélagi.

Mikil áhersla hefur verið lögð á að leita eftir samstarfi við foreldra, þjálfara, leiðbeinendur, kennara og aðra þá aðila sem koma að daglegu lífi barna. Haldin hafa verið námskeið í menningarnæmi fyrir leiðbeinendur og þjálfara þar sem farið hefur verið yfir það hvernig best er að nálgast fólk með fjölbreytilegan menningarbakgrunn og hvernig er best að að auðvelda þátttöku í samfélaginu. Ennfremur eru leiðbeinendur studdir og hvattir til þess að hjálpa til við þjálfun íslenskunnar. Markmiðið er að skoða hvernig við getum boðið fólk sem best velkomið og hvernig við auðveldum þátttöku og aukin tengsl. Er þetta verkefni liður í því að heilsueflandi samfélag sem í þessu samhengi verið kallað Heilsueflandi Breiðholt.

Íslenskuþorpið

Annað verkefni byggir á íslenskukennslu í daglegu starfi. Nokkrir leikskólar í Breiðholti buðu starfsfólki uppá þátttöku í námi sem hefur verið kallað Íslenskuþorpið. Var það unnið í nánu samstarfi með fjölskyldumiðstöðinni í Gerðubergi. Þar var lögð áhersla á að læra íslensku og nota hana í daglegu starfi leikskólans. Á milli námslota í fjölskyldumiðstöð hverfisins gátu nemarnir æft sig í málinu í starfinu undir leiðsögn leiðbeinenda (mentora) innan leikskólanna. Hefur Íslenskuþorpið skilað ágætum árangri og hlotið alþjóðlega viðurkenningu Evrópumerkisins. Með því að nota tungumáið í starfi kom í ljós að færni í íslensku fleygði hraðar fram en ella. Þar kom fram mikilvægi þess að fólk fái tækifæri til að nota tungumálið sem það er að læra að öðru leyti í skipulögðu námi eins og íslenskuþorpið hefur boðið uppá.

Velkomin í hverfið þitt

Svo að lokum má nefna verkefnið Velkomin í hverfið þitt. Þetta verkefni er starfrækt í öllum hverfum borgarinnar og er þríþætt. Þegar börn byrja í skóla þá er fjölskyldunni boðið í heimsókn og skólastarfið kynnt. Því næst tekur við kynning frá þeim sem halda utan um frístundastarfið og að lokum fær fjölskyldan kynningu á nærsamfélagi sínu til dæmis um það hvar bókasafnið og sundlaugina er að finna ásamt öðrum mikilvægum upplýsingum sem varða búsetu í viðkomandi hverfi og hvar fólk heldur sig helst. Þeir sem halda utan um verkefnið geta í leiðinni gegnt hlutverki tengiliðar ef þörf er á meiri aðstoð. Varð þetta verkefni til eftir að ungmennaráð Breiðholts lagði fram tillögu þess efnis á sameiginlegum árlegum fundi Reykjavíkurráðs ungmenna og borgarstjórnar. Endurspeglar góður vilji unga fólksins þann vilja sem almennt ríkir hjá íbúum þegar nýjir íbúar flytja í hverfið.

Brei1.JPG

Gott samstarf borgarinnar við aðra aðila er mikilvægt og hefur svo verið um áðurnefnd verkefni sem og mörg önnur. Nefna má samstarf við mennta- og menningarmálaráðuneytið, félags- og barnamálaráðuneytið, Velferðasjóð barna, embætti Landlæknis, Rauða Krossinn, PEP (People Experiencing Poverty), TUFF (The Unity of Faiths Foundation) og svo annarra í hverfinu sem hafa tekið þátt í að taka vel á móti nýjum íbúum s.s. foreldrafélaga, móðurmálsfélaga, trúfélög, frístundaaðilar omfl.

Það er mikilvægt að sem flestir taki þátt í því að skapa samfélag sem er ríkt af félagsauði. Það er lykilatriði að taka vel á móti þeim sem flytja inní samfélag og styðja þau í verki til þátttöku. Að bjóða fólk velkomið er góð byrjun og svo tekur við gagnkvæm virkni í því skyni að þróa gott og traust samfélag.

Allir hafa hlutverk

En hvernig getum við boðið fólk enn betur velkomið? Verkefnin sem hér eru nefnd að ofan eru dæmi um verkefni sem Reykjavíkurborg hefur átt frumkvæði að og starfrækt í góðu samstarfi. Svo er spurningin, hvað getur hver og einn lagt af mörkum? Ýmsir aðilar hafa boðið uppá verkefni sem auðvelda samskipti og tengslamyndun. Á vegum foreldrafélaga grunnskóla hafa fjölskyldur til dæmis boðist til að vera vinafjölskyldur, Rauði Krossinn hefur með virkjun sjálfboðaliða boðið uppá vinaverkefni og í gegnum heimanámsaðstoð á bókasöfnum hefur verið hægt að styðja við aukið læsi og íslenskuþekkingu. Það skiptir hér sköpum að til verði rými fyrir hvern og einn og allir hafi hlutverk í samfélaginu og geta vinsamleg samskipti nágranna hjálpað þar til eins og önnur óformleg tengsl sem opna á nýjar leiðir. Hægt er að sjá samfélagsþróun hér á landi fara í tvær ólíkar áttir. Önnur byggir á lokaðri nálgun þar sem þessi tengsl myndast ekki og fólk einangrast í menningarkimum og jafnvel stéttskiptum lögum. Hin byggir á opinni nálgun þar sem við myndum tengsl, opnum dyr og gerum öllu ungu fólki hér á landi kleift að þroskast, menntast og láta drauma sína rætast. Niðurstaðan hér er sú að við eigum ekki bara heldur þurfum að velja opnu nálgunina. Þegar að við lítum til baka tíu ár héðan í frá viljum við sjá að orka og hæfileikar unga fólksins hafi fengið að leysast úr læðingi okkur öllum til góða.

Óskar Dýrmundur Ólafsson

Hverfisstjóri Breiðholts

Nýtt á vefnum