Nýlega birtist yfirlitsgrein í nokkrum alþjóðlegum netmiðlum, þar sem fjallað var um þann árangur sem Ísland hefur náð í forvarnarstarfi gegn vímuefnaneyslu ungs fólks. Greinin sem birtist í Mosaic Science, var síðan endurbirt í fullri lengd í breska fréttablaðinu The Independent, sem og í netmiðlum á borð við The Atlantic og Huffington Post. Þá hefur greininni verið dreift víða á póstlistum sérfræðisamtaka, eins og The American School Health Association og víðar.
Innan fárra daga hafði greininni verið deilt og flett yfir milljón sinnum. Í tölvupósti frá ritstjóra Mosaic til blaðamannsins sem skrifaði greinina sagði: „Hi Emma ...your Iceland story is breaking the Internet…! It won’t be long before it’s had as many readers as there are people in Iceland; it’s been republished in The Atlantic, the Independent, Tonic and Digg, and reported in the Metro; it’s been highlighted in newsletters from people like Storythings, Quartz and Pocket; and it’s being discussed on Reddit and Hacker News.“
Heimsfrægðin var nokkuð óvænt og óundirbúin en að baki henni var ekkert óvænt – heldur þrotlaus vinna fjölda fólks í 20 ár. Við upphaf hennar stóðum við frammi fyrir vanda.
Á tíunda áratugnum, allt frá 1989 höfðu rannsóknir leitt í ljós stöðuga og verulega aukningu í neyslu vímuefna meðal nemenda í efstu bekkjum grunnskóla á Íslandi. Árið 1998 var hlutfall nemenda í 10. bekk sem prófað hafði að reykja hass, um 17%, sem er hæsta hlutfall kannabisneyslu sem mælst hefur á Íslandi meðal þessa árgangs, og yfir 80% sögðust hafa drukkið áfengi einu sinni eða oftar á ævinni.
Á þessum tíma, árið 1997, tók sig saman hópur fólks úr ólíkum áttum; rannsóknarfólk, stefnumótunaraðilar og þeir sem störfuðu með börnum og ungmennum á vettvangi, og ákváðu að leggjast á eitt um að setja fram stefnu og láta fara fram vinnu í forvarnarmálum sem byggð væri á traustum rannsóknum, með það að augnamiði að auka þekkingu fagfólks og almennings og finna leiðir til að draga úr vímuefnaneyslu og annarri frávikshegðun meðal unglinga.
Við fórum gaumgæfilega í gegnum það sem rannsóknir okkar og annarra hafa kennt okkur um þá þætti sem tengjast vímuefnaneyslu ungs fólks, og í framhaldi var sett fram líkan sem var ætlað að ráðast beint að rótum vandans. Líkanið hefur vissulega þróast ár frá ári en grundvallaratriðin hafa verið meira og minna óbreytt síðustu tuttugu ár.
Grundvallaratriðin eru þessi:
- Við leitumst við að byrgja brunninn áður en börnin detta ofan í hann. Við höfum því sett fókusinn á fyrsta stigs forvarnir sem miða að því að koma í veg fyrir upphaf vímuefnaneyslu ungmenna.
- Okkur hefur lærst að sígandi lukka er líklegust til árangurs. Það eru engar skjótar töfralausnir. Við þurfum því að gefa okkur tíma til að stuðla að þeim breytingum sem eru nauðsynlegar fyrir langtíma árangur.
- Samtakamáttur fræðimanna, fagfólks og þeirra sem vinna og/eða sinna ungmennum á vettvangi er mun líklegri til að leiða til góðs árangurs, fremur en staðbundnar eða einangraðar aðgerðir þessara aðila sitt í hverju lagi.
- Upphaf vímuefnaneyslu ungs fólks er að stórum hluta félagslegs eðlis. Ungmenni hefja neyslu nánast án undantekninga í jafningjahópnum. Við þurfum því að koma í veg fyrir að stemning skapist í honum til að prófa.
- Börn og unglingar verja stórum parti af tíma sínum í nærsamfélaginu þar sem þau búa, ganga í skóla, og eiga vini. Með því að byggja upp samræmt kerfi eftirlits, jákvæðs aðhalds og framboðs áhugaverðra tómstunda, á vettvangi nærsamfélagsins, getum við dregið mjög úr líkum á því að neysla vímuefna verði eftirsóknanverð meðal ungmenna.
Fræðimennirnir hófust því handa við að rannsaka hegðun og líðan ungmenna í efstu bekkjum grunnskóla, með samræmdum rannsóknum undir heitinu „Ungt Fólk“. Upphafsmaður rannsóknanna var Þórólfur Þórlindsson prófessor, en frá árinu 1999 hafa þær verið verið unnar af teymi félagsvísindafólks hjá Rannsóknum og greiningu. Við höfðum að leiðarljósi að kortleggja áhættu- og verndandi þætti fyrir vímuefnaneyslu ungmenna.
Í stuttu máli komumst við að því að margir þessara þátta hafa verið þekktir í fræðilegum skrifum lengi, jafnvel í áratugi. En áskorunin er fólgin í því hvernig eigi að vinna með þá í praxís til að draga úr líkum á vímuefnaneyslu ungmenna.
Í þessu samhengi höfum við áttað okkur á að líf ungmenna er talsvert háð þáttum er varða fjórar meginstoðir í lífi þeirra: Foreldrum og fjölskyldu, námi og skóla, jafningjahópnum og frítímanum utan skóla og um helgar.
Með því að vinna að eflingu verndandi þátta og draga úr áhættuþáttum, sem varða þessar fjórar meginstoðir og framkvæma þá vinnu í nærsamfélagi ungmenna, höfum við náð að stuðla að jákvæðri breytni þeirra, án þess að leggja til boð eða bönn eða reyna að kenna ungmennum að „segja nei við vímuefnum“ sem rannsóknir sýna að ekki sé líklegt til árangurs. Í það minnsta ekki eitt og sér. Í stuttu máli er þetta það sem íslenska módelið í vímuefnaforvörnum gengur út á.
Í praxís er mikilvægt að velja fremur fáa en skýra þætti til að vinna með. Áhersla á of marga þætti eykur líkur á ómarkvissu starfi og dregur því mjög úr möguleikum á langtíma árangri. Við höfum því valið að vinna með nokkra velskilgreinda þætti innan þeirra fjögurra meginstoða sem módelið byggir á. Í fyrsta lagi, í vinnu meðal foreldra og fjölskyldu höfum við lagt áherslu á að auka þann tíma sem ungmenni eyða með foreldrum sínum, bæði á virkum dögum sem og um helgar, að bæta eftirlit foreldra með börnum sínum þannig að þeir viti hvar þau eru, og ekki síður með hverjum þau eru, t.d. á kvöldin. Einnig höfum við lagt áherslu á að auka samvinnu og samtakamátt foreldra og því hvatt þá til að tala við og kynnast vinum barna sinna, sem og foreldrum vina barna sinna. Með þessu skapast aukið traust á milli foreldra barna sem búa í nálægð hvert við annað og þar með aukast líkur á sameiginlegu eftirliti með þeim foreldra á milli.
Í öðru lagi höfum við lagt áherslu á að horfa á skóla sem félagslega stofnun, ekki síður en á uppfræðsluhlutverk þeirra. Við höfum komist að því að ef ungu fólki líður vel í skólanum sínum, án tillits til þess hvernig því gengur í námi, þá er það jákvætt fyrir velferð þess utan veggja skóla einnig. Jákvætt samband við kennara og virðing fyrir námi eru þar líka mikilvægir þættir sem við leggjum áherslu á. Í þriðja lagi gengur íslenska módelið út á að skapa ungu fólki heilbrigt, áhugavert og krefjandi umhverfi, þar sem það er líklegt til að hafa uppbyggjandi hluti fyrir stafni. Okkur hefur lærst að þátttaka í skipulögðu íþrótta- og/eða tómstundastarfi, sem er á ábyrgð fullorðins fagfólks, hefur margvísleg jákvæð áhrif á líf ungmenna. Sem dæmi eru þau líkleg til að mynda bæði tilfinningalega skuldbindingu við starfið persónulega, sem og að tengjast jafningjum með samskonar áhugasvið sem stuðlar að heilbrigðu félagslífi. Síðast en ekki síst hefur vinna okkar gengið út á að draga úr líkum á óæskilegu hegðunarmynstri í jafningjahópnum, s.s. úr tíðni eftirlitslausra skemmtana (á það líka við um partí í heimahúsum), síðbúinn útivistartíma (að fylgja útivistarreglum) og hangsi.
Rannsóknir Rannsókna og greiningar hafa sýnt að ef við vinnum marvisst með þessa þætti í umhverfi nærsamfélagsins, og gefum því nægan tíma, getum við stuðlað að jákvæðri breytni meðal bæði fagfólks og foreldra sem svo verður til að stórminnka líkur á vímuefnaneyslu.