Greinar / 27. október 2017

Vöðvabólga er ekki bólga

Þegar talað er um að fólk sé með vöðvabólgu er almennt verið að tala um það sem nefnist á ensku „myalgia“, eða „myofascialpain syndrome (MPS). Þetta leiðindaástand er afar algengt og rannsóknarniðurstöður telja algengi kringum 21-30% í Bandaríkjunum, sem þýðir um 44 miljónir manna og kostnaður heilbrigðiskerfisins er árlega um 47 billjón dollarar. (1)

Ekki bólga

Íslenska orðið „vöðvabólga“er því miður misvísandi því að ekki er um hefðbundna bólgu og/eða bólguviðbrögð að ræða. Heldur má segja að vöðvinn þrútni um leið og hann stífnar, missir oft teygjanleika, styrk og úthald og stundum myndast svokallaðir „trigger punktar“ í honum. (2-5) Þannig verður vöðvinn oft fyrirferðarmeiri og stífari en áður var, en þessi stífni er oft tilkomin vegna of mikillar spennu, sem hins vegar er talin vera tilkomin af mismunandi orsökum. Þessi bólguumræða hefur meðal annars komið þeirri umræðu af stað að gott sé að taka inn bólgueyðandi lyf þegar fólk fær vöðvabólgu, en svo er oftast ekki, nema í mesta lagi af óbeinum ástæðum eins og til dæmis þeim að bólginn liður sé að valda stífni í vöðvanum (varnarspenna út af liðbólgunni). Þá getur spennan í vöðvanum minnkað um leið og liðbólgan minnkar.

Spenna

Spenna.JPG

Það sem talið er að gerist í vöðvanum við þessar aðstæðurs em kallast vöðvabólga, er að vöðvinn er spenntari en góðu hófi gegnir og því verður blóðflæðið minna um hann. Spennti vöðvinn þrengir þannig að æðum vöðvans. Við þær aðstæður kemst ekki nægjanleg næring og súrefni til hans, sem þarf í raun enn meiri næringu í þessari sífellu spennu, og úrgangsefnin sem koma frá vöðvanum komast ekki öll í burtu sem skyldi og safnast því upp í honum. Þessi efni gera vöðvavefinn enn stífari og þar með hefur vítahringur myndast.(4)

Til að rjúfa þennan vítahring þarf að auka blóðflæðið um vöðvann með öllum tiltækum ráðum. Ef vöðvinn er orðinnmjög stífur viðkomu, sem gerist með tímanum, þarf einnig að leggja mikla áherslu á að mýkja vöðvavefinn. Æfingar eru í aðalhlutverki við að rjúfa þennan vítahring, æfingar sem stuðla að auknum styrk, úthaldi og teygjanleika viðkomandi vöðva, en einnig getur fleira hjálpað eins og t.d. mjúkvefjameðferð og nálastungur. (4,5) Stundum eru vöðvarnir búnir að valda fleiri vandamálum í stoðkerfinu með tímanum. Til dæmis geta þeir þrengt að taugum og valdið ertingum eða hamlað liðhreyfingum. Taka þarf á þeim vandamálum samhliða því að mýkja vöðvana, þegar það á við.

Orsakir

En af hverju skyldi fólk fá vöðvabólgu? Eins og fyrr segir eru ástæðurnar margar og mismunandi en tengjast oftast ofnotkun vöðvans á einn eða annan hátt. Nefnd hefur verið varnarspenna vöðva vegna bólginna liða, en varnarspenna getur einnig komið vegna annarra þátta sem tengjast verkjum eða varnarviðbrögðum líkamans á ýmsan hátt. Dæmi um hvað hefur slæm áhrif á þetta ferli er t.d. streita og slæm líkamsbeiting. Það er því mikilvægt að skoða venjur fólks í leik og starfi þegar unnið er á þessum vanda. En fyrst er að greinavandamálið og komast að því hvað veldur og setja svo upp meðferðaráætlun í kjölfarið.

Heimildaskrá
  1. Borg-Stein J, Iaccarino MA. Myofascial pain syndrome treatments. PhysMed Rehabil Clin N Am. 2014;25(2):357-374.
  2. Muller CE, Aranha MF, Gaviao MB. Two-dimensional ultrasound andultrasound elastography imaging of trigger points in women withmyofascial pain syndrome treated by acupuncture and electroacupuncture:A double-blinded randomized controlled pilot study. UltrasonImaging. 2015;37(2):152-167.
  3. Adigozali H, Shadmehr A, Ebrahimi E, Rezasoltani A, Naderi F. Reliabilityof assessment of upper trapezius morphology, its mechanical propertiesand blood flow in female patients with myofascial pain syndrome usingultrasonography. J Bodyw Mov Ther. 2017;21(1):35-40.
  4. Dommerholt J, Chou LW, Finnegan M, Hooks T. A critical overview ofthe current myofascial pain literature - june 2017. J Bodyw Mov Ther.2017;21(3):673-683.
  5. Ariji Y, Ariji E. Magnetic resonance and sonographic imagings ofmasticatory muscle myalgia in temporomandibular disorder patients. JpnDent Sci Rev. 2017;53(1):11-17.

Gunnar Svanbergsson

MT-sjúkraþjálfari og sérfræðingur í greiningu og meðferð stoðkerfis

Hólmfríður B. Þorsteinsdóttir

MT-sjúkraþjálfari og sérfræðingur í greiningu og meðferð stoðkerfis

Nýtt á vefnum